Þurfti að kynnast sjálfri sér og byrja upp á nýtt

Andleg heilsa | 31. mars 2024

Þurfti að kynnast sjálfri sér og byrja upp á nýtt

Hrafnhildur J. Moestrup fann sig ekki í hinu hefðbundna heilbrigðiskerfi þegar hún klessti á vegg en gafst ekki upp og leitaði eigin leiða. Fyrir nokkrum árum tók hún djarfa ákvörðun þegar hún hætti í venjulegri vinnu, gerðist frumkvöðull og hóf að sinna fólki í andlegri einkaþjálfun með aðferðum sem nýttust henni. 

Þurfti að kynnast sjálfri sér og byrja upp á nýtt

Andleg heilsa | 31. mars 2024

Hrafnhildur J. Moestrup er búin að vinna vel í sjálfri …
Hrafnhildur J. Moestrup er búin að vinna vel í sjálfri sér en sjálfsvinnan heldur alltaf áfram. Ljósmynd/Aðsend

Hrafnhildur J. Moestrup fann sig ekki í hinu hefðbundna heilbrigðiskerfi þegar hún klessti á vegg en gafst ekki upp og leitaði eigin leiða. Fyrir nokkrum árum tók hún djarfa ákvörðun þegar hún hætti í venjulegri vinnu, gerðist frumkvöðull og hóf að sinna fólki í andlegri einkaþjálfun með aðferðum sem nýttust henni. 

Hrafnhildur J. Moestrup fann sig ekki í hinu hefðbundna heilbrigðiskerfi þegar hún klessti á vegg en gafst ekki upp og leitaði eigin leiða. Fyrir nokkrum árum tók hún djarfa ákvörðun þegar hún hætti í venjulegri vinnu, gerðist frumkvöðull og hóf að sinna fólki í andlegri einkaþjálfun með aðferðum sem nýttust henni. 

„Ég svamlaði í eigin sjálfsvorkunnardrullupolli í nokkur ár. Þegar maður vinnur ekki með sín mál, eins og í mínu tilfelli, að þá framkallaði sú líðan marga kvilla. Ég upplifði á tímapunkti þunglyndi, kvíða, sjálfsniðurrif og fann almennt fyrir mikilli vanlíðan. Ekki alla daga en nóg til þess að það fór að hafa veruleg áhrif á lífsgæðin mín og ákvarðanatökur. Þetta kemur oft mörgum á óvart, því ég er líka jákvæð að eðlisfari, lífsglöð og kraftmikil,“ segir Hrafnhildur. Hún segist hafa verið að burðast með 20 kíló af æsku og ýmsum áföllum sem hún hefur náð að losa úr kerfinu að mestu en sjálfsvinnan heldur stöðugt áfram þrátt fyrir að hún sé á allt öðrum stað í dag. 

Fann leiðina sjálf

„Í einu kvíða- og vanlíðunarkastinu mínu ákvað ég að hér vildi ég ekki dvelja lengur. Ég var hreinlega búin að fá algjört ógeð á því að vera alltaf í einhverri vanlíðan sem ég skildi ekki þá af hverju stafaði. Þá stóð ég uppi algjörlega týnd, hvert leitar maður þegar maður vill koma sér í aukið andlegt form? Ég vissi svo sannarlega hvert ég ætti að leita með líkamann á mér ef ég vildi koma honum í betra líkamlegt form, en hvað með hugann minn og sálina?“ segir Hrafnhildur. 

Hrafnhildur reyndi nokkrar leiðir. Hún var meðal annars greind með athyglisbrest og fékk lyf. Nokkru seinna reyndi hún að fara í sálfræðimeðferð sem hún segir ekki hafa hentað sér.

„Ég var ekki að leita eftir lyfjum og mig vantaði verkfæri til að vinna með, fróðleik til að vekja mig til umhugsunar eða bara hreinlega eitthvað til að grípa í. Ég fékk því miður ekkert af því. Ég sagði sálfræðingnum mínum því upp og fór að leita í óhefðbundnari nálgun. Besta ákvörðun sem ég hef tekið því eftir þá ákvarðanatöku fór bara allt að gerast ansi hratt, ég hitti rétta fólkið sem vísaði mér á þá staði sem ég þurfti á þeim tíma,“ segir Hrafnhildur sem var tilbúin að gera breytingar á sínu lífi og segist skilja sig betur í dag en áður. Í dag finnur hún ekki fyrir athyglisbrestinum sem stýrði henni alla hennar skólagöngu, frá grunnskóla yfir í háskólanám. Hún hefur öðlast ró eftir að hafa lagt upp í sína markvissu sjálfsrækt. Hún tekur þó fram að lyf geti hentað ýmsum þó það hafi ekki hentað henni og hún hvetur ekki fólk til að hætta á lyfjum. 

Mikil áhersla er lögð á líkamlega heilsu en töluvert minni …
Mikil áhersla er lögð á líkamlega heilsu en töluvert minni á andlega líðan. Ljósmynd/Aðsend

Sjálfsrækt þarf ekki að byrja þegar klesst er á vegg

Hrafnhildur segist hafa hugsað með sér að það væru ekki til andlegir einkaþjálfarar á Íslandi. Þegar hún hafði náð mjög góðum árangri með sjálfa sig ákvað hún að búa til námskeið til að hjálpa öðrum. Úr varð 12 mánaða andleg einkaþjálfun. Hún hefur sinnt starfinu í átta ár og leiðbeinir bæði öðrum í einkaþjálfun og menntar aðra í að verða andlegir einkaþjálfarar.

„Það er ekkert betra en að sjá þá sem til mín leita, hvort sem það er að koma á 12 mánaða andlega einkaþjálfun eða í námið, öðlast nýja sýn á sjálfan sig, aðra og lífið sjálft. Vegferðin er ekki alltaf auðveld og ég ber svo mikla virðingu fyrir fólki sem vill vinna í sér og líða margfalt betur. Það þurfa svo sannarlega ekki allir að fara í þessa andlegu vegferð með tonn af áföllum á bakinu og það er algjör misskilningur að halda að sjálfræktin þurfi að byrja þegar maður hefur klesst á þennan blessaða vegg,“ segir hún. 

Hrafnhildur segir fólk fá nýja sýn á sjálft sig þegar það fer í markvissa innri vinnu.

„Að kynnast sjálfum sér felst í því að læra að hlusta betur, en við töpum því ansi fljótt á uppvaxtarárum okkar því við byrjum að hlusta á alla aðra nema okkur, uppalendur, annarra manna raddir og það sem er samfélagslega samþykkt eða viðurkennt. Þannig að við fjarlægjumst oftar en ekki okkar innri kjarna og getum týnt því hver við raunverulega erum því hávaðinn er einfaldlega svo mikill allt í kringum okkur. Ég þurfti sjálf að byrja á því að lækka hljóðið í öllu fyrir utan sjálfan mig og byrja að hlusta á mitt innra. Það þýddi líka að ég þurfti að byrja á því að spyrja mig óteljandi spurninga og kynnast mér þannig betur. Fara síðan að setja stórt spurningarmerki við allt sem mér hafði áður verið kennt eða það sem ég tók inn í mitt kerfi og hafði áhrif á mig. Því hvaða raddir voru að kenna mér á mínum uppvaxtarárum og á lífsleiðinni, hvernig leið því fólki almennt með sjálfa sig? Er það eitthvað sem ég vil taka með mér inn í mitt fallega líf?“

Hvað fannst þér hafa hjálpað þér mest?

„Það sem hjálpaði mér mest var að vakna með þá staðreynd að ekkert örnámskeið eða lyf myndi gera róttækar breytingar á mínu innra trúarkerfi, undirmeðvitund, hugarfari eða hvernig varnarkerfið mitt almennt virkaði. Ég þurfti að stíga inn í óþægindin sem fylgdi að skoða þetta allt saman og að það væru engar skyndilausnir sem myndu gefa mér þann árangur sem ég var að leitast eftir. Ég þurfti að setja markvissa sjálfsrækt inn í dagskrána og gera hana að lífsstíl,“ segir Hrafnhildur. Hún segir heilun í því að skrifa frá sér áföllin og deilir með þeim sem leita til hennar, þannig vita skjólstæðingar hennar að hún hefur líka gengið í gegnum áföll og hvernig hún sjálf hefur nýtt það sem hún miðlar áfram til annarra fyrir sig og sitt líf. 

Á undanförnum árum hafa margir andlegir einkaþjálfarar útskrifast hjá Hrafnhildi.
Á undanförnum árum hafa margir andlegir einkaþjálfarar útskrifast hjá Hrafnhildi. Ljósmynd/Aðsend

Umdeildar en réttar ákvarðanir

Hrafnhildur hefur upplifað mörg augnablik á undanförnum árum þar sem hún finnur fyrir því að hún er á réttri leið. 

„Ég myndi segja að stærsta mómentið hafi samt sem áður verið þegar ég hætti á þessum hefðbundna vinnumarkaði og fór áfram með andlega einkaþjálfun. Get ekki sagt að sú vegferð hafi verið auðveld en rétta skrefið sem færði mig á rétta staðinn. Þá fyrst fannst mér ég hafa ákveðinn tilgang og vera partur af stærri heildarmynd sem ég þurfti ekkert endilega að skilja hver væri. Þegar ég hafði hugrekki til að fara áfram með eitthvað sem enginn hafði heyrt af áður og pínulítið á móti norminu. Það getur reynt á en ég hafði svo mikla trú á því sem ég var að gera og geri enn, þannig að ég held áfram að miðla til annarra.“

Hrafnhildur þurfti að kynnast sjálfri sér betur.
Hrafnhildur þurfti að kynnast sjálfri sér betur. Ljósmynd/Aðsend

Hrafnhildur rifjar upp aðra eftirminnilega ákvörðun sem hún tók en þá fór hún með móður sinni og börnum sínum í tæpa fimm mánuði til Balí. 

„Þá fannst mér ég hafa lent í sjálfri mér einhvern veginn og var algjörlega á réttum stað, þegar ég þorði að vera trú mínum ævintýrakjarna og tók börnin úr skólanum í heila önn. Mín allra besta ákvörðun í lífinu. En það voru sko ekki allir í mínu lífi sáttir við þessa ákvarðanatöku hjá mér á þeim tíma og hvað þá að taka börnin úr skólakerfinu í heila önn, en ég var staðráðin í því að fylgja draumum mínum og við gjörsamlega blómstruðum þar. Móðir mín kvaddi þessa jarðvist síðasta sumar og ég er ennþá að þakka sjálfri mér fyrir að hafa haft það hugrekki á þeim tíma að fara á móti norminu og næra kjarnann okkar burt séð frá annarra manna röddum eða áliti á mínum ákvarðanatökum. Því á þessum minningum með börnunum mínum og móðir minni á Balí mun ég lifa á alla mína ævi.“

Hrafnhildur sér ekki eftir því að hafa farið til Balí …
Hrafnhildur sér ekki eftir því að hafa farið til Balí með móður sinni og börnum. Ljósmynd/Aðsend

Gott fyrir alla að gera upp æskuna

Eitt af því sem kafað er ofan í í andlegri einkaþjálfun er æskan. Hrafnhildur segir að til þess að vilja líða vel í núinu og framtíðinni þá þurfi oft að byrja á að heila æskuna, jafn erfitt og það getur reynst.

„Fólk botnar ekkert í því af hverju hlutirnir eru ekki að ganga upp, af hverju því líður illa eða það á allskonar krefjandi samskipti við aðra. Það hefur í langflestum tilvikum eitthvað með fortíðina að gera, en það getur verið erfitt að bera kennsl á það því þetta er svo ótrúlega lúmskt og falið í okkar kerfi. Við erum svo vön okkur sjálfum að við sjáum þetta oft ekki sjálf. Það eru ótal margir sem eiga dásamlegar æskuminningar og telja sig því ekki þurfa að kíkja þarna inn, en það þarf enginn að hafa upplifað risastór áföll til þess að æskan hafi samt sem áður einhver áhrif á líf þeirra. Sem betur fer er að verða meiri vakning hvað þetta varðar og hvað áföll úr æsku geta haft mikil áhrif á líf fólks, bæði líkamlega og andlega.“

Hrafnhildur hvetur fólk til þess að slaka aðeins á.
Hrafnhildur hvetur fólk til þess að slaka aðeins á. Ljósmynd/Aðsend

Eru allir að glíma við misjafna þætti eða eru einhver stig í náminu sem reynast fólki erfiðari en önnur?

„Það er það dásamlega við fólk almennt, að enginn er eins og allir koma með sína sögu. En þó svo að sögurnar séu misjafnar og lífsverkefnin ólík, að þá er yfirleitt hægt að finna svipaðar rætur hjá okkur öllum. Það sem okkur skorti á grunnárum ævi okkar hefur yfirleitt mestu áhrifin á líf okkar og við sækjum því oft ómeðvitað í einstaklinga eða aðstæður til að mæta þessum skorti innra með okkur. Við getum endað á að leita að þeirri næringu á kolvitlausum stöðum og fyrir utan okkur sjálf. Við burðumst því gjarnan með svipaða þætti eins og til dæmis höfnunartilfinningu, traust vandamál, vanmáttartilfinningu, skömm eða sektarkennd og að vilja vera séð og heyrð, viðurkennd og samþykkt. Að við skiptum máli. Já, við erum með nokkur stig í náminu, fróðleik og verkefni, sem reynast fólki erfiðari en önnur og það er bara fullkomlega skiljanlegt. Í heildina er þessi vegferð skemmtileg og má ekki alltaf lita hana dökka því við þurfum að kíkja í fortíðina. Sjálfsvinna er ekki bara að kíkja í fortíðina. Við förum hins vegar vel yfir hana í náminu til dæmis en við erum ekki föst þar heldur og ég myndi segja að námið væri miklu meira gleðilegt heldur en þungt, þó svo að margt getur reynt á líka.“

Það getur líka verið skemmtilegt að leita inn á við …
Það getur líka verið skemmtilegt að leita inn á við og taka andlegu hliðina í gegn. Ljósmynd/Aðsend

Streituvaldandi umhverfi óhollt

Það hefur mikið verið rætt um andlega heilsu að undanförnu en Hrafnhildur segir að það sé enn hægt að gera betur í málaflokknum. Hún er meðvituð um ágæti lyfja í einhverjum tilfellum en segir samfélagið hægt og rólega, kannski aðeins of hægt, átta sig á að það þýðir ekki að plástra yfir sárin. 

„Ég tel líka að okkur líði almennt verr og óteljandi ástæður liggja þar að baki. Já, ég tel við vera á villigötum hvað lyfjanotkun varðar. Að mínu mati hefur átt sér stað mikil vakning í samfélaginu undanfarin ár og því ber auðvitað að fagna en við eigum ennþá ansi langt í land. En bara á þessum örfáu árum sem ég hef verið andlegur einkaþjálfari, þessi átta ár, að þá hef ég séð miklar breytingar eiga sér stað og fólk er meira tilbúið til að skoða óhefðbundnar leiðir. Þó svo að margt dásamlegt hefur átt sér stað á undanförnum árum að þá erum við bara rétt að byrja að samþykkja þá staðreynd að það sé sterk tenging á milli andlegrar heilsu og líkama okkar. Við erum rétt að samþykkja raunveruleg áhrif þess sem æskan, uppeldið, umhverfið, fólk sem hefur verið á vegi okkar í lífinu hefur haft á okkar huga, sál og líkama. Hversu gríðarleg áhrif streita, kvíði og álag getur haft á okkar innra kerfi,“ segir Hrafnhildur sem vill sjá breytingar.

Erum við búin að missa sjónar á því sem skiptir máli?

„Já því miður held ég að það sé svolítið málið og við erum ennþá í svo miklu kapphlaupi við lífið, allir þurfa að verða svo mikið og áorka svo miklu. En fyrir hverja og af hverju? Hvað raunverulega liggur þar að baki? Mikið vildi ég að fólk myndi slaka örlítið meira á og minnka flækjustigið og kröfurnar sem það setur á sig og njóta lífsins meira. Það getur ekki verið neinum hollt að lifa stanslaust í streituvaldandi umhverfi. Þú þarft ekki að taka þátt í þessu kapphlaupi, leyfðu þér bara miklu meira að vera. Það er ekkert að því að vera með háleit markmið og það er bara frábært, en ekki ef það er hár fórnarkostnaður. Ekki ef fórnarkostnaðurinn er tengingin þín við þína nánustu eða jafnvel þín andlega hlið. Þá er það einfaldlega ekki þess virði.

Lífið á að vera skemmtilegt og gleðilegt, við komum ekki hingað á jörðina til að þjást. Það getur bara ekki verið og því neita ég að trúa. Við höfum meira val heldur en við höldum yfir okkar líðan, en það er oft erfitt að sjá það þegar maður er ekki á góðum stað og því getur verið gott að fá leiðsögn. Við ættum öll að gefa fólki í kringum okkur og á förnum vegi mun meiri athygli og tengjast dýpra, fara að hlusta meira og tala minna. Þá myndum við eflaust læra eitthvað nýtt í staðinn fyrir að endurtaka í sífellu það sem við nú þegar vitum. Sýna meiri kærleik og umburðarlyndi. Það eru allir á sinni vegferð og að gera sitt allra besta með það sem það er með í höndunum. Við megum ekki gleyma því.“

Lífið á að vera skemmtilegt.
Lífið á að vera skemmtilegt. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is