„Ég var ofbeldismaður“

Edrúland | 27. nóvember 2023

„Ég var ofbeldismaður“

Kristján Halldór Jensson er 43 ára faðir. Kristján er nýj­asti gest­ur í hlaðvarpi Tinnu Bark­ar­dótt­ur, Sterk sam­an. Hann er í dag edrú eftir að hafa byrjað í neyslu sem ungur drengur. 

„Ég var ofbeldismaður“

Edrúland | 27. nóvember 2023

Kristján Halldór Jensson er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.
Kristján Halldór Jensson er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman. Ljósmynd/Aðsend

Kristján Halldór Jensson er 43 ára faðir. Kristján er nýj­asti gest­ur í hlaðvarpi Tinnu Bark­ar­dótt­ur, Sterk sam­an. Hann er í dag edrú eftir að hafa byrjað í neyslu sem ungur drengur. 

Kristján Halldór Jensson er 43 ára faðir. Kristján er nýj­asti gest­ur í hlaðvarpi Tinnu Bark­ar­dótt­ur, Sterk sam­an. Hann er í dag edrú eftir að hafa byrjað í neyslu sem ungur drengur. 

Kristján er ættaður að norðan og líður best í sveitinni. Hann bjó fyrstu fimm árin fyrir norðan og leið vel en þar bjuggu ömmur og afar. „Ég fékk nóg af ást og kærleika hjá ömmum og öfum mínum, þeim fannst ég heldur ekkert óþekkur eða ómögulegur. Þetta góða í mér er frá þeim,“ segir Kristján. 

Hann flutti með móður sinni til Ísafjarðar og hóf skólagöngu sína þar en skólagangan átti eftir að ganga brösuglega. Hann var ungur farinn að sýna mikla áhættuhegðun og var fingralangur, eins og hann orðar það.

„Mér tókst svo að láta reka mig úr skólanum fyrstu vikuna í 11 ára bekk á Ísafirði. Ég var erfiður og búinn að vera með vesen.“ Aðspurður hvernig vesen tíu ára barn hefði verið með segir hann: „Löggan kom og var gerð húsleit heima þarna, ég var mikið að brjótast inn í bíla, hús og kveikja í á þessum tíma.“

Neyslan versnaði á unglingaheimilinu

Kristján var sendur í burtu á unglingaheimili. Hann var byrjaður í neyslu en á unglingaheimilinu kynntist hann eldri drengjum og alvöru neyslu. „Ég var farinn að éta allar pillur sem ég sá þegar ég var bara krakki, hvort sem það voru getnaðarvarnarpillurnar hennar mömmu, hjartalyfin hennar ömmu eða eitthvað annað. Ég vissi að ég kæmist í eitthvað ástand af einhverjum pillum svo ég tók bara allt sem ég sá.“

Kristján var á unglingaheimilinu í eitt og hálft ár, þá flutti hann til Reykjavíkur með mömmu sinni. „Mér tókst svo að láta reka mig aftur úr skóla 13 ára og þá var ég líka rekinn að heiman. Þá varð ég götustrákur. Ég festi hvergi rætur og kallaði ekkert heima nema kannski þegar ég fór til ömmu og afa.“

Miðað við sögu og æsku Kristjáns hefði öllum mátt vera ljóst að hann myndi leiðast á braut neyslu vímuefna og afbrota. Hann þráði að verða samþykktur og fann fyrir höfnunartilfinningu og rótleysi. „17 ára fór ég fyrst inn á níuna, Skólavörðustíginn. Það töluðu allir um hvað það væri ógeðslegur staður, sveppur í sturtunni og svona en mér fannst það fínt, hafði verið á mun verri stöðum.“

Gekk um með skotvopn

Á þessum tíma hafði hann lengi gengið með skotvopn á sér. Það var eðlilegt í hans nærumhverfi að bera vopn og beita ofbeldi. „Ég var alltaf með vopn á mér, skammbyssu eða afsagaða haglabyssu. Þetta var eðlilegt fyrir mig og í mitt umhverfi svo ég hélt að það væri allir vopnaðir.“

Hann segir mikilvægt að ná til unglinga sem komnir eru styttra en hann var kominn þegar hann hóf sína sjálfsvinnu fyrir tæpum fjórum árum. „Við sjáum þetta í dag, hvatvísir strákar, undir áhrifum sem hafa eitthvað að sanna og með skotvopn. Það er ekki góð hugmynd.“

Í dag er Kristján ásamt fleirum í samstarfi við lögregluna og yfirvöld til þess að reyna að grípa einhverja af þessum unglingum. „Ég veit að við björgum ekki heiminum en bara ef maður nær að sá fræjum þá er það eitthvað. Ég þurfti að kyngja stórum bita til að fara í samvinnu við lögreglu en það eru góðir gæjar þarna. Við erum þá tengiliðir ef þessir strákar gætu haft áhugamál, vilja verða edrú, eru í fangelsi eða hvað sem er.“

Var brotinn 

Kristján talar opinskátt um það hvernig hann upplifði fangelsi sem mesta öryggi sem hann hafði búið við. Það var vont að missa frelsið en hægt að hafa það ágætt samt. Eftir afplánun var ekkert sem greip hann svo hann fór aftur í sömu hjólför. „Strákar eins og ég samþykkjum stimpilinn með því að einmitt nota svona tal, strákar eins og ég, um ofbeldismenn. Ég var ofbeldismaður. Ég hafði lagt mikið í það og það var mitt vörumerki. Þegar ég fór í þessa sjálfsvinnu komst ég að því að ég hef óbeit á ofbeldi."

Kristján varð tómur og vissi ekki hver hann var ef hann var ekki ofbeldið sem hann hafði beitt í neyslu öll þessi ár. Aðspurður játar hann því að innst inni var hann bara brotinn og hræddur lítill strákur. „Ég var fyrsti maðurinn sem flutti inn í Batahúsið, það bjargaði mér. Það er engin spurning að ég væri ekki á þeim stað sem ég er í dag ef ekki væri fyrir Batahúsið og strákana þar,“ segir Kristján. 

Hægt er að hlusta á þátt­inn á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is