Ung móðir lést á meðan hún beið eftir plássi

Valgeir Magnússon | 14. september 2023

Ung móðir lést á meðan hún beið eftir plássi

Valgeir Magnússon viðskipta-og hagfræðingur skrifar um fíknivandann í íslensku samfélagi í nýjum pistli á Smartlandi. Hann segir að fólk með fíknisjúkdóma sé meðhöndlað öðruvísi en fólk með aðra sjúkdóma. Hann bendir á að ung móðir hafi ekki þurft að deyja í byrjun september ef hún hefði komist í meðferð. 

Ung móðir lést á meðan hún beið eftir plássi

Valgeir Magnússon | 14. september 2023

Valgeir Magnússon.
Valgeir Magnússon.

Valgeir Magnússon viðskipta-og hagfræðingur skrifar um fíknivandann í íslensku samfélagi í nýjum pistli á Smartlandi. Hann segir að fólk með fíknisjúkdóma sé meðhöndlað öðruvísi en fólk með aðra sjúkdóma. Hann bendir á að ung móðir hafi ekki þurft að deyja í byrjun september ef hún hefði komist í meðferð. 

Valgeir Magnússon viðskipta-og hagfræðingur skrifar um fíknivandann í íslensku samfélagi í nýjum pistli á Smartlandi. Hann segir að fólk með fíknisjúkdóma sé meðhöndlað öðruvísi en fólk með aðra sjúkdóma. Hann bendir á að ung móðir hafi ekki þurft að deyja í byrjun september ef hún hefði komist í meðferð. 

Miðvikudaginn 30. ágúst útskrifaðist ung móðir af Vogi. Þar sem ekki var pláss fyrir hana á Vík í meðferð eftir afvötnunina þá þurfti hún að bíða til 12. september til að halda áfram með sína meðferð og vinna í sjálfri sér. Hún lést aðfaranótt laugardags, 2. september.

Þetta er því miður ekki einangrað tilvik heldur saga sem endurtekur sig í sífellu. Fíknisjúkdómar eru alvarlegasta heilbrigðisvandamál heimsins í dag og við á Íslandi erum engin undantekning. Alvarleikinn er slíkur að nánast hver einasta fjölskylda þjóðarinnar hefur á einhvern hátt beina tengingu við sjúkdóminn. Sjúkdómurinn dregur fleiri til dauða en aðrir sjúkdómar, veldur fleirum sorg en aðrir sjúkdómar og veldur meira tjóni í samfélaginu. Börn alast upp í skömm, hræðslu, vonbrigðum, meðvirkni, afskiptalaus eða jafnvel foreldralaus. Foreldrar fólks með fíknisjúkdóma eru vansvefta með áfallastreituröskun. Systkini eru sífellt á vaktinni. Fjölskyldur tvístraðar þar sem vonin hefur svo oft orðið að vonbrigðum og traustið löngu farið. Sjúklingurinn sjálfur verður einangraður í sjálfshatri og sér enga leið út aðra en að deyfa sig aðeins lengur, lýgur, stelur, meiðir og svíkur undir stjórn fíknarinnar.

Flestir einstaklingar með fíknisjúkdóma eiga það sameiginlegt að vera yndislegt fólk þegar fíknin hefur ekki stjórn á þeim. Einnig eiga þau flest sameiginlegt að vera ekki yndislegt fólk undir stjórn fíknarinnar. Fangar í fangelsum landsins eiga það líka flestir sameiginlegt að vera með fíknisjúkdóm.

Við vitum í dag mjög mikið um þennan sjúkdóm og hvernig er hægt að hjálpa fólki út úr þeim vítahring sem sjúkdómurinn er. Við vitum einnig mikið um orsakasamhengi og hvernig þarf að vinna með fólki. Að vinna úr sínum áföllum hjálpar þeim að ná stjórn á sínu lífi og gefa til baka til samfélagsins.

Alkóhólisti í bata er frábær manneskja. Manneskja sem elskar að hjálpa öðrum og gefa til baka. Slíkar manneskjur eru mikilvægar. Þær eru iðulega sjálfboðaliðar í að hjálpa þeim sem eru skemmra á veg komnir í að halda niðri þessum banvæna sjúkdómi. Það er nefnilega mjög útbreiddur misskilningur að það sé hægt að læknast af alkóhólisma. Það er ekki hægt en það er hægt að halda sjúkdómnum niðri.

Þrátt fyrir alla þessa vitneskju um sjúkdóminn og hegðun hans þá þykir á Íslandi það vera góð hugmynd að útvista öllu er varðar þennan algenga og hættulegasta sjúkdóm þjóðarinnar til vanfjármagnaðra áhugamannafélaga. Útkoman er frábært og óeigingjarnt starf þeirra sem eru að reyna að berjast en því miður líka mun meiri sorg, erfiðleikar og dauðsföll en þyrfti að vera ef heilbrigðiskerfið tæki ábyrgð á því að alkóhólismi er heilbrigðisvandamál sem þarf að taka alvarlega.

Þar sem ég vinn mikið í Noregi þessa dagana þá er ég einnig að kynna mér hvernig Norðmenn nálgast hin ýmsu mál. Eitt af því er að afvötnun fer fram innan spítalanna. Bið eftir afvötnun er nánast engin enda er vitað að þegar viðkomandi hefur gefist upp fyrir sjúkdómnum og vill fá aðstoð þá má engan tíma missa.

Nú er staðan þannig að gríðarlegur fjöldi fólks er í lífshættulegum aðstæðum á biðlista eftir að fá pláss á Vogi til afvötnunar. Eftir afvötnun þar er gert ráð fyrir að fólk fari í áframhaldandi meðferð til dæmis á Vík. Til viðbótar er unnið frábært starf á stöðum eins og Hlaðgerðarkoti og í Krýsuvík þar sem meðferðir eru enn lengri. 

Við getum ekki sett fólk í lífshættulegum aðstæðum á biðlista. Það myndum við aldrei gera með aðra sjúkdóma. Því miður er það gert og það er einungis vegna hroka þeirra sem vilja ekki skilja sjúkdóminn og hafa komið kerfinu í þann farveg sem það er nú. Hrokinn er sá að telja fíknisjúkdóm ekki vera alvörusjúkdóm heldur eitthvað sem fólk gerir sér sjálft.

Við myndum aldrei senda einhvern með annan lífshættulegan sjúkdóm út í aðstæður sem valda sjúkdómnum í 3 vikur af því það er ekki pláss í heilbrigðiskerfinu. Það er eins og að einhver fengi þá hugmynd að einstaklingur með bráðaofnæmi kæmi inn á spítala og einkennum væri náð niður. En vegna plássleysis væri sniðugt að senda viðkomandi aftur á staðinn þar sem ofnæmisvaldurinn er og vona að viðkomandi deyi ekki áður en pláss losnar aftur til frekari meðhöndlunar.

Biðlistarnir eru dauðans alvara og eru nú að valda því að börn eru að missa foreldra sína, fjölskyldur eru í sárum. Fólk elst upp í fátækt og foreldrar fylgja börnum sínum til grafar.

Ég skora því á heilbrigðisráðherra að taka til algjörrar endurskoðunar hvernig við nálgumst þennan sjúkdóm og að ekki sé eingöngu hægt að treysta á vanfjármögnuð sjálfboðaliðasamtök til að leysa heilbrigðisvandamál þjóðarinnar.

mbl.is