Saporisjía án sambands við rafveitukerfi

Úkraína | 22. maí 2023

Saporisjía án sambands við rafveitukerfi

Úkraínska kjarnorkuverið Saporisjía, sem Rússar ráða nú yfir, hefur misst samband við rafveitukerfi sitt á nýjan leik.

Saporisjía án sambands við rafveitukerfi

Úkraína | 22. maí 2023

Kjarnorkuverið Saporisjía í suðurhluta Úkraínu fyrir um tveimur mánuðum síðan
Kjarnorkuverið Saporisjía í suðurhluta Úkraínu fyrir um tveimur mánuðum síðan AFP/Andrey Borodulin

Úkraínska kjarnorkuverið Saporisjía, sem Rússar ráða nú yfir, hefur misst samband við rafveitukerfi sitt á nýjan leik.

Úkraínska kjarnorkuverið Saporisjía, sem Rússar ráða nú yfir, hefur misst samband við rafveitukerfi sitt á nýjan leik.

„Eftir að háspennulína slitnaði missti kjarnorkuverið samband við rafveitukerfið sitt,” skrifuðu Rússarnir sem sjá um kjarnorkuverið á Telegram. Bættu þeir við að verið sé að rannsaka orsakirnar og að díselknúnar vararafstöðvar haldi kjarnorkuverinu gangandi.

Rússneskur herbíll hjá kjarnorkuverinu.
Rússneskur herbíll hjá kjarnorkuverinu. AFP/Andrey Borodulin

Úkraínska kjarnorkumálastofnunin Energoatom sakaði Rússa um að hafa gert loftárás í morgun sem olli rafmagnsleysinu og bætti við að þetta væri í sjöunda sinn sem kjarnorkuverið lenti í myrkvun sem þessari síðan rússneskar hersveitir réðust inn í Úkraínu í mars í fyrra.

Energoatom sagði jafnframt að rafalar kjarnorkuversins hefðu yfir að ráða tíu daga eldsneytisbirgðum.

„Ef það tekst ekki að koma aftur á sambandi við rafveitukerfið á þessum tíma gæti slys tengt geislun haft í för með sér afleiðingar fyrir allan heiminn,” sagði stofnunin.

Héraðsstjórinn í Dnipro sagði að loftárás hefði verið gerð í nótt með fjórum rússneskum flugskeytum og 15 drónum sem hefði orðið að minnsta kosti átta almennum borgurum að bana.

Rafael Grossi er hann skoðaði kjarnorkuverið í lok mars.
Rafael Grossi er hann skoðaði kjarnorkuverið í lok mars. AFP/Andrey Borodulin

Rafael Grossi, yfirmaður kjarnorkumála hjá Sameinuðu þjóðunum, hefur reynt að semja bæði við Rússa og Úkraínumenn um aukið öryggi kjarnorkuversins. Hann sagði að þetta væri í sjöunda sinn sem rafmagnið færi af síðan stríðið hófst.

„Ástandið hvað varðar kjarnorkuöryggi í kjarnorkuverinu er mjög viðkvæmt,” sagði hann á Twitter. „Við verðum að vera sammála um að vernda kjarnorkuverið þegar í stað. Þetta ástand má ekki halda áfram,” sagði Grossi, sem heimsótti kjarnorkuverið í mars síðastliðnum.

Saporisjía framleiddi um 20 prósent af rafmagni Úkraínumanna á sínum tíma og hélt það áfram að starfa fyrst eftir að Rússar réðust inn í landið þrátt fyrir skotárásir þeirra. Orkuframleiðsla kjarnorkuversins hætti í september.

Frá Saporisjía.
Frá Saporisjía. AFP/Andrey Borodulin

Enginn af sex kjarnaofnum þess hefur framleitt rafmagn síðan þá. Kjarnorkuverið er þó áfram tengt úkraínska rafveitukerfinu til að hægt sé að kæla niður kjarnaofnana.

mbl.is