„Hef alltaf þurft að gera meira en aðrir“

Framakonur | 15. október 2023

„Hef alltaf þurft að gera meira en aðrir“

Safa Jemai fluttist til Íslands frá Túnis aðeins 23 ára gömul, hún lærði hugbúnaðarverkfræði og nú sex árum síðar rekur hún tvö mjög ólík fyrirtæki. Annað selur krydd frá Túnis og hitt hjálpar fyrirtækjum að þróa hugbúnaðarlausnir svo fátt eitt sé nefnt. Safa segist gera allt af ástríðu. Henni finnst gefandi að byggja upp frá grunni, fá fólk með sér í lið og skapa störf. 

„Hef alltaf þurft að gera meira en aðrir“

Framakonur | 15. október 2023

Safa Jemai er 29 ára hugbúnaðarverkfræðingur. Hún fluttist til Íslands …
Safa Jemai er 29 ára hugbúnaðarverkfræðingur. Hún fluttist til Íslands 23 ára að aldri og rekur nú tvö fyrirtæki sem eru að gera góða hluti. Ljósmynd/Aðsend

Safa Jemai fluttist til Íslands frá Túnis aðeins 23 ára gömul, hún lærði hugbúnaðarverkfræði og nú sex árum síðar rekur hún tvö mjög ólík fyrirtæki. Annað selur krydd frá Túnis og hitt hjálpar fyrirtækjum að þróa hugbúnaðarlausnir svo fátt eitt sé nefnt. Safa segist gera allt af ástríðu. Henni finnst gefandi að byggja upp frá grunni, fá fólk með sér í lið og skapa störf. 

Safa Jemai fluttist til Íslands frá Túnis aðeins 23 ára gömul, hún lærði hugbúnaðarverkfræði og nú sex árum síðar rekur hún tvö mjög ólík fyrirtæki. Annað selur krydd frá Túnis og hitt hjálpar fyrirtækjum að þróa hugbúnaðarlausnir svo fátt eitt sé nefnt. Safa segist gera allt af ástríðu. Henni finnst gefandi að byggja upp frá grunni, fá fólk með sér í lið og skapa störf. 

Hlustaði á innsæi sitt og tók áhættu

Safa segist hafa komist á þennan stað í lífinu með því að forvitnast um hluti, hlusta á innsæið og taka áhættur. Hún hafi alltaf verið óhrædd við að prófa ólíkar leiðir í lífinu.

„Ævintýrið hófst þegar ég tók að mér sjálfboðastarf sem camp leader í Hveragerði og endaði með að verða svo hrifin af íslenskri náttúru að ég ákvað að flytja hingað og byrja allt frá grunni. Ég lærði íslensku í HÍ og vann með námi sem aðstoðarkona fyrir fatlaða stelpu. Í Túnis hafði ég lagt stund á hugbúnaðarverkfræði og ég ákvað að ljúka því námi hér á Íslandi. Eftir nám vann ég sem forritari í nokkrum íslenskum fyrirtækjum og stofnaði svo mitt fyrsta fyrirtæki, Mabrúka, og síðar stofnaði ég Víkonnekt,“ segir Safa.

Hágæða krydd og hugbúnaður

„Víkonnekt er nýsköpunar-hugbúnaðarfyrirtæki sem aðstoðar önnur fyrirtæki með að þróa og hanna hugbúnaðarlausnir eða fá forritara frá teymi okkar til skemmri eða lengri tíma. Við vinnum líka með fjárfestingarfélögum til að meta kóða hjá sprotafyrirtækjum sem þeir eru að skoða og búa til due diligence skjöl fyrir þau.“

„Mabrúka er hins vegar fyrirtæki sem býr til handgert hágæða og sólþurrkað krydd í Túnis. Mamma mín gerir allt frá grunni og nýlega réðum við tvær konur í viðbót. Markmiðið er að byggja brú á milli íslenskrar og túnískrar menningar í gegnum mat og á sama tíma styðja konur í Túnis með því að veita öruggan og þægilegan vinnustað. Mabrúka er nefnt eftir móður minni. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og við erum heppin að vinna með bestu veitingastöðum á Íslandi þar sem landsliðskokkar nota kryddin okkar. Við erum einnig að selja kryddin okkar fyrir einstaklinga í pappírspokum til áfyllingar og í handgerðum viðarkrukkum. Kryddin fást í Hagkaup, Melabúðinni og á heimasíðu okkar www.mabruka.is.“

Með sölu á hágæða kryddum styður Mabrúka við valdeflingu kvenna.
Með sölu á hágæða kryddum styður Mabrúka við valdeflingu kvenna. Ljósmynd/Aðsend

Krefjandi að fá fólk til þess að treysta sér

Aðspurð um þær helstu áskoranir sem hún þurfti að yfirstíga nefnir hún mikilvægi þess að kynnast íslenska samfélaginu og byggja upp tengslanet.

„Ég rek tvö fyrirtæki í tveimur mjög mismunandi geirum sem krefjast mjög ólíkrar þekkingar. Fyrsta áskorun var að kynnast betur íslenska samfélaginu og byggja upp tengslanetið mitt. Það er nauðsynlegt að þekkja umhverfið sitt mjög vel áður farið er af stað að leysa eitthvað vandamál.

Fyrstu tvö ár á Íslandi fóru í að kynnast íslenska matnum og bragðinu. Mér fannst gaman að nota íslenska hráefnið með túnísku kryddi. Það var eins og að blanda saman tveimur menningarheimum sem er magnað!

Varðandi Víkonnekt þá var aðallega krefjandi að fá fólk til þess að treysta mér, ungri konu af erlendum uppruna, til að þróa og byggja upp þeirra hugbúnað. Íslenska samfélagið er lítið og allir þekkjast þannig að það er algengt hér að vinna með fólki sem maður þekkir. Ég leit á þetta sem áskorun og hélt áfram að tala við aðra frumkvöðla til að fá fyrstu kúnnana. Eftir tvö ár erum við orðin 14 manns og búin að vinna með fleiri en 15 fyrirtækjum, bæði á Íslandi og í Evrópu.“

Hugbúnaðarfyrirtækið Víkonnekt hefur vaxið hratt á örfáum árum.
Hugbúnaðarfyrirtækið Víkonnekt hefur vaxið hratt á örfáum árum. Ljósmynd/Aðsend

Mikil samkeppni um sérfræðinga

„Ef fólk ætlar að ná langt í atvinnulífinu er mikilvægt að hafa opinn hug og fagna fjölbreytni. Teymið skipti miklu máli því þegar teymið vinnur vel saman þá gengur fyrirtækinu miklu betur. Það þarf líka að horfa á erlenda sérfræðingana með öðrum augum og hvetja þá til að taka þátt í íslenska vinnumarkaðnum.

Mörg lönd eru í samkeppni til að fá bestu sérfræðinga heimsins og það er okkar hlutverk sem stjórnmálamenn, frumkvöðlar og fjárfestar að byggja upp gott umhverfi fyrir þá svo að þeir vilji koma hingað og hjálpa okkur að gera Ísland að betra landi fyrir börnin okkar. Það ríkir mikil samkeppni um starfsmenn í hugbúnaðarbransanum og erfitt að halda þeim lengur en í eitt ár en forritarar skipta oftar um vinnu aðrir sérfræðingar. Þess vegna er mikilvægt að bjóða upp á skemmtilegan vinnustað og tryggja að allir séu sáttir í sínu hlutverki.“

Gefandi að skapa störf og hjálpa fólki

„Ég geri allt af ástríðu. Mér finnst gefandi að byrja með hugmynd, byggja upp hluti frá grunni, fá æðislegt fólk með sér í lið og vinna í verkefnum saman. Þá finnst mér það afar gefandi að skapa störf og hjálpa fólki og hef það að leiðarljósi í mínu starfi,“ segir Safa.

„Mér finnst það einnig dýrmætt að fá tækifæri til að tengja Túnis við Ísland og kynna þessum menningarheimum fyrir hvor öðrum. Það hefur aldrei gerst, að ég held, og er einstakt í sjálfu sér. Alla ævi hef ég staðið í trú um að ég hugsaði mest með vinstra heilahvelinu þar sem ég hafði alltaf lagt mikla áherslu á stærðfræði og eðlisfræði en síðar hefur það komið á daginn að ég er meira hægra megin - ég elska að skapa.“

Miklu meira en bara kryddfyrirtæki

„Mabrúka er meira en bara kryddfyrirtæki því það stendur fyrir valdeflingu kvenna, samfélagsábyrgð á sama tíma og það er kraumandi suðupottur mismunandi menningarheima, þar sem norðurafrísk menning blandast saman við norræna og íslenska menningu. Mabrúka er fyrirtæki sem er meðvitað um ábyrgð sína og lætur gott af sér leiða. Þetta er verkefni sprottið af ástríðu.“

Saga fyrirtækisins er afar áhugaverð.

„Mamma og pabbi voru komin á eftirlaun og það var svolítið erfitt fyrir þau að vera ekki að vinna. Með Mabrúku gat ég búið til störf fyrir bæði mömmu og pabba. Móðir mín sér um framleiðsluna og pabbi hjálpar með að finna hráefnið. Það er gefandi fyrir mig að sjá foreldra mína gera eitthvað sem þeim finnst skemmtilegt. Tilgangur Mabrúka var líka að skapa öruggan vinnustað fyrir konur í Túnis Bizerte. Við erum búin að ráða þrjár konur núna: tvær í framleiðslunni og ein sem er markaðsstjóri okkar.“

Með stofnun Mabrúku gat Safai skapað störf fyrir foreldra sína …
Með stofnun Mabrúku gat Safai skapað störf fyrir foreldra sína og fleiri konur í Túnis. Ljósmynd/Aðsend

Hefur alltaf þurft að gera meira en aðrir

„Sem kona af erlendum uppruna hef ég hef alltaf þurft að gera meira en aðrir til að sanna mig í samfélaginu en ég tek því aldrei sem eitthvað neikvætt heldur lít ég þetta jákvæðum augum. Ég elska að vera ólík öðrum og fagna því!“

„Það var mjög erfitt að stofna Mabrúka bæði á Íslandi og í Túnis en ég er heppin að eiga æðislega fjölskyldu sem styður mig í öllu sem ég tek mér fyrir hendur. Ég hefði ekki getað gert þetta ein. Þó maður sé að vinna mikið þá er líka mikilvægt að hafa stuðningskerfi og hafa það hugfast að þetta sé tímabundið og það komi tækifæri til að slaka á og njóta.“

Aðspurð um kvenfyrirmyndir kemur móðir Söfu fyrst upp í hugann. „Hún kenndi mér öll mín gildi í lífinu. Ég hef séð hana að gera mikið fyrir öll börn sín fjögur. Síðan var hún mjög dugleg bæði heima og í vinnunni. Hún byrjar daginn klukkan sex að morgni og klárar klukkan níu að kvöldi. Hún hvatti mig alltaf til að ná árangri í skóla og gera allt sem mig langar til að gera, eins og það að læra tölvunarfræði eða flytja til Íslands. Ég hugsa alltaf til hennar þegar ég er að fara gegnum erfiðar ástæður í lífinu og spyr hvað myndi mamma gera ef hún væri á sama stað og ég.“

Safa Jemai er öflug athafnakona.
Safa Jemai er öflug athafnakona. Kristinn Magnússon

Kaldar sturtur og Asana skipulagsforrit

Safa hefur tamið sér góðar rútínur til þess að takast á við annasama daga.

„Mér finnst mjög gott að fara snemma að sofa og vakna snemma. Ég byrja daginn með kaldri sturtu og æfingu í ræktinni en það hjálpar til við að stilla hugarfar mitt. Maður þarf að hafa sterkt hugfar í vinnunni til þess að ná að halda jafnvægi og gefa fólki sínu orku.“

„Dagurinn fer yfirleitt í það að skipuleggja ný verkefni, fygjast með öðrum verkefnum og funda með verkefnastjórum og viðskiptavinum. Ég nota Asana skipulagsforrit sem hjálpar mér að setja öll verkefni mín á sama stað og raða þeim eftir forgangsröð.“

Vinnur aldrei átta klukkustunda vinnudag

„Ég vinn aldrei hefðbundinn átta klukkustunda vinnudag frá níu til fimm. Sem frumkvöðull er það ekki hægt. Ég vinn með fólki og fyrirtækjum víða um heim og það er hluti af vinnunni að eiga samskipti við þau utan hins íslenska vinnutíma, stundum frá kl 05 til kl 22.“

„Þessi óreglulegi vinnutími var erfiðari þegar teymið var lítið og maður þurfti að ganga í öll störf sjálfur. Núna þarf ég til dæmis ekki lengur að hanna síðuna mína sjálf eða stýra teyminu dags daglega, en það er margt annað sem ég geri eins og að funda með viðskiptavinum bæði í Mabrúka og Víkonnekt og tryggja að þeir séu ánægðir. Svo á ég í stöðugum samskiptum við teymin til þess að vera viss um að allir skilji markmið okkar. Eins er mikilvægt að tryggja að allir í teyminu séu sáttir við hlutverk sín og líði vel í starfinu og fyrirtækinu.“

„En ég er svo heppin að ég elska vinnuna mína sem gerir það að verkum að mér líður nánast aldrei eins og ég sé að vinna. Þetta er ástríða mín!“

Fimm góð ráð frá Söfu:

1. Forgangsröðun er mikilvæg

„Það er ekki hægt að gera allt á sama tíma og segja já við öllu. Það er nauðsynlegt að hlusta á sjálfa sig og finna hvað mann langar til þess að gera. Ég lærði að það er gríðarlega mikilvægt að fylgja innsæinu með því að hlusta á innri röddina - hún veit hvað er best fyrir þig.“

2. Allt í lagi að missa jafnvægið um tíma

„Ég man þegar ég flutti til Íslands aðeins 23 ára gömul þá var allt svo nýtt og framandi að ég var smá týnd í byrjun. Ég vissi ekki hversu fast ég átti að halda í menningu mína og hversu forvitin ég mátti vera um íslenska menningu. Það var þetta jafnvægi sem tók tíma til að finna. Ég hefði viljað vita á þeim tíma að það er allt í lagi að missa jafnvægið um stund og svo finna það aftur.“

3. Verðum að njóta hverrar sekúndu

„Það er ekki hægt að horfa á annað fólk og bera sig saman við það og hugsa af hverju náði þessi manneskja að gera þetta á ungum aldri og ekki ég. Hver og einn á sitt eigið líf og eigin sögu. Við erum ólík og við upplifum mismunandi aðstæður. Þetta er vegferð og við verðum að njóta hverrar einnar sekúndu. Ég lærði að taka minn tíma til þess að byggja upp þekkingu mína skref fyrir skref.

4. Vera í kringum fólk sem hvetur mann áfram

„Ég hefði viljað vita að maður þarf ekki að eyða tíma til að passa inn í hóp sem samræmist ekki gildum mínum eða orkunni minni. Það er mikilvægt að velja vini sína vel og vera í kringum fólk sem lyftir þig upp og hvetur þig til dáða.“

5. Ekki eyða tíma í að hugsa um hvað öðru fólki finnst um þig

„Ég var alin upp í samfélagi þar sem maður þurfi alltaf að hugsa hvað aðrir myndu hugsa ef ég klæddist á ákveðinn hátt, gerði þetta eða segði hitt. Ég hataði það en var samt alltaf með þetta bak við eyrað. Þar til ég kenndi sjálfri mér að hætta þessu. Það eina sem skiptir máli er hvernig mér líður.“

mbl.is