„Ég er mjög hvatvís og alltaf til í að stökkva“

Framakonur | 7. apríl 2024

„Ég er mjög hvatvís og alltaf til í að stökkva“

Rakel Hlín Bergsdóttir er hvatvís viðskiptafræðingur sem lætur drauma sína rætast. Hún stofnaði verslunina Snúruna 2014 sem fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir. Rakel segir  að dugnaður einkenni þá sem ná langt.  

„Ég er mjög hvatvís og alltaf til í að stökkva“

Framakonur | 7. apríl 2024

Rakel Hlín Bergsdóttir stofnaði Snúruna 2014 og fagnar verslunin 10 …
Rakel Hlín Bergsdóttir stofnaði Snúruna 2014 og fagnar verslunin 10 ára afmæli um þessar mundir. Ljósmynd/Smári Þrastarson

Rakel Hlín Bergsdóttir er hvatvís viðskiptafræðingur sem lætur drauma sína rætast. Hún stofnaði verslunina Snúruna 2014 sem fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir. Rakel segir  að dugnaður einkenni þá sem ná langt.  

Rakel Hlín Bergsdóttir er hvatvís viðskiptafræðingur sem lætur drauma sína rætast. Hún stofnaði verslunina Snúruna 2014 sem fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir. Rakel segir  að dugnaður einkenni þá sem ná langt.  

Snúran fagnar tíu ára afmæli um þessar mundir. Hvernig hafa heimili fólks breyst á þessum tíma?

„Íslendingar eru mjög duglegir að tileinka sér nýjustu strauma og stefnur. Það er mikið búið að gerast á þessum tíma, háglans eldhúsin hafa vikið fyrir mattari litum og við. Veggirnir hafa farið frá því að vera málarahvítir yfir í gráa og svo núna beige. Það eru allir búnir að tryllast yfir Iittala, Múmínbollum og Omaggio vasanum. Það er nú samt mjög gaman að sjá að fólk er að færast í áttina að því að kaupa sér færri klassískari hluti í takt við umhverfissjónarmiðin. Það er einnig mjög gaman að sjá hvað margir eru farnir að hafa áhuga og kaupa íslenska myndlist.“

Hvað varstu að gera áður en þú opnaðir Snúruna?

„Eftir að ég útskrifaðist sem endurskoðandi vann ég í skamman tíma hjá einni af stóru endurskoðunarskrifstofunum. Var ég ekki að finna mig þar en hlaut alveg ómetanlega reynslu sem nýtist mér svo vel í eigin rekstri. Ég hóf fyrst búðarrekstur rétt eftir bankahrunið og hef ekki litið til baka síðan. Snúran varð svo til 2014 og verið stór hluti af lífinu síðan þá,“ segir Rakel en hún opnaði verslunina Fiðrildið árið 2009 sem var verslun sem seldi notuð barnaföt.

Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?

„Ég hef alltaf verið óhrædd við að taka áhættur og það truflar mig ekki þótt einhver óvissa sé fram undan. Það er mikil áskorun að standa í eigin atvinnurekstri og það er oft mjög krefjandi svo ekki sé meira sagt en þetta hefst með svona hæfilegri blöndu af kæruleysi, metnaði og einbeitingu. Ég er mjög hvatvís og alltaf til í að stökkva. Á mjög erfitt með að segja nei en það hefur bara gefist mér vel að segja alltaf já.“

Út á hvað geng­ur starfið?

„Starfið er mjög fjölbreytt, ég er framkvæmdarstjóri, fjármálastjóri, innkaupastjóri, markaðsstjóri og mannauðsstjóri allt í senn. Fyrst og fremst gengur starfið mikið út á mannleg samskipti, samtöl við viðskiptavini, birgja og samstarfsfólk til að ná sem bestum árangri.“

Hér er Rakel ásamt börnunum sínum og eiginmanni, Andra Gunnarssyni …
Hér er Rakel ásamt börnunum sínum og eiginmanni, Andra Gunnarssyni lögmanni. Börnin heita Vilhelm Hrafn Þórisson, Sunneva Sigríður Andradóttir, Óliver Sölvi Þórisson, Andrea Andradóttir, Júlíus Kári Þórisson og María Þórisdóttir.

Högg að opna í Smáralind

Hverj­ar voru helstu áskor­an­irn­ar á leiðinni?

„Þær hafa verið svo margar og ekki líður sú vika sem eitthvað óvænt kemur uppá sem þarf að takast á við. Það var stórt skref á sínum tíma að opna í Smáralind og nokkuð högg að sjá þá hugmynd ekki ganga upp. Ég græt það þó ekki – þetta var frábær reynsla og það verður að láta reyna á hugmyndir, það hefur reynst mér vel í gegnum tíðina. Maður lærir aldrei eins mikið eins og af eigin mistökum. Ég er þeirra trúar að maður eigi ekki að svekkja sig á því sem gekk ekki upp heldur nýta þá reynslu til góða. Það má alveg vera pirraður í smá tíma en festast í því er það versta og kemur manni ekkert áfram.“

Hvað skipt­ir máli að hafa í huga ef fólk ætl­ar að ná langt á vinnu­markaði?

„Góð samskipti, heilindi og dugnaður held að ég fleyti fólki alltaf langt. Það er nauðsynlegt að hafa það í huga að það gerist ekkert á sjálfum sér. Það er gríðarlega mikið vinna á bak við allt sem maður tekur sér fyrir hendur. En það er heldur ekkert eins sætt eins og að uppskera þegar maður hefur lagt á sig. Það er nauðsynlegt að þora að taka áhættur, setja sér markmið og vera óhræddur við að berjast til þess að ná þeim.“

Hvernig var þinn fer­ill?

„Ég hef alltaf verið að vinna frá því að ég man eftir mér. Fjölbreytt störf, Nóatún, Össur, Landsbankinn,Deloitte og fleiri vinnustaðir. Ég hóf eigin rekstur þó tiltölulega snemma eftir útskrift og gæti ekki hugsað mér neitt annað úr þessu. Ég kem frá kaupmönnum, en báðir afar og foreldrar voru í eigin atvinnurekstri. Ég reyndi að afneita því en fann fljótt að þetta var það sem mér var ætlað að gera. Það eru ekki allir sem hafa taugar í eigin rekstur og þarf maður að vera létt geggjaður að leggja á sig ansi margar andvökunætur. Það mætti alla vega segja að ég hafi ekki valið auðveldu leiðina í lífinu en fyrir mér væri það heldur ekkert skemmtilegt.“

Rakel Hlín lagði á borð fyrir Morgunblaðið í lok árs …
Rakel Hlín lagði á borð fyrir Morgunblaðið í lok árs 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fannst þér þú upp­skera á ein­hverj­um tíma­punkti að þú vær­ir búin að ná mark­miðum þínum?

„Það er alveg merkilegt að maður er sífellt að eltast við að ná hinu og þessu og svo þegar maður kemst í mark þá tekur bara næsta við. Maður heldur alltaf að þegar markinu sé náð verði allt svo frábært og æðislegt en svo áttar maður sig á því að það er ekki markið endilega heldur leiðin að markmiðinu sem er það sem gefur manni mest. Markmið mín hafa sífellt verið að breytast og stækka eftir því sem líður á og það sem maður stefni kannski á í upphafi þróast á leiðinni að markinu. Það er nauðsynlegt að berja sig ekki niður þó svo að einhver markmið sem maður skrifar niður á blað náist ekki heldur horfa á hvað hefur áunnist á leiðinni. Ef maður er duglegur, hefur trú á sjálfum sér og leggur hart að sér þá er maður verðlaunaður að lokum.“

Fann sig við búðarborðið

Hvað gef­ur vinn­an þér?

„Það er alveg ótrúlega klisjukennd setning sem ég tengi svakalega við: „If you love what you do you never have to work a day in your life“ (ef þú elskar hvað þú gerir þá þarftu aldrei að vinna aftur). Þegar ég útskrifaðist úr menntaskóla vissi ég ekkert hvað mig langaði til þess að verða þegar ég yrði stór. Eftir útskrift úr háskólanum var ég alveg jafn týnd og virkilega öfundaði fólk sem var í störfum sem það elskaði. Það var því alveg ótrúlega góð tilfinning þegar ég opnaði fyrst verslun 2009 hvað ég fann mig vel þar. Vinnan er risastór hluti af tilverunni og skiptir alveg gríðarlega miklu máli að hafa gaman að því sem maður gerir. Ég nýt þess að takast á við þær áskoranir sem felast í því að vera atvinnurekandi (um leið og ég bölva þeim líka reglulega). Það er alls ekki sjálfgefið að finna draumstarfið og maður þarf heldur ekkert að ákveða eitthvað ungur og festast í því. Það má breyta um skoðun og hefja nám eða skipta um starf á lífsleiðinni.“

Hef­ur þú átt það til að of­keyra þig, og ef svo er, hvernig hef­ur þú brugðist við því?

„Ég hef reglulega fundið fyrir mikilli þreytu þegar það hefur verið mikið álag í lengri tíma. Ég hef ekki átt jól síðustu árin án þess að verða veik eftir þá törn og það álag sem fylgir búðarkonustarfinu yfir hátíðar. Síðustu ár hafa tarnirnar líka verið að lengjast, fyrir jólin var þetta alltaf um tvær vikur en núna byrjar törnin eftir fyrstu vikuna í nóvember og endar ekki fyrr en í byrjun janúar þegar útsölurnar hefjast. Það er alveg nauðsynlegt að hvíla sig inn á milli og erum við maðurinn minn dugleg að ferðast, en fyrir utan að tala um viðskipti og börnin er það okkar helsta áhugamál.“

Finnst þér kon­ur þurfa að hafa meira fyr­ir því að vera ráðnar stjórn­end­ur í fyr­ir­tækj­um en karl­menn?

„Menning karla og kvenna er á vissan hátt ólík en mér hefur almennt þótt þjóðfélagið færast í þá átt að vægi kynjanna sé að jafnast fremur en að færast í sundur. Sé hugsað 100 ár aftur í tímann, sem er tiltölulega stuttur tími í sögu mannsins, þá sjáum við þjóðfélag eins og Ísland vera að færast í rétta átt hvað þetta varðar og fullt tilefni til bjartsýni um gott samstarf kynjanna í fyrirtækjarekstri líkt og öðrum rekstri. Það er alveg ótrúlega gaman að sjá aukningu kvenna í stjórnunarstöðum í átt að jafnara hlutfalli. Ég er mikill jafnréttissinni og vil fyrst og fremst að fólk með réttu hæfileika og kunnáttu eigi að vera í ákveðnum hlutverkum algjörlega óháð kyni. Ég myndi aldrei vilja vera ráðin í eitthvað hlutverk einfaldlega af því að ég er kona. Staðreyndir er sú fyrir okkur konur að við göngum með börnin og önnumst þau í flestum tilfellum mest fyrsta árið. Við erum að detta oftar út af vinnumarkaði en karlmenn sem hægir á okkar framgangi. Nú er ég búin að eiga 5 börn ef ég væri að bera mig saman við karlmann með sömu menntun, bakgrunn og hæfileika þá ætti hann alltaf amk 5 ára lengri starfsreynslu á mig. Það er líffræðileg staðreynd sem erfitt er að breyta.“

Áttu þér ein­hverja kven­fyr­ir­mynd?

„Ég lít mikið upp til einstaklinga sem hafa byggt upp fyrirtæki, tekið áhættu og ýmist heppnast eða í mörgum tilvikum ekki. Að reyna finnst mér lykilatriði og er það alveg óháð kynjum. Það er alveg ótrúlega gaman að hlusta á frásagnir fólks sem byrjaði með litla hugmynd og barðist fyrir því að láta hana verða að veruleika.“

Ertu með hug­mynd um hvernig er hægt að út­rýma launamun kynj­anna fyr­ir fullt og allt?

„Á síðustu árum hefur unnist gríðarlega mikið í áttina að því að útrýma þessum launamun og það litla sem er eftir útskýrist að mestu leiti af kynbundnum störfum.“

Hvernig skipu­legg­ur þú dag­inn?

„Dagurinn skipuleggur sig yfirleitt nokkurn veginn sjálfur út frá þeim verkefnum sem liggja fyrir hverju sinni. Ég fer á fætur milli 7 og 8 og svo veltur það á verkefnum hverju sinni hvað tekur við. Það getur verið símafundur við erlenda birgja, starfsmannaviðtal eða bara koma eitthvað af börnunum til tannlæknis. Ég gef mér þó alltaf tíma í að fara í ræktina fjórum sinnum í viku með manninum mínum, það er okkur alveg heilög stund og nauðsynlegt í amstri dagsins.“

Hvernig er morg­un­rútín­an þín?

„Ég ekki með sérstaka rútínu, en það veltur svolítið á verkefnum dagsins. Draumamorgun er þegar ég get vaknað, lesið blaðið og gert mér boozt og leyft deginum að byrja án þess að vera hugsa um þau verkefni sem bíða mín. Flesta morgna er ég samt að vakna rétt áður en ég þarf að skutla krökkunum í skóla, borða í bílnum, skoða fréttirnar í símanum og reyna að muna eftir því að sækja krakkana svo aftur.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnu­dag eða teyg­ist vinnu­dag­ur­inn fram á kvöld?

„Að standa í eigin rekstri hefur sína kosti og galla. Einn gallinn ef svo má að orði komast er að þú ert alltaf í vinnunni, verkefnin fara ekkert eða hætta klukkan fimm á daginn. Það fyrsta sem maður lærir er að það er engin stimpilklukka sem hentar mér svo sem mjög vel. Það að geta stýrt mínum tíma sjálf er mikið frelsi þar sem ég er ekki bundin við búðarkassann. Ég er með frábært starfsfólk sem stendur vaktina, en fólk áttar sig oft ekki á gríðarlegu vinnunni sem er í gangi bakvið tjöldin. Það skiptir engu máli hvort það sé sunnudagskvöld eða aðfangadagur ef verkefni er fyrir höndum þá þarf maður að ganga í það. Maður væri líka oft til í að geta ýtt áoff takk í hausnum en bestu hugmyndirnar koma oft á nóttinni þegar maður ætlar loksins að hvílast.“

Hvað finnst þér skemmti­leg­ast að gera utan vinnu­tíma?

„Við hjónin erum mjög dugleg við að ferðast þó tölvan og síminn séu aldrei langt frá. Við njótum mjög einfaldra hluta á ferðalögum, helst bara að ganga um og sitja á kaffihúsum meðan við ræðum lífið, tilveruna, börnin og auðvitað reksturinn. Lífið snýst svo að sjálfsögðu ekki allt um vinnu, en ég er svo ótrúlega lánsöm að eiga yndislega stóra fjölskyldan og marga góðir vini. Við hjónin tókum uppá því á nýju ári að vera dugleg að bjóða fólki í mat. Í hraða nútímans er maður alltof gjarn að segjast ætla að hittast en gera svo ekkert í því. Ég ólst uppá heimili þar sem hurðin var alltaf opin og mikill gestagangur. Þetta hefur því miður dottið mikið niður en langar mig að endurvekja þessar gömlu fallegu hefð og hurðin stendur alltaf opin hjá okkur.“

Hver er næsti stóri tískustraumur sem mun trylla öll íslensk heimili á næstunni?

„Það er búið að vera mikið um létt og ljóst síðustu misserin, ljós viður og beige on beige. Það er að dekkjast aftur og brúnn viður að taka við af þeim ljósa.

Við erum alltaf að færast meir og meir í áttina að endurnýtingu, minnkun á kolefnisfótsporinu og virðingu fyrir umhverfinu. Það endurspeglast í nýjum vörum hjá okkur og er úrvalið af endurunnum sófaefnum alltaf að aukast. Húsgögnin eru einnig að koma í efnum sem hægt er að taka af og setja í hreinsun eða kaupa ný efni án þess að þurfa að skipta öllum sófanum út.“

mbl.is