Embla elti drauminn og slær nú í gegn í Lundúnum

Förðunartrix | 25. febrúar 2024

Embla elti drauminn og slær nú í gegn í Lundúnum

Förðunarfræðingurinn og samfélagsmiðlastjarnan Embla Wigum hefur slegið rækilega í gegn á TikTok, Youtube og Instagram og er með yfir 3,8 milljónir fylgjenda þvert á miðlana. Þar birtir hún meðal annars myndbönd af mögnuðum förðunum sem mætti helst líkja við listaverk.

Embla elti drauminn og slær nú í gegn í Lundúnum

Förðunartrix | 25. febrúar 2024

Förðunarfræðingurinn Embla Wigum er með einstakt auga fyrir fallegri og …
Förðunarfræðingurinn Embla Wigum er með einstakt auga fyrir fallegri og listrænni förðun.

Förðunarfræðingurinn og samfélagsmiðlastjarnan Embla Wigum hefur slegið rækilega í gegn á TikTok, Youtube og Instagram og er með yfir 3,8 milljónir fylgjenda þvert á miðlana. Þar birtir hún meðal annars myndbönd af mögnuðum förðunum sem mætti helst líkja við listaverk.

Förðunarfræðingurinn og samfélagsmiðlastjarnan Embla Wigum hefur slegið rækilega í gegn á TikTok, Youtube og Instagram og er með yfir 3,8 milljónir fylgjenda þvert á miðlana. Þar birtir hún meðal annars myndbönd af mögnuðum förðunum sem mætti helst líkja við listaverk.

Embla skaust ung upp á stjörnuhimininn, en þegar hún var 22 ára ákvað hún að elta langþráðan draum og flytja til Lundúna þar sem hún er búsett í dag. „Ég flutti hingað í árslok 2021. Ég elska Lundúni og bjó hérna í hálft ár sem unglingur þannig mig langaði alltaf að prófa að búa hér aftur, en svo hentaði það líka svo vel með því sem ég er að gera í dag,“ segir Embla. 

„Það er alltaf dásamlegt að vera heima á Íslandi en stórborg eins og Lundúnir býður upp á svo miklu fleiri möguleika í samfélagsmiðlabransanum eins og fleiri merki til að vinna með, meira í gangi og fleira fólk að gera það sama og ég. Þannig mér fannst þetta rétta næsta skref,“ bætir hún við. 

Embla flutti til Lundúna árið 2021 og er búsett þar …
Embla flutti til Lundúna árið 2021 og er búsett þar í dag.

Fór á flug með TikTok-myndböndum

Embla byrjaði að birta efni á Instagram þegar hún var að læra förðun í Reykjavík Makeup School árið 2017, en þá var markmiðið einungis að sýna hvað hún væri að gera í skólanum. 

„Það fór svo út í að auglýsa förðunarþjónustu og sýna frá förðunum á kúnnum og svoleiðis. Svo fór ég eitt sumar að prófa mig áfram með „öðruvísi“ förðun, eða „fantasíu“ förðun, og var eiginlega bara að gera það því mér fannst það svo skemmtilegt. Ég fékk strax góð viðbrögð frá fólki í kringum mig og fann mig svo mikið þessu þannig ég byrjaði að setja mjög mikinn tíma í þetta og byrjaði fljótlega að fá erlenda fylgjendur. Svo byrjaði ég að birta myndbönd á TikTok árið 2019 og þá fór þetta á enn meira flug og fylgjendahópurinn erlendis varð stærri og stærri,“ útskýrir hún. 

Embla hefur náð ótrúlegum árangri á samfélagsmiðlum.
Embla hefur náð ótrúlegum árangri á samfélagsmiðlum.

„Þetta hefur alltaf verið í miklum forgangi hjá mér“

Spurð hver sé lykillinn að velgengni hennar á samfélagsmiðlum segir Embla vinnuna á bak við efnið skipta langmestu máli, en partur af því sé líka heppni og tímasetning. „Ég var heppin með að vera mjög snemma að birta efni á TikTok áður en miðillinn varð eins stór og hann er í dag og það hjálpaði klárlega,“ segir hún. 

„Ég hef alltaf sett rosalega mikinn fókusinn á vinnuna sem fer í efnið og birt efni reglulega. Þetta hefur alltaf verið í miklum forgangi hjá mér og jafnvel þegar ég var ennþá í menntaskóla fór ég alltaf heim eftir skóla eða vinnu og tók upp myndband eða gerði förðun. Ég held að lykillinn sé líka að finnast þetta það gaman að þú viljir halda áfram þrátt fyrir að það gangi ekki alltaf vel í byrjun, því þá munt þú á endanum ná langt,“ bætir hún við. 

Embla með glæsilega förðun sem vakti mikla lukku á TikTok.
Embla með glæsilega förðun sem vakti mikla lukku á TikTok.

„Maður verður eiginlega smá feiminn“

Í dag er Embla með yfir 2,6 milljónir fylgjenda á TikTok, meira en milljón fylgjendur á Youtube og rúmlega 214 þúsund fylgjendur á Instagram. Samanlagt hafa TikTok-myndbönd hennar fengið tæplega 80 milljónir „likes“. 

„Það er rosalega skrýtin tilfinning og eiginlega mjög óraunverulegt þegar milljónir hafa horft á myndband eftir mig, en það er smá erfitt að ímynda sér að þessi tala sé í alvöru manneskjur sem horfa á það sem ég er að gera. Maður verður eiginlega smá feiminn að hugsa mikið út í það að svona margir séu að horfa á sig, en samt rosalega gaman og sérstaklega ef ég hef sett mikla vinnu í myndbandið,“ segir hún.

Á Youtube-rás sinni er Embla dugleg að deila fjölbreyttu efni …
Á Youtube-rás sinni er Embla dugleg að deila fjölbreyttu efni og leyfir áhorfendum oft að skyggnast inn í hennar daglega líf.

Fór til París með L'Oréal

Aðspurð segir Embla það skemmtilegasta við að vinna á og í kringum samfélagsmiðla vera að fá að vinna við ástríðuna sína á hverjum segi. 

„Mér hefur alltaf fundist gaman að skapa og búa til myndbönd eða einhverskonar list. Það er líka rosalega skemmtilegt að fá mikið af tækifærum og kynnast allskonar skemmtilegu fólki sem hefur sama áhugamál. Ég hef fengið að fara á ótrúlega marga skemmtilega viðburði, t.d. í Lundúnum, og í fyrra þá fór ég til París með snyrtivörumerkinu L'Oréal sem var ótrúlega skemmtileg upplifun,“ segir hún. 

Embla fór í skemmtilega ferð til Parísar með snyrtivörurisanum L'Oréal.
Embla fór í skemmtilega ferð til Parísar með snyrtivörurisanum L'Oréal.

„Það sem er mest krefjandi er klárlega það að fá gagnrýni og leiðinleg komment. Ég fæ sem betur fer ekki mikið af þeim en þegar  það gerist getur það alveg verið erfitt. Maður er soldið að setja sig í berskjaldaða stöðu að leyfa fólki að segja hvað þeim finnst um þig. En ég er búin að læra frekar vel inn á það núna og það hefur ekki mikil áhrif á mig lengur,“ bætir hún við. 

Embla segist ekki taka gagnrýni og leiðinlegum ummælum inn á …
Embla segist ekki taka gagnrýni og leiðinlegum ummælum inn á sig lengur.

Hvenær byrjaðir þú að mála þig?

„Ég held ég hafi alltaf haft áhuga á förðun og man eftir því að hafa horft á förðunarmyndbönd á Youtube frá því ég var bara átta eða níu ára gömul og var mjög spennt fyrir því að byrja að mála mig einn daginn. 

Ég byrjaði að mála mig aðeins í kringum fermingaraldur og um 15 ára aldurinn fór ég að æfa mig meira og var stundum að æfa mig að mála vinkonur mínar fyrir böll og svoleiðis.“

Áhugi Emblu á förðun kviknaði snemma, en hún var byrjuð …
Áhugi Emblu á förðun kviknaði snemma, en hún var byrjuð að horfa á förðunarmyndbönd á Youtube átta ára gömul.

Hvernig málar þú þig dagsdaglega?

„Miðað við að ég geri allskonar farðanir á samfélagsmiðlum geri ég frekar venjulega förðun á sjálfa mig dagsdaglega. Ég er oft bara ómáluð eða geri bara létta húð, augabrúnir og maskara. En mér finnst alltaf gaman að gera eitthvað aðeins meira þegar ég er að fara fínt.“

Hvernig hugsar þú um húðina?

„Mér finnst mjög gaman að pæla í húðumhirðu og nota alltaf hreinsi, rakaserum, augnkrem, rakakrem og svo finnst mér mikilvægt að nota alltaf sólarvörn. Mér finnst sérstaklega mikilvægt að passa vel upp á húðina þegar ég er að mála mig svona mikið og stundum nokkrum sinnum á dag ef ég er að taka upp myndbönd. Ég er samt heppin að hafa ekki þurft að kljást mikið við vandamál tengd húðinni fyrir utan unglingabólur þegar ég var yngri.“

Embla veitt fátt skemmtilegra en að mála sig fyrir fínni …
Embla veitt fátt skemmtilegra en að mála sig fyrir fínni tilefni.

Hvað tekur þig langan tíma að gera þig til?

„Á venjulegum degi get ég gert mig til á 20 mínútum en mér finnst ekkert skemmtilegra en að gera mig til ef ég er að fara eitthvað út og taka mér góðan tíma, en þá get ég alveg setið í nokkra tíma að mála mig.“

Eru einhver förðunartrend sem þú heldur að munir slá í gegn í ár?

„Síðustu ár hafa förðunartrendin verið mjög minimalísk og „clean girl makeup“ hefur verið að slá í gegn. Þó að það sé mjög falleg förðun held ég að það sé kominn tími á eitthvað aðeins meira spennandi. Ég held að falleg og ljómandi húð verði ennþá mikið trend en að fólk sé kannski aðeins meira að leika sér með augnförðunina. Er t.d. búin að sjá mikið af „smudgy liner“ og aðeins meira „messy“ 90's augnförðun sem mér finnst geggjuð.“

Embla spáir því að í ár muni skemmtilegar augnfarðanir koma …
Embla spáir því að í ár muni skemmtilegar augnfarðanir koma sterkar inn.

Hvað er helst að finna í þinni snyrtibuddu?

„Ég elska snyrtivörur svo mikið að snyrtibuddan mín er alltaf stútfull af öllu sem ég get troðið í hana. en mikilvægast finnst mér að vera með góðan hyljara, krem bronser, kinnalit, gott púður og augabrúnavörur.“

Hvað er uppáhaldslúkkið þitt sem þú hefur gert?

„Ég held ég verði að segja það sem hefur fengið mestu áhorfin á TikTok, White Christmas og Green Christmas. Ég hef endurgert það lúkk nokkrum sinnum og finnst það alltaf mjög skemmtilegt.“

@emblawigum

day 2! so happy this is kinda trending again 😌✨

♬ Snow meiser Heat meiser mix by Mike DiNardo - Mike DiNardo

„Ég er líka mjög ánægð með Louis Vuitton lúkkið mitt, en það fór mikil vinna í að gera það symmetrískt og ég var mjög ánægð með útkomuna.“

Eitt af uppáhaldslúkkum Emblu.
Eitt af uppáhaldslúkkum Emblu.

Hvað er þitt uppáhaldsförðunartrend um þessar mundir?

„Það er kannski ekki beint nýtt trend en ég elska kinnalit og nota frekar mikið af honum. Ég set oft krem kinnalit undir og svo þegar ég hef púðrað andlitið set ég púðurkinnalit líka.“

Hvaða snyrtivara er í mestu uppáhaldi um þessar mundir?

„Ég er mikið að nota kremvörur um þessar mundir og elska krem bronser, krem kinnalit og nota svo púðurvörur yfir.“

Kremvörur eru í miklu uppáhaldi hjá Emblu um þessar mundir, …
Kremvörur eru í miklu uppáhaldi hjá Emblu um þessar mundir, þá sérstaklega krem bronser og kinnalitur.

Hvað dreymir þig um að eignast í snyrtibudduna?

„Ég hef ekki ennþá prófað neinar vörur frá Patrick Ta eða Pat McGrath og langar mjög mikið að eignast þær.“

Hvað er framundan hjá þér?

„Það sem er framundan er bara að halda áfram að gera það sem ég er að gera og vonandi halda áfram að vaxa bæði á samfélagsmiðlum og í efninu sem ég er að gera!“

Það er margt spennandi framundan hjá Emblu sem stefnir enn …
Það er margt spennandi framundan hjá Emblu sem stefnir enn lengra í bransanum!
mbl.is