„Það eru læti í mér og það virðist heilla fullt af æfingaþyrstu fólki“

Framakonur | 29. október 2023

„Það eru læti í mér og það virðist heilla fullt af æfingaþyrstu fólki“

Jenný Ósk Þórðardóttir er gædd einstökum persónutöfrum sem hafa hjálpað henni að blómstra í starfi, bæði sem grunnskólakennari og hóptímakennari hjá líkamsræktarstöðinni World Class. Hún heillar alla upp úr skónum við fyrstu kynni enda ástríðufull, gefandi, hjálpsöm, hvetjandi og með smitandi gleði og orku.  

„Það eru læti í mér og það virðist heilla fullt af æfingaþyrstu fólki“

Framakonur | 29. október 2023

Jenný Ósk er vön að halda mörgum boltum á lofti. …
Jenný Ósk er vön að halda mörgum boltum á lofti. Hún er móðir tveggja ára stúlku, grunnskólakennari í Álftamýrarskóla og með vinsælustu hópatímakennurum World Class. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jenný Ósk Þórðardóttir er gædd einstökum persónutöfrum sem hafa hjálpað henni að blómstra í starfi, bæði sem grunnskólakennari og hóptímakennari hjá líkamsræktarstöðinni World Class. Hún heillar alla upp úr skónum við fyrstu kynni enda ástríðufull, gefandi, hjálpsöm, hvetjandi og með smitandi gleði og orku.  

Jenný Ósk Þórðardóttir er gædd einstökum persónutöfrum sem hafa hjálpað henni að blómstra í starfi, bæði sem grunnskólakennari og hóptímakennari hjá líkamsræktarstöðinni World Class. Hún heillar alla upp úr skónum við fyrstu kynni enda ástríðufull, gefandi, hjálpsöm, hvetjandi og með smitandi gleði og orku.  

Jenný Ósk er fædd og uppalin í Þorlákshöfn og ein af sex systkinum. Hún fluttist ásamt foreldrum sínum og yngri bróður til Reykjavíkur, í Árbæinn, þegar hún var 12 ára gömul og kallar sig Árbæing í húð og hár. 

„Ég hef alltaf verið mjög aktíf“

„Ég var alltaf mjög aktífur krakki og hef æft flestallar íþróttir undir sólinni. Ég er fædd og uppalin í Þorlákshöfn og á uppvaxtarárunum var ekki mikið um tölvur og síma og þurfti hver og einn því að virkja sitt eigið hugmyndaflug. Eftir skóla og æfingar lá leiðin beinustu leið út á leikvöll með krökkunum í nágrenninu og þar var maður fram að háttatíma,“ segir Jenný Ósk. 

Hvenær vaknaði áhugi þinn á hreyfingu? 

„Ég fékk snemma gífurlegan áhuga á heilsurækt og heilbrigðu líferni. Í 9. bekk byrjaði ég að stunda spinning af kappi og mætti í tíma eldsnemma á morgnana, fyrir skóladaginn. Ef ég missti af spinning tíma þá fór ég í líkamsræktarsalinn og tók vel á því þar. Umhverfið talaði mikið til mín, mér leið ótrúlega vel og þrátt fyrir að vera aðeins á unglingsaldri var ég þarna farin að hugsa um þetta sem framtíðarstarfsgrein,“ útskýrir Jenný Ósk. 

Eftir grunnskóla lá leið hennar í Borgarholtsskóla þar sem hún kynntist íþróttakennara sem átti eftir að hafa mikil áhrif á hana og framtíð hennar. „Ég vildi verða alveg eins og hún,“ segir hún. Eftir útskrift skráði hún sig rakleiðis í Íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Hún naut námsáranna og fann strax að nú væri hún á réttri hillu. „Skömmu eftir útskrift fékk ég vinnu sem íþrótta- og sundkennari í Álftamýrarskóla og er ég þar enn í dag. Á síðasta ári ákvað ég að vísu að breyta aðeins um stefnu og fékk það frábæra tækifæri að gerast umsjónarkennari í sama skóla og kenni í dag nemendum í 2. bekk,“ segir hún. 

Jenný hefur kennt við góðan orðstír í World Class.
Jenný hefur kennt við góðan orðstír í World Class. Ljósmynd/Jenný Ósk Þórðardóttir

Af hverju gerðist þú þjálfari? 

„Ég hef alltaf verið mjög aktíf en þegar ég komst á unglingsárin fór ég að finna fyrir leiða að vera að æfa hefðbundnar íþróttir. Foreldrar mínir studdu það og vildu hjálpa og keyptu því líkamsræktarkort fyrir mig svo ég fengi tækifæri til að kynnast fleiri hliðum hreyfingar. Það var þá sem ég fór hægt og bítandi að heillast af lífinu á líkamsræktarstöðvum og er ég jafn heilluð, ef ekki heillaðri í dag,“ útskýrir Jenný Ósk. 

„Ég gleymi aldrei augnablikinu þegar ég var í spinning tíma og fékk einhvers konar hugljómun og hugsa: Vá, ég ætla að gera þetta, nákvæmlega þetta. Og nokkrum árum seinna sat ég á fremsta hjólinu að kenna minn fyrsta spinning tíma og eftir það fór boltinn rúlla,“ segir hún, en Jenný Ósk hefur starfað sem þjálfari og hóptímakennari á hinum ýmsu líkamsræktarstöðvum frá árinu 2012. 

„Maður fer í karakter“

Aðspurð segir Jenný fyrstu þjálfunartímana hafa verið stressandi en mikilvægan hluta af lærdómsferlinu. „Það var smá stress í fyrstu en ekkert annað í stöðunni en að setja undir sig hausinn, bretta upp ermarnar og hrista þetta af sér,“ segir hún. 

„Ég er opin að eðlisfari og vil virkilega gefa af mér. Það er mikilvægt fyrir mig, en ég fann að það sem gerðist þegar ég byrjaði að þjálfa var að ég fór í karakter. Maður fer í karakter, ég verð Jenný Ósk þjálfari,“ útskýrir Jenný Ósk.

„Ég er sjálfstæð, skynsöm, skipulögð, hvatvís og hávær,“ segir hún …
„Ég er sjálfstæð, skynsöm, skipulögð, hvatvís og hávær,“ segir hún og hlær. „Það þekkja allir sem koma í tíma til mín, haha.“ mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað er mikilvægast þegar kemur að því að þjálfa?

„Mér finnst mikilvægast að gefa sér tíma fyrir kúnnann, hvort sem hann er vanur að mæta eða ekki. Það skiptir mig miklu máli að mynda tengsl, læra nöfnin og búa til þægilegt andrúmsloft, það skiptir heilmiklu máli. Ég reyni oft að hugsa um hvern tíma sem minn síðasta og legg mig því 100% fram í verkefnið hverju sinni,“ segir hún. 

Getur þú kennt hvaða líkamsræktartíma sem er?

„Nei, alls ekki. Ég er aðallega að kenna spinning og fjölbreytta styrktartíma í heitum og köldum sölum. Þeir sem þekkja mig vel vita að ég hef mjög litla þolinmæði fyrir bæði jóga og Zumba,“ segir Jenný Ósk og hlær. 

„Sjálf er ég bullandi ofvirk og hvatvís“

Jenný Ósk er með vinsælustu hóptímakennurum World Class og kennir meðal annars spinning, Power Fit og hina fjölsóttu Hot Fit í Efra-Breiðholti. Aðdáendur hennar bíða í löngum röðum, bæði á netheimum og í raunheimum, eftir plássi í þá tíma í hverri viku og eru tugir manna á biðlista fyrir hvern tíma. 

„Ég veit ekki hvað olli þessari brjáluðu sprengju og get ómögulega sagt til um það af hverju, þetta gerðist bara allt í einu. Sjálf er ég bullandi ofvirk og hvatvís. Það eru læti í mér og það virðist heilla fullt af æfingaþyrstu fólki,“ segir Jenný Ósk og hlær. 

Jenný Ósk er móðir hinnar tveggja ára gömlu Emmu Lóu.
Jenný Ósk er móðir hinnar tveggja ára gömlu Emmu Lóu. Ljósmynd/Jenný Ósk Þórðardóttir

Hvernig færðu fólk til að mæta?

„Það skiptir máli að hafa tímana lifandi og skemmtilega ásamt því að gefa öllum sitt pláss. Ég reyni alltaf að spjalla við fólk, enda spjallglöð að eðlisfari, og að vera öllum til taks,“ segir hún.

„Reglulega held ég þrususkemmtileg þemakvöld, með mismunandi tónlistarþemu. Þau koma fólki ávallt í rétta gírinn en þá er ég með þema og spila t.d. þjóðhátíðartónlist, diskótónlist eða lög sálardrottningar. Ég get með sanni sagt að þessir tímar hafa slegið í gegn enda alltaf með góð þemu,“ segir Jenný Ósk, sem greinilega kann að ná upp góðri stemningu. En þrátt fyrir að velja fjölbreytta tónlist og tímabil þá er ólíklegt að lög sænsku stuðsveitarinnar ABBA verði spiluð á næstunni en aðspurð segist Jenný Ósk vera meira Rammstein-megin í lífinu en ABBA-megin.

Hvernig byggir þú upp líkamsræktartíma?

„Þegar kemur að Hot Fit, þá vinn ég yfirleitt á tíma og í lotum. Mín reynsla er sú að það virki best bæði fyrir nýja kúnna og þá sem eru lengra komnir. Ég reyni ávallt að aðlaga tímana að öllum, það á engum að líða illa í líkamsrækt. Ég er tiltölulega nýbyrjuð með Power Fit í Egilshöll og er enn þá að kynnast þeim, en það er æðisleg viðbót við spinning og Hot Fit. Í þeim tímum finnst mér skipta mestu máli að hafa þá eins fjölbreytta og mögulegt er. Enginn tími er eins og reyni ég því að vinna með reynslubankann og hugmyndaflugið,“ útskýrir hún. 

Jenný Ósk er í sambandi með Gísla Rúnari Óskarssyni. Hér …
Jenný Ósk er í sambandi með Gísla Rúnari Óskarssyni. Hér eru þau með dóttur sína nýfædda. Ljósmynd/Sara Andrea Photography

„Öðruvísi álag og áherslur“

Góðir kennarar eru gulls ígildi og geta haft ómæld áhrif á líf nemenda sinna, en flest eigum við einn eða fleiri slíka sem við hugsum aftur til með miklu þakklæti og hlýju. Það var íþróttakennari Jennýjar Óskar úr Borgarholtsskóla sem kynti óafvitandi undir ástríðu hennar fyrir bæði kennslu og þjálfun. 

„Innblásturinn kom frá Borgarholtsskóla en ég hef samt einhvern veginn alltaf vitað að ég væri fædd til að vera íþrótta- og sundkennari. Í dag er ég umsjónarkennari í 2. bekk og tel mig ekki síðri á því sviði,“ útskýrir hún. 

Hvað finnst þér skemmtilegast við kennsluna?

„Það er að fá að kynnast öllum dásamlegu börnunum og foreldrum þeirra. Ég er svo heppin að starfa í grunnskóla þar sem skólastjórnendur og samstarfsfólk eru öll af vilja gerð að aðstoða hvert annað. Svo er ég óendanlega þakklát fyrir samstarfskonu mína, Árdísi Huldu Stefánsdóttur, sem hefur kennt mér heilmargt og styrkt mig sem umsjónarkennara frá því ég tók við stöðunni, enda er umsjónarkennslan ekkert grín,“ segir Jenný Ósk.

Jenný Ósk segist gerð til að kenna og þjálfa.
Jenný Ósk segist gerð til að kenna og þjálfa. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðspurð segir hún margt líkt með kennslunni og líkamsþjálfuninni. „Já, heldur betur. Í kennslunni erum við alltaf að þjálfa og æfa heilann til þess að læra eitthvað nýtt og taka við upplýsingum. Í þjálfuninni er fólk að mæta til að hreyfa sig og bæta andlega heilsu og vellíðan. Sjálfri finnst mér þetta vera mjög líkt,“ útskýrir hún. 

Nýtist þjálfaraeðlið þér í kennslunni?

„Já, það kemur með reynslunni. Fyrst þegar ég byrjaði að kenna, bæði sem íþróttakennari og umsjónarkennari, þá var fyrsta árið erfitt. Það er mikilvægt að gefa þessu tíma, læra af reynslunni, reynslu annarra og finna út hvað hentar þér og hvað það er sem lætur þér líða vel í starfi,“ segir hún. 

„Alltaf á fleygiferð“

Jenný Ósk lætur fátt stoppa sig en hún bæði kenndi og þjálfaði fram að 36. viku meðgöngu árið 2021 og sinnir í dag tveimur störfum með ríku fjölskyldulífi. Hún eignaðist dóttur sína, Emmu Lóu, með sambýlismanni sínum, Gísla Rúnari Óskarssyni, og nýtur því tímans með fjölskyldunni þegar hún er ekki í skólastofunni eða æfingasalnum og segir það oft taka á að þjálfa eftir fullan skóladag. 

Jenný Ósk kenndi og þjálfaði fram að 36. viku meðgöngu.
Jenný Ósk kenndi og þjálfaði fram að 36. viku meðgöngu. Ljósmynd/Jenný Ósk Þórðardóttir

„Jú, það getur svo sannarlega tekið á og sérstaklega þegar maður á fjölskyldu. Ég er þannig gerð að ég þarf alltaf að hafa nóg fyrir stafni og helst með tvo hluti í gangi í einu, alltaf á fleygiferð. Þá getur verið mjög gott að eiga góðan og skilningsríkan mann sem ég er svo ofsalega lukkuleg að eiga,“ segir hún, en Jenný Ósk og Gísli Rúnar tækla fjölskyldulífið og uppeldi dóttur sinnar ávallt í sameiningu og takast á við það súra og sæta sem lífið hefur upp á að bjóða, hönd í hönd.  

Hvað uppgötvaðir þú síðast um sjálfa þig? 

„Ég hef alltaf verið mjög skipulögð, sérstaklega þegar kemur að vinnu og þjálfun, og hef alltaf þurft að ljúka öllu um leið. Ég hef loksins lært að ef mér tekst ekki að klára einhver verkefni í dag, þá kemur annar dagur á morgun. Þetta reddast allt á endanum.“

mbl.is