Ekki tíminn til að leggja árar í bát

Framakonur | 22. október 2023

Ekki tíminn til að leggja árar í bát

Hárkollu- og förðunarmeistarinn Gréta Boða fer sínar eigin leiðir í lífinu. Hún þótti sérstakur unglingur þegar hún valdi að moka hrossaskít í gamalli svínastíu frekar en að hanga í sjoppunni, en nú er stelpan í skítagallanum eini förðunarmeistari Chanel á Íslandi. Hún fagnaði nýverið sjötugsafmæli sínu en ætlar ekki að hætta að vinna. Krafturinn í Grétu kom henni meðal annars í gegnum fráfall eiginmanns hennar fyrir tveimur og hálfu ári.

Ekki tíminn til að leggja árar í bát

Framakonur | 22. október 2023

Gréta Boða, förðunarmeistari Chanel á Íslandi, er nýorðin sjötug. Það …
Gréta Boða, förðunarmeistari Chanel á Íslandi, er nýorðin sjötug. Það reyndi á styrk Grétu þegar eiginmaður hennar féll frá fyrir nokkrum árum en hún lærði það í hesthúsinu sem ung stúlka að það þýðir ekki að gefast upp og hætta. mbl.is/Árni Sæberg

Hárkollu- og förðunarmeistarinn Gréta Boða fer sínar eigin leiðir í lífinu. Hún þótti sérstakur unglingur þegar hún valdi að moka hrossaskít í gamalli svínastíu frekar en að hanga í sjoppunni, en nú er stelpan í skítagallanum eini förðunarmeistari Chanel á Íslandi. Hún fagnaði nýverið sjötugsafmæli sínu en ætlar ekki að hætta að vinna. Krafturinn í Grétu kom henni meðal annars í gegnum fráfall eiginmanns hennar fyrir tveimur og hálfu ári.

Hárkollu- og förðunarmeistarinn Gréta Boða fer sínar eigin leiðir í lífinu. Hún þótti sérstakur unglingur þegar hún valdi að moka hrossaskít í gamalli svínastíu frekar en að hanga í sjoppunni, en nú er stelpan í skítagallanum eini förðunarmeistari Chanel á Íslandi. Hún fagnaði nýverið sjötugsafmæli sínu en ætlar ekki að hætta að vinna. Krafturinn í Grétu kom henni meðal annars í gegnum fráfall eiginmanns hennar fyrir tveimur og hálfu ári.

„Fyrst ætlaði ég að verða myndlistarkona. Ég held að það hafi hjálpað mikið í minni vinnu í dag. Ég horfi á litaflæði öðruvísi en margir aðrir,“ segir Gréta sem fékk nemasamning hjá Þjóðleikhúsinu eftir að hún hafði reynt fyrir sér í myndlistarskóla og sem reiðkennari í Hollandi.

Gréta hafði kynnst hraðanum í leikhúsinu vel sem barn en hún var í ballett í Þjóðleikhúsinu og tók þátt í barnaleikritum. „Við þurftum að setja á okkur nef í búningaskiptum og allt í einu var ég farin að mála stelpurnar í hraðskiptingum tíu ára. Þetta lá vel fyrir mér,“ segir Gréta. „Sem barn lék ég í Dýrunum í Hálsaskógi. Margrét Matthíasdóttir var þá að hefja sinn feril sem hárkollu- og förðunarmeistari. Þarna kynntist ég henni og bauðst mér síðan, eftir að ég hafði lokið gagnfræðaprófi, samningur við Þjóðleikhúsið. Hóf ég þarna þriggja ára nám í greininni sem var í tengslum við skóla í Bretlandi. Í Dýrunum í Hálsaskógi var ég fyrsta barnið sem hún sminkaði þegar hún var að byrja námið sitt,“ segir Gréta um hvernig lífið fer stundum í hringi. Gréta hætti í Þjóðleikhúsinu þegar hún átti von á sínu öðru barni árið 1984. Hún færði sig meira yfir í förðun fyrir sjónvarp, kvikmyndir og fleira en hætti aldrei alveg í leikhúsinu. Enn leynast mörg gervi Ladda heima hjá Grétu sem notuð voru í afmælissýningu hans í Borgarleikhúsinu.

Gréta segist kunna að njóta þess að fara í leikhús og horfa á kvikmyndir en hún er þó líka gagnrýnin á það sem betur mætti fara. „Mér finnst fagið hafa farið niður á við. Það er enginn sérmenntaður eftir langt nám. Núna lærir fólk þetta a YouTube,“ segir Gréta og bendir á að nú sé venjulegur dagfarði mikið notaður í sjónvarpi og leikhúsi í staðinn fyrir sérstakan farða fyrir svið og myndavélar.

Gréta Boða þótti sérstakur unglingur þegar hún valdi að moka …
Gréta Boða þótti sérstakur unglingur þegar hún valdi að moka hrossaskít í gamalli svínastíu frekar en að hanga í sjoppunni, en nú er stelpan í skítagallanum eini förðunarmeistari Chanel á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Er þakklát englunum sínum

Þegar einar dyr lokast opnast aðrar og það þekkir Gréta sem starfaði á Stöð 2 á fyrstu árum stöðvarinnar. „Ég fór í smá frí vegna veikinda eiginmanns míns og þegar ég kom til baka voru stúlkur sem ég var með í vinnu búnar að undirbjóða mig. En ég er þakklát englunum mínum fyrir það í dag, því annars væri ég ef til vill ennþá þar. Ég væri ekki búin að fá alla þessa lífsreynslu og hitta allt þetta fólk sem ég hef hitt í gegnum tíðina,“ segir Gréta sem fór meðal annars að vinna við að kynna snyrtivörur og til að byrja með kynnti hún vörur frá Yves Saint Laurent.

Seinna byrjaði Gréta að kynna vörur Guerlain en Chanel hefur verið hennar merki síðan það kom aftur á markað á Íslandi í kringum aldamót. „Ég var að taka upp auglýsingu úti á Granda og hljóp á klósettið í heildverslun þar sem ég hafði komið stundum við og verslað. Þá kom í ljós að ég gat fengið vinnu þar. Ég hef aldrei sótt um vinnu! Ég fór þá að vinna fyrir Guerlain og svo fékk þessi heildsala Chanel sem hafði ekki verið til á Íslandi í mörg ár. Ég var mjög heppin að fá þetta tækifæri og að þetta hefur verið barnið mitt frá upphafi.“

Ekki hræðast liti

Gréta er eini Chanel-förðunarmeistarinn á Íslandi. Í því felst meðal annars að hún ferðast til Parísar og heimsækir Chanel tvisvar á ári og kynnir sér hvað er að gerast og hvað hægt er að gera skemmtilegt með vörunum sem eru til. Stór hluti af starfinu fer fram á gólfinu í búðunum. „Konur hafa elt mig í yfir 20 ár. Það er alveg sama hvaða merki ég er að kynna, konurnar sem keyptu YSL af mér eru enn kúnnarnir mínir. Þær segja oft að þær geti ekki keypt varalit eða meik nema ég segi þeim hvað þær eigi að kaupa. Þær hringja í mig og spyrja hvar ég sé. Ég væri ekki í þessu starfi ef það væri ekki gefandi,“ segir Gréta. Meðal þeirra kvenna sem notuðu þjónustu Grétu er frú Vigdís Finnbogadóttir. Í forsetatíð sinni treysti hún Grétu fyrir útliti sínu.

Gréta segir margar konur fara í gegnum lífið með vitlausan farða eða varalit. „Konur eru oft hræddar við að vera áberandi. Ég segi stundum: „Þú ert meira áberandi þegar þú ert með vitlausa liti.“ Ég tek oft dæmi um vinkonu mína sem vildi aldrei láta bera mikið á sér, hún var alltaf í einhverjum beislituðum litleysum svo hún myndi falla betur inn í veggina í skólanum. Svo fór hún út í lífið og fór í litgreiningu og uppgötvaði að hún var meira áberandi í þessum litleysum en í réttu litunum.“

Sjálf klæðist Gréta alltaf fallegum litum og sjaldan svörtu. Hún segir alla geta gengið í litum. „Þú finnur að þér líður vel í einhverju sem klæðir þig vel. Þú ert kannski þreytt en þú tekur þreytuna af þér hvort sem það er með fötum eða með nýjum varalit,“ segir Gréta og segir hluta af því að bera virðingu fyrir sjálfri sér vera að hafa sig til áður en hún fer í vinnuna.

Gaukur og Gréta fóru ríðandi frá kirkju úr Hafnarfirði í …
Gaukur og Gréta fóru ríðandi frá kirkju úr Hafnarfirði í Garðabæinn þegar þau gengu í hjónaband á sínum tíma. Gestirnir keyrðu á eftir þeim.

Hestamennskan miðjan í hjónabandinu

Gréta er margverðlaunaður knapi. Hún keppir á hestum sem hún ræktar sjálf. Þá klæðist hún bleikum jakka og skartar rauðum varalit sem er nokkuð óvenjulegt. Hestamennskan hefur verið ein stærsta ástríða Grétu frá því hún var lítil stelpa. „Ég var aldrei í sveit en ég elskaði dýr. Fyrir fermingarpeningana ákvað ég að kaupa mér hest. Pabbi fór á stúfana og fann hest fyrir mig. Ég vissi varla hvernig ég átti að leggja hnakkinn á. Um veturinn fékk ég að hafa hestinn í gamalli svínastíu. Ég þurfti að fara út í læk og sækja vatn af því það var ekki vatn í svínastíunni. Þetta þroskaði mig. Það hefði verið auðvelt að hætta. Ég þótti öðruvísi. Krakkarnir í skólanum söfnuðust saman í sjoppunni á kvöldin en ég var bara í hesthúsinu,“ segir Gréta.

Gréta kynntist eiginmanni sínum Sveini Gauki Jónssyni í hestamennskunni en þau voru saman í 46 ár. Líf fjölskyldunnar snerist um hestamennskuna og í dag sér dóttir þeirra Bylgja um ræktun fjölskyldunnar. Brúðkaup Grétu og Gauks var með hestaþema. „Ég var alltaf ákveðin í því að ríða úr kirkju eftir brúðkaupið. Ég hafði keypt reiðhatt sem brúðarhatt. Það vissi eiginlega enginn af þessu og fólk var hissa. Ég var sett í söðulinn og við riðum frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði og heim í Garðabæinn og bílalestin á eftir okkur.“ Þegar Gaukur var jarðaður árið 2021 fékk hún vini sína til að fara á hestum þeirra fyrir líkfylgdinni upp í kirkjugarð.

Hélt áfram fyrir þau bæði

„Gaukur var 33 ára þegar hann fékk krabbamein og þá vorum við með þrjú lítil börn, það yngsta tveggja ára. Ég stoppaði fyrir utan Landspítalann til að sækja hann og hann kom út í bíl og sagði mér að hann væri með krabbamein. Það var engin aðstoð á þeim tíma. Sem betur fer gekk það yfir á nokkrum árum en hann var veikur í mörg ár,“ segir Gréta sem var oft aðalfyrirvinnan á heimilinu. Það voru þó ekki þessi veikindi sem urðu til þess að hann hvarf of snemma frá fjölskyldunni.

„Við vorum á æfingu á föstudagskvöldi fyrir hestakeppni Suðurlandsdeildarinnar á Hellu. Við áttum að keppa á þriðjudegi. Við vorum með barnabarnið með okkur í næturpössun. Þá um nóttina vaknaði ég við stunurnar frá honum og þar dó hann eiginlega í höndunum á mér. Svoleiðis er lífið, þetta var hjartastopp. Hann dó aðfaranótt laugardags og keppnin var austur á Hellu á þriðjudeginum og ég fór og keppti. Hann var alltaf tilbúinn að keyra mig og vesenast með mér. Við vorum búin að leggja mikla vinnu á okkur. Mér fannst ég vera að svíkja mig og hann ef ég keppti ekki, ekki að standa með sjálfri mér. Þetta var eitthvað sem ég þurfti að gera. Ég hélt líka áfram að keppa um veturinn, keyrði þá bara ein með kerruna.“

Gréta er margverðlaunaður knapi en hún keppir alltaf í bleikum …
Gréta er margverðlaunaður knapi en hún keppir alltaf í bleikum jakka.

Mikilvægt að eiga góða að

Gréta segist finna fyrir söknuði og tómarúmi eftir að hún missti manninn sinn en þau voru mjög samheldin. Hún segir skrítið að fara ekki alltaf upp í hesthús eftir vinnu með honum eða elda mat á kvöldin. Það þýðir samt ekkert að gefast upp og það hjálpar að halda í hestamennskuna og eiga stóra og góða fjölskyldu.

Hvað gerðir þú til að vinna þig í gegnum sorgina?

„Ég veit eiginlega ekki hvernig ég fór að en það þýðir ekkert að setjast niður og sökkva sér í þunglyndi. Ég fór ekki til sálfræðings eða settist niður með presti en ég er samt mjög trúuð og tala við englana mína. Ég þekkti sorgina og hafði gengið í gegnum margt þegar Gaukur veiktist þegar hann var ungur. Ég á börn og barnabörn og svo hjálpuðu hestarnir mér mikið.

Mér finnst mjög mikilvægt að eiga gott tengslanet og góða vini sem halda utan um mann þegar maður tekst á við áföll. Það eru hjón sem eru yngri en ég sem hjálpuðu mér líka mikið, ég kalla þau fósturforeldra mína. Þau þekktu Gauk úr hestamennskunni en ég þekkti þau lítið fyrir andlát hans. Konan byrjaði að hringja og bjóða mér aðstoð sína. Hún bauð mér að vera hjá þeim í hesthúsinu og sá um að ég borðaði. Svo hef ég dætur mínar Bylgju og Hrönn og tengdasyni sem eru alltaf til staðar fyrir mig. Ég er þeim öllum ómetanlega þakklát. Það er einnig mikilvægt að fara út úr húsi og gera það sem maður nýtur, til dæmis stunda ég hestamennsku mína og fer reglulega í World Class,“ segir Gréta.

Gréta er náin föður sínum sem býr í næsta húsi, hann er 92 ára og í fullu fjöri. Hún segir föður sinn leggja áherslu á að það þýði ekki annað en að halda áfram og hún hefur farið eftir orðum hans og hefur nóg fyrir stafni. Gréta er búin að læra höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð en hún fann hvernig það hjálpaði henni eftir mörg hestaslys. Í dag miðlar hún þekkingu bæði til vina en líka til dýranna sinna og segir meðferðina virka vel á dýrin. „Áður fyrr hugsaði ég með mér að ég yrði ekki enn í snyrtivörubransanum sem þroskuð kona. En ég er ekki komin á þann stað að hætta,“ segir Gréta.

Gréta er ekki hætt að vinna og er enn að …
Gréta er ekki hætt að vinna og er enn að ráðleggja konum hvaða snyrtivörur þær eiga að velja mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is