Arnar náði árangri vegna dvalar á áfangaheimilum

Edrúland | 16. janúar 2024

Arnar náði árangri vegna dvalar á áfangaheimilum

Arnar Long Jóhannsson hefur ekki fundið fyrir fíkn síðan hann sat í bíl sínum á Reykjanesbraut og hringdi í örvæntingu í forstöðukonu áfangaheimilisins Sporsins og fékk þar inni daginn eftir. Saga hans er sannkölluð sigursaga þótt síðastliðin fimm ár hafi verið viðburðarík og að sumu leyti reynt á taugarnar en barnalán og hamingja eru honum efst í huga.

Arnar náði árangri vegna dvalar á áfangaheimilum

Edrúland | 16. janúar 2024

Arnar Long Jóhannsson og eiginkona hans, Hanna Björk Hilmarsdóttir, eiga …
Arnar Long Jóhannsson og eiginkona hans, Hanna Björk Hilmarsdóttir, eiga í dag fimm börn. Arnar var sjálfur tekin af foreldrum sínum þegar hann var ungur. mbl.is/Ásdís

Arnar Long Jóhannsson hefur ekki fundið fyrir fíkn síðan hann sat í bíl sínum á Reykjanesbraut og hringdi í örvæntingu í forstöðukonu áfangaheimilisins Sporsins og fékk þar inni daginn eftir. Saga hans er sannkölluð sigursaga þótt síðastliðin fimm ár hafi verið viðburðarík og að sumu leyti reynt á taugarnar en barnalán og hamingja eru honum efst í huga.

Arnar Long Jóhannsson hefur ekki fundið fyrir fíkn síðan hann sat í bíl sínum á Reykjanesbraut og hringdi í örvæntingu í forstöðukonu áfangaheimilisins Sporsins og fékk þar inni daginn eftir. Saga hans er sannkölluð sigursaga þótt síðastliðin fimm ár hafi verið viðburðarík og að sumu leyti reynt á taugarnar en barnalán og hamingja eru honum efst í huga.

Arnar og eiginkona hans, Hanna Björk Hilmarsdóttir eiga fimm börn, öll á leikskólaaldri. Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir fékk leyfi til að gera sjónvarpsþátt um líf þeirra þegar í ljós kom að þau áttu von á þríburum og áttu fyrir þá tæpra þriggja ára son, Ingiberg. Þríburarnir komu í heiminn 1. apríl 2021 og heita Bjartur, Írena og Þorri. Líklega finnst flestum að þar með hafi örlögin ruggað nægilega bátnum hjá ungu fólki á erfiðasta skeiði lífsbaráttunnar. Þó færði lífið þeim enn eitt óvænt útspil þegar lítill laumufarþegi varð til og yngsta dóttirin, Elma, kom í heiminn fyrir tæpu ári en hún fæddist 14. mars 2023. Eins og nærri má geta er nóg að gera á stóru heimili en Arnar á sér sögu frá því áður en börnin fæddust. Í viðtali við Ragnhildi Steinunni í þættinum Þríburar, sagði hann: „Maður átti aldrei séns“. Getur þú útskýrt aðeins betur hvað þú átt við?

„Já, ég get það,“ segir Arnar. „Ég tek þó fram að þetta viðhorf verður meira til þegar maður hugsar til baka, bara vegna þess hvernig líf mitt var. Ég var í tólf grunnskólum á ellefu árum, flosnaði upp úr námi og það var mikið ofbeldi á heimilinu. Ég fór mjög ungur að stunda innbrot og reykja kannabis, var ekki kominn í tíunda bekk þegar það byrjaði. Allt mitt líf einkenndist af miklu rótleysi og óöryggi. Það sem ég meinti með þessu var að ég var svo brotinn þegar ég komst á unglingsár að ég átti aldrei möguleika á venjulegu lífi. Það var enginn rammi utan um mig. Ég fór mjög hratt í mjög harða neyslu og var kominn inn á bangsadeild (deild fyrir unga skjólstæðinga á sjúkrahúsinu Vogi) í meðferð fyrir átján ára aldur, alveg búinn að keyra mig í kaf. Það var búið að stoppa mig á bílnum sautján sinnum og ég kom með tveggja mánaða dóm á bakinu. Þegar ég lít um öxl finnst mér að þessi strákur hafi aldrei átt séns í lífinu. Pabbi hefur verið upp og niður allt mitt líf en mamma var alltaf rosalega mikið veik. Hún er fúnkerandi en glímir, held ég, við fleiri sjúkdóma en alkóhólisma.“

Barnalánið er Arnari Long Jóhannssyni efst í huga.
Barnalánið er Arnari Long Jóhannssyni efst í huga. Ljósmynd/Aðsend

Varð ástfanginn upp fyrir haus

Arnar var tekin af móður sinni þegar hann var ungur og dvaldi á fósturheimili en fór til hennar aftur fimm ára. Um fermingaraldur fór hann til föður síns eftir að hafa orðið fyrir líkamsárás á eigin heimili. Hann á fimm systkini en hann ólst aðeins tímabundið upp með þremur þeirra. En yngsta systir hans reyndist honum ákveðið akkeri eftir að hann kynntist konunni sinni. Hanna Björk var átján ára en Arnar tvítugur þegar þau hittust fyrst í partíi á Ásbrú og þá varð vendipunktur í lífi hans.

„Þegar ég kynntist Hönnu varð ég ástfanginn upp fyrir haus. Fann fyrir tilfinningum sem ég hafði aldrei fundið fyrir áður gagnvart neinni stelpu. En á sama tíma kemur yngsta systir mín til mín, sem ég hafði alist upp með hjá pabba í Grindavík í nokkur ár. Hún spyr hvort hún megi flytja til mín. Hana langaði í FS, vinkonur hennar voru í þeim skóla og hana langaði að vera samferða þeim og ég svaraði strax já. Við leigðum saman í blokk hér í Keflavík og þá var ég í fyrsta sinn á ævinni kominn með einhvern ramma í kringum. Átti kærustu, var farinn að halda heimili og litla systir mín bjó hjá mér. Ég þurfti að passa að alltaf væri matur í ísskápnum og var kominn með svolitla ábyrgð á herðarnar og það hélt mér á jörðinni. Fram að því hafði ég bara hugsað: Fuck it.“

Traustur og trygglyndur í eðli sínu

Það er greinilegt að Arnar er traustur einstaklingur og hikar ekki við að axla ábyrgð þegar þess er krafist af honum. Á þessum árum vann hann á sjó og kunni vel við þá vinnu en hann hafði ekki unnið úr áföllum æskunnar og streita safnaðist upp.

„Ég lenti þarna og var með báða fætur á jörðinni nokkuð lengi,“ segir hann. „Ég hélt í þetta prinsipp að nota aldrei úti á sjó og halda alltaf vinnu og mæta vel. Þessu tókst mér að halda í nokkur ár. Ég var alltaf edrú úti á sjó, hrundi í það þegar ég kom í land en hélt alltaf heimili. Svo fór ég að brjóta þetta prinsipp að nota ekki úti á sjó. Þá fór neyslan úr böndunum og fljótlega var ég kominn í dagneyslu. Fíknin stigmagnaðist hratt út frá þeim tímapunkti. Það var eins og ég væri alltaf á flótta. Þótt ég væri ekki að nota fíkniefni úti á sjó fyrstu árin leið mér alltaf rosalega vel þegar ég var kominn á miðin. Ég fann alltaf léttinn þegar við sigldum af stað. Þegar ég hugsa til baka skil ég að þar var ég aftengdur öllu, var bara í einhverri búbblu, þurfti bara að mæta í mína vinnu og slaka á þess á milli. Ég hef einmitt rætt það við sálfræðinginn minn að líklega var sjómennskan ákveðin flóttaleið frá öllu þangað til fíknin tekur yfir.“

Hanna Björk og Arnar eru hér með börnin fjögur sem …
Hanna Björk og Arnar eru hér með börnin fjögur sem þau eignuðust á 21 mánuði. Hanna er með Þorra og Bjart; Arnar með Írenu og Ingiberg. Fimmta barnið átti eftir að koma í heiminn þegar þessi mynd var tekin. mbl.is/Ásdís

Vinirnir sterkur segulkraftur

Að því kom að Arnar gat ekki meira og fór í meðferð inn á Vog.

„Ég fór í víkingameðferðina hjá SÁÁ sem er fyrir endurkomumenn. Ég var í ár í eftirfylgni með víkingahópnum mínum uppi í Efstaleiti. Við Hanna Björk hættum saman þarna en vorum samt alltaf í einhverjum samskiptum. Ég flutti aftur til hennar, heim til mömmu hennar og pabba. Ég fann bara að ég átti mjög erfitt, ég nötraði allur. Við þurftum að vinna mikið í okkar sambandi og samskiptum. Einn daginn lagði ég af stað í bæinn og var að fara að detta í það. Ég var að bíða eftir plássi á Sporinu, áfangaheimili sem Samhjálp rak. Ég sótti um það uppi á Vík. Ég man að ég var á leiðinni í bæinn en keyrði út í kant og sendi sms á forstöðukonu Sporsins. Ég útskýrði fyrir henni stöðuna og hún útvegaði mér pláss. Þau losuðu aukaherbergi fyrir mig og ég fór til baka, pakkaði saman dótinu mínu og mætti á Sporið daginn eftir. Það bjargaði mér.

Það var tekið rosalega vel á móti mér og fyrir mér er þetta fimmtíu prósent af meðferðinni minni. Ég tók þá ákvörðun þegar ég fór í meðferð að loka á alla samfélagsmiðla, loka á alla vini mína og þá fjölskyldumeðlimi sem voru eitthvað tæpir. Ég var þess vegna rosalega einn þegar ég kom út úr meðferðinni. Um var að ræða stráka sem ég hafði alist upp með og fólk sem hafði verið vinir mínir frá því ég var unglingur og það var óskaplega erfitt að klippa á þessa línu. Ég var því mjög einmana en þegar ég kom inn á Sporið en þar var fyrir hópur fólks. Við vorum saman á morgunfundum, gátum alltaf talað saman og smám saman dró úr einmanakenndinni. Það var grundvöllurinn fyrir því að ég hélst edrú þarna fyrst á eftir, því það þarf sterkt mótvægi við það aðdráttarafl sem bestu vinirnir hafa og það var áskorun að hafa ekki samband við þá. Í fyrri meðferðum var þetta yfirleitt það sem felldi mig. Ég náði að vera edrú í nokkrar vikur eða mánuði en svo hafði ég samband við gamla vini og allt fór í sama farið.“

Áfangaheimilin björguðu miklu

Arnar dvaldi í sex mánuði á Sporinu og fór síðan þaðan yfir á Brú. Þá hafði annar segulkraftur aftur náð tökum á honum, ástin til Hönnu Bjarkar. Þau höfðu alltaf haldið einhverju sambandi en þeim var smám saman að verða ljóst að þau vildu ekki vera án hvors annars. Fyrir þennan tíma höfðu þau reynt að eignast barn en ekki tekist en meðan hann var á Brú gerist nokkuð sem ekki átti að gerast.

„Ég hef verið mjög heppinn með það að frá því ég fer út úr meðferð í þetta skipti hef ég haldist alveg fíknlaus og hef aldrei, fyrir utan þetta eina skipti þegar ég lagði af stað í bæinn, fundið fyrir neinni fíkn,“ segir hann. „Ég byrjaði strax í sporavinnu og bjó svo inni á heimili þar sem allir voru í sama gír og það tók ekki langan tíma þar til þau treystu mér til að fara yfir á Brú, sem var nokkurs konar framhaldsúrræði á eftir Sporinu. Þetta var mjög samhentur hópur og okkur var farið að þykja mjög vænt hverju um annað. Við studdum hvert annað og maður þurfti aldrei að hafa áhyggjur af því að þurfa að fara einn á fund. Það var alltaf einhver í næsta herbergi tilbúinn að fara með manni í strætó í Hafnarfjörð eða til að sækja mann ef því var að skipta. Við gerðum stundum ferð úr þessu og fengum okkur ís og eitthvað slíkt í leiðinni.

Hanna Björk kom oft til mín þegar ég var kominn upp á Brú og þá var ég búinn að vinna mikið í sjálfum mér og kannski ætti ég ekki að segja frá því en strákurinn okkar var búinn til uppi á Brú. Hann var eiginlega ástæðan fyrir því að ég tók ákvörðun um að flytja þaðan. Þá sló raunveruleikinn mig svolítið í andlitið og ég gerði mér grein fyrir að nú þyrftum við að fara að safna fyrir húsnæði og standa okkur.

Ég get sagt það og meina það af öllu hjarta að ef það hefði ekki verið fyrir áfangaheimili Samhjálpar og það hvernig þau voru uppbyggð hefði ég ekki náð þeim árangri sem ég hef náð. Þar voru reglur sem maður þurfti að fylgja. Ef þú ætlaðir að fara eitthvað varðstu að vera kominn heim aftur fyrir ákveðinn tíma og ef þú ætlaðir í helgarferð þurfti að biðja um leyfi. Maður varð líka alltaf að vera í sambandi og þetta gerði mjög mikið fyrir mig. Í æsku var aldrei neinn strúktúr í kringum mig og ég þurfti að læra það frá grunni. Á áfangaheimilunum gerðum við dagsplan á fundum, skipulögðum hvað við ætluðum að gera um morguninn og hvað eftir hádegi. Við sköpuðum okkur rútínu og sáum hvað hinir voru að gera og gátum lært af því.“

Þakklátur fyrir tækifærin

Hanna Björk hafði beðið þolinmóð eftir Arnari meðan hann kláraði meðferðina en þau gerðu sér grein fyrir að björninn er aldrei fullunninn. Þau hafa unnið mikið í að bæta samskipti sín og sambandið sín á milli og Arnar er alltaf meðvitaður um að batann þarf að rækta.

„Fyrir utan meðferðina er ég búinn að vera í massavinnu með sjálfan mig. Ég geng til sálfræðings og er töluvert tengdur við andlega heiminn.” Hann segist eiga sinn æðri mátt en sé hlutlaus gagnvart trúarbrögðum. En fyrst og fremst halda fimm lítil börn Arnari vel við efnið og hann segist einstaklega þakklátur fyrir þau tækifæri sem hann hefur fengið í lífinu og ekki hvað síst fyrir að fá að vera börnunum sínum gott foreldri.

mbl.is