Heilt ár með veirunni

Heilt ár með veirunni

Heilt ár með veirunni

Málefni - Kórónuveiran COVID-19

Á morgun, 28. febrúar, er eitt ár síðan fyrsti Íslendingurinn greindist með kórónuveiruna sem þá hafði skotið upp kollinum víða um heim. Á þessum tímamótum er fróðlegt að horfa til baka og skoða áhrif veirunnar og hvaða lærdóm má draga af árinu.

Íslendingar hafa lifað með kórónuveirunni í eitt ár.
Íslendingar hafa lifað með kórónuveirunni í eitt ár. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins er rætt við fimm manns sem veiran hafði meiri áhrif á en okkur flest. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans, segir árið hafa verið lærdómsríkt.

„Sumt fólk sem smitast getur farið mjög illa út úr veikindunum, eins og gögnin sýna. Fimmti hver sem smitaðist af kórónuveirunni varð illa veikur og af þeim var fjórðungur fárveikur eða lést,“ segir Már og segir bóluefnið hafa komið mun fyrr en hann hafði átt von á.

Hjúkrunarfræðingurinn Helga Sverrisdóttir hefur verið hluti af rakningarteyminu frá upphafi og eru þau ófá símtölin sem Helga hefur átt. Sum símtölin tóku á.

„Ég skal alveg viðurkenna til dæmis að þegar ég þurfti að setja hárgreiðslukonu í sóttkví alla vikuna fyrir jól þá var ég alveg að fara að gráta. Ég var að setja líf fólks gjörsamlega á hvolf og það var ekkert auðvelt. En ekkert af þessu hefur verið auðvelt.“

Inga María Leifsdóttir er ein þeirra sem fengu Covid og er enn að jafna sig, nú ári síðar.

„Ég var daglega með beinverki í að minnsta kosti tíu mánuði, sérstaklega í útlimum, sem var auðvitað mjög lýjandi. Ég hélt alltaf að þeir hlytu að vera að fara að hverfa, en það leið og beið,“ segir Inga María.

Ár frá fyrsta smiti
» Staðfest smit frá upphafi eru 6.049 talsins.
» 45.916 hafa lokið sóttkví.
» 277.150 sýni hafa verið tekin innanlands.
» 327 manns voru lagðir inn á spítala.
» 53 lentu á gjörgæslu.
» 29 hafa látist á Íslandi af völdum Covid-19.
mbl.is