Sneri blaðinu við eftir alvarlega kulnun

Framakonur | 3. febrúar 2024

Sneri blaðinu við eftir alvarlega kulnun

Margréti M. Jónasar þekkja eflaust margir en hún er athafnakona sem hefur starfað við fjölbreytt verkefni í gegnum árin en hún er menntaður förðunarfræðingur og heilsumarkþjálfi. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á heilsu, sem jókst til muna hjá henni þegar hún lenti í kulnun árið 2018 en þá hafði hún glímt við streitu og kvilla tengda henni í mörg ár.

Sneri blaðinu við eftir alvarlega kulnun

Framakonur | 3. febrúar 2024

Margrét er einn eftirsóttasti förðunarmeistari landsins. Eftir að hafa unnið …
Margrét er einn eftirsóttasti förðunarmeistari landsins. Eftir að hafa unnið yfir sig hugsaði hún sinn gang og lærði heilsumarkþjálfun. Ljósmynd/Aðsend

Margréti M. Jónasar þekkja eflaust margir en hún er athafnakona sem hefur starfað við fjölbreytt verkefni í gegnum árin en hún er menntaður förðunarfræðingur og heilsumarkþjálfi. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á heilsu, sem jókst til muna hjá henni þegar hún lenti í kulnun árið 2018 en þá hafði hún glímt við streitu og kvilla tengda henni í mörg ár.

Margréti M. Jónasar þekkja eflaust margir en hún er athafnakona sem hefur starfað við fjölbreytt verkefni í gegnum árin en hún er menntaður förðunarfræðingur og heilsumarkþjálfi. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á heilsu, sem jókst til muna hjá henni þegar hún lenti í kulnun árið 2018 en þá hafði hún glímt við streitu og kvilla tengda henni í mörg ár.

Hún lauk förðunarnámi fyrir um þrjátíu árum frá skólanum sem Kristín Stefánsdóttir og Kristín Friðriksdóttir ráku en hann er ekki lengur starfandi.

„Ásamt því að vinna við förðun þá var ég með eigin rekstur, það var skóli sem hét naglatækniskólinn og svo rak ég líka heildverslun með snyrtivörur. Þegar Mac-merkið kom til Íslands sá ég um þær vörur í nokkur ár sem var mjög skemmtilegur tími því ég var að vinna með atvinnuteyminu þeirra og ferðaðist um heiminn með þeim, fór til dæmis á Ólympíuleikana og tískuvikur erlendis. Eftir það langaði mig að gera eitthvað sjálf og opnaði, árið 2006, verslun í Kringlunni sem hét Make Up Store, sem er sænsk keðja og árið eftir opnaði ég aðra verslun undir sama nafni í Smáralind. Ég rak þessar tvær verslanir í 12 ár eða þar til ég lokaði þeim árið 2018.“

Orðin hálfheyrnarlaus eftir bólgur sem tengdust streitu

Margrét segist á þessum tímapunkti hafa verið komin að endamörkum og algerlega búin að vinna yfir sig. „Ég fór í mjög alvarlega kulnun og var bara mjög veik, ég vann algjörlega yfir mig. Þetta var mjög erfitt, ég vann alla daga og það bara safnaðist saman þreyta og streita sem gerði það að verkum að ég hætti. Ég hætti með fyrirtækið þá og tók mér frí frá vinnu í nokkra mánuði og notaði þann tíma til að lesa um heilsu og málefni tengd minni kulnun. Ég eiginlega sökkti mér í allskonar efni, hlustaði á hlaðvörp, las greinar og viðtöl við lækna og bara leitaði að efni á netinu.“

Hún bætir við að hún hafi verið komin með miklar bólgur í líkamann vegna langvarandi álags. „Mikil streita getur valdið miklum bólgum í líkamanum og ég veit að ég var undirlögð og komin með bólgur á heilann enda var ég orðin hálfheyrnarlaus á öðru eyranu og komin með sjóntruflanir. Ég svaf illa og var með verki í öllum liðum. Mér leið verulega illa, bæði líkamlega og andlega. Maður verður rosalega flatur í svona kulnun og ég fann fyrir kvíða og depurð enda hangir þetta andlega og líkamlega saman.“

Margrét var komin með miklar bólgur í líkamann.
Margrét var komin með miklar bólgur í líkamann. Ljósmynd/Aðsend

Fékk mikinn áhuga á heildrænni heilsufræði

Eftir að hafa tekið sér nokkra mánuði í hvíld til að ná sér réð Margrét sig í förðunardeildina á RÚV og vann þar árið 2019. „Mér bauðst að taka við af Rögnu Fossberg í förðunardeildinni en hún var að hætta sökum aldurs en ég fann, eftir að hafa unnið þar í u.þ.b. ár, að ég vildi meira frelsi, vildi vera með mitt eigið og vera laus og liðug. Ég fór því að vinna „freelance“ við að farða og samhliða því skráði ég mig í nám í heilsumarkþjálfun í skóla í New York en þetta var í covid-faraldrinum svo námið fór allt fram í fjarkennslu á netinu. Námið tók eitt ár og mér fannst þetta rosalega skemmtilegt og þarna kviknaði sérstaklega áhugi á heildrænni heilsu sem snýr að því að allt tengist, þetta andlega og líkamlega. Ég hef gríðarlegan áhuga á þessu og fann hvað mér finnst gaman að gefa af mér og hjálpa öðrum.“

Betra ef læknirinn hefði ráðist á rót vandans fremur en að gefa svefntöflur og kvíðalyf

Margrét segir að þegar hún var að glíma við einkenni kulnunar og leitaði til lækna þá fannst henni ekki nægilega horft á rót vandamálsins heldur lögð meiri áhersla á að gefa lyf. „Ég hefði viljað að læknirinn hefði tekið öðruvísi á mínu vandamáli á sínum tíma, að hann hefði skoðað svefninn hjá mér, hvernig lífernið væri hjá mér, hvað ég borðaði og hvað ég væri að taka inn af bætiefnum. Auk þess hefði átt við mig lengra samtal til að átta sig á að ég var í mikilli streitu á þessum tíma. Ég fer í gegnum öll þessi atriði hjá mínum skjólstæðingum. Það hefði verið betra ef læknirinn hefði ráðlagt mér að fara út að ganga, fara að synda og dýfa mér í kalda pottinn og benda mér að fara út í náttúruna og jarðtengja mig. Mér finnst alveg vanta þessa hlið, allt þetta náttúrulega, en í staðinn var skrifað upp á kvíðalyf og svefntöflur.“ Hún segir svo að sér hefði fundist eðlilegra að leita að rót vandans og meðhöndla hana frekar en að sjúkdómsgreina og gefa lyf til að þagga niður í einkennunum.

Margir vita ekkert um heilsuspillandi efni

Hún bætir við að þetta sé ekki einskorðað við lækna því margt nútímafólk sé ekki endilega tilbúið að gera það sem þarf til dæmis þegar lækka þarf blóðþrýstinginn. Margir vilja halda lífsstíl sínum áfram og borða bara það sem þeir hafa alltaf borðað og fá frekar einhverja töflur. „Það er orðið svo algengt að fólk taki lyf við vandamálinu í stað þess að fara að rót vandans og gera lífsstílsbreytingu. Það eru reyndar margir sem eru ekki með þekkingu á því hvernig á að breyta lífsstílnum í hraðanum sem er í þjóðfélaginu í dag og læknar hafa ekki eins mikinn tíma,“ segir Margrét. „Fólk er alltaf að flýta sér og kaupir mikið tilbúinn mat. Það eru líka fáir sem huga að heilsuspillandi efnum á heimilinu eins og hvaða vörur eru notaðar til að þrífa og hvaða þvottaefni er notað. Það er orðið svo mikið af gerviefnum sem er ekki náttúrlegt fyrir líkamann okkar að vinna úr.“

Heilsumarkþjálfar verði hluti af meðhöndlun sjúklinga í framtíðinni

Námið sem Margrét fór í leggur áherslu á heildræna almenna heilsu. „Það er talað svona um hringrás lífsins í náminu, það þarf allt í lífinu þínu að hafa jafnvægi, bæði líkamleg og andleg heilsa. Inn í þetta tengist maki þinn og fjölskylda, vinnan, fjármálin, hreyfing og áhugamál. Einnig er lögð áhersla á að þú sért að næra sálina til dæmis með því að vera í námi eða að læra eitthvað. Ef við verðum fyrir andlegu áfalli þá hefur það áhrif á líkamann líka og sömuleiðis ef við lendum í líkamstjóni þá hefur það áhrif á andlega hliðina. Þetta er svolítið svona eins og er í asísku fræðunum, jing og jang. Um leið og eitthvað stíflast þá fara að koma bólgur sem valda vanlíðan. Skólinn sem ég lærði í sagði að í framtíðinni er mjög líklegt að heilsumarkþjálfarar verði einskonar framlenging af læknum. Þeir munu væntanlega benda sumum sjúklingum á okkur og við hjálpa fólki að halda utan um breytingarnar sem þarf að gera í lífi þeirra og veita þeim ákveðinn aga.“

Margrét nálgast almenna heilsu heildrænt.
Margrét nálgast almenna heilsu heildrænt. Ljósmynd/Aðsend

Næringarfræði stór hluti af náminu

Þegar Margrét hjálpar fólki þá segist hún laga meðferðina og ráðleggingarnar að hverjum og einum. „Þetta eru engar öfgar. Ég skoða hvern og einn vel og fer hægt í hlutina, gef fólki tíma og hef þetta persónulegt. Ég skoða næringuna, líkamann og andlegu hliðina.“ Hún bætir við að námið hafi verið mjög ítarlegt og þar hafi mikil áhersla verið lögð á næringarfræði og kennslu um vítamín og steinefni. Auk þessa hafi mikið farið í sálfræðilega hlutann sem hún telur mjög mikilvægan þátt í heildrænni heilsu. „Þegar fólk kemur til mín þá bið ég það um að svara nokkrum gátlistum sem lúta að heilsunni og ástæðunni fyrir því að viðkomandi hafi leitað til mín. Þetta er eiginlega svona heilsufarsskýrsla til að sjá stöðuna. Ég ræði svo við viðkomandi um hverju á að breyta og hvernig, það er mjög misjafnt. Einu sinni kom kona til mín sem var komin á sex mismunandi lyf og langaði að reyna að gera eitthvað sjálf í von um að geta minnkað lyfin.“

Breytingar í smáum skrefum vænlegar til árangurs

Stuðningur er mikilvægur að mati Margrétar enda sé oft erfitt að taka fyrstu skrefin þegar breyta á heilsunni. „Ég hjálpa til við að reyna að finna hvar ójafnvægið í lífinu hjá fólki er. Oft vill það gera breytingar en ýtir þeim á undan sér enda getur verið erfitt þegar fólk glímir við depurð að koma sér í ræktina eða út að ganga. Þess vegna er stuðningurinn svo mikilvægur. Ég kenni fólki oft að vera gott við sig, að þykja vænt um sig. Stundum fá skjólstæðingar mínir heimaverkefni eins og að fara út í göngutúr í stuttan tíma í einu, kveikja á kerti og skrifa niður atriði í bók til dæmis um mataræðið eða annað sem fólk vill vinna í. Misjafnt er á hvaða hraða fólk vill gera breytingarnar, sumir vilja lítið plan og gera hlutina í smáum skrefum á meðan aðrir vilja taka stærri skref. Ég aðlaga mig bara hverjum og einum og hitti fólk yfirleitt einu sinni í viku. Það skemmtilegasta er þegar ég fer að sjá árangur hjá fólki og því fer að líða betur, það er mjög gefandi.“

Margrét mælir með að taka lítil skref.
Margrét mælir með að taka lítil skref. Ljósmynd/Aðsend

Kerti geta gefið frá sér óholl efni

Þegar Margét er spurð um hvaða ráð hún myndi gefa lesendum Morgunblaðsins sem vilja bæta heilsuna stendur ekki á svörum. „Ég myndi fyrst af öllu skoða nærumhverfið. Hvernig eru til dæmis loftgæðin á heimilinu? Ef þau eru ekki mikil væri tilvalið að fjárfesta í góðu lofthreinsitæki. Ég mæli líka með því að fólk sé ekki að brenna kerti og ilmstangir með gerviilmefnum eins og parafíni því það er slæmt fyrir skjaldkirtilinn og taugakerfið. Notið heldur náttúruleg kerti sem eru með ilmkjarnaolíum og fara betur í okkur. Einnig er mikilvægt að skoða hvaða efni eru í þvottaefninu okkar því fötin liggja á húðinni okkar og efnin geta sogast inn í líkamann. Ég mæli bara með að fólk leiti á netinu hvernig góð náttúruleg þvottaefni eru, hvaða efni er óæskilegt að hafa í þeim. Þetta á einnig við snyrtivörur og ilmvötn, í þeim geta verið ónáttúruleg efni eins og SLS sem eru óholl fyrir okkur. Einnig ber að varast húðaðar pönnur og potta með PFAS-efni. Hvað mataræðið varðar þá mæli ég með að kaupa sem ferskastar vörur og lítið unnar. Það er líka best að elda sem mest frá grunni og minnka tilbúnar sósur og meðlæti úr krukkum. Auk þess er gott að skipta út óæskilegum fræolíum í plastbrúsum og nota heldur smjör, ghee, ólífuolíu eða kókosolíu í gleri. Setjið svolítið salt út í vatnið ykkar svo það fari ekki bara beint í gegn, þá fær fólk steinefni og snefilefni. Fylgist með árangri ykkar með því að skrifa niður hvernig ykkur líður bæði andlega og líkamlega.“ 

Spreyjar aldrei ilmvatni beint á húðina

Fyrir nokkrum árum greindist Margrét með skjaldkirtilssjúkdóm og segist hafa læknað sig sjálf með því að passa upp á aukefni í umhverfinu og snyrtivörum. „Ég las mér mikið til um efni sem hafa áhrif á skjaldkirtilinn. Ég tók til dæmis eftir því að ákveðin efni sem ég var að setja á mig og þrífa með voru með skrítna lykt sem mér fannst erfitt að anda að mér. Ég er því meðvituð um hvernig ilmvatn ég nota og spreyja því til dæmis aldrei beint á húðina, heldur spreyja út í loftið og geng inn í úðann sem lendir þá meira á fötunum mínum. Upp úr þessu fór ég í gegnum öll efnin á heimilinu og losaði mig við þau sem voru með gerviefni og gat læknað mig af sjúkdómnum með þessu.“

Fór í ræktina eingöngu til að fara í pottinn og sturtuna

Margrét segist vera talskona þess að gera allt í meðalhófi og í smáum skrefum. „Ég vil frekar breyta venjum fólks hægt og rólega og nota engar öfgar. Það er auðveldara að bæta við einhverri hollustu heldur en að hætta öllu. Gera hlutina í litlum skrefum á lengri tíma. Þegar ég fór í kulnunina 2018 þá var meira en að segja það fyrir mig að koma mér fram úr rúminu og hvað þá að mæta í ræktina. Ég fór þá leið að fara bara í ræktina til að fara í pottinn og í sturtu. Þannig var ég búin að koma því í rútínu að mæta þótt ekki væri nema bara til að láta mér líða vel í pottinum, síðan fór ég í gufu og smám saman að æfa. Þetta snýst svo mikið um að koma sér af stað og byrja að breyta einhverju litlu og búa til rútínu. Mér leið vel af þessu og mér fannst ég vera góð við mig. Áður fyrr var þetta alltaf svo mikil kvöð og ég var með svo neikvæða hugsun, alltaf með samviskubit yfir því að fara ekki í ræktina og var einhvern veginn alltaf að skamma mig, nú er það búið.“ Markmiðið er því að setja sér lítil markmið sem hægt er að byggja ofan á bætir hún við.

Engin boð og bönn þegar kemur að mataræðinu

Aðspurð hvernig matarráðleggingar hún gefi fólki segist hún alls ekki skipta sér af lífsstílnum. „Ég er ekkert að hafa áhrif eða skipta mér af því hvernig fólk borðar, þá á ég við hvort fólk sé vegan, alætur eða slíkt. Ég fræði fólk meira um hvað geti verið bólguvaldandi og svo bendir maður á kannski hvað sé hægt að prófa frekar en eitthvað sem viðkomandi hefur kannski vanið sig á. Einnig rálegg ég fólki að skrifa niður hvað það er sem það borðar og tússa svo kannski yfir það sem fólk er ánægt með og setja svo lítinn punkt við það sem mætti betur fara. Ég geri líka stundum lista yfir bætiefni sem henta fólki en ég passa mig alltaf að vera ekki með boð og bönn, heldur frekar að fræða og mæla með einhverju ef fólk vill. Stundum sendi ég fólki líka góðar uppskriftir ef það hentar.“

Sníkjudýr í líkamanum geta haft mikil áhrif á heilsuna

Margrét nefnir að allir séu með sníkjudýr í sér bæði góð og slæm. „Mikil vakning hefur verið undanfarið varðandi góðar og slæmar bakteríur í líkamanum og meltingarveginum og svo getum við orðið fyrir því að fá í okkur sníkjudýr. Við erum öll með bæði góðar og slæmar bakteríur í okkur en kannski bara í misjöfnu magni, sumir með fleiri góðar og aðrir með fleiri slæmar. Áður fyrr var sagt að við ættum að vera með um 80% af góðum bakteríum í maganum og restina af slæmum en í dag hafa þessi hlutföll breyst og snúist í raun við. Þetta hefur áhrif á gerlana í okkur og við verðum viðkvæmari fyrir sveppasýkingum svo dæmi sé tekið. Maturinn sem við neytum í dag er minna trefjaríkur en áður en trefjarnar eru nauðsynlegar því góðu bakteríurnar nærast á þeim. Sníkjudýr eru svo annað vandamál en þau geta komið í okkur úr óelduðum fiski eins og sushi eða kjöti sem hefur ekki verið hitað í gegn. Einnig eru dæmi um að sníkjudýr geti verið í illa þvegnu grænmeti. Gæludýr geta líka borið í okkur óværu og þess vegna er brýnt að fara reglulega með þau í skoðun. Einkennin sem koma fram hjá aðila sem gæti verið með sníkjudýr eru til dæmis þreyta, svefnleysi og kláði í húð, sérstaklega á kvöldin. Einnig eru breytingar á hægðum vísbending um að eitthvað sé ekki eins og það eigi að vara. Bólgur og verkir í liðum geta líka verið áberandi ef um sníkjudýr er að ræða.“

Margrét segir að ein leið til að losna við væg sníkjudýr sé að neyta reglulega graskersfræja, hvítlauks og engifers. Þessi hráefni hafa sýnt að þau geti losað væg sníkjudýr úr líkamanum. Ef um alvarlegri tilfelli sé að ræða þurfi að útbúa sterkari jurtablöndur sem innihaldi óreganó, negul og fleiri jurtir sem drepa sníkjudýrin. Hún segir auðvitað líka hægt að taka sýni og fá smit staðfest og þá sé hægt að fara á náttúrulegan jurtakúr í hálfan mánuð.

Margrét segir að engifer sé mjög gott fyrir fólk því …
Margrét segir að engifer sé mjög gott fyrir fólk því það sé hreinsandi og hafi jákvæð áhrif á heilsuna. mbl.is/ThinkstockPhotos

Brýnt að temja sér jákvæða hugsun

Að lokum vill Margrét nefna hversu mikilvæg andlega heilsan sé. „Það er ofsalega áríðandi að við hugum að andlegu heilsunni og reynum að temja okkur að vera jákvæð og hugsa jákvætt. Í raun getur það verið ákveðinn ávani að vera með neikvæða hugsun og þá mæli ég með að fólk reyni að veita því athygli þegar það er komið með neikvæðar hugsanir. Það er gaman að gefa neikvæðu hugsuninni sinni eitthvert nafn, einhvern karakter,“ segir Margrét og hlær. „Gefa neikvæðninni eitthvert leiðinlegt nafn og segja við sjálfan sig æ, nú er hún komin. Ég mæli líka með að skrifa allskonar hluti niður. Það er líka eitt, kannski kemur það með aldrinum, en það er að vera góð við okkur sjálf og sýna okkur mildi. Á sama tíma er það gefandi að sýna líka öðrum góðmennsku og skilning. Við þurfum ekki alltaf að vera að gagnrýna okkur sjálf og aðra og það er alveg óþarfi að vera að kryfja allt og ræða ofan í kjölinn, það er allt í lagi stundum að hafa ekki rétt fyrir sér. Sýnum öðrum mildi og höfum ákveðið æðruleysi að leiðarljósi,“ bætir hún við af eldmóði.

mbl.is