„Neyslan þróaðist mjög hratt“

Sterk saman | 28. ágúst 2023

„Neyslan þróaðist mjög hratt“

Iðunn Björk Ragnarsdóttir, sem er 29 ára einstæð móðir, er viðmælandi vikunnar í hlaðvarpinu Sterk saman. Hún greindist ung með krabbamein og eftir sambandsslit huggaði hún sig með áfengi. Á tímabili var ástandið á Iðunni það slæmt að foreldrar hennar gátu ekki meira. 

„Neyslan þróaðist mjög hratt“

Sterk saman | 28. ágúst 2023

Iðunn Björk Ragnarsdóttir er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.
Iðunn Björk Ragnarsdóttir er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.

Iðunn Björk Ragnarsdóttir, sem er 29 ára einstæð móðir, er viðmælandi vikunnar í hlaðvarpinu Sterk saman. Hún greindist ung með krabbamein og eftir sambandsslit huggaði hún sig með áfengi. Á tímabili var ástandið á Iðunni það slæmt að foreldrar hennar gátu ekki meira. 

Iðunn Björk Ragnarsdóttir, sem er 29 ára einstæð móðir, er viðmælandi vikunnar í hlaðvarpinu Sterk saman. Hún greindist ung með krabbamein og eftir sambandsslit huggaði hún sig með áfengi. Á tímabili var ástandið á Iðunni það slæmt að foreldrar hennar gátu ekki meira. 

Iðunn segist aldrei hafa gengið í takt við aðra krakka. Hún hafi verið rokkari sem klæddi sig öðruvísi en aðrir, sem gerði það að verkum að hún átti erfitt með að eignast vini. Það breyttist margt þegar hún byrjaði í menntaskóla. 

„Ég komst inn í FG og fannst spennandi að byrja í fatahönnun. Allt í einu fór ég að verða slöpp og fá óútskýrða verki. Ég var greind með millirifjagigt en ég varð bara slappari. Einn morguninn hringdi ég í mömmu og hún lét pabba sækja mig í skólann. Ég var orðin veik og fór beint upp á Barnaspítala.“

Hún segir frá því hvernig krabbameinslæknir hafi verið kallaður út og í framhaldi fór hún í aðgerð. Hún segir að þetta hafi verið mikið áfall fyrir alla fjölskylduna. Iðunn segir frá ferlinu og hvernig hún einangraðist, varð aftengd öðrum á hennar aldri og vinir ýmist fylgdu henni eða hurfu á braut við þetta áfall.

„Ég átti tvær mjög góðar vinkonur á þessum tíma, önnur kom til mín og var hjá mér en hin lét sig hverfa. Þetta var ótrúlega erfitt, ég tengdi ekki við neinn, hafði ekki orku eða getu til að tala um lífið sem vinkona mín lifði utan þess sem ég var, minn veruleiki var allt annar. Á sama tíma var ég mjög sár yfir hinni sem fór. Við erum góðar vinkonur í dag og höfum átt þetta samtal. Svarið hennar var einfalt: „Ég var svo hrædd, ég hélt þú værir að deyja og ég gat ekki horft á það.“ Það er mín reynsla að best sé að spyrja þess vegna þann sem er veikur hvernig hann vilji hafa samskiptin.“

Byrjaði að drekka eftir sambandsslitin 

Eftir að meðferð lauk reiknaði Iðunn með að lífið færi í sama horf og áður en þá fyrst lenti hún á vegg. Hún var algjörlega þrek- og þróttlaus, bæði andlega og líkamlega, svo við tóku tvö mjög þung og erfið ár.

„Ég var í sambandi á þessum tíma með strák. Hann var í tölvunni og ég svaf.“

Hægt og rólega fór Iðunn að missa stjórn á drykkju sinni. Fyrst snérist drykkjan bara um að fá sér eina og eina helgi en eftir sambandsslitin fann hún lausn á sínum vandamálum og fór að drekka óhóflega. Hún mætti á bar sem félagi hennar átti, eignaðist þar vini, var samþykkt undir eins og á hálfu ári var hún komin í dagneyslu á vímuefnum.

„Neyslan þróaðist mjög hratt og á einum tímapunkti gátu foreldrar mínir ekki haft mig heima lengur. Ég var með heimilið í hers höndum.“

Iðunn segir frá áföllum og hvernig hún missti alla getu til að lifa eðlilegu lífi, halda heimili, hugsa um sínar grunnþarfir og hafði yfir höfuð algjörlega misst tökin þegar hún byrjaði að gera tilraunir til að verða edrú.

„Mér og okkur fjölskyldunni var aldrei sagt frá neinu sem hét endurhæfing. Ég hefði auðvitað þurft að fara í endurhæfingu eftir að ég lauk krabbameinsmeðferð. Í stað þess að fara á fullt í skóla eða vinnu og lenda alltaf á vegg og upplifa mig misheppnaða eða ónýta,“ segir hún.

Hefði ekki getað bjargað pabba ef ...

Í dag á Iðunn dóttur sem er ljósið í lífi hennar. Þær mæðgur voru í heimsókn hjá foreldrum Iðunnar þegar faðir hennar féll í gólfið og fékk heilablóðfall.

„Það eru þessar stundir, ef ég væri ekki edrú þá ætti ég ekki þetta líf, þá hefði pabbi ekki hringt í mig þennan morgun, þá hefði ég ekki bjargað honum,“ segir hún og bætir við að hún elski hversdagsleikann og það að vera til staðar. 

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is