Missti allt á Vopnafirði en fann ástina í Borgarnesi

Framakonur | 28. janúar 2024

Missti allt á Vopnafirði en fann ástina í Borgarnesi

Svava Víglundsdóttir, eigandi Kaffi Kyrrðar og Blómasetursins í Borgarnesi, var búin að missa allt eftir að hótel sem hún rak á Vopnafirði varð gjaldþrota. Ástin dró hana í Borgarnes þegar hún kynntist Unnsteini Árnasyni. Síðan eru liðin 22 ár.

Missti allt á Vopnafirði en fann ástina í Borgarnesi

Framakonur | 28. janúar 2024

Svava Víglundsdóttir rekur kaffihúsið, Kaffi kyrrð í Borgarnesi sem er …
Svava Víglundsdóttir rekur kaffihúsið, Kaffi kyrrð í Borgarnesi sem er líka verslun. Auk þess rekkur hún gistiheimili. Svava hefur reynt margt á lífsleiðinni. mbl.is/Brynjólfur Löve

Svava Víglundsdóttir, eigandi Kaffi Kyrrðar og Blómasetursins í Borgarnesi, var búin að missa allt eftir að hótel sem hún rak á Vopnafirði varð gjaldþrota. Ástin dró hana í Borgarnes þegar hún kynntist Unnsteini Árnasyni. Síðan eru liðin 22 ár.

Svava Víglundsdóttir, eigandi Kaffi Kyrrðar og Blómasetursins í Borgarnesi, var búin að missa allt eftir að hótel sem hún rak á Vopnafirði varð gjaldþrota. Ástin dró hana í Borgarnes þegar hún kynntist Unnsteini Árnasyni. Síðan eru liðin 22 ár.

„Er ekki alltaf sagt að annaðhvort sé það vinnan eða ástin sem dregur fólk landshluta á milli,“ segir Svava þegar hún er spurð hvers vegna stelpa frá Vopnafirði byrji með manni úr Borgarnesi. „Ég er fædd og uppalin á Vopnafirði. Ég er ekta sveitastelpa undan kúnni. Áður en ég kom hingað var ég búin að reka hótel Tanga í 20 ár,“ segir hún og játar að Borgarnes minni sig á Vopnafjörð.

„Maðurinn minn vann lengi hjá Vegagerðinni. Þegar hann var á ferð um landið að mála og merkja bæi þá gisti hann oft á hótelinu hjá mér. Ég segi oft við hann að hann hafi nú ekki verið uppáhaldskúnninn því hann var alltaf með nesti með sér og gisti í svefnpokaplássi. Svona voru þessir ríkisstarfsmenn þá. Ég segi stundum söguna af því þegar við vorum að vinna fram eftir, ég og vinkona mín sem vann hjá mér í 18 ár, þegar Unnsteinn mætti eitt sinn á hótelið. Hún segir um hálfellefu um kvöldið að hann sé örugglega kominn þessi sem átti pantað svefnpokaplássið og svo rann Vegagerðarbíllinn í hlað. Ég dæsti og sagði að þetta væri þessi leiðinlegi frá Vegagerðinni,“ segir Svava og hlær og bætir við: „Árið 2001 er ég stödd úti á Kanarí með mömmu heitinni á Klörubar. Þar kemur þessi maður út af klósettinu og ég heilsa honum. Hann verður eitthvað skrýtinn. Ég spyr hann hvort hann muni ekki eftir mér og þá segir hann mér að ég sé að taka feil á honum og tvíburabróður hans, honum Unnsteini. Þetta var þá Hólmsteinn tvíburabróðir hans. Svo kom Unnsteinn og tróð sér þarna hjá okkur mömmu og upp úr því urðu tengsl á milli okkar. Ég flutti hingað um haustið,“ segir Svava.

Blómasetrið og Kaffi kyrrð eru undir sama þaki.
Blómasetrið og Kaffi kyrrð eru undir sama þaki. mbl.is/Brynjólfur Löve

Svava segist vera með mikla aðlögunarhæfni en áður en þau Unnsteinn kynntust var hún gift á Vopnafirði. Eftir að hún og fyrrverandi maður hennar skildu hélt hún áfram að reka hótelið, sem varð gjaldþrota 2001.

„Ég missti bókstaflega allt,“ segir Svava.

Það hlýtur að hafa verið áfall fyrir þig að missa hótelið?

„Það var mjög sérstök lífsreynsla og erfið. Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir því hvað það er að missa allt. Ég hafði mikla trú á starfinu mínu og vann mikið. Svo gerist þetta og ég var ein þarna að baksa í þessu. Átti yndislegan föður og bróður og systkini sem hjálpuðu mér mikið. Ég var alein eitt kvöldið. Var að renna yfir farinn veg. Þá allt í einu uppgötva ég að ég á ekki neitt. Allt sem ég var búin að byggja upp síðustu 20 árin var farið. En hvað var það sem fór? Jú, steinsteypa og vinna,“ segir Svava og nefnir að þetta kvöld hafi hún fengið taugaáfall.

Hún var alein heima og byrjaði að gráta og gat ekki hætt. Auk þess mundi hún ekki neitt. Engin símanúmer en einhvern veginn náði hún að hringja í föður sinn sem kom á staðinn ásamt bróður hennar.

„Í kjölfarið flutti ég til pabba og þeirra og var hjá þeim meðan ég var að ganga frá og finna aftur hvað ég gæti gert. Fór svo bara aftur niður í hótel að ganga frá. Ég var lengi að hugsa um þetta. Ég hugsaði: lífið er ekki búið. Fór með bæn á morgnana og þakkaði guði fyrir daginn og bað hann að leiða mig inn í daginn. Ég þakkaði fyrir hvað ég ætti, börnin mín og fjölskylduna mína og allt fólkið í kringum mig. Ég ætlaði að biðja hann að hjálpa mér í gegnum þetta. Og hér er ég í dag,“ segir Svava. 

Í verslun Svövu fæst margt skemmtilegt.
Í verslun Svövu fæst margt skemmtilegt. mbl.is/Brynjólfur Löve
mbl.is