Þjáðist í hljóði á eigin heimili

Heilsuferðalagið | 3. mars 2024

Þjáðist í hljóði á eigin heimili

Svava Brooks, áður Björnsdóttir, á sér svakalega en sorglega sögu. Hún og alsystir hennar ólust upp við gróft og langvarandi ofbeldi í æsku. Gerandinn var stjúpfaðir stúlknanna sem þær töldu vera líffræðilegan föður sinn. Síðan komust þær að hinu rétta.

Þjáðist í hljóði á eigin heimili

Heilsuferðalagið | 3. mars 2024

Svava hefur unnið mikla sjálfsvinnu síðustu ár.
Svava hefur unnið mikla sjálfsvinnu síðustu ár. Ljósmynd/Aðsend

Svava Brooks, áður Björnsdóttir, á sér svakalega en sorglega sögu. Hún og alsystir hennar ólust upp við gróft og langvarandi ofbeldi í æsku. Gerandinn var stjúpfaðir stúlknanna sem þær töldu vera líffræðilegan föður sinn. Síðan komust þær að hinu rétta.

Svava Brooks, áður Björnsdóttir, á sér svakalega en sorglega sögu. Hún og alsystir hennar ólust upp við gróft og langvarandi ofbeldi í æsku. Gerandinn var stjúpfaðir stúlknanna sem þær töldu vera líffræðilegan föður sinn. Síðan komust þær að hinu rétta.

Eftir mörg erfið ár á Íslandi flúði Svava til Bandaríkjanna og fór í nám. Þar kynntist hún manni með svipaða baksögu og hennar. Þau leituðu huggunar hvort hjá öðru og stofnuðu fjölskyldu.

Í dag er Svava skilin og flutt aftur heim til Íslands. Hún hefur unnið mikla sjálfsvinnu síðustu ár og starfar í dag sem TRE-ráðgjafi. Hún hjálpar fólki sem glímir við spennu og streitu í líkama sínum að losna við þessa kvilla í gegnum úrræði sem kallast Tension, Stress and Trauma Release eða TRE.

„Þetta var sorglegt leikrit“

„Ég fékk aldrei tækifæri til að vera örugg á mínu eigin heimili, æskuheimili,“ segir Svava. Maðurinn, stjúpfaðirinn, kom inn í líf mæðgnanna, móður Svövu og þeirra systra, þegar hún var aðeins tveggja ára gömul.

„Mamma var ung og einstæð að ala upp tvær dætur. Hugsanlega var þetta úthugsað hjá honum,“ segir Svava sem hefur komist að því í seinni tíð að svona einstaklingar vita vel hvað þeir eru að gera og leita uppi hentugar aðstæður. „Þeir tæla til sín varnarlausar konur með börn.“

Svava ólst upp við gróft og langvarandi ofbeldi í æsku.
Svava ólst upp við gróft og langvarandi ofbeldi í æsku. Ljósmynd/Aðsend

Aðspurð segir Svava að heimilislífið hafi oft og tíðum verið eins og einn stór leikþáttur. „Ég var beitt líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, það markaði mig fyrir lífstíð. Ég á minningarbrot um ofbeldið frá því fyrir fjögurra ára aldurinn en margt er gleymt en ekki grafið,“ segir hún.

„Þetta var leikrit, sorglegt leikrit. Bara það að vakna á morgnana, fara fram úr og klæða sig, vitandi að hann sæti við morgunverðarborðið með kaffibollann sinn. Ég vissi að ég þurfti að horfast í augu við hann þar og láta sem ekkert hefði gerst um nóttina. Ég fraus, fór í brynjuna og lék hlutverkið sem ég þekkti einum of vel.“

Svava man vel eftir hræðslutilfinningunni og óttanum, en hverja nótt óttaðist hún það allra, allra versta. „Ég vissi aldrei hvenær. Þetta gerðist ekki á hverri nóttu, var svolítið handahófskennt. Ég reyndi alltaf að vefja sænginni um mig, þéttingsfast. Ég taldi það hjálpa mér, að sængin væri varnarveggurinn minn en hann náði alltaf að komast í gegn. Hann hvíslaði umhyggjuorðum í eyru mín - á meðan ég þjáðist í hljóði. Ég trúði því af öllu hjarta að eini tilgangur minn og leiðin að kærleikanum væri að veita aðgang að líkama mínum. Ég þekkti ekkert annað,“ útskýrir hún.

„Man ekki eftir öðru“

Svava segir allt hafa verið mjög vel falið. „Þetta ofbeldi var til staðar alla mína æsku. Ég man ekki eftir öðru. Móðir mín stóð frammi fyrir miklum erfiðleikum. Það var ekki fyrr en seinna sem ég gerði mér grein fyrir því að hún var í eigin áfallaviðbrögðum og treysti sér ómögulega út úr aðstæðunum.

Ég var svo ung að ég skildi hvorki upp né niður í neinu, en ég man að ég var dugleg að kenna sjálfri mér um, reyndi að segja frá en á sama tíma fann ég engin orð til að lýsa þessu. Ég fann fyrir skömm og sektarkennd,“ segir Svava sem faldi sig á bak við fullkomnunaráráttu, en það er eitt af einkennum skammar og lágs sjálfsmats. „Ég lagði mig alla fram við að láta allt líta fullkomlega út.“

Svava stundaði íþróttir, sérstaklega handbolta, af kappi og upplifði stundarfrið og gleði á æfingum. Íþróttahúsið var öryggissvæði sem æskuheimilið var aldrei. „Ég spilaði handbolta í átta ár og fékk óbilandi stuðning og hrós frá þjálfurunum, eitthvað sem ég heyrði aldrei heima við. Ég var mjög þakklát fyrir stuðninginn en að sama skapi þá trúði ég aldrei á sjálfa mig og eigin hæfni. Mér tókst að fela ofbeldið og þar af leiðandi grunaði engan hvað var að gerast á bak við læstar dyr. Ég brosti og gerði mitt allra besta. Mér leið samt mjög illa innra með mér.“

Ofbeldið markaði Svövu fyrir lífstíð.
Ofbeldið markaði Svövu fyrir lífstíð. Ljósmynd/Aðsend

Ofbeldið stóð yfir í mörg ár, alveg þangað til Svava flutti að heiman, komin á unglingsaldur. „Þetta var bara alltaf. Ég fór aldrei örugg heim. Ef hann var kominn heim á undan mömmu þá kaus ég að standa úti í kuldanum frekar en að fara inn til hans. Ég vissi aldrei við hverju ég ætti að búast.“

Er þessi maður enn meðal vor?

„Mér skilst það, en hann er ekki búsettur á Íslandi,“ segir Svava. „Ég veit að hann lenti sjálfur í alvarlegu ofbeldi sem barn. Það er líka eitthvað sem ég hef komist að svona í seinni tíð, það gerir enginn svona án þess að hafa lent í einhverju sjálfur, en það réttlætir aldrei það sem hann gerði.”

Maðurinn var ekki sóttur til saka fyrir ofbeldið. „Þegar ég treysti mér loksins til að kæra þá var þetta orðið fyrnt. Á þessum tíma fyrndist ofbeldisglæpur þó svo að um barn væri að ræða.“ Í dag hefur því verið breytt, en Svava tók þátt í að breyta fyrningarlögunum á Íslandi í gegnum samtökin, Blátt áfram, forvarnarverkefni gegn kynferðisofbeldi á börnum.

Svava er ein af stofnendum Blátt áfram.
Svava er ein af stofnendum Blátt áfram. Ljósmynd/Aðsend

Fann leiðir til að deyfa sársaukann

Barn sem elst upp við hvers kyns ofbeldi eða vanrækslu er mun líklegra til að verða fyrir erfiðleikum í lífinu og nota áfengi og/eða önnur vímuefni til að deyfa sársaukann. Svava leitaði í áfengi á erfiðum tímum og var byrjuð að reykja og drekka á fyrstu árum táningsaldursins.

„Ég drakk mikið og illa. Ég var byrjuð að reykja aðeins 12 ára gömul og fann allar leiðir til að deyfa sársaukann. Þegar ég drakk þá kom sjálfstraustið, með hverjum sopa kom þor til að segja eitthvað og gera eitthvað,“ útskýrir Svava. „Ég tókst á við lífið og erfiðleikana á djamminu.“

Svava átti griðastað hjá ömmu sinni.

„Amma bjargaði mér á vissan hátt. Ég flutti heim til hennar á menntaskólaárunum. Hún bjó stutt frá skólanum. Amma var ein af þeim fáu í lífi mínu sem virkilega sá mig og sýndi mér ást, umhyggju og virðingu. Ég sá kærleika í augum ömmu,“ segir hún.

„Ég var ekki á góðum stað í lífinu á þessum árum, en djammið og drykkjan náði ákveðnum hápunkti þegar ég bjó hjá ömmu. Hún varð oft mjög leið þegar ég var að drekka, djúsa og koma seint heim. Ég gerði ótal hluti sem hún var ekki stolt af, en það var bara af því að ég þekkti ekki eigin sjálf.“

„Slæmu minningarnar eltu mig“

Svava flutti búferlum til San Diego árið 1989. „Ég hélt út í framhaldsnám en var einnig að flýja aðstæður á Íslandi. Ég hélt bara að ég gæti skilið slæmu minningarnar eftir heima en komst fljótt að því að þær eltu mig hvert sem ég fór. Minningarnar voru á Íslandi og í Ameríku. Þær voru alls staðar þar sem ég var.“

Svava naut lífsins í Ameríku.
Svava naut lífsins í Ameríku. Ljósmynd/Aðsend

San Diego bauð upp á nýja möguleika og ákvað Svava að opna hjarta sitt. „Eftir nokkra mánuði í nýrri borg kynntist Svava manni. Hún giftist honum eftir mjög stutt kynni og upplifði annað áfall. „Ég gerði mér fljótt grein fyrir því hversu veikur þessi maður var og bað um skilnað eftir nokkurra mánaða hjónaband. Hann endaði á að svipta sig lífi,“ segir Svava sem sendi í framhaldi spurningu út í alheiminn: „Af hverju ég?“

„Ég var ein að keyra þegar svarið kom: „Svava, you are here for a very important reason.“ Ég fann innri frið, þessi orð komu við hjartað í mér. Ég ákvað að treysta framhaldinu.“

„Ég var góð í að leggja mig fram“

Svava kynntist manninum sem hún var gift í 27 ár í gegnum fyrsta eiginmann sinn. Sameiginleg reynsla batt þau saman, en bæði upplifðu þau makamissi. „Hann missti kærustu sína í bílslysi tæpu ári eftir að eiginmaður minn tók sitt eigið líf,“ segir hún. „Ég hafði samband við hann og sagðist geta stutt við hann í gegnum þennan erfiða tíma. Fljótlega upp úr því byrjuðum við að deita og stuttu seinna varð ég ófrísk að okkar fyrsta barni. Elísa kom í heiminn árið 1993.“

Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú ættir von á barni?

„Ég var ekki hrædd en ég var mjög hissa. Ég hugsa að stór hluti af mér hafi haldið að ég gæti ekki orðið ófrísk, aðallega vegna þess hvernig ég kom fram við sjálfa mig um tíma.

Sambandið var líka nýtt þegar við komumst að óléttunni, við vorum aðeins búin að vera par í nokkra mánuði, en barnið var límið sem hélt okkur saman. Við vorum bæði mjög meðvituð um brotnu æskuna okkar, vissum vel að þetta yrði ekki auðvelt en vorum þó staðföst í að gera okkar besta. Það gekk brösuglega en sambandið gaf mér tækifæri til þess að skoða áhrif æsku minnar.“

Svava ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum og börnum.
Svava ásamt fyrrverandi eiginmanni sínum og börnum. Ljósmynd/Aðsend

„Heilunarvinnan mín hófst í Ameríku. Ég prófaði allt undir sólinni. Sama ár og ég eignaðist elstu dóttur mína, byrjaði ég að vinna úr afleiðingum ofbeldisins,“ segir Svava sem fann sjálfshjálparhóp sem samanstóð af konum sem höfðu lifað af ofbeldi í æsku.

„Þessi hópur opnaði augu mín fyrir alvarleika málsins og sýndi mér hversu miklar afleiðingar þetta leiddi af sér frá ungdómsaldri og alveg til fullorðinsára. Ofbeldið hafði mikil áhrif á það hvernig ég ól upp börnin mín. Sjálf fór ég á mis við þessa mikilvægu tengslamyndum sem barn og þurfti því að læra heilmikið þegar ég varð foreldri.“

Svava og barnsfaðir hennar gengu í hjónaband 1994. „Við áttum góð ár inni á milli en rauði þráðurinn sem einkenndi hjónabandið voru erfiðleikar. Ég var mjög góð í að gera honum til hæfis, en það kom fljótlega í ljós að ég átti erfitt með að elska heitt og innilega. Ég segi oft: Það var eins og að elska ljón í búri að vera með mér. Ég vildi ástina en ef og þegar hann kom of nálægt þá sýndi ég klærnar,“ útskýrir hún.

Svava á þrjú börn. Tvær dætur og einn son.
Svava á þrjú börn. Tvær dætur og einn son. Ljósmynd/Aðsend

„Hann kenndi mér að treysta“

Það tók Svövu langan tíma að læra að treysta. „Ég finn ekki fyrir hjartanu þínu, þú heldur mér frá þér, sagði hann við mig. Það var erfitt að heyra þessi orð,“ útskýrir Svava. 

„Þessi orð vöktu mig. Hann var sá maður sem kenndi mér að treysta karlmönnum. Hann kom vel fram við mig, sýndi mér skilning og samúð í gegnum árin.“

Svava eignaðist þrjú börn með þessum manni og vissi að rétta leiðin til að sýna þeim ást og kærleika væri að ef hún lærði að elska sig fyrst og líða vel í eigin skinni. „Þau voru að læra af mér og ég lærði að vinna með litlu Svövu, sem ég taldi ekki ástarinnar virði. Ég einblíndi mikið á hana og það hjálpaði mér að verða heil á ný.“

Svava lærði hægt og rólega að hlúa að sér og líkama sínum. „Ég hafnaði líkama mínum í mjög langan tíma. Allt sem hann hafði verið notaður í af öðrum og af mér var ekkert sem ég gat glaðst yfir, en þessi líkami er heimili mitt og heimili hjarta míns. Ég byrjaði að kynna mér áhrif streitu á líkamann og það urðu ákveðin kaflaskipti þegar ég uppgötvaði þau fræði,” útskýrir hún.

„Gat ekki gert hann hamingjusaman“

Þegar Svava fór að finna réttar lausnir og byrjaði að líða betur myndaðist frekari togstreita í hjónabandinu.

„Ég var búin að ákveða að slíta hjónabandinu. Það tók mig tvö ár að láta verða að því. Mér leið betur og betur en hann var alltaf óhamingjusamur. Ég sagði oft við minn fyrrverandi: „Þú ert að missa af góðum tímum,” en á þessum tímapunkti vissi ég að ég gæti ekki gert hann hamingjusaman. Það var ekki mitt hlutverk. Ég vissi að ég gæti einungis borið ábyrgð á eigin hamingju og gert mig hamingjusama og þarna var ég búin að finna leið til að gera það. Ég þurfti að sleppa takinu af honum. Hann var byrjaður að halla sér að flöskunni. Við vorum ekki samstíga,” segir hún. Hjónabandinu lauk haustið 2019.

Svava uppgötvaði nýja konu eftir skilnaðinn. „Ég fann mér litla íbúð, korter í kórónuveirufaraldurinn. Ég átti yndislegan tíma ein með sjálfri mér, bjó nálægt börnunum mínum. Í einangruninni komst ég að því að ég er listakona. Ég hafði ekki hugmynd um að ég hefði þessi miklu þörf fyrir listsköpun, en ég byrjaði að teikna og mála og hef ekki hætt því síðan,” segir hún.

Svava hefur ræktað sköpunarhæfileika sína á fullorðinsárum.
Svava hefur ræktað sköpunarhæfileika sína á fullorðinsárum. Ljósmynd/Aðsend

Af hverju fluttirðu heim?

„Krakkarnir mínir hvöttu mig til að flytja heim til Íslands. Ég hef alltaf verið með annan fótinn á Íslandi. Ég stofnaði Blátt áfram ásamt systur minni árið 2004 og bjó þá á Íslandi í tvö ár. Eiginmaður minn var ekki ánægður hér á landi þannig að við fluttum aftur út til Bandaríkjanna. Ég var samt mjög hamingjusöm á Íslandi og hélt áfram að starfa með samtökunum og var leiðbeinandi um forvarnir gegn kynferðisofbeldi.“

„Ég vildi skilja mig“

Svava uppgötvaði Tension, Stress and Trauma Release eða TRE árið 2015. Það reyndist góð ákvörðun og markaði stór kaflaskil í lífi hennar. „Þegar ég fór að vinna með TRE þá skildi ég loksins hvað var að gerast í líkama mínum og hvers vegna ég brást við ólíkum aðstæðum eins og ég gerði.

Ég lærði fljótt að það var ekkert að mér. Líkami minn var búin að standa sig vel en var fastur í vörn, hann var fastur við að upplifa atvik sem voru löngu liðin. Sjálf vissi ég að þau væru liðin en líkami minn og taugakerfi héldu fast í það sem gerðist í æsku,” útskýrir hún. 

Svava hefur haldið fyrirlestra og námskeið í Bandaríkjunum og á …
Svava hefur haldið fyrirlestra og námskeið í Bandaríkjunum og á Íslandi er snúa að vörnum gegn ofbeldi og sjálfsvinnu. Ljósmynd/Aðsend

Svava ákvað að gerast vottaður leiðbeinandi fyrir TRE árið 2017 til að deila þessum mikilvægu upplýsingum með öðrum. „TRE kenndi mér það að lausnin lægi í líkamanum, ég hafði ekki hugmynd um það.“

Hvað er TRE?

„Það er ný leið til að losa um spennu, streitu og áföll sem liggja djúpt í vöðvum líkamans. Aðferðin var þróuð af Dr. David Berceli til að virkja náttúruleg viðbrögð líkamans á öruggan máta. Aðferðin snýst um að leyfa líkamanum að skjálfa eða titra þannig að það losni um vöðvaspennu og taugakerfið róist.

Svava heldur reglulega TRE-námskeið á Íslandi og það með góðum árangri. Á síðustu árum hafa um 300 manns sótt námskeið hjá Svövu. „Það er of mikið um kulnun og streitu í samfélaginu og því legg ég mikið upp úr að kenna fólki að hlusta á líkama sinn og taugakerfi ásamt því að sýna sér mildi og hvíla sig. Ég er í dag eini vottaði leiðbeinandinn á Íslandi,” segir hún að lokum.

mbl.is