Vaknaði upp við vondan draum og ákvað að taka ábyrgð á sjálfri sér

Heilsurækt | 20. janúar 2024

Vaknaði upp við vondan draum og ákvað að taka ábyrgð á sjálfri sér

Kolfinna Birgisdóttir, einkaþjálfari og körfuboltaþjálfari, ákvað að taka ábyrgð á sjálfri sér árið 2016. Í kjölfar mikillar sjálfsvinnu fann hótelstjórinn fyrrverandi sjálfstraust til þess að gerast einkaþjálfari. Lífsreynsla Kolfinnu hjálpar henni í starfi hennar í dag.

Vaknaði upp við vondan draum og ákvað að taka ábyrgð á sjálfri sér

Heilsurækt | 20. janúar 2024

Kolfinna var hótelstjóri en hætti og ákvað að verða þjálfari.
Kolfinna var hótelstjóri en hætti og ákvað að verða þjálfari. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kolfinna Birgisdóttir, einkaþjálfari og körfuboltaþjálfari, ákvað að taka ábyrgð á sjálfri sér árið 2016. Í kjölfar mikillar sjálfsvinnu fann hótelstjórinn fyrrverandi sjálfstraust til þess að gerast einkaþjálfari. Lífsreynsla Kolfinnu hjálpar henni í starfi hennar í dag.

Kolfinna Birgisdóttir, einkaþjálfari og körfuboltaþjálfari, ákvað að taka ábyrgð á sjálfri sér árið 2016. Í kjölfar mikillar sjálfsvinnu fann hótelstjórinn fyrrverandi sjálfstraust til þess að gerast einkaþjálfari. Lífsreynsla Kolfinnu hjálpar henni í starfi hennar í dag.

„Heilbrigði er fyrir mér að vinna í andlegu og líkamlegu heilsunni. Það er rosa auðvelt að kenna öllum öðrum um það sem hefur komið fyrir mann og vera fórnarlamb áfallanna sinna. Ég var þar. Ég finn það núna eftir að ég ákvað að nota áföllin sem kraft í áframhaldandi líf. Við berum öll ábyrgð á okkar eigin hamingju,“segir Kolfinna þegar hún er spurð hvað heilbrigði er að hennar mati.

Kolfinna æfði íþróttir og dans þegar hún var yngri en flosnaði upp úr hreyfingu sem unglingur. „Ég var ekki í fastri hreyfingu í mörg ár en ég er mikil útivistamanneskja, sem bjargaði mér þegar kom að líkamsrækt. Svo var það 2016 þegar ég var 31 árs að ég vaknaði upp við vondan draum, ég var komin með nóg af sjálfri mér og ákvað að leita mér aðstoðar bæði andlega og líkamlega,“ segir Kolfinna sem fann manneskju sem hjálpaði henni að fara í ræktina og þá féll hún fyrir líkamsrækt. Hún hafði reynt nokkrum árum áður en ekki fundið ástríðuna.

Kolfinna byrjaði á mataræðinu. „Ég ákvað að byrja að læra að borða betur, næra mig á réttan hátt. Ég var líka í vinnu þar sem var mikið að gera og mig vantaði að komast í hreyfingu. Ég vissi líka að það voru allskonar hlutir í fortíðinni sem ég átti eftir að gera upp og voru búnir að lita margt af því sem ég var að gera og ákvarðanir sem ég var að taka,“ segir Kolfinna og leggur áherslu á að andleg og líkamleg heilsa hafi haldist í hendur.

Kolfinna fór inn í þjálfun með reynslu af lífinu.
Kolfinna fór inn í þjálfun með reynslu af lífinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hefði ekki orðið góður einkaþjálfari 10 árum yngri

Það hefur margt breyst á undanförnum 10 til 15 árum í líkamsræktarheiminum. Það eru fleiri sem stunda lyftingar og líkamsrækt og algengara að ungt fólk í dag mennti sig sem einkaþjálfarar. Reynsla Kolfinnu af lífinu hjálpar henni í starfinu.

„Ég tel að ég hefði ekki orðið góður einkaþjálfari ef ég hefði byrjað tíu árum fyrr. Ég kem með reynslu af lífinu og ég held að það hjálpi mér að nálgast fólk. Árið 2019 fór ég í markþjálfaranám sem var bara fyrir mig. Þetta var hluti af þessu ferðalagi að vinna í mér, þar lærði ég að hlusta betur og spyrja réttu spurninganna. Ég var komin á gott ról í mataræði, ég var byrjuð að vinna í andlega þættinum. Mér fannst mig vanta eitthvað meira. Ég er svona manneskja sem þyrstir í lærdóm. Ég elska að spyrja spurninga, læra, pæla og prófa hluti.“

Kolfinna segir að markþjálfaranámið hafi hjálpað sér að finna sína hillu. Nokkrum árum áður en hún fór í markþjálfaranámið hafi hún velt fyrir sér að fara í einkaþjálfunarnám en fann ekki sjálfsöryggið til þess.

„Það var í markþjálfunarnáminu sem ég fattaði að mig langaði að verða þjálfari. Svo bættist við að mig langaði að vinna með unglingum. Ég hugsaði hvað mig vantaði þegar ég var í unglingadeild. Það var kannski einhver ákveðin fyrirmynd sem gat hjálpað mér. Að mega biðja um aðstoð, það er smá skömm að biðja um aðstoð.“

Ákvað að láta vaða

Kolfinna er með BS-gráðu í ferðamálafræði og markaðsfræði og var í ferðabransanum. Hún tók u-beygju í heimsfaraldrinum og fór í einkaþjálfaranám og í kjölfarið að starfa við þjálfun.

„Ég var hótelstjóri og áhugi minn á manneskjum byrjaði í hótelstjórninni af því að mér fannst starfsmannamálin langskemmtilegust. Ég elska fólk og að heyra hvaðan það kemur, hver saga þeirra og áhugamál eru. Það fyndna er að fólk leitaði mikið til mín þegar ég var yngri þó ég væri feimin týpa.“

Er ekki mikið stökk að skipta alveg um starfsvettvang?

„Ég var skíthrædd. Ég ákvað að láta bara vaða eftir að hafa misst vinnuna í ferðabransanum í faraldrinum. Það varð til þess að ég spurði mig hvað ætlarðu að gera? Ætlar þú að láta vaða eða vera í þægindarammanum? Ferðabransinn var búinn að veita mér frábæra reynslu en þetta var ekki á mínu megináhugasviði lengur. Einkaþjálfaranámið var skemmtilegt en mesta hræðslan var hvað ég ætti að gera eftir námið.“

Kolfinna þurfti að gera það upp við sjálfa sig hvort hún ætlaði að nýta námið fyrst og fremst fyrir sjálfa sig eða að gera það að sínu meginstarfi.

„Þarna þurfti ég að fara inn í mig og minn kraft og mína styrkleika. Af hverju er ég ekki jafngóð og einhver annar? Ég tók mjög stórt stökk. Ég tók þá ákvörðun að fara beint í einkaþjálfun í fulla vinnu og það er brjálæðislega stór áhætta að taka,“ segir Kolfinna sem er sjálfstæð móðir með tvö börn svo áhættan var mikil. Sem betur fer hefur gengið mjög vel allt frá fyrsta degi.

Kolfinnu fann að hana langaði meðal annars að vinna með …
Kolfinnu fann að hana langaði meðal annars að vinna með unglingum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fannst hún ekki vera nóg

Kolfinna hefur byggt upp mikið sjálfstraust á undanförnum árum sem hefur gert henni kleift að elta drauma sína. Sjálfstraustið hefur ekki alltaf verið til staðar. Hún hefur hins vegar alltaf verið dugleg að hvetja annað fólk áfram.

„Grunnurinn minn eru áföll og áföllin mín byrjuðu snemma í lífinu. Ég fór út í lífið með þennan „ég er ekki nóg-stimpil“ á bakinu. Mér leið eins og ég ætti ekki neitt gott skilið í lífinu en 2016 var ég komin með nóg. Ég var búin að vera reið svo lengi. Ég var búin að vera í erfiðum samböndum bæði vina- og ástarsamböndum. Mér fannst alltaf verið að nota mig. Ég var komin með nóg. Að vinna í sjálfum sér er eitthvað sem ég þarf að gera það sem eftir er lífsins. Út frá þessu byggist sjálfstraustið upp.“

Kolfinna er búin að vera í mikilli sjálfsvinnu og skammast sín ekki fyrir fyrir áföllin sín.

„Blóðfaðir minn hafnaði mér strax og vildi ekkert með mig hafa. Ég er alltaf að leita að einhverju samþykki og fann fyrir því að ég væri ekki nóg. Ég var í sjö ár með barnsföður mínum og lenti í rosalega ofbeldissambandi, mestmegnis andlegu. Það hjálpar ekki sjálfstraustinu. Ég lenti líka í kynferðisbroti, mér var nauðgað af manneskju sem var mjög náin mér. Það sem er klikkaðast af öllu er að fyrsta manneskjan sem ég leita hjálpar hjá árið 2016 sveik mig fjárhagslega. Ég var nánast búin að missa allt. Ég þurfti að byrja lífið upp á nýtt á sama tíma og ég var að vinna í sjálfri mér.“

Kolfinna finnur fyrir því að hún laðar að sér öðruvísi fólk en áður en hún hóf sjálfsvinnuna. Hún er ekki í leit að sama samþykkinu frá öðrum og áður fyrr.

„Með sjálfstrausti er auðveldara fyrir þig að velja fólkið í lífinu en þegar þú ert með lélegt sjálfstraust eins og ég var með þegar ég var yngri. Ég læddist meðfram veggjum og fannst ég ekki eiga neitt gott skilið. Í dag er vinahringurinn minn mjög lítill en þetta er fólk sem ég vel að hafa í lífinu. Ég er ekki hrædd við að loka á vinskap eða sambönd sem henta ekki mínum gildum. Ég er ekki hrædd við að segja nei.“

Markmið geta verið góð en þau þurfa ekki að vera …
Markmið geta verið góð en þau þurfa ekki að vera öfgafull. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það má eiga vondan dag

Kolfinna leggur áherslu á að vera mannleg sem einkaþjálfari og vill ekki taka þátt í glansmyndinni sem stundum virðast vera í kringum líkamsrækt. Þegar talið berst að glansmyndinni segir hún að við sem samfélag séum komin lengra en fyrir tíu árum, en enn er langt í land. „Það sem ég sé að er að trufla eru samfélagsmiðlarnir. Ég kenni fólki að hlusta á líkamann sinn og hvað hentar. Það er allt í lagi að prufa hluti en við erum enn þá föst í skyndilausnum því miður. Maður þarf að kenna fólki að stoppa og staldra við og njóta ferðalagsins.“

Í körfuboltanum þjálfar Kolfinna ungar konur. „Mér finnst geggjað að fá tækifæri til að hafa áhrif á þær.“ Samfélagsmiðlar eru stór hluti af lífi ungs fólks í dag og Kolfinna hvetur stelpurnar til að skoða með hverju þær fylgjast á samfélagsmiðlum. Eru þær að fylgja jákvæðum fyrirmyndum úr körfuboltanum eða annars staðar frá, eða þá manneskjum á borð við Kim Kardashian? „Þær eru margar að fókusa á hvað þær geta ekki gert. Ég tek samtalið öfugt og spyr hverju þær eru góðar í. Við erum svo mikið að fókusa á það neikvæða. Hvernig væri að nota styrkleikana og styrkja þá enn þá betur? Vinna svo hægt og rólega á veikleikunum í staðinn fyrir að einbeita sér bara að veikleikunum,“ segir Kolfinna.

„Ég segi við stelpurnar og kúnnana í einkaþjálfuninni að það megi eiga vondan dag. Það skilgreinir okkur ekki sem manneskjur. Á morgun fæ ég nýtt tækifæri til þess að halda áfram,“ segir Kolfinna reglulega.

Langtímamarkmið getur verið að missa kíló eða auka vöðva en Kolfinna leggur mikla áherslu á að árangur sé mældur í hvernig fólki gengur í daglegum störfum. „Það sem ég elska að heyra frá kúnnunum mínum eru hlutir eins og að það sé miklu auðveldara að lyfta barninu upp úr baði eða að það finni mun á svefninum. Þetta er árangur fyrir mér. Ég elska að búa til markmið með kúnnunum mínum en ferðalagið að markmiðunum er það sem skiptir mestu máli.“

„Ég borða pizzu“

Kolfinnu tókst að gera breytingar á sínu lífi með því að breyta venjum, einni í einu. Það hefur einnig hjálpað henni að skrifa niður og skoða tilfinningar sínar og gera þakkarlista. „Ég þurfti að passa í byrjun að lífið mitt var ekki að fara að breytast á einum degi. Þetta er alveg búið að vera krefjandi en þetta er þess virði,“ segir Kolfinna.

Þegar kemur að hreyfingu mætir Kolfinna bæði í ræktina og stundar útivist. „Útivist, sund, gufa og hugleiðsla er hluti af dagskránni. Svo fer ég og ríf í lóðin til að finna hvað líkaminn er frábær, hversu sterk ég er. Ég vil blanda þessu saman. Markmið mitt er að mæta að minnsta kosti tvisvar í viku í ræktina en ég reyni að mæta þrisvar í viku. Þetta hefur hentað mér.“

Hvernig nálgastu mataræði?

„Engar öfgar. Ég segi strax við fólk að ég borða pizzur, ég fæ mér nammi en ég er ekki í öfgum. Þegar þú ferð að vinna í þér þá langar þig minna í þessa hluti og þú ert mögulega að fá þér þá með réttu hugarfari. Ég borða minna af þessu en ég nýt þess,“ segir Kolfinna.

Hún bendir á að breyting á mataræði þurfi ekki að vera flókin. Mikilvægast er að hlusta á líkamann. „Ég hef aldrei prófað matarkúra. Ég get ekki talað gegn þeim eða með þeim. Ég fann bara það sem hentaði mér, ég borða fimm sinnum á dag og smærri skammta. Þar hlustaði ég á líkamann en það tók mig smá tíma.“

Margir setja sér markmið í kringum áramót og Kolfinna er ein af þeim. Markmiðin hennar snúast ekki um mat eða æfingar. „Markmiðið mitt er fjölskyldan. Við megum ekki gleyma því sem stendur okkur næst. Það sem ég kenni fólki er að markmiðin mega breytast, það má alltaf skipta um skoðun. Það var ekki fyrr en nýlega sem ég ákvað að fjölskyldan yrði þema ársins,“ segir Kolfinna.

mbl.is