„Ég þurfti alltaf að vera flottastur og réð ekkert við þetta“

Áhugavert fólk | 3. nóvember 2023

„Ég þurfti alltaf að vera flottastur og réð ekkert við þetta“

Böðvar Þór Eggertsson hefur lagt skærin á hilluna eftir farsælan hárgreiðsluferil. Eftir að hafa fengið ADHD-greiningu opnuðust augu hans og hann áttaði sig á því að hann sjálfur væri kannski vandamálið – ekki fólkið í kringum hann. Í dag starfar hann sem fasteignasali en síðustu mánuði tók hann þátt í miklu ævintýri þegar hann fékk það verkefni að hanna Krúttið á Blönduósi sem áður var gömul brauðgerð.

„Ég þurfti alltaf að vera flottastur og réð ekkert við þetta“

Áhugavert fólk | 3. nóvember 2023

Böðvar Þór Eggertsson var vinsæll hárgreiðslumaður en er nú orðinn …
Böðvar Þór Eggertsson var vinsæll hárgreiðslumaður en er nú orðinn fasteignasali. mbl.is/Kristinn Magnússon

Böðvar Þór Eggertsson hefur lagt skærin á hilluna eftir farsælan hárgreiðsluferil. Eftir að hafa fengið ADHD-greiningu opnuðust augu hans og hann áttaði sig á því að hann sjálfur væri kannski vandamálið – ekki fólkið í kringum hann. Í dag starfar hann sem fasteignasali en síðustu mánuði tók hann þátt í miklu ævintýri þegar hann fékk það verkefni að hanna Krúttið á Blönduósi sem áður var gömul brauðgerð.

Böðvar Þór Eggertsson hefur lagt skærin á hilluna eftir farsælan hárgreiðsluferil. Eftir að hafa fengið ADHD-greiningu opnuðust augu hans og hann áttaði sig á því að hann sjálfur væri kannski vandamálið – ekki fólkið í kringum hann. Í dag starfar hann sem fasteignasali en síðustu mánuði tók hann þátt í miklu ævintýri þegar hann fékk það verkefni að hanna Krúttið á Blönduósi sem áður var gömul brauðgerð.

Böðvar, eða Böddi eins og hann er oftast kallaður, er manneskja sem fer ekki svo auðveldlega fram hjá fólki. Hann hefur afgerandi fatastíl og það hefur alltaf verið fyrirferð á honum. Hann var svona þessi týpa sem var alltaf á stærsta jeppanum og með stærsta hjólhýsið í eftirdagi. Hann hefur heldur ekki sparað yfirlýsingarnar þegar kemur að eigin ágæti og var ekki nema 20 ára pjakkur þegar hann mætti í útvarpsviðtal og sagðist ætla að verða besti hárgreiðslumaður Íslands. Hann segir að þetta hafi veitt sér ákveðið aðhald í gegnum tíðina og heldur því fram að draumar rætist ef þeir eru sagðir upphátt.

„Ég er á þeim stað í lífinu akkúrat núna að ég ætla mér að ná langt og þannig hefur það alltaf verið. Ég hef samt gert fullt af mistökum en það er líka allt í lagi. Ég er 55 ára og hef nú tekið U-beygju í lífinu. Ég ætla að ná jafnlangt í viðskiptalífinu og ég náði í hárinu,“ segir Böddi.

„Svona fór ég inn í hárgreiðsluna á sínum tíma. Ég fór í viðtal á Rás 2 þar sem ég var 20 ára og að gagnrýna hárið á stjórnmálamönnum landsins. Þegar ég varð spurður um framtíðina sagðist ég ætla að verða vinsælasti hárgreiðslumaður Íslands. Margir segja að ég eigi ekki að vera að segja svona en þetta hefur virkað fyrir mig. Um leið og ég segist ætla að gera eitthvað þá bara gerist það,“ segir hann og hlær og bætir því við að hann hafi oft sagst ætla að vera í besta formi lífsins og það hafi líklega haldið honum frá transfitum og sykurmarineringu.

„Þegar ég var fertugur sagði ég í viðtali að ég ætlaði að vera í besta formi lífs míns þegar ég yrði fimmtugur. Þetta veitti mér aðhald. Ég þurfti að passa mig að verða ekki akfeitur fyrst ég var búinn að segja þetta,“ segir hann og skellihlær.

„Það er best fyrir mig að setja mér markmið og hafa þau stór og langbest að segja þau opinberlega. Þá gerist eitthvað stórkostlegt.“

Reynir Grétarsson og Böðvar Þór Eggertsson hafa unnið saman síðustu …
Reynir Grétarsson og Böðvar Þór Eggertsson hafa unnið saman síðustu mánuði í að endurbyggja Hótel Blönduós og fleira því tengt í bænum. Ljósmynd/Aðsend

Fékk þrjá í einkunn

Fólk sem sækir hárgreiðslustofur reglulega veit að það getur ýmislegt gerst í stólnum. Böddi hefur séð um hárið á mörgum þekktum drottningum í gegn um tíðina en það er þó alltaf einn og einn karl sem slæðist í stólinn hjá honum. Einn af þeim sem Böddi hefur klippt í gegnum tíðina er Reynir Grétarsson fjárfestir og frumkvöðull sem er kannski þekktastur fyrir að hafa stofnað Creditinfo.

„Fyrir tveimur árum ákvað ég að fara að læra eitthvað annað og skráði mig í fasteignasalanám. Ég var ennþá á toppnum í hárinu en fann að mig langaði að breyta til. Gera eitthvað annað. Ég var samt ragur við að skrá mig í háskólanám því ég er ekki þekktur fyrir að vera góður námsmaður. Mig minnir að besta einkunnin mín í grunnskóla hafi verið þrír,“ segir hann.

„Þegar ég var byrjaður í náminu kom Reynir í stólinn til mín í klippingu og spurði mig hvort ég væri til í að koma og vinna hjá sér. Hann var á þessum tíma að íhuga að kaupa hótel á Blönduósi en hafði eiginlega ekki tíma í það. Ég þurfti ekki að hugsa mig um og þannig hófst þetta,“ segir Böddi sem hefur varið miklum tíma á Blönduósi síðustu mánuði þar sem hann kom að uppbyggingu á Hótel Blönduósi og fleiri verkefnum því tengdum.

„Þannig upphófst þessi breyting á lífinu mínu,“ segir Böddi.

„Í miðjum bænum á Blönduósi var gamalt bakarí og við breyttum því í skemmu. Ég ætlaði nú bara að vera í þessu verkefni meðfram öðru en það endaði með því að ég hætti eiginlega að klippa og hannaði þetta frá grunni. Ég vildi hafa þetta mjög gróft og við keyptum eiginlega ekkert nýtt heldur endurnýttum það sem til var. Eftir að þetta var opnað hefur fólk sagt við mig að þetta sé eiginlega of flott til að vera á Blönduósi,“ segir hann og hlær.

„Þetta var þó ekki bara hönnunarvinna því allt í einu var ég farinn að vinna í alls konar leyfismálum, tala við verkfræðinga og arkitekta. Þetta er allt sem maður lærir í fasteignasalanáminu og gaman þegar námið raungerist. Allt sem átti að vera bara aukavinna sem ég ætlaði að vinna á sunnudögum varð að meira en fullri vinnu í marga mánuði. Þetta er eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef unnið í lífinu,“ segir Böddi og minnist á að hann og Reynir séu orðnir perluvinir í dag.

„Við erum í dag eins miklir vinir og hægt er að vera og miklu líkari en kannski sýnist. Reynir er með báða fætur á jörðinni og ekki upptekinn af því að vera efnaður. Hann smíðaði hluta af hótelinu með pabba sínum. Hann vill bara vera að gera eitthvað sjálfur í höndunum. Hann er ekki svona gæi sem vill vera að fljúga með einkaflugvélum,“ segir Böddi.

Böddi vildi að áferðin á Krúttinu væri hrá og svolítið …
Böddi vildi að áferðin á Krúttinu væri hrá og svolítið röff. Hér er verið að gera við veggina og breyta áferðinni á þeim. Ljósmynd/Aðsend
Þeir lögðu upp með að reyna að nýta sem mest …
Þeir lögðu upp með að reyna að nýta sem mest og kaupa sem minnst. Ljósmynd/Aðsend

Allt of steiktur fyrir gráa fiðringinn

Grái fiðringurinn er þekkt hugtak sem oft er notað um karla í kringum fimmtugt sem kaupa sér sportbíl og komast í besta form lífs síns. Þegar Böddi er spurður hvort þessi breyting sé hans grái fiðringur hlær hann.

„Ég er aðeins of steiktur til þess. Við mamma vorum einmitt að ræða þetta um daginn. Grunnskólaganga mín var eins svakaleg og slík ganga getur verið. Ég var vandræðagemsi sem var lagður í einelti. Ég tók það samt aldrei inn á mig og hélt bara áfram. Ég minnist þess ekki að það hafi snert mig eitthvað. Það truflaði mig til dæmis ekkert þegar skólastjórinn skammaði mig og sagði að það yrði ekkert úr mér. Ég gæti í versta falli orðið góður glæpamaður. Núna hef ég hins vegar komið mömmu minni og allri fjölskyldunni minni á óvart,“ segir hann í glaðlegum tón.

„Ég hef farið þannig í gegnum lífið að ég hræðist ekkert eða svona næstum því. Ég er með mörk. Ég myndi til dæmis ekki reyna að komast inn í læknisfræði núna með það markmið að verða heilaskurðlæknir,“ segir hann og skellihlær en verður svo alvarlegur og segir:

„Það er algengt að fólk milli fertugs og fimmtugs vilji vera komið í ákveðið öryggi. Það vill ekki breyta mikið til. Góður vinur minn sem er geðlæknir sagði við mig að það væri besta líkamsrækt fyrir heilann að skipta um gír á þessum aldri því þannig héldum við okkur ungum. Að fara í nám og eignast nýjan starfsframa er gott fyrir okkur. Heilinn er hluti af líkamanum. Það þarf að æfa hann líka.“

Góður vinur Bödda sagði að besta líkamsræktinn fyrir heilann væri …
Góður vinur Bödda sagði að besta líkamsræktinn fyrir heilann væri að skipta um gír á miðjum aldri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Allir voru fífl og fávitar

Talið berst að ADHD. Það er athyglisvert að heyra hann lýsa sjálfum sér fyrir og eftir greininguna sem hann fékk 2010.

„Áður en ég fékk greiningu var ég týpan sem fannst enginn vera fullkominn nema ég sjálfur. Ef það kom upp vandamál í sambandinu hjá mér þá var það alltaf henni að kenna – ekki mér. Ef það voru vandamál í vinnunni þá var það hinum að kenna – ekki mér. Stærsta breytingin við það að fá greiningu og fá að vita hvernig þetta virkaði var að ég horfði inn á við og áttaði mig á því að ég væri rasshausinn. Það sem ég var að kenna hinum um var mér að kenna. Eftir að ég fékk greininguna opnuðust augu mín og ég fór að byggja mig upp og nota þetta til að styrkja mig.“

Fékkstu lyf?

„Nei, ekki strax. Fyrst fór ég í þerapíu til þess að reyna að læra að lifa með ADHD. Þetta var svona 12 spora kerfi. Ég var í afneitun að ég væri með ADHD. Þerapistinn vildi ekki að ég færi á lyf fyrr en ég væri búinn að horfa inn á við og reyna að skilja hvað væri að gerast. Þessi þerapía stóð yfir í 14 vikur og ég fór úr því að keyra sjálfan mig út á 200 km hraða og fór niður í 50 km hraða. Það breyttist margt. Ég fór að átta mig á aðstæðum þegar ég væri að skjótast upp. Á þessum 14 vikum áttaði ég mig á því hvernig ég gæti nýtt ADHD á jákvæðan hátt. Ég hafði mikla orku og fór að nýta hana öðruvísi. Ég minnkaði áfengisneyslu því það fóru of margir dagar í vanlíðan tengda henni.“

Hættirðu að drekka?

„Nei, ég hætti aldrei alveg en ég breytti drykkjunni. Fór frekar að fá mér í glas á miðjum laugardegi og hætta um kvöldmatarleytið sem gerði það að verkum að ég fann ekki fyrir því daginn eftir. Þótt ég væri ekki með áfengisvandamál þá fór ég að sjá að það fór svo mikill tími í að drekka og vera þunnur. Þetta var farið að éta mig upp að innan því ég varð svo lítill í mér þegar ég var þunnur. Ég hafði engan kraft. Á árunum 2010-2016 bjuggum við fjölskyldan í Svíþjóð og þá lak vínið svolítið frá. Í dag er ég hættur að detta í það. Ég fæ mér bara í glas.“

Eyddi öllu strax

Þótt Böddi hafi prófað að takast á við ADHD með 12 spora vinnu segir hann að það að byrja að taka inn ADHD-lyfið Elvanse hafi breytt leiknum. Þegar hann er spurður hvernig nefnir hann fjármálin sérstaklega.

„Einfaldasta lýsingin á ADHD er að fólk með það gerir allt sinnum tíu. Við getum verið glöð sinnum tíu, reið sinnum tíu og svo varð maður milljónamæringur ef maður eignaðist auka 100.000 kall. Þá eyddi maður honum á tíu mínútum.“

Í hvað varstu að eyða peningum?

„Ég keypti allt sem mig langaði í. Ég var svona dellugæi. Ef mig langaði í mótorhjól þá eignaðist ég flottasta mótorhjólið. Svo var ég á kafi í sleðum og jeppum og öllu þessu. Ég átti líka stærsta og flottasta hjólhýsið.

Ég þurfti alltaf að vera flottastur og réð ekkert við þetta. Ef ég átti ekki pening þá fann ég leið. Ég var til dæmis orðinn mjög góður í að taka bílalán. Maður gat fengið 90% bílalán og þurfti ekki að byrja að borga af því fyrr en eftir þrjá og hálfan mánuð. Þá seldi ég bílinn og keypti annan og tók nýtt lán. Þá þurfti ég aldrei að borga af neinu láni. Svo bara eyddi ég öllum peningum sem komu inn og var alltaf ríkur ef ég átti smápening. Í dag er þetta þannig að ég sit á hverjum þúsundkalli. Sem er bara æðislegt. Stundum finnst mér ég aðeins of mikið í hina áttina í dag en ég vil frekar hafa þetta svona,“ segir Böddi sem hóf nýlega störf á fasteignasölunni Remax og er þotinn út í daginn til að græja og gera og láta drauma rætast.

mbl.is