Þrír handteknir í viðbót vegna hryðjuverkanna

Úkraína | 4. apríl 2024

Þrír handteknir í viðbót vegna hryðjuverkanna

Þrír voru handteknir í Rússlandi í dag grunaðir um aðild að hryðjuverkaárásinni í Crocus-city tónleikahöllinni. Þetta segja rússnesk stjórnvöld en á annan tug manna eru í varðhaldi vegna árásarinnar.

Þrír handteknir í viðbót vegna hryðjuverkanna

Úkraína | 4. apríl 2024

Yfir 140 manns létu lífið í árásinni þann 22. mars.
Yfir 140 manns létu lífið í árásinni þann 22. mars. AFP

Þrír voru handteknir í Rússlandi í dag grunaðir um aðild að hryðjuverkaárásinni í Crocus-city tónleikahöllinni. Þetta segja rússnesk stjórnvöld en á annan tug manna eru í varðhaldi vegna árásarinnar.

Þrír voru handteknir í Rússlandi í dag grunaðir um aðild að hryðjuverkaárásinni í Crocus-city tónleikahöllinni. Þetta segja rússnesk stjórnvöld en á annan tug manna eru í varðhaldi vegna árásarinnar.

Hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni þann 22. mars, þar sem yfir 140 létu lífið þegar byssumenn réðust inn í tónleikahöllina í útjaðri Moskvu og kveiktu síðan í byggingunni.

Rússneska leyniþjónustan (FSB) segir að þrír hafi verið handteknir í dag, einn í Moskvu, annar í Jekaterínburg og þriðji í Omsk í Síberíu. Eru þeir grunaðir um að hafa fjármagnað árásina og safnað í lið árásarmanna.

Einn Rússi og tveir útlendingar

„Tveir þeirra sem voru handteknir millifærðu fé til kaupa á skotvopnum og farartækjum sem notuð voru í hryðjuverkaárásinni og sá þriðji tók beinan þátt í að ráða sökunauta í hryðjuverkaárásinni og veita þeim fjármagn,“ segir FSB í yfirlýsingu, samkvæmt rússneska miðlinum Interfax.

Ríkismiðill Rússlands birti einnig myndskeið þar sem sjá má leyniþjónustumenn framkvæma handtökurnar.

Tveir eru erlendir ríkisborgarar og sá þriðji er Rússi, að sögn FSB. Rússar hafa handtekið á annan tug manna sem þeir gruna um aðild að árásinni, þar á meðal byssumennina fjóra, sem allir eru ríkisborgarar Tadsíkistans.

Rússar kenna Úkraínu um

Þrátt fyrir að Íslamska ríkið hafi sagst bera ábyrgð á árásinni hafa rússneskir ráðamenn ítrekað lýst því yfir að Úkraínumenn og önnur vestræn stjórnvöld hafi skipað íslamistunum að framkvæma árásina. 

„Við höfum fulla ástæðu til að trúa því að meginmarkmið þeirra sem fyrirskipuðu blóðugu hryðjuverkaárásina í Moskvu hafi verið að vinna skaða á samheldni okkar,“ sagði Vladimír Pútín Rússlandsforseti í ræðu í dag.

Forsetinn heldur því fram að íslamistar hefðu ekki haft neina ástæðu til þess að ráðast á Rússa. Úkraínumenn og önnur vestræn lönd hafa ítrekað neitað tengingu við árásina og saka rússnesk stjórnvöld um að misnota hörmungarnar.

mbl.is