Hugleiðsla gott meðal við óvissunni

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 24. maí 2022

Hugleiðsla gott meðal við óvissunni

Ákveðinn hluti af íbúum Grindavíkur á erfitt með óvissuna sem fylgir þeim jarðhræringum sem hafa orðið á Reykjanesskaga undanfarið.

Hugleiðsla gott meðal við óvissunni

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 24. maí 2022

Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavíkurkirkju.
Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavíkurkirkju. mbl.is/Hákon Pálsson

Ákveðinn hluti af íbúum Grindavíkur á erfitt með óvissuna sem fylgir þeim jarðhræringum sem hafa orðið á Reykjanesskaga undanfarið.

Ákveðinn hluti af íbúum Grindavíkur á erfitt með óvissuna sem fylgir þeim jarðhræringum sem hafa orðið á Reykjanesskaga undanfarið.

Þetta segir Elínborg Gísladóttir, sóknarprestur í Grindavíkurkirkju, sem ræddi við blaðamann um andrúmsloftið í bænum inni á skrifstofu sinni í morgun. Hún mælir með hugleiðslu fyrir fólk sem er á erfiðum stað andlega. 

Land hefur risið undir fjallinu Þorbirni og nágrenni þess. Talið er að landrisið stafi að mestu leyti af kviku en ekki gasi og mögulega hafi kvikustreymi leitað til hliðar í átt að Svartsengi þegar eldgosinu í Geldingadölum lauk. Jarðskjálftar hafa verið tíðir á Reykjanesskaga og við Grindavík. Hafa þeir margir hverjir fundist vel í bænum. Flestir hafa þeir þó ekki verið eins stórir og í aðdragandanum að eldgosinu, en því lauk síðasta haust.

„Kvíðinn vex“

Spurð hvort ekki sé óþægilegt að upplifa þessa skjálfta á nýjan leik eftir að eldgosinu lauk segir Elínborg þá auka á óvissuna. „Þú getur ekki sett þetta inn í neitt annað en óvissu og kvíðinn vex þarna,“ greinir hún frá. Aðstæðurnar auki vanlíðan og svefnleysi hjá fólki sem sé kvíðið fyrir. Vonandi verði hægt að bjóða því upp á fleiri úrræði í haust.

Elínborg hefur starfað sem sóknarprestur í Grindavík í 14 ár. Eitt helsta ráðið sem hún veitir fólki sem leitar til hennar vegna jarðskjálftanna er að benda því á íhugun og hugleiðslu. „Það er hægt að ná í [appið] á netinu. Ég myndi segja að það væri ein góð leið og hún kostar heldur ekki neitt,“ segir hún og nefnir að gott sé að gefa sér 20 mínútur í hugleiðslu í senn.

Sjálf hefur hún einnig boðið upp á íhugun í mörg ár fyrir þá sem hafa áhuga á því. „Kvíðinn kemur innan frá. Þá þurfum við að vera með einhver úrræði sem skipta máli fyrir það sem innra býr.“

Hún kveðst ekki hafa heyrt af því að fólk vilji flytja úr bænum út af þessum tíðu jarðskjálftum undanfarin misseri, enda sé slíkt óþarfi að hennar mati, því mjög gott sé að búa í Grindavík.

Elínborg mælir með íhugun.
Elínborg mælir með íhugun. mbl.is/Hákon Pálsson

Komast öll í burtu 

Spurð nánar út í andrúmsloftið í bænum segir hún fólk almennt vera frekar rólegt yfir stöðu mála. „Það er ekkert sem bendir til þess að við munum ekki komast af, ef eitthvað gerist. Ég held að það sé það fyrsta, sem er gott að sitja í, að við munum komast héðan öll í burtu,“ segir Elínborg og bendir á flóttaleiðirnar þrjár sem hafa verið kynntar fyrir bæjarbúum, þ.e. Grindavíkurveg, Suðurstrandarveg og sjóleiðina.

Helst hefur fólk að hennar sögn auknar áhyggjur af því að ef samband fer af virkjuninni í Svartsengi, myndi rafmagn og hiti fara af í bænum, með tilheyrandi vandkvæðum. „Óttinn eða umræðan hefur svolítið færst þangað. Það er landris í Þorbirni og þetta er allt undir okkur,“ segir hún, en tekur þó fram að bæjaryfirvöld haldi vel utan um hlutina. Slíkt veiti fólki öryggistilfinningu.

mbl.is