Hvetur fólk til að kjósa á „erfiðum“ tímum

Úkraína | 14. mars 2024

Hvetur fólk til að kjósa á „erfiðum“ tímum

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hvatti í morgun landa sína til að kjósa í forsetakosningunum um næstu helgi.

Hvetur fólk til að kjósa á „erfiðum“ tímum

Úkraína | 14. mars 2024

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hvatti í morgun landa sína til að kjósa í forsetakosningunum um næstu helgi.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hvatti í morgun landa sína til að kjósa í forsetakosningunum um næstu helgi.

Pútín mun að öllum líkindum tryggja sér sex ára valdatíð til viðbótar. Rússnesk stjórnvöld segja að kosningarnar muni sýna að samfélagið styðji árásina á Úkraínu fyllilega.

„Ég er sannfærður um að þið vitið hversu erfiðan tíma landið okkar er að ganga í gegnum, hversu flóknum áskorunum við stöndum frammi fyrir á nánast öllum sviðum,” sagði Pútín í ávarpi til þjóðarinnar.

„Til að geta haldið áfram að bregðast við þeim með reisn og yfirstíga erfiðleika þurfum við að halda áfram að vera sameinuð og sjálfsörugg,” bætti hann við.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP/Gavriil Grigorov

Við völd til 2030

Með sigri í kosningunum 15. til 17. mars verður Pútín við völd að minnsta kosti til ársins 2030, sem er lengri tími en nokkur annar rússneskur leiðtogi getur státað af síðan Katrín mikla var uppi á átjándu öld.

Pútín sagði að með því að taka þátt í kosningunum myndi fólk sýna föðurlandsást sína í verki.

Fólk gengur fram hjá auglýsingaskilti með mynd af Pútín í …
Fólk gengur fram hjá auglýsingaskilti með mynd af Pútín í St. Pétursborg í gær. AFP/Olga Maltseva

Hann fagnaði því einnig að kosningin yrði haldin á fjórum svæðum sem Rússar hafa hernumið í Úkraínu, ásamt Krímskaga sem Rússar innlimuðu árið 2014.

Enginn alvöru frambjóðandi hefur fengið leyfi til mótframboðs í kosningunum og því er sigur Pútíns næsta vís.

Í átt að einræði

Boris Jeltsín afhenti Pútín völdin í Rússlandi í lok árs 1999 og síðan þá hefur Pútín stjórnað landinu, annaðhvort sem forseti eða forsætisráðherra.

Á fyrstu árum hans í embætti urðu miklar umbætur í efnahagsmálum Rússlands þegar stjórnvöld nýttu sér umfangsmikla orkuinnviði sína.

En undir stjórn Pútíns hefur Rússland færst sífellt lengra í átt að einræði og með tímanum hefur öll andstaða við stjórnvöld verið þögguð niður.

Auglýsingaskilti með skilaboðum frá Pútín á blokk í Moskvu, höfuðborg …
Auglýsingaskilti með skilaboðum frá Pútín á blokk í Moskvu, höfuðborg Rússlands. AFP/Natalia Kolesnikova

Erlendis mætti Pútín mikilli andstöðu Vesturlanda eftir að hafa innlimað Krímskaga árið 2014, stutt aðskilnaðarsinna í Donbas-héraði í austurhluta Úkraínu og ráðist á endanum inn í landið árið 2022.

Allir helstu gagnrýnendur Pútíns eru núna látnir, í fangelsi eða í útlegð og telur forsetinn að rússneskt samfélag sé sameinað að baki honum.

„Við höfum þegar sýnt að við getum staðið saman, varið frelsið, fullveldið og öryggi Rússlands,” sagði hann í ávarpi sínu.

„Núna er mikilvægur tími til að villast ekki af þessari leið.”

Minjagripir með myndum af Pútín og forverum hans í embætti: …
Minjagripir með myndum af Pútín og forverum hans í embætti: Dmitrí Medvedev, Boris Jeltsín, Mikhaíl Gorbatsjev og Lenoid Brezhnev í gjafaverslun í Moskvu. AFP/Alexander Nemenov
Pútín Rússlandsforseti.
Pútín Rússlandsforseti. AFP/Sergei Savostayanov
mbl.is