„Ég var bölvaður sykurfíkill, alltaf að éta sætindi“

Líkamsvirðing | 4. febrúar 2024

„Ég var bölvaður sykurfíkill, alltaf að éta sætindi“

„Ég er orðinn 80 ára og um það verður ekkert deilt,“ segir Ragnar Ingi Aðalsteinsson, fróðleiksmaður á ljóð og sögur og áhugamaður um lífsins gleðigjafir. Hann byrjaði nýja árið á háu nótunum og fagnaði áttræðisafmæli sínu hinn 15. janúar með pompi og prakt.

„Ég var bölvaður sykurfíkill, alltaf að éta sætindi“

Líkamsvirðing | 4. febrúar 2024

Ragnar Ingi Aðalsteinsson hætti að borða dýraafurðir árið 1985.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson hætti að borða dýraafurðir árið 1985. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er orðinn 80 ára og um það verður ekkert deilt,“ segir Ragnar Ingi Aðalsteinsson, fróðleiksmaður á ljóð og sögur og áhugamaður um lífsins gleðigjafir. Hann byrjaði nýja árið á háu nótunum og fagnaði áttræðisafmæli sínu hinn 15. janúar með pompi og prakt.

„Ég er orðinn 80 ára og um það verður ekkert deilt,“ segir Ragnar Ingi Aðalsteinsson, fróðleiksmaður á ljóð og sögur og áhugamaður um lífsins gleðigjafir. Hann byrjaði nýja árið á háu nótunum og fagnaði áttræðisafmæli sínu hinn 15. janúar með pompi og prakt.

Ragnar Ingi umbreytti lífi sínu með hreinu mataræði og hreyfingu fyrir nokkrum áratugum og heldur nú fullur tilhlökkunar inn í nýjan tug og þakkar lífsstíl án dýraafurða, sykurs, koffíns og áfengis fyrir heilsu sína og vellíðan og segir það bestu afmælisgjöfina.

Ekkert að hægja á sér

Ragnar Ingi, menntaður bragfræðingur, hefur komið víða við á langri starfsævi og miðlað þekkingu sinni til nemenda í fjöldamörg ár. Hann starfaði sem aðjunkt eða eins og hann kýs að kalla það „kennsluþræll“ við Háskóla Íslands í 12 ár ásamt eiginkonu sinni, Sigurlínu Davíðsdóttur, fyrrverandi prófessor við félagsvísinda- og síðar menntavísindadeild, en hjónin kenndu við sömu deild síðustu árin.

Í dag starfar Ragnar Ingi sem ritstjóri. Hann gefur úr tímaritið Stuðlaberg, helgað hefðbundinni ljóðlist og bragfræði. „Ég hef ógurlega gaman af þessu og þetta hjálpar að halda heilanum skörpum,“ segir hann, en Ragnar Ingi hefur engin áform um að setjast í helgan stein né hægja á sér á næstunni, enda í toppformi, líkamlega og andlega.

Hann gerðist grænkeri á miðjum áttunda áratugnum og hefur ekki brugðið út af vananum síðan, ef svo má segja, enda sjálfsagður þverþaus.

Hvað varð til þess að þú gerðist grænkeri?

„Ég hafði lengi haft það á tilfinningunni að þetta væri betra fyrir mig og við hjónin ákváðum að stökkva á vagninn og það var vorið 1985. Við vorum bæði komin með nóg af neyslu dýraafurða og hef ég hvorki bragðað á kjöti né öðrum dýraafurðum síðan. Eiginkonan hefur aðeins farið aftur í fiskinn en sjálfur hef ég verið mjög harður og kýs aðeins að borða það sem er hollast fyrir mann og hef nú þróað með mér hálfgerða dellu,“ segir hann og hlær.

Þrátt fyrir að vera grænkeri til margra ára viðurkennir Ragnar Ingi að þekkja ekki alveg muninn þegar kemur að grænkera og grænmetisætu. „Ég verð bara að viðurkenna að ég man aldrei hvað þetta þýðir. Hvenær er maður grænkeri? Og hvenær er maður grænmetisæta? Ég veit bara að ég borða ekki kjöt, fisk og engar dýraafurðir og hef ekki gert í áraraðir.“ 

Lærði mikilvæga lexíu í meðferð

Ragnar Ingi kvaddi ekki aðeins kjöt, fisk og aðrar dýraafurðir fyrir tæplega 40 árum heldur tók hann einnig þá ákvörðun að gefa sykur, koffín og áfengi alfarið upp á bátinn og sér hann sko alls ekki eftir því. „Ég hef ekki borðað sykurkorn í nærri 40 ár, ekki eitt korn, og geri aldrei undantekningar á því,“ segir hann.

Ekki einu sinni á afmælisdaginn?

„Drottinn minn dýri! Fara þannig með mig á afmælisdaginn, ég ætti nú ekki annað eftir.“

Ragnar Ingi glímdi við alkóhólisma sem ungur maður og fór í meðferð 35 ára gamall. Þar lærði hann mikilvæga lexíu sem hefur fylgt honum alla tíð síðan. „Ég drakk eins og „idjót“ og hafði enga stjórn á sjálfum mér, en svo lærði ég bara að hætta því og að hætta að hugsa um það og hef ekki bragðað dropa síðan,“ útskýrir Ragnar Ingi, sem beitti sömu aðferð þegar hann tók sykur úr mataræðinu.

„Ég var bölvaður sykurfíkill, alltaf að éta sætindi, þar til ég hætti alveg að smakka sykur. Í dag er ég búinn að gleyma hvernig bragðið er af honum og geri aldrei neina einustu undantekningu. Sykur er óhollur og bara bölvaður óþverri.“

Ragnar fagnaði áttræðisafmæli nýverið.
Ragnar fagnaði áttræðisafmæli nýverið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hefurðu einhverja slæma ávana?

„Nei, ég er búinn að losa mig við þá alla og held bara mínu striki. Mér líður svo vel í líkamanum og finnst ég ekki vera gamall maður.“

„Ekki borðað soðinn matarbita í yfir 20 ár“

Ragnar Ingi steig skrefinu lengra eftir mörg ár sem grænkeri þegar hann byrjaði að borða einungis hráfæði, en það er jurtafæði sem borðað er óeldað. „Ég hef ekki borðað soðinn matarbita í yfir 20 ár. Ég borða aldrei neitt sem er steikt eða soðið. Það var rosalega góð viðbót þegar ég fór út í það að borða matinn eins og hann kemur fyrir frá náttúrunnar hendi.“

Hvað er í uppáhaldi hjá þér að borða?

„Ég borða mikið brauð. Við hjónin búum til dásamlegt brauð sem við þurrkum úr maís og hörfræjum sem okkur þykir báðum mjög gott. Við erum líka dugleg að borða avókadó, rótarávexti, eggaldin og hnetur, þá sérstaklega kasjúhnetur sem eru afskaplega hollar og bragðgóðar.“

Örugglega yngstur í aldursflokknum

Hreyfing er stór hluti af lífi Ragnars Inga, enda lengi verið sagt að regluleg hreyfing geti lengt líf okkar og aukið lífsgæði. Hann er duglegur að finna leiðir til að styrkja líkamann en gefur sér einnig tíma á hverjum degi til að rækta andlega vellíðan, en hann hefur stundað jóga árum saman. „Ég er mikill hlaupakall og hef hlaupið maraþon og fleiri götuhlaup en síðan eru liðin nokkur ár,“ segir Ragnar Ingi, sem ætlar sér að komast á fulla ferð aftur í útihlaupunum og er bjartsýnn á nýja aldursflokkinn, 80 til 90 ára, þar sem hann telur sig örugglega yngsta þátttakandann.

„Ég er ekki með stór áform um að vinna einhverja verðlaunapeninga en maður er bara með í þessu á meðan maður er og getur,“ útskýrir hann, en Ragnar Ingi stefnir á þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu þar sem hann hyggst hlaupa 10 kílómetra.

Hvað gerirðu á hverjum degi til að viðhalda bæði líkamlegri og andlegri heilsu?

„Ég er í jóga. Ég æfi jóga alla daga, alltaf. Ég stunda jóga heima og er einnig hluti af hópi sem stundar jóga saman. Jógaæfingar þjálfa heilann og minnið, það er ekki nóg að þjálfa bara skrokkinn.“

Hvenær byrjaðirðu að stunda jóga?

„Það eru að verða 36 ár síðan. Ég byrjaði árið 1988 að stunda jóga, fyrir alvöru.“

Ein í lokin, hvernig er að vera kominn á níræðisaldur?

„Þetta er bara dásamlegt. Ég vitna bara í Hákon bróður minn þegar hann varð sjötugur og var spurður að því hvort honum þætti ekki leiðinlegt að vera orðinn svona gamall. Þá sagði hann: „Nei, annars væri ég dauður.“

mbl.is