Elskar spegla og allt sem glitrar

Heimili | 4. mars 2023

Elskar spegla og allt sem glitrar

Tara Sif Birgisdóttir, löggiltur fasteignasali og dansari, segir starf fasteignasalans eiga mjög vel við sig. Hún nýtur þess að kynnast nýju fólki í vinnunni og koma inn á falleg og ólík heimili. Sjálf segist hún ekki vera með þennan hefðbundna skandinavíska stíl sem er svo vinsæll.

Elskar spegla og allt sem glitrar

Heimili | 4. mars 2023

Tara Sif Birgisdóttir fasteignasali er með sinn eigin stíl sem …
Tara Sif Birgisdóttir fasteignasali er með sinn eigin stíl sem fólkið hennar kallar Törulegan. mbl.is/Árni Sæberg

Tara Sif Birgisdóttir, löggiltur fasteignasali og dansari, segir starf fasteignasalans eiga mjög vel við sig. Hún nýtur þess að kynnast nýju fólki í vinnunni og koma inn á falleg og ólík heimili. Sjálf segist hún ekki vera með þennan hefðbundna skandinavíska stíl sem er svo vinsæll.

Tara Sif Birgisdóttir, löggiltur fasteignasali og dansari, segir starf fasteignasalans eiga mjög vel við sig. Hún nýtur þess að kynnast nýju fólki í vinnunni og koma inn á falleg og ólík heimili. Sjálf segist hún ekki vera með þennan hefðbundna skandinavíska stíl sem er svo vinsæll.

„Ég hafði verið hjá WOW air síðan ég var 21 árs og þegar það ævintýri tók enda sex árum síðar stóð ég skyndilega frammi fyrir því að þurfa að finna út hvað ég vildi vera þegar „ég yrði stór“. Þegar ég kastaði fram hugmyndinni að fara í löggildinguna virtist viðmót flestra vera hvað þetta væri fullkomið fyrir mig. Ég ákvað að taka sénsinn og sé svo sannarlega ekki eftir því,“ segir Tara Sif þegar hún er spurð hvernig það hafi komið til að hún ákvað að læra að verða löggiltur fasteignasali.

Hvernig er líf fasteignsalans?

„Það er mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Stór hluti vinnunnar fer fram í gegnum tölvu og síma þannig að það er auðvelt að vinna heiman frá líka, sem kemur að góðum notum þegar maður er með einn lítinn sem er reglulega með leikskólapestir og fleira. Síðustu tveir mánuðir hafa verið heldur rólegir hjá mér, en þá er gott að geta gripið í önnur verkefni eins og barre-hóptímana sem ég kenni í World Class.“

Tekur þú vinnuna með þér heim á kvöldin?

„Já það kemur alveg fyrir ef þess þarf. Ef einhver hefur samband þá sinni ég því samviskusamlega. Það getur stundum verið erfitt að stimpla sig út og sleppa því að skoða vinnupóstinn.“

Notalegt og töff heima hjá Töru Sif.
Notalegt og töff heima hjá Töru Sif. mbl.is/Árni Sæberg

Bitnar helst á fyrstu kaupendum

Hvað er gefandi við starfið?

„Ég elska fólkið sem vinnur með mér á Lind fasteignasölu, allir eru svo hjálpsamir og frábærir. Svo er auðvitað alltaf gaman að kynnast nýju fólki, bæði kaupendum og seljendum. Besta tilfinningin er þegar allir ganga sáttir frá borði og ferlið gengur hratt og vel fyrir sig.“

Hvernig er staðan á fasteignamarkaðnum í dag?

„Markaðurinn hefur verið að róast í takt við hærri vexti, hækkandi verðbólgu og reglur Seðlabanka Íslands um hámark greiðslubyrðar fasteignalána. Reglur Seðlabankans hafa gert það að verkum að margir komast ekki í gegnum síuna og því miður hefur það bitnað mikið á fyrstu kaupendum. Þótt hægst hafi á markaðnum þá er hann alls ekki botnfrosinn, en það krefst sannarlega meiri vinnu fyrir okkur fasteignasalana þar sem við þurfum að sýna eignir mun oftar og söluferlið tekur lengri tíma en fyrir rúmlega hálfu ári. Vonandi nær fasteignamarkaðurinn jafnvægi til framtíðar og við sjáum meira af ungu fólki koma sér fyrir á sínu fyrsta heimili.“

Fyrir hverju finnst þér ungt fjölskyldufólk eins og þú vera spennt?

„Í tilviki fjölbýlis kýs fólk með börn iðulega húsnæði með lyftu, en þeir allra hörðustu láta sig þó hafa stigana með innkaupapoka í annarri og barn í hinni. Umfram allt líður mér þó eins og sérherbergi fyrir börnin hafi einna mest vægi. Nálægð við grunn- og leikskóla er svo þessum hópi oft ofarlega í huga. Mig grunar svo að margir geti hugsað sér að fara yfir í sérbýli, enda heillar tilhugsunin um barnvæna garða marga, en líklega erfitt fyrir marga að taka stökkið eins og staðan er núna.“

Það er mikið svart heima hjá Töru Sif sem fékk …
Það er mikið svart heima hjá Töru Sif sem fékk þó ekki að mála loftið svart. mbl.is/Árni Sæberg

Elskar spegla og allt sem glitrar

Færðu einhverjar hugmyndir fyrir heimili þitt þegar þú kemur inn á ný heimili á hverjum degi?

„Já, ég elska að koma inn á falleg og ólík heimili. Ég safna hugmyndum saman, bæði í notes og pinterest. Ég elska að sjá til dæmis flott barborð og skemmtilega myndaveggi. Ótrúlegt en satt lætur litli maðurinn á heimilinu okkar barborð og allt glingrið sem því fylgir alveg í friði.“

Hvað er mest notaða rýmið á heimilinu?

„Ég vildi óska þess að svar mitt væri eldhúsið, en við erum vandræðalega löt að elda. Ætli það sé ekki bara stofurýmið. Eða jafnvel fataherbergið, þar sem ég á það til að máta fleiri en eitt sett af fötum áður en ég geng út úr húsi og þar er líka snyrtiborðið mitt.“

Fataherbergið er stórt og veglegt.
Fataherbergið er stórt og veglegt. mbl.is/Árni Sæberg

Hvað er það besta við þína íbúð?

„Heppilegt að maðurinn minn hefur gefið mér frekar frjálsar hendur heima fyrir og þar af leiðandi fékk ég að gera hana að mestu leyti nákvæmlega eins og ég vildi. Hann er kannski meira í því að stöðva mig þegar ég geng of langt, eins og þegar mér datt í hug að steina alla slökkvarana. Sú hugmynd einfaldlega var drepin í fæðingu. Ég er ekki beint með þennan klassíska skandinavíska stíl. Ég elska til dæmis spegla, allt sem glitrar og fæ oft að heyra „þetta er svo Törulegt“. Þegar við máluðum íbúðina vildi ég hafa svart loft í stíl við veggina, ég fékk það þó ekki í gegn nema inni á baðherbergi. Það besta við mína íbúð er að mínu mati skipulagið, fataherbergið og sú staðreynd að vinnan mín er í næstu götu. Ég er þó mjög spennt að fara í sérbýli og hafa meðal annars sjónvarpsrými og stofu sem tvö aðskilin rými.“

Sófinn er í miklu uppáhaldi en það þurfti að panta …
Sófinn er í miklu uppáhaldi en það þurfti að panta kranabíl til að koma honum inn í íbúðina. mbl.is/Árni Sæberg

Áttu þér uppáhaldsstað?

„Heima finnst mér ekkert betra en að taka sængina upp í sófa, kveikja á milljón kertum og hafa „rooftop-útsýni“ af Youtube eða þykjustu-arin í sjónvarpinu. Svo geri ég líka alltaf húðrútínuna mína uppi í sófa yfir sjónvarpinu sem ég mæli með. Ég var einmitt búin að leita lengi að draumasófanum þegar við loks fundum hann og keyptum. Svo þegar við ætluðum að koma honum inn kom í ljós að hann passaði hvorki inn í stigaganginn né í lyftuna. Við þurftum því að fá kranabíl og koma honum inn í gegnum svalahurðina hjá okkur. Mikið vesen, en klárlega þess virði.“

Eyjunni bætti Tara Sif og maðurinn hennar við. Stólana keyptu …
Eyjunni bætti Tara Sif og maðurinn hennar við. Stólana keyptu þau erlendis en ljósið er frá Lumex. mbl.is/Árni Sæberg

Áttu þér uppáhaldshluti?

„Eyjan sem við bættum sjálf við, barstólarnir sem við drösluðum með okkur heim frá New York og ljósið mitt úr Lumex sem lítur út eins og demantur sem hangir fyrir ofan eyjuna. Ég elska að finna hluti erlendis sem ég sé ekki annars staðar og hef fyrir vikið dröslað með mér til landsins spegla-sófaborðum, þriggja hæða barborði, stórri svartri jagúar-styttu og alls kyns smádrasli.“

Smáhlutunum er fallega raðað.
Smáhlutunum er fallega raðað. mbl.is/Árni Sæberg

Ertu komin í draumahúsnæðið?

„Nei, ekki enn. Ég viðurkenni að ég er með sturlaðar væntingar hvað varðar framtíðarheimilið og vonandi er ekki alltof langt í að þær verði að veruleika. Þangað til líður okkur þó afskaplega vel þar sem við erum núna,“ segir Tara Sif.

mbl.is