Fann sjálfa sig eftir að hafa klesst á vegg

Andleg heilsa | 4. febrúar 2024

Fann sjálfa sig eftir að hafa klesst á vegg

Ástrós Erla Benediktsdóttir horfir á sjálfa sig sem sál eða vitund sem hefur aðgang að líkama sínum í þessu lífi. Eftir að hafa klesst á vegg eftir að hafa keyrt sig út í starfi fór Ástrós í ítarlega sjálfsvinnu. Í dag leggur hún mikla áherslu að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og setur það í forgang að fylgja því sem gefur henni ánægju, hamingju, gleði og orku.

Fann sjálfa sig eftir að hafa klesst á vegg

Andleg heilsa | 4. febrúar 2024

Ástrós Erla Benediktsdóttir fylgdi hugmyndum samfélagsins um hvernig átti að …
Ástrós Erla Benediktsdóttir fylgdi hugmyndum samfélagsins um hvernig átti að lifa lífinu. Hún komst að lokum að því að það hentaði henni ekki. mbl.is/Árni Sæberg

Ástrós Erla Benediktsdóttir horfir á sjálfa sig sem sál eða vitund sem hefur aðgang að líkama sínum í þessu lífi. Eftir að hafa klesst á vegg eftir að hafa keyrt sig út í starfi fór Ástrós í ítarlega sjálfsvinnu. Í dag leggur hún mikla áherslu að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og setur það í forgang að fylgja því sem gefur henni ánægju, hamingju, gleði og orku.

Ástrós Erla Benediktsdóttir horfir á sjálfa sig sem sál eða vitund sem hefur aðgang að líkama sínum í þessu lífi. Eftir að hafa klesst á vegg eftir að hafa keyrt sig út í starfi fór Ástrós í ítarlega sjálfsvinnu. Í dag leggur hún mikla áherslu að setja sjálfa sig í fyrsta sæti og setur það í forgang að fylgja því sem gefur henni ánægju, hamingju, gleði og orku.

Að sögn Ástrósar voru margir þættir sem leiddu að því að hún keyrðu sig út en aðalatriðið var að hennar mati að hún var ekki að fylgja sjálfri sér. „Ég var stöðugt að fylgja því sem ég hélt ég ætti að vera að gera, í öllum þáttum lífs míns. Ég var á þessum tíma að gera þetta allt, alveg ómeðvitað og sé í dag að ég var í raun að fylgja óskrifuðum reglum samfélagsins um hvernig við eigum að haga okkur, vera, hvað er talið æskilegt, hvað ekki og svo framvegis.“

Ástrós fór úr einu í annað, kláraði framhaldskóla, lærði förðunarfræði, BA í félagsráðgjöf og þaðan beint í master. Hún segir að hún hafi upplifað sig í einskonar kapphlaupi í gegnum lífið. Alltaf að reyna að vera betri, alltaf að reyna að læra meira, gera meira og vinna meira.

„Í dag geri ég mér grein fyrir því að ég var að reyna á einhvern hátt að sanna mig, að sanna fyrir sjálfri mér að ég var nóg, að ég var einhvers virði þar sem innst inni trúði ég því í raun og veru ekki um sjálfa mig,“ segir Ástrós. 

Líkaminn sendi skýr skilaboð

Hún segir að hún hafi gleymt því að staldra við, líta inn á við og spyrja sig hvað hún vildi.

„Ég setti mér og öðrum ekki skýr mörk því ég í raun og veru vissi ekki einu sinni hvað ég vildi og margt annað í þessum dúr. Í raun var ég búin að keyra mig og líkamann minn alveg út, andlega, líkamlega og orkulega. Líkaminn var oft búin að reyna að segja mér þetta. Ég var stanslaust þreytt, reglulega með höfuðverki, alltaf með vöðvabólgu og verki í baki. Ég varð reglulega veik, alltaf með kinn- og ennisholubólgur, stöðuga magaverki og krampa. Ég var oft stressuð yfir öllu og engu sem var í lokin, rétt áður en ég brann út var það farið að þróast út í ofsakvíða. Ég var í stöðugri streitu, hugurinn minn alltaf á fullu, ég var farin að gleyma hlutum, týna hlutum og svo gæti ég líklega lengi talið.“

Hvernig fórstu að því að finna sjálfa þig?

„Í raun var það ekki fyrr en ég klessti harkalega á vegg að ég vaknaði og byrjaði að fatta hvað ég var að gera og í raun ekki að gera. Það kom ekkert allt í einu heldur smátt og smátt. Ég fór að gera mér grein fyrir að ég vissi varla hver ég var eða hvað ég vildi. Jafnvel er hægt að segja að ég hafi orðið eins og eitthvað róbót sem hlýddi skipunum sem í raun engin var að segja mér, ég bara hélt áfram og fannst eins og ég þyrfti að framfylgja þeim út frá samfélagslegum gildum.“

Ástrós þurfti meðal annars hvíld en líkaminn hafði kallaði lengi …
Ástrós þurfti meðal annars hvíld en líkaminn hafði kallaði lengi á það. Ljósmynd/Heiðrún Fivelstad

Ástrós leggur áherslu á að hún hafi þurft á hvíld að halda og að læra að slaka á. Sjálfsvinnan reyndi á en hún fólst meðal annars í að vera í núinu, upplifa sjálfa sig, líkama sinn, tilfinningarnar og lífið, vinna í huganum, taka á sjálfsniðurrifinu og skömm sem hún fann fyrir.

„Í raun var þetta ekkert eitt, þetta voru allskonar litlir hlutir. Ég vann mikið sjálf inn á við með huga, líkama, tilfinningar og sál en líka í samvinnu við aðra. Ég prófaði nýja hluti eins og jóga, að hugleiða, talaði við aðra, fór til sálfræðings, í dáleiðslu, í heilun, fór í nudd og bara nefndu það! Ég fór að leita og smátt og smátt fattaði ég að ég var að finna mig og bara finna, fyrir meiri léttleika, tengingu. Þessi vinna gaf mér og er enn að gefa mér lífið sem ég lifi í dag. Þessi vinna gaf mér t.d. það að nú veit ég betur hver ég er, hver ég vil vera, hvað ég elska, hvers ég nýt, hvað ég hef gaman af, hvað lætur mig hlæja, hver gildin mín eru í mínu lífi, hvað mig langar að gera og hvert mig langar að stefna.“

Ástrós segir himinn og haf á milli þess lífs sem hún lifði áður og hún lifir í dag.

„Vinnan mín er ástríðan mín, ég leyfi mér að skapa það sem ég vil gera, ég vinn þegar ég vil vinna og vinn við það sem gefur mér orku og gleði. Ég er umkringd fólki sem ég elska og þau elska mig. Við styðjum hvort annað, ég finn fyrir styrk, stuðningi, kærleika, umhyggju og gleði frá fólkinu mínu og við sköpum saman upplifanir sem við njótum saman.

Í dag lifi ég því lífi sem mig hefur lengi dreymt um. Ég hef komist að því að þetta líf er til að hafa gaman, allavega kýs ég að lifa lífinu út frá því sjónarhorni. Við stjórnum því hvað við sköpum, það sem við köllum fram. Ég er hætt að gera það ómeðvitað og bara fljóta með umhverfinu. Ég hef tekið við stýrinu og leyfi mér nú að skapa það sem ég vil kalla inn í lífið mitt. Af hverju ekki? Það er svo mikil fegurð í boði ef við bara leyfum okkur að trúa því og trúa að við eigum það skilið! Þangað er ég að stefna og er í raun komin að, að mörgu leyti.“

Heldur þú að fólk sé kannski hrætt að vera það sjálft?

„Ef ég svara út frá sjálfri mér þá var það meira þannig að ég var hrædd um að ef ég væri ekki það sem samfélagið, fjölskyldan og félagar, hópar „vildu“, var ég hrædd um að mér yrði hafnað og útskúfuð úr hópnum.“

Ástrós prófaði ýmislegt til þess að byggja sig upp aftur. …
Ástrós prófaði ýmislegt til þess að byggja sig upp aftur. Í dag leggur hún áherslu á það sem veitir henni orku og gleði. Ljósmynd/Anna Margrét

Þurfti að læra að hugsa fyrst um sig

Ástrós kennir meðal annars námskeið og heldur viðburði þar sem fólk kynnist sjálfu sér betur, líkama og sál. Hún segir að ein ástæða þess að hún finnur þörf til þess að miðla til annarra er að hún hefur lært mikið á sjálfsvinnunni sinni og langar að deila því áfram. Hún hefur meðal annars menntað sig sem jógakennari, heilari og markþjálfi.

„Þessa stundina er ég með opna sjálfheilunartíma alla sunnudaga í Móar Studio, kenni meðgöngujóga í jógasetrinu og er að fara af stað með heildrænt jóganámskeið núna 13. febrúar í Móar Studio þar sem ég blanda saman þekkingu minni að andlegri, líkamlegri og orkulegri vinnu.“

Ástrós sem er lærður félagsráðgjafi segir að hún hafi fundið þörf til að hjálpa öðrum strax í æsku. Áður fyrr fannst henni eins og hún þyrfti jafnvel að bjarga öllum og það væri á hennar ábyrgð að öllum liði vel í öllum aðstæðum. Eftir að hún fór að vinna í sjálfri sér nálgast hún fólk á annan hátt en hún gerði.

„Það sem gleymdist þarna var hvernig mér leið og hvort einstaklingarnir voru að biðja um aðstoð eða ekki. Það var í raun ekki fyrr en ég fór að vinna í mér og að kynnast sjálfri mér, líkama mínum, tilfinningum, hugsunum og sál að ég fór að gera mér grein fyrir þessu mynstri, að ég setti aðra alltaf á undan mér. Hugsaði fyrst um aðra og svo mig eða í raun hugsaði ég bara lítið sem aldrei um mig.

Með því að brenna út og byrja þessa vegferð að bættri andlegri og líkamlegri líðan, sjálfsþekkingu og umhyggju hef ég lært að það er lykilatriði að sinna sjálfri mér fyrst og fremst áður en ég er til staðar fyrir aðra. Það sem ég er einnig að læra núna er að þegar við leyfum okkar að vera við sjálf eins og við erum, leyfum ljósinu okkar að skína, stöndum með okkur sjálfum sama hvað, með kærleika og umhyggju munum við óhjákvæmilega hjálpa öðrum án þess í raun að reyna það,“ segir Ástrós.

Ástrós fór meðal annars að stunda jóga og er jógakennari …
Ástrós fór meðal annars að stunda jóga og er jógakennari í dag. Ljósmynd/Sandra Ósk Kristjánsdóttir

Hafa allir tíma til að staldra við og horfa inn á við í þessu hraða samfélagi sem við búum í í dag?

„Við sköpum okkar raunveruleika í hverju einasta augnabliki. Hvort sem við erum meðvituð eða ómeðvituð um það og hvort sem við erum að skapa eitthvað sem við viljum og fílum eða eitthvað sem okkur líkar ekki við.

Að því sögðu getum við í raun öll skapað okkur umhverfi, tíma og rúm til að líta inn á við, tengjast okkur, líkama okkar, huga og sál. Byrja að læra að hlusta, hlusta á okkur, okkar drauma, hvað við elskum, hvað okkur líkar, hvað okkur líkar ekki, hvað við viljum hafa í lífinu okkar og hvað ekki. Að hlusta á líkama okkar og læra hvernig hann tjáir sig, hvernig hann er að tjá sig á hverju einasta augnabliki til að reyna að láta okkur vita hvernig við getum náð betri tengslum við okkur, verið í meiri flæði og þannig liðið betur í okkar lífi. En auðvitað er það okkar val.“

Ætlar að halda áfram að vaxa og dafna

Hvað veitir þér orku?

„Það sem veitir mér orku eru góð samskipti, vinir, fjölskyldan mín, litla stelpan mín, konan mín, sálarvinir mínir, samvera, hlátur, gleði, hamingja, að vera ég, að leyfa mér að vera ég og fylgja því sem veitir með ánægju, gleði, hamingju, þrátt fyrir að það sé út fyrir samfélagsleg viðmið eða fjölskyldan og vinir búast við.“

Ert þú með einhver markmið fyrir árið 2024?

„Markmiðið mitt þetta árið er að halda áfram minni vegferð; að sjá, elska, hlusta og samþykkja mig og alla partana mína. Leyfa mér að dvelja meira inn á við og læra að sjá og elska mig ennþá betur og halda áfram að fara á eftir því sem mig dreymir um.

Ég sé mig á þessu ári gera margt nýtt, stíga stöðugt lengra út fyrir þægindaramman. Til dæmis leyfa mér að syngja meira og dansa. Að halda áfram að vaxa og dafna, skína ljósinu mínu ennþá skærar, ferðast um heiminn bæði til að njóta og deila gjöfum mínum og minni sögu. Kynnast og skapa með öðrum fallegum sálum og í raun bara njóta extra vel tíma með fjölskyldu og vinum. Svo mikið spennandi sem ég er að vinna að, þetta ár verður eitthvað annað,“ segir Ástrós.

mbl.is