Verkfræðingurinn Íris Dögg Kristmundsdóttir var hamhleypa til verka og í mörg ár keyrði hún sig áfram í vinnu og alls konar verkefnum, þar til hún loks rakst á vegg. Hún hafði ítrekað hunsað viðvaranir frá líkama sínum sem sagði henni að hægja á sér í hraða samfélagsins.
Verkfræðingurinn Íris Dögg Kristmundsdóttir var hamhleypa til verka og í mörg ár keyrði hún sig áfram í vinnu og alls konar verkefnum, þar til hún loks rakst á vegg. Hún hafði ítrekað hunsað viðvaranir frá líkama sínum sem sagði henni að hægja á sér í hraða samfélagsins.
Verkfræðingurinn Íris Dögg Kristmundsdóttir var hamhleypa til verka og í mörg ár keyrði hún sig áfram í vinnu og alls konar verkefnum, þar til hún loks rakst á vegg. Hún hafði ítrekað hunsað viðvaranir frá líkama sínum sem sagði henni að hægja á sér í hraða samfélagsins.
Írisi Dögg tókst að sækja sér hjálp í tæka tíð og hefur í dag náð að endurskapa og einfalda líf sitt til muna. Bataferlið var ekki auðvelt en það veitti henni litríka og skapandi gjöf. Hún uppgötvaði lífsástríðu sína, listmálun, og hefur hún málað hundruð málverka á síðustu árum, sér til ánægju og einnig til sölu.
„Það er oft talað um fólk, eins og mig, sem þrífst í vinnuumhverfi þar sem það ber ábyrgð á framkvæmd fjölbreyttra verkefna og er alltaf á fullu, hunsi viðvörunarbjöllurnar, sem ég gerði,“ segir Íris Dögg, sem stýrði upplýsingatæknisviði í banka hér á landi fyrir örfáum árum þegar hún fór að upplifa einkenni alvarlegrar örmögnunar.
Íris Dögg var heltekin af vinnu í langan tíma. Hún vann frá morgni til miðnættis, sinnti fjölskyldu sinni, eiginmanni og tveimur börnum, og gerði lítið til að auðvelda sér hlutina.
„Mér fannst fullkomlega eðlilegt að vera alltaf að vinna, fingurnir á lyklaborðinu, enginn hádegismatur og áframhaldandi vinna eftir að börnin voru böðuð og svæfð. Þetta var ryþminn minn,“ segir Íris Dögg, sem ætlaði sér að sigra heiminn, vinna sig upp metorðastigann í vinnunni ásamt því að tækla hlutverk ofurmömmu og ofurkonu.
Álagið fór að verða henni ofviða og veturinn 2019/2020 fóru hlutirnir smátt og smátt að breytast. Íris Dögg varð fyrir heilsubresti sökum álags, en staðan er sú að árlega hverfa margir af vinnumarkaði vegna hins sama og þurfa fyrir vikið að leita sér aðstoðar.
„Ég átti orðið mjög erfitt með svefn, líka einbeitingu og var farin að upplifa ýmiss önnur streitumynstur sem fylgja kulnun. Ég var einfaldlega föst í hamstrahjólinu og var bara alltaf á milljón,“ segir Íris Dögg.
„Það var svo í byrjun nóvembermánaðar að ég fór að fá svimaköst og í hvert sinn er ég hallaði mér út af hringsnerist allt og ég endaði á að missa jafnvægið,“ segir hún, en í kjölfarið fór hún til læknis og fékk þær upplýsingar að einkennin væru af völdum mikilla bólgna og vöðvafesta. „Læknirinn ráðlagði mér að taka strax veikindaleyfi frá vinnu þar sem þetta væru afleiðingar ofþreytu og álags og eina bjargráðið væri hvíld.“
Írisi Dögg þótti erfitt að heyra þetta frá lækninum og enn þá erfiðara að skilja og samþykkja ráðleggingu hans um leyfi úr vinnu enda voru fundir og verkefni á dagskrá og hálf ómögulegt fyrir stjórnanda að stíga til hliðar frá skyldum sínum. „Á þessum tíma var ég að stýra upplýsingasviði og kaus því að halda áfram að vinna, sem að sjálfsögðu reyndist röng ákvörðun, en það leiddi til þess að einkennin ágerðust og þau jukust. Ég festist í kjálkanum, fékk slæmar harðsperrur og fór einnig að finna fyrir hröðum og mjög óreglulegum hjartslætti yfir allan daginn, það eitt þótti mér mjög skrýtið og verulega óþægilegt enda hafði ég alltaf verið mjög hraust,“ segir hún.
„Ég hélt að sjálfsögðu áfram að mæta í vinnuna, en fór fljótlega að upplifa mig á staðnum en samt ekki, eins skrýtið og það kann að hljóma. Það var sem ég svifi yfir öllu og öllum, tilfinningin var nánast eins og ég væri dáin. Ég sat á fundi en ég var ekki á fundinum,“ segir Íris Dögg, sem ákvað á þessum tímapunkti að ræða við mannauðsstjóra fyrirtækisins enda hætt að þekkja sjálfa sig.
„Mannauðsstjórinn sýndi mér fullan skilning, leiðbeindi mér og kom mér að hjá aðila sem sérhæfir sig í vinnusálfræði. Það leið ekki á löngu þar til ég var mætt í fyrsta sálfræðitímann, en það var í lok nóvember. Þar fékk ég að heyra að ég væri útkeyrð og langt leidd í kulnun. Sálfræðingurinn sagði: „Ef þú ætlar þér ekki að enda illa þá þarftu að byrja hér og nú.“ Ég átti vart til aukatekið orð. Hann ráðlagði mér að „klukka mig út“ í þrjá mánuði og einbeita mér alfarið að sjálfri mér, næra mig bæði andlega og líkamlega.
Það fyrsta sem ég sagði var að ég gæti ómögulega verið frá vinnu í þetta langan tíma, þrjá mánuði, heilar 12 vikur! Hann samdi þá við mig um að taka þrjár vikur og þar sem þetta var það nálægt jólahátíðinni þá samþykkti ég að taka svokallað „hvíldarleyfi“ í þann tíma.“
Sálfræðingurinn ráðlagði Írisi Dögg að stunda jóga, hugleiðslu, fara í daglega göngutúra, lesa, hlusta á hljóðbækur og ýmislegt annað sem verkfræðingurinn var ekki með á radarnum í annríki hins daglega lífs. „Ég átti einfaldlega að stimpla mig burt frá vinnu og samfélagsmiðlum og þessu eilífa streymi upplýsinga sem setur óþarfa álag á okkur í dag.
Þessar vikur voru dásamlegar, ólíkar því sem ég þekkti, en þetta reyndist heljarinnar átak og algjör viðsnúningur fyrir ferkantaða verkfræðinginn,“ segir Íris Dögg og hlær. „Ég kúplaði mig alveg út í þennan tíma en strax í janúar þegar styttist í fyrsta vinnudaginn eftir leyfið tóku einkennin sig aftur upp, hægt og bítandi. Það var búið að vara mig við því að það gæti gerst, en það var þá sem ég byrjaði að óttast hvort ég yrði nokkurn tímann tilbúin að fara aftur í sama ryþmann og ég hafði þekkt í öll þessi ár,“ segir Íris Dögg, sem tók þá stóru og miklu ákvörðun að segja starfi sínu lausu innan bankans.
„Það var mjög erfitt að kveðja enda var þetta yndislegur vinnustaður, samstarfsfólkið var frábært, starfið gott og velllaunað, en á þessum tímapunkti varð ég einfaldlega að setja sjálfa mig í fyrsta sætið. Þetta var ekki auðveld ákvörðun og það tók mig nokkrar vikur að komast að niðurstöðu enda hafði ég aldrei verið atvinnulaus áður. Ég stóð á þeim fleti í fyrsta sinn á ævinni,“ bætir Íris Dögg við.
Íris Dögg stóð á tímamótum en var með skýrar leiðbeiningar um að vera í áframhaldandi „fríi“ og rækta sjálfið í að minnsta kosti fjóra til fimm mánuði. Það var á þeim tíma sem hún uppgötvaði óvænt áhugamál sem varð svo að óbilandi ástríðu. „Ég fór að velta því fyrir mér hvað ég gæti gert annað en að sækja bara jógatíma og fara í sund. Það var þá sem listmálun poppaði upp í kollinn á mér. Ég hafði alltaf verið ágæt í höndunum, alveg frá því að ég var krakki, en föðuramma mín er listakona út í gegn og því kannski eitthvað sem er að finna í genunum,“ segir hún.
Íris Dögg beið ekki lengi með að byrja og fór rakleiðis út í búð þar sem hún verslaði striga, málningu og penslasett. „Ég byrjaði bara að fikra mig áfram og eftir það var ekki aftur snúið. Þetta varð fljótlega leiðin mín til að dvelja í núinu, en áhugamálið vatt upp á sig þegar vinir og kunningjar byrjuðu að biðja mig um að mála myndir fyrir sig,“ segir Íris Dögg, sem ætlaði sér þó aðeins að mála nokkrar myndir til að skreyta veggi eigin heimilis.
„Þetta reyndist stærsti hlutinn af sjálfsvinnunni. Ég ætlaði bara að mála til að gera eitthvað með höndunum og fá útrás. Ég bjóst aldrei við öllu þessu. Þegar ég byrjaði þá gerðist eitthvað nýtt, heilinn fór á fullt en á ótrúlega jákvæðan hátt. Þetta endaði á því að kenna mér kúnstina að leyfa hlutunum að gerast,“ útskýrir Íris Dögg, sem elskar fátt meira en að sjá auðan striga fyllast af litum.
„Skemmtilegast fannst mér þegar dóttir mín hafði orð á því hversu mikil umbreyting hefði orðið á mér allt frá því ég tók upp pensilinn. Ferkantaði verkfræðingurinn var allt í einu kominn í jóga buxur, með snúð í hárið og í blómakjól. Konan sem var ávallt klædd svörtum drögtum og háum hælum,“ segir hún og hlær.
Íris Dögg sneri aftur út á vinnumarkaðinn að loknu hálfsárs leyfinu en hún hlaut ráðningu á upplýsingatæknisviði hjá öðru stórfyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. „Ég var kvíðafull yfir því að snúa aftur á vinnumarkaðinn en skammaðist mín alls ekki fyrir það sem hafði gerst.
Ég starfaði hjá fyrirtækinu í eitt ár en fann mjög fljótlega að mig langaði að starfa sjálfstætt og stjórna mínum eigin vinnutíma. Ég kaus þar af leiðandi að hlusta á innsæið og dembdi mér í djúpu laugina og starfa í dag við ráðgjöf,“ segir hún.
Þessi ákvörðun gerði Írisi Dögg og fjölskyldu hennar kleift að ferðast til Spánar síðastliðinn vetur, þar sem þau eyddu tíu mánuðum og nutu einstakra samverustunda. „Þetta sýnir bara hvernig maður getur breytt um takt í lífinu. Ég og eiginmaður minn, Björgvin Guðbjartsson, unnum fjarvinnu og börnin sinntu fjarnámi. Þetta var dásamlegt ævintýri og frábær upplifun,“ segir Íris Dögg.
Eftir allan þennan tíma á Spáni þráði Íris Dögg þó að komast til Íslands til þess eins að taka upp pensilinn á ný. „Ég málaði ekkert þarna úti og fann fyrir gríðarlegum söknuði. Þetta er orðinn svo mikill partur af sjálfri mér og eitthvað sem ég verð að gera þegar andinn kemur yfir mig.“
Málverkin sem Íris Dögg málar eru abstrakt, en aðspurð segist hún njóta þess að mála með björtum litum þar sem henni finnst það best lýsa hennar innra sjálfi í dag. „Ég mála bara eftir því hvernig skapi ég er í. Verkin eru ekki flókin en sum eru að vísu verkfræðileg, sprottin úr bakgrunni mínum,“ útskýrir hún.
Mörg verka Írisar Daggar hanga á veggjum vina og vandamanna enda eru þau mikil veggprýði, en myndir hennar hafa einnig vakið mikla athygli í litlu listagalleríi í San Francisco, fjórðu stærstu borg Kaliforníu.
„Ég opnaði Instagram-reikning fyrir málverkin og skömmu síðar fóru þau að birast á sölusíðum hér á landi, sem mér þótti að sjálfsögðu yndislegt,“ segir Íris Dögg, sem fór fljótlega að fá pantanir víðs vegar að. „Einn daginn fékk ég skilaboð frá listaverkasala í San Francisco og eins skeptísk manneskja og ég er þá kaus ég að hunsa þau enda datt mér ekki annað í hug en að um netsvindl væri að ræða. Svo var þó ekki.
Sá sem sendi skilaboðin heitir Max Khusid og hann rekur lítið gallerí sem kallast Art House SF,“ segir Íris Dögg. „Sem betur fer gafst hann ekki upp við að reyna að ná í mig og við enduðum á því að ræða málin á Zoom, en þar verslaði hann sex málverk eftir mig og hefur upp frá því keypt af mér málverk mjög reglulega.“
Aðspurð segir Íris Dögg listina hafa gefið sér svo mikið og er hún óendanlega þakklát fyrir rússíbana síðustu ára. „Í heildina litið hefur þetta þroskað mig, það er himinn og haf á þeirri manneskju sem ég var fyrir fimm árum og þeirri sem ég er í dag.“