Ívar greindist með sykursýki og borðar hráan mat í heilan mánuð

Líkamsvirðing | 14. febrúar 2024

Ívar greindist með sykursýki og borðar hráan mat í heilan mánuð

Ívar Orri Ómarsson er hraustmenni mikið. Hann leggur mikið upp úr hollustu og heilbrigðu líferni en það var ekki alltaf þannig. Ívar setti sér áskorun, mataráskorun, sem náði á dögunum athygli netverja um allan heim, en hún felur í sér að borða einungis óeldaðan mat næstu fjórar vikurnar. 

Ívar greindist með sykursýki og borðar hráan mat í heilan mánuð

Líkamsvirðing | 14. febrúar 2024

Ívar er á 14. degi áskorunarinnar.
Ívar er á 14. degi áskorunarinnar. Samsett mynd

Ívar Orri Ómarsson er hraustmenni mikið. Hann leggur mikið upp úr hollustu og heilbrigðu líferni en það var ekki alltaf þannig. Ívar setti sér áskorun, mataráskorun, sem náði á dögunum athygli netverja um allan heim, en hún felur í sér að borða einungis óeldaðan mat næstu fjórar vikurnar. 

Ívar Orri Ómarsson er hraustmenni mikið. Hann leggur mikið upp úr hollustu og heilbrigðu líferni en það var ekki alltaf þannig. Ívar setti sér áskorun, mataráskorun, sem náði á dögunum athygli netverja um allan heim, en hún felur í sér að borða einungis óeldaðan mat næstu fjórar vikurnar. 

„Meginástæðan fyrir því að ég ákvað að taka þessari áskorun er sú að fyrir fimm árum þá greindist ég með sykursýki I. Ég hef verið á fullu að lesa mig til og prófa hina ýmsu hluti, eins og mismunandi mataræði, í leit að lækningu,“ segir Ívar sem var þrítugur þegar hann greindist eftir að hafa upplifað mikla vanlíðan. 

„Eina leiðin að sannreyna það sjálfur“

Ívar er Reykvíkingur í húð og hár. Hann elti ástina til Skotlands og býr þar í dag ásamt konu sinni og tveimur hundum. „Ég er búsettur í Skotlandi þar sem ég rek heildsöluverslun ásamt konunni minni, en hún er skosk. Ég starfa einnig á Íslandi og er því hálfgerð flökkukind sem ferðast reglulega á milli, það er svolítið eins og ég sé á sjó, segir Ívar sem vinnur nú að því að opna heildsöluverslun á Íslandi. 

Í dag eru rétt rúmar tvær vikur frá því að Ívar hóf áskorunina og á aðeins nokkrum dögum hafa margir byrjað að fylgjast með myndskeiðum hans á Instagram og má því segja að hann sé orðinn samfélagsmiðlastjarna. „Það er gaman að prófa sig áfram með mismunandi hluti enda eru ótal sérfræðingar með mismunandi skoðanir á því hvað virkar og hvað ekki. Þá er eina leiðin að sannreyna það sjálfur,“ segir Ívar sem tekur sig upp að borða máltíðir sínar sem innihalda meðal annars hrátt kjöt, egg í skurninni, óelduð egg og alls kyns ávexti og grænmeti. 

„Ég trúi því að matarvenjur hafi gríðarleg áhrif á heilsu okkar og að það megi fyrirbyggja flesta sjúkdóma með skynsamlegum ákvörðunum og vali á matvælum. Þar ber helst að nefna neyslu á tilbúnum, svokölluðum ofurunnum matvælum, sem fer stöðugt vaxandi, eins og sælgæti, morgunkorni og gosdrykkjum. Það má þó endalaust deila um hvaða fæðuflokkar séu heilsusamlegastir en við ættum öll að geta verið sammála um að útiloka ætti ofurunnin matvæli,“ útskýrir hann. 

Ein af máltíðum Ívars voru sex hrá egg.
Ein af máltíðum Ívars voru sex hrá egg. Ljósmynd/Aðsend

Greiningin kom á óvart

Sykursýkisgreiningin kom Ívari mjög á óvart þar sem hann var í frábæru líkamlegu formi og á fullu að keppa í íþróttum. „Ég borðaði mjög hollan mat og spilaði íþróttir en var líka einn af þeim sem verðlaunaði sig allar helgar með ruslfæði og sælgæti, í óhóflega miklu magni. Þegar ég byrjaði þá átti ég mjög erfitt með að hætta og át mun meira en eðlilegt gat talist í einni setu, en bara á laugardögum og jú, stundum fékk sunnudagurinn að fljóta með,“ segir Ívar sem telur þetta orsakavald greiningarinnar, en hann greindist eftir slíka sukkhelgi. 

„Laugardaginn áður en ég greindist sykursjúkur borðaði ég stóra Dominos-pizzu og Nutellagott, drakk einnig nokkrar dósir af Red Bull, innbyrti stóran bland í poka og heilan kassa af æðibitum. Eftir allt þetta þá vaknaði ég mjög slappur á sunnudagsmorgninum með vondan magaverk og endaði á að kasta upp,“ útskýrir Ívar sem fann fyrir munnþurrki og mikilli þorstatilfinningu og varð að drekka marga lítra af vatni dagana á eftir. 

„Sama hversu mikið ég drakk þá minnkaði þorstatilfinningin ekki, hún jókst. Ég átti einnig orðið erfitt með að halda í mér þegar mér var mál. Í einu tilfelli rauk ég út úr bílnum á rauðu ljósi til að losa þvag við vegkantinn, fullt af fólki sá mig og margir flautuðu á mig en það var ómögulegt fyrir mig að halda í mér. 

Ég horaðist með hverjum deginum og varð slappari og slappari. Á örfáum dögum missti ég tíu kíló og var farinn að upplifa versnandi sjón,“ segir Ívar, en sykursýki getur haft mikil áhrif á bæði augu og augnbotna. Allt sem hann upplifði yfir þessa daga eru helstu einkenni sykursýki. „Á þessum tímapunkti þorði ég ekki að bíða lengur með að fara til læknis og var greindur á staðnum með sykursýki I.“

Óeldaður matur í fjórar vikur

Ívar ákvað að nýta sér áskorunina til að auka lífsgæði sín. „Áskorunin felst í því að borða ekkert nema óeldaðan mat í heilan mánuð til að sjá hvort það hafi einhver veigamikil áhrif á mig. Ég fylgist grannt með blóðsykrinum og mæli hann reglulega yfir daginn ásamt því að skoða insúlínþörf mína á hráfæðismataræðinu. Ég ber mælingarnar síðan saman við þær sem ég hef fengið úr „hefðbundna“ daglega mataræðinu,“ segir Ívar sem skoðar einnig andlega og líkamlega líðan, meltingu, svefngæði og fleira.

Hvað er hráfæði?

„Hráfæði er óeldaður matur eða matur ekki hitaður yfir 40 gráðum. Við eldun umbreytast ákveðin efni í matnum eins og með fitun, en hún á það til að umbreytast í transfitu við mikla hitun og vinnslu. Einnig hverfur partur af vítamínum og steinefnum. 

Samkvæmt hráfræðum á óeldaður matur að vera betri fyrir meltinguna og almennt hollari fyrir líkamann. Sagt er að líkaminn sé hannaður til að melta óeldaðan mat en ekki eldaðan og þá á þetta mataræði að fyrirbyggja ýmsa sjúkdóma og meira að segja að lækna þá í einhverjum tilfellum. 

Litríkur matardiskur.
Litríkur matardiskur. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er vont en það venst“

Aðspurður segir Ívar fyrsta daginn hafa verið skringilegan. „Ég er mjög vanur að borða heitan og bragðgóðan mat en hér er ég allt í einu byrjaður að bryðja hrá egg í skurninni í hádegismat,“ segir Ívar. „Þetta er vont en það venst“ er setning sem á vel við en ég er búinn að venjast þessu núna.“

Hvernig er að borða egg í skurninni?

„Það er ekkert listaukandi að tyggja hrátt egg með skurninni. Þetta er svolítið eins og að tyggja sand.“

Ívar borðar ýmislegt yfir daginn og reynir að hafa hafa mataræðið eins fjölbreytt og hægt er. „Ég borða kjöt, fisk, egg, grænmeti og ávexti en svo fæ ég mér hnetur, fræ og spíraðar baunir þess á milli og einnig ógerilsneydda hráa mjólk, osta og smjör. Ógerilsneyddar hráar mjólkurvörur er ekki búið að hita né fitusprengja og það varðveitir næringarinnihald þeirra sem og mikilvæg meltingarensím og góðgerla,“ útskýrir Ívar sem segir dagana þó misjafna. 

„Suma daga þá borða ég fyrstu máltíðina ekki fyrr en seinni partinn en ég byrja vanalega á því að fá mér ávöxt eða nokkur egg og glas af mjólk eða smá klípu af osti. Mér finnst líka gott að fá mér avókadó með salti eða cayenne-pipar eða hreinan kefir með bláberjum og nokkrum dropum af ógerilsneyddu hunangi.“

Langaði að deila ferðalaginu

Ívar ákvað að deila mataráskoun sinni á samfélagsmiðlun í þeirri von um að hjálpa öðrum sem hafa staðið í svipuðum sporum og einnig til að vekja athygli á hinum ýmsu kvillum sem tengjast mataræði og lífsstíl. 

„Ég ákvað að birta myndskeiðin og deila þessu ferðalagi mínu með fólki ef að sagan mín gæti mögulega hvatt aðra til að breyta um lífsstíl og lifa betra og heilsusamlegra lífi. Það er of mikið af ruslfæði í boði og lífsstílssjúkdómar eru í sögulegu hámarki. Það þarf að breytast og ég vil taka þátt í þeirri breytingu,“ útskýrir Ívar. „Ég þurfti að læra það á erfiða mátann, ég greindist með sykursýki og læknar segja greininguna ólæknandi, en ég kýs að gefast ekki upp,“ segir hann og vill því skoða alla möguleika. 

„Læknavísindin segja að sykursýki I sé genasjúkdómur og að mataræði hafi engin áhrif. Börn greinast til að mynda stundum strax við fæðingu. Það sem ég er að segja er allt bara út frá minni upplifun og trú. Ég er þeirrar skoðunar að læknavísindin viti ekki allt og að genarannsóknir séu í stöðugri þróun. Nú er talið að umhverfisþættir spili meira inn í en áður þegar kemur að mörgum genasjúkdómum og tel ég það raunina hér. Hjá barni gæti skaðinn hafa skeð hjá móður, ömmu eða jafnvel lengra upp genastigann, en þetta eru einungis vangavelturnar mínar og engar haldbærar sannanir styðja við þær," útskýrir hann. 

Hefur þú tekið eftir breytingum á síðastliðnum tveimur vikum?

„Ég er byrjaður að upplifa jákvæðar breytingar frá því ég byrjaði, eins og betri meltingu og heilbrigðari hægðir. Einnig er insúlínþörf mín að minnka, sem er ummerki þess að insúlínviðnám líkamans sé að lækka. Ég þarf því minna insúlín til að leiðrétta fastandi blóðsykur í dag en ég þurfti áður en ég byrjaði. Það er mjög jákvætt en aðeins of snemmt að segja til um hvort það sé eingöngu vegna hráfæðisins, það kemur betur í ljós á komandi dögum.“

mbl.is