„Ef þú ætlar að grafa skurð byrjar þú á að fá þér skóflu“

Edrúland | 27. ágúst 2023

„Ef þú ætlar að grafa skurð byrjar þú á að fá þér skóflu“

Þórir Haraldsson fagnaði fjörutíu ára edrúafmæli fyrr á þessu ári, en hann gekk inn á Hlaðgerðarkot árið sem Samhjálp varð tíu ára. Saga hans og samtakanna er samofin og margs er að minnast. Honum er efst í huga tónlistin sem hann segir að skili orðinu á áhrifaríkari hátt en talað mál. Hann segir sögu sína í tímariti Samhjálpar. 

„Ef þú ætlar að grafa skurð byrjar þú á að fá þér skóflu“

Edrúland | 27. ágúst 2023

Þórir Haraldsson hefur ekki drukkið í 40 ár.
Þórir Haraldsson hefur ekki drukkið í 40 ár. Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Þórir Haraldsson fagnaði fjörutíu ára edrúafmæli fyrr á þessu ári, en hann gekk inn á Hlaðgerðarkot árið sem Samhjálp varð tíu ára. Saga hans og samtakanna er samofin og margs er að minnast. Honum er efst í huga tónlistin sem hann segir að skili orðinu á áhrifaríkari hátt en talað mál. Hann segir sögu sína í tímariti Samhjálpar. 

Þórir Haraldsson fagnaði fjörutíu ára edrúafmæli fyrr á þessu ári, en hann gekk inn á Hlaðgerðarkot árið sem Samhjálp varð tíu ára. Saga hans og samtakanna er samofin og margs er að minnast. Honum er efst í huga tónlistin sem hann segir að skili orðinu á áhrifaríkari hátt en talað mál. Hann segir sögu sína í tímariti Samhjálpar. 

Fyrst væri gaman að vita, hver er Þórir Haraldsson?

„Hvurra manna ert þú?“ spyr hann glettinn á svip. „Ég er fæddur og uppalinn í Árnessýslu, á bæ sem heitir Steinsholt. Ég er ekki hjónabandsbarn, er eina barn móður minnar en á sex hálfsystkini. Einn bræðra minna er reyndar látinn. Ég ólst upp á mjög góðu sveitaheimili. Þetta var nokkuð sérstakt því þau bjuggu þarna saman félagsbúi mamma og systkini hennar. Mamma var mjög heilsuveil. Hún stríddi við skjaldkirtilsmein sem gerði að verkum að hún var nýrnaveik og hún lést fyrir sextugt. Hin systkinin urðu öll fjörgömul og síðasta systirin lést í desember síðastliðnum, hundrað og þriggja ára. Hún gekk mér eiginlega í móðurstað að hluta til og það var mjög ánægjulegt að hún bjó ein í sínu húsi fram í maí á síðasta ári. Var í gjörgæslu frænda míns og konu hans sem tóku við búinu og bjuggu við sama hlaðið. Ef þau brugðu sér af bæ hringdi hún í mig og sagði: „Jæja, Þórir minn, nú verður þú að koma.“ Þá fór ég austur og gisti meðan þau nutu sín. Við áttum mjög góðar stundir saman.

Í mínum uppvexti var þetta þeirra tíma sveitaheimili, menningarheimili. Systkinin lásu mikið, voru bókafólk og tónlist var í hávegum höfð. Ég man eftir því að ef gestir komu lögðu menn frá sér verkfæri og fóru að sinna gestunum. Eina undantekningin var ef verið var að bjarga heyi undan rigningu. Ég held því fram að ég hafi hlotið mjög gott uppeldi. Ég var í heimavistarskóla í barnaskóla og fór svo í Héraðsskólann að Laugarvatni í gagnfræðaskóla og var þar í þrjá vetur. Það þótti mikil menntun þá en ég kláraði árið 1965.“

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Rekinn eftir árs reynslutíma

Þegar gagnfræðaprófinu lauk fór Þórir heim og vann þar um tíma en ákvað svo að læra bifvélavirkjun. Hann lauk hins vegar aldrei prófi.

„Ég fékk vinnu á kaupfélagsverkstæðinu á Selfossi. Ég get glott að því í dag en þá var kerfið þannig að menn voru tvo til þrjá mánuði á reynslutíma og voru svo teknir á samning. Ég var ár á reynslutíma og var svo rekinn. Ekki af því að ég væri svo lélegt efni í bifvélavirkja heldur var brennivínið farið að taka svolítið völdin. Ég fór kannski og datt í það á föstudagskvöldi og það fór öll helgin og kannski mánudagur og jafnvel þriðjudagur líka. Þetta gerðist hratt. Ég var frekar feiminn unglingur og sextán ára fór ég að drekka. Ég hef orðað það þannig að þetta hafi verið ást við fyrstu kynni. Þarna var lífið, feimnin fór og maður átti heiminn. Að vera rekinn var fyrsta viðvörunarmerkið en ég tók því ekki þannig. Skammaðist mín auðvitað ofan í rassgat en út á við sagði ég að það væri bara gott að vera laus úr þessu skítadjobbi.“

Næstu ár hélst lífsstíllinn svipaður. Þórir hefur alltaf haft gaman af tónlist og að spila á hljóðfæri og mörg tækifæri gáfust á því sviði.

„Ég spilaði í hljómsveit og það var mikill drykkjuskapur í kringum það á þessum árum. Tuttugu og fimm ára hitti ég fyrrverandi eiginkonu mína. Fram að þeim tíma þótti manni það bara töff að vera að drekka og skemmta sér. Þeir sem ekki gerðu það voru þurrpumpulegir smáborgarar sem ekki kunnu á lífið. En eftir að ég gekk í hjónaband myndaðist togstreita. Ég vildi vera ábyrgur fjölskyldufaðir en upplifði í fyrsta sinn að fara að drekka gegn vilja mínum og sannfæringu og það var mjög vont.

Ég tolldi ekki vel í vinnu því ég hvarf stundum. Hægt væri að spyrja alla fyrrverandi vinnuveitendur mína og fá sömu svör: „Já, Þórir, hann er mjög duglegur og samviskusamur en svo bara hverfur hann kannski í viku og það er ekki nógu gott.“ Svo fór ég í meðferð, árið 1978, og hélt upp á þrítugsafmælið mitt nýkominn úr henni. Ég fór í Reykjadal þar sem SÁÁ rak sjúkrahús og fór þaðan á Vífilsstaði, sem var mjög gott. Kom þaðan út og ætlaði að leysa áfengisvandamál mitt og alls heimsins í eitt skipti fyrir öll. Hef ábyggilega verið alveg óþolandi.

Það entist þrjá mánuði en þá féll ég. Þá byrjaði dimma tímabilið í lífi mínu. Það er alveg skelfilegt að vera búinn að fara í meðferð en halda áfram. Þá er maður með í farteskinu alla vitneskjuna um hvað maður er búinn að gera, og samviskubitið og sektarkenndin verður helmingi meiri. Á næstu fimm árum fór allt sem farið gat í lífi mínu, konan fór, bílprófið fór og flest annað. Fyrst missti ég bílprófið í þrjá mánuði og síðan ævilangt. Það var reyndar þannig þá að hægt var að sækja um náðun að þremur árum liðnum. Ég gerði það og þurfti að taka prófið upp aftur bæði bóklega og verklega hlutann. Mér fannst það fyndið að eftir það fékk ég svo gamla græna skírteinið mitt afhent aftur. Þann 20. apríl 1983 innritaðist ég svo í Hlaðgerðarkot, þá búinn með fimm heilar meðferðir.“

mbl.is/Heiða Helgadóttir

Á enn miðann með símanúmeri Hlaðgerðarkots

Segja má að tilviljun hafi ráðið því að Þórir fór á Hlaðgerðarkot. Hann sat niðri á Kokkhúsi, veitingastað í Reykjavík sem hann sótti stundum og drakk, þegar inn kom maður sem hafði verið í meðferð þar og sá rétti honum miða með símanúmerinu.

„Ég held að ég eigi miðann enn þá, númerið var 66148. Það var frekar illa skrifað en ég ákvað nú að hringja. Mér hefur alltaf þótt svolítið vænt um þennan miða. Þegar ég kom þangað var mjög vel tekið á móti mér. Ég var ekki búinn að vera þarna nema viku, tíu daga, þegar vatnaskil urðu í lífinu. Pabbi hringdi í mig, en milli okkar og hálfsystkina minna var alltaf mjög gott samband. Hann var þá oddviti í sveitinni, Gnúpverjahreppi, og nýhafin var skólabygging í sveitinni. Hann sagði: „Þórir minn, viltu ekki bara koma hingað?“ Hann bætti við hver byggingaverktakinn væri og ég vissi að ég gæti fengið hjá honum vinnu. Þetta var á miðvikudegi og líkamlega heilsan tekin að batna svo að ég sagði: „Já, ætli ég komi ekki bara um helgina.“ Þegar ég kom hafði ég skrifað undir að ég ætlaði að vera í mánuð. Ég fór og talaði við Jóhann Pálsson sem vann þarna, yndislegur karl. Hann hafði uppi einhverjar efasemdir um að ég kæmist austur, ég veit nú ekki af hverju.

En svo fór mér að líða verr og verr eftir því sem líða tók á daginn. Ég var búinn að gera svo margar tilraunir til að byrja upp á nýtt, fara að vinna og taka mig á en svo datt ég í það og allt hrundi. Ég var búinn að fara eina fimmtíu slíka hringi og ég sá fyrir mér jú, að ég gæti verið þarna í sveitinni, þénað vel, búið frítt heima og ekki eytt neinu en svo kom þessi ægilega spurning, og hvað svo? Ég var kominn í klessu með þetta um kvöldið þar sem ég sat inni á syndinni, en reykherbergið var kallað því nafni. Dallas var í sjónvarpinu og allir að horfa á það. Tveir útgangar voru úr syndinni og annar lá inn í svefnálmuna, ég gekk þangað og inni í einu herberginu sat eini maðurinn sem ekki fylgdist með Dallas fyrir utan mig.

Hann kallaði í mig, en þetta var kokkur sem var búinn að vera þarna dálítið lengi. Ég sagði honum hvernig mér leið og hann sagði: „Blessaður kláraðu mánuðinn þinn og farðu svo að byggja þennan skóla.“ Á þessum tíma voru ávísanir helsti greiðslumiðillinn og ég var búinn að „gúmma“ út úr tveimur heftum og hér og þar um bæinn voru gúmmítékkar skoppandi því engin innistæða var fyrir þeim. Ég sá fyrir mér að ég myndi lenda í fangelsi og það væri mátulegt á mig. Ég sagði honum að ég hefði áhyggjur af þessu og hann hló bara að mér. Hvað með það þótt ég hefði falsað nokkrar ávísanir, hvað væri það á milli vina. Hann hélt að það væri nú ekki vandamál.

Ég fór frá honum ögn léttari í spori með það í veganesti að hann hvatti mig til að lesa Fjallræðuna. Ég gerði það og þar var vers sem hefur verið versið mitt síðan. „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ Matt. 6:33.“ Þá opnaðist ný hugsun. Já, ef þú ætlar að grafa skurð þarftu kannski að byrja á að fá þér skóflu og brýna hana vel. Ef þú ætlar að gera eitthvað af viti þarftu kannski að byrja á sjálfum þér. Kannski á ég bara að vera hérna áfram. Daginn eftir hitti ég svo Óla Ágústsson, þáverandi forstöðumann Samhjálpar, í fyrsta skipti og fór í viðtal. Það er mjög eftirminnilegt viðtal því þar hrundi ég bara eins og spilaborg og grét. Ég fann einhvern veginn að hann horfði í gegnum mig og las mig eins og opna bók. Mér fannst það óþægilegt fyrst en svo fann ég að ég gæti treyst honum.“

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Fannst hann lélegur pappír

Þórir þarf aðeins að ræskja sig þegar hann rifjar þetta upp. Versið og skilaboð þess eru honum enn það mikilvæg. Hann heldur áfram og lýsir betur líðan sinni þegar hann steig fyrst inn fyrir dyr Hlaðgerðarkots.

„Ég sá sjálfan mig sem algjört núll og nix. Þegar ég kom inn í Hlaðgerðarkot voru þar þrjátíu manns. Ég sá þar tuttugu og níu mjög veika alkóhólista og einn aumingja og það var ég. Þannig var nú ástandið á mér. Þarna um kvöldið eftir viðtalið við Óla var samkoma sem hann leiddi. Hann hóf mál sitt á að segja að það væri einn maður í salnum sem ætti þessa predikun og það var ég. Á stríðsárunum voru í umferð hér á landi krónuseðlar úr mjög lélegum pappír. Þeir voru þess vegna kallaðir „kvislingar“ í höfuðið á Vidkun Quisling, fyrrum varnarmálaráðherra Noregs, manninum sem gekk til liðs við nasista í stríðinu. Ég taldi mig alveg sambærilegan við þennan ónýta pappír en Óli benti á að ef maður stillti núllinu upp til hliðar við kross Krists breyttist merking þess. Vegna þess að núllið eitt og sér er ekkert en þegar eitthvað er komið við hlið þess breytist allt. Ég kveikti á þessu og þetta var mikill vendipunktur. Ég hef aldrei haldið fram að ég hafi stigið upp úr bænum mínum alheill en þarna byrjaði uppbygging. Ég fann að ég ætti séns og að Guð væri eitthvert afl sem vildi hjálpa mér og það hefur ekki vikið frá mér síðan. Ég fékk þessa fullvissu og hef fengið ótalmörg bænasvör síðan, hef átt þessa lifandi trú upp frá þessu og borið gæfu til að halda henni við. Kannski með að gera ekki vísvitandi einhverja dellu.“ 

Mánuðurinn varð að 32 árum

Síðan þetta var eru liðin fjörutíu ár, stór hluti af mannsævi, og margt hefur breyst í Hlaðgerðarkoti. Hvað er Þóri minnisstæðast?

„Allt var öðruvísi um að litast þar þá en nú er,“ segir hann. „Starfið byggðist mikið upp á biblíulestri og þessari mannlegu tengingu. Ég áttaði mig fljótlega á að fólkið sem vann þarna og menn sem höfðu verið þarna einhvern tíma áttu eitthvað sem ég átti ekki. Ég var alinn upp við góða siði og mamma og amma kenndu mér að biðja bænir. Og þegar ég var baðaður sem barn var ég signdur áður en ég var klæddur í bolinn. Einhvers staðar á vegferðinni týndi ég þessari barnatrú og í allri minni baráttu við alkóhólismann hafði ég aldrei komið auga á að Guð væri eitthvað sem gæti hjálpað. Mér fannst Guð vera huggunarhugtak fyrir gamlar konur og börn, einhvers staðar í blámóðu fjarskans. Tónlistin skiptir rosalega miklu máli í boðun orðsins. Hún á miklu greiðari leið að manni en hið talaða orð. Með fullri virðingu samt fyrir töluðu máli. En það voru þessir söngvar sem náðu mér.

Svo leið þessi mánuður í Hlaðgerðarkoti og reyndar lengdist hann alltaf og varð á endanum að þrjátíu og tveimur árum. Ekki var þeim reyndar öllum varið þar. Ég var þar í tuttugu og þrjú ár og á áfangaheimilunum, gistiskýlinu og skrifstofunni líka. Starf mitt á Hlaðgerðarkoti og meðferðin skaraðist. Fyrsta verkið sem ég var settur í var að aðstoða kokkinn. Hann lét mig skræla kartöflur. Kokkurinn átti það til að vera svolítið þjösnalegur og ég var svolítið lengi að skræla svo að hann hreytti í mig: „Þetta á ekki að vera í kvöldmatinn.““

Ljósmynd/Heiða Helgadóttir

Fannst hann geta flogið

„Næst var ég settur á vaktina. Stutta sagan er að ég var vaktmaður, ráðgjafi, ráðgjafi og staðarstjóri eða forstöðumaður og síðustu árin frá 2003 var ég staðsettur á skrifstofunni og sá um áfangaheimilin og gistiskýlin,“ segir Þórir. „Í gegnum tíðina hef ég unnið mikið sem ráðgjafi, bæði flutt fyrirlestra og verið með viðtöl, sem mér fannst alltaf afskaplega skemmtilegur hluti af starfinu. Haustið 1985 gerðist svo atvik og það er ein æðislegasta minning sem ég á. Ég var nýbúinn að fá bílprófið aftur og var með herbergi uppi í Hlaðgerðarkoti og herbergi í bænum sem ég gat verið í þegar ég var í fríi.

Á föstudagskvöldi var ég á leið úr bænum upp í Hlaðgerðarkot og þurfti að pissa. Hjá Lágafelli í Mosfellssveit var þá hægt að keyra út af aðalveginum upp á litla hæð áður en ekið var inn á heimreiðina upp að bænum. Ég keyrði þar út af, fór út til að pissa og kveikti mér í sígarettu. Þetta var fallegt haustkvöld og allt í einu kom til mín þessi hugsun, það er föstudagskvöld og helgarsveiflan að byrja í bænum. Allir á leið í partí eða á barinn. Og ég uppgötvaði að mér var alveg sama. Ég var algjörlega frjáls. Orgelið mitt og helmingurinn af búslóðinni í herberginu mínu uppi í Hlaðgerðarkoti og ég þurfti ekkert meira. Ég þurfti aldrei að drekka meir. Það lá við að ég gæti flogið. Mér fannst þetta svo mögnuð tilfinning. Síðan þá hefur mér aldrei eitt augnablik langað í áfengi. Svo lengi hafði líf mitt snúist um áfengi þótt ég væri ekki að drekka. Ég kalla það alkóhólíska klukku, sem er í gangi innra með manni og þótt maður sé ekki að drekka snýst hugsunin að miklu leyti um áfengið og að skipuleggja í kringum það. Þarna var hún hætt að tifa.

Lífið hefur síðan verið bara eins og lífið er. Það er upp og ofan og ekki alltaf jólin en ég hef aldrei fundið til löngunar. Árið 1990 hitti ég svo mína yndislegu konu, sem ég á enn í dag. Við höfum gaman af að ferðast og förum stundum til sólarlanda og alltaf þegar við komum heim kaupum við tvær viskíflöskur og gefum mági og svila. Þeir eru báðir hófsemdarmenn en að mig langi í þetta viskí, það er af og frá. Hún var fráskilin og átti þrjú börn fyrir og við eignuðumst síðan son árið 1991. Ég á líka son sem ég eignaðist fyrir fyrra hjónaband. Hann er verkefnastjóri á Selfossi, yndislegur drengur eins og reyndar öll börnin okkar. Það er ekki sjálfgefið þegar maður kemur inn í líf hálfstálpaðra krakka að það gangi vel. En þau tóku mér öll afskaplega vel og gera það öll gott í dag.“

Farið yfir ósýnilega línu

Áttu einhverja skýringu á því hvers vegna drykkjan tók stjórn á lífi þínu?

„Nei, í rauninni ekki. Þetta var bara eitthvað svo spennandi fyrst. Og í mörg ár var mjög gaman. Það tilheyrði einhvern veginn á þessum árum að fólk hlypi af sér hornin eða rasaði út og ég sá ekkert athugavert við þetta fyrst. En það er einhver ósýnileg lína sem maður fer yfir og maður sér hana ekki fyrr en maður er kominn langt yfir hana. Ég hef orðað það þannig að þetta hafi allt verið í lagi meðan ég drakk vínið en ekki eftir að það fór að drekka mig. Gunnar Dal orðaði þetta mjög vel í viðtali í sjónvarpinu eftir bankahrunið. Hann sagði að þegar einhver maður eignaðist mjög mikið af peningum, þetta væri þó breytilegt eftir einstaklingum, þá ætti hann ekki lengur peningana heldur ættu þeir hann. Og þetta er alveg rétt. Ég sá þetta í samhengi við alkóhólismann. Að einhverjum hluta er þetta líka genetískt og búið að sanna það fyrir einhverjum árum að heilafrumur sumra bregðast öðruvísi við hugbreytandi efnum. Svo var það þessi feimni, þetta var lausn við henni til að byrja með. Það var hins vegar ekkert áfall sem hratt þessu af stað í mínu tilfelli. Það er oft sem fólk er að drekka til að deyfa sársauka. Ég gerði það ekki fyrr en síðar, þá fór ég að drekka út af afleiðingum drykkjunnar og það verður vítahringur því allt verður svo ömurlegt.“

Margir sem glíma við fíkn falla og leita sér hjálpar aftur, sumir oft. Er það þín reynsla að það sé alltaf jafnmikið áfall í hvert sinn sem það gerist?

„Í rauninni ekki. Fyrsta sjokkið er verst en svo verður þetta alltaf verra og verra því það bætist alltaf í skítapokann. Elsa, læknir í Hlaðgerðarkoti til margra ára, orðaði þetta mjög fallega. Hún sagði að þegar maður væri búinn að koma þrjátíu sinnum væri tilhneiging til að dæma hann vonlausan en í þrítugasta og fyrsta skipti gæti kviknað á síðustu perunni sem þyrfti til að hann næði sér. Ég var stundum að giska hver myndi ná sér og hver ekki og þau gisk voru oft alveg út í hróa. Ég man mjög vel eftir tveimur einstaklingum. Annar var síkvartandi. Það var alltaf eitthvað að, hann fékk ekki nóg af lyfjum, maturinn var vondur og aðstaðan ekki góð. Í hinum heyrðist aldrei neitt. Hann hafði verið í pillum svo að hann var í raun að takast á við verri fráhvörf. Hann náði sér en ekki hinn sem kvartaði mest. Ég man alltaf eftir þessu dæmi því það sýnir hvað viðhorfið skiptir miklu máli. John F. Kennedy, fyrrum Bandaríkjaforseti, sagði við landa sína: „Ekki spyrja hvað land þitt getur gert fyrir þig. Spyrðu hvað þú getir gert fyrir land þitt.“ Hið sama gildir þegar einstaklingur horfir yfir líf sitt, að hann hugsi hvað hann geti gert í sínum málum, ekki „get ég ekki bara komist á örorku“ eða „hvað getur kerfið gert fyrir mig?“.“

Vinnur enn fullan vinnudag

Eins og fram kom hér að ofan náði tónlistin í Hlaðgerðarkoti að opna huga Þóris umfram allt annað. Það er kannski ekki skrýtið, því hún hefur fylgt honum alla ævi.

„Já, ég var ekki búinn að vera þar lengi þegar hengdur var á mig gítar,“ segir hann. „Ég var látinn spila með, Kristinn Ólafsson stóð fyrir því. Í einhverja mánuði var ég gítarleikari en svo slitnaði strengur í gítarnum mínum og þá settist ég við píanóið. „Nú, þú átt að vera píanóleikari,“ var þá viðkvæðið. Það var harmóníum heima á æskuheimili mínum og ég byrjaði ungur að hamra á það með einum putta. Ég keypti svo harmóniku fyrir hluta af fermingarpeningunum mínum en það var fyrsta hljóðfærið sem ég eignaðist. Orgel hefur alltaf verið hátt skrifað hjá mér og Hammond-orgel drottning hljóðfæranna að mínu mati. Ég spilaði í Samhjálparbandinu þar til fyrir tveimur árum. Ég hef líka verið að spila í Fíladelfíu í marga áratugi með Óskari Einarssyni snillingi. Undanfarið hef ég verið að spila hjá Hjálpræðishernum með góðu fólki, reyndar hluta af gamla Samhjálparbandinu. Þetta er bæði gefandi og skemmtilegt.“

Þórir er löngu kominn á eftirlaunaaldur. Hvernig lætur hann tímann líða þessa dagana?

„Ég er enn að vinna fullan vinnudag,“ segir hann og brosir. „Ég hef alltaf haft gaman af að smíða og fyrir nokkru fór ég að smíða sólpalla og skjólveggi. Þetta var í senn aukavinna og áhugamál því launin í Hlaðgerðarkoti þurfti að drýgja. Konan mín var dæmd öryrki skömmu eftir að við kynntumst og við rákum heimili. Þetta hljómar ekki vel fyrir mig en hún var búin að glíma við bakvandamál frá því hún var nítján ára. Svo hætti ég að vinna daginn sem ég varð sextíu og sjö ára. Afmælisdagurinn minn var síðasti vinnudagur það árið og ég var kvaddur með virktum og hætti í fullri sátt. Það var haldin veisla í Kaffistofunni og ég sagði að þetta væri eins og erfidrykkja að öðru leyti en því að líkið væri lifandi.“

Hann skellihlær en heldur svo áfram. „Ég hélt að ég myndi taka að mér einn og einn pall eða einn og einn skjólvegg en það hefur verið ótrúlega mikið að gera þótt ég búi við það frelsi að geta valið hvenær og hvort ég vinn. Nú er ég með verkefni alveg fram að jólum. Mér finnst þetta skemmtileg vinna. Þegar maður er að smíða er maður alltaf að skapa eitthvað. Við hjónin eigum síðan sumarbústað í Vatnsdal sem við þurfum að halda við.“

Hann þagnar svolitla stund, bendir síðan á sófann í stofunni og segir: „Ég held að ég hafi legið í þessum sófa og sofið í mánuð eftir að ég hætti hjá Samhjálp. Ég hélt fyrst að ég væri að verða þunglyndur eða eitthvað en velti svo fyrir mér hvort ég hefði ekki bara þurft á hvíldinni að halda. Fyrst eftir starfslokin hrökk ég jafnan við þegar síminn hringdi og velti fyrir mér, hvað ætli það sé núna? Ég var búinn að vera á bakvakt frá 1995 til 2015. Þótt ekki væri alltaf verið að hringja er möguleikinn á að eitthvað komi upp alltaf fyrir hendi. Ég fattaði ekki fyrr en eftir á hvað þetta var í raun mikið álag.“

Þótt Þórir haldi ekki sérstaklega upp á edrúdaginn, 20. apríl, þykir honum vænt um daginn. Í ár var hann úti á Spáni með konu sinni, sem hélt upp á sjötugsafmælið þar. Frelsistilfinningin sem hann fann fyrst í pissustoppinu við Lágafell er enn jafnverðmæt og mögnuð.

mbl.is