Herdís er sjálfskipaður „fatanytjamarkaðssérfræðingur“

Fatastíllinn | 7. apríl 2024

Herdís er sjálfskipaður „fatanytjamarkaðssérfræðingur“

Herdís Athena Þorsteinsdóttir er mikill tísku- og hönnunarunnandi með skemmtilegan fatastíl. Hún er óhrædd við að taka áhættu og prófa sig áfram með óhefðbundnar samsetningar á fötum, en hún segir fatastíl sinn hafa mótast mikið á dvöl hennar erlendis.

Herdís er sjálfskipaður „fatanytjamarkaðssérfræðingur“

Fatastíllinn | 7. apríl 2024

Herdís Athena Þorsteinsdóttir er mikill tísku- og hönnunarunnandi.
Herdís Athena Þorsteinsdóttir er mikill tísku- og hönnunarunnandi. Samsett mynd

Herdís Athena Þorsteinsdóttir er mikill tísku- og hönnunarunnandi með skemmtilegan fatastíl. Hún er óhrædd við að taka áhættu og prófa sig áfram með óhefðbundnar samsetningar á fötum, en hún segir fatastíl sinn hafa mótast mikið á dvöl hennar erlendis.

Herdís Athena Þorsteinsdóttir er mikill tísku- og hönnunarunnandi með skemmtilegan fatastíl. Hún er óhrædd við að taka áhættu og prófa sig áfram með óhefðbundnar samsetningar á fötum, en hún segir fatastíl sinn hafa mótast mikið á dvöl hennar erlendis.

Herdís er viðskiptafræðingur að mennt og er sjálfskipaður fatanytjamarkaðssérfræðingur að eigin sögn. Um þessar mundir er hún búsett í Kaupmannahöfn í Danmörku, en hún hefur einnig búið í París og Amsterdam. Hún segir tísku alltaf hafa verið stóran hluta af sér en áhugi hennar jókst þó töluvert þegar hún flutti erlendis og kynntist tækifærunum og hugmyndunum sem stórborgir bera með sér.

Tískuáhugi Herdísar jókst mikið eftir að hún flutti erlendis og …
Tískuáhugi Herdísar jókst mikið eftir að hún flutti erlendis og kynntist tískumenningu í stórborgum.

„Ég fæddist og bjó mín fyrstu fimm ár í París í Frakklandi, kom svo til Íslands og ólst þar upp, flutti svo til Amsterdam í Hollandi og bý núna í Kaupmannahöfn í Danmörku. Það var aldrei planið að flytja til Köben og raunar flutti ég hingað fyrir tilviljun. Ég var að klára BS-nám í Háskóla Íslands þegar ég var í heimsókn hjá nokkrum vinum í Köben og tók eftir sjarmerandi plakatverslun. Ég kíkti þangað inn og labbaði út með starfsnám til að hefja eftir BS-námið,“ útskýrir Herdís.

„Starfsnámið átti að vera þriggja mánaða stopp en hér er ég enn, fjórum árum seinna. Ég lauk svo meistaragráðu í International Marketing & Management í Copenhagen Business School og hef starfsbakgrunn í markaðssetningu, almannatengslum og samskiptum í hönnunar- og tískubransanum,“ bætir hún við, en Herdís starfar núna við áhrifavaldamarkaðssetningu.

Í dag starfar Herdís við áhrifavaldamarkaðssetningu í Danmörku.
Í dag starfar Herdís við áhrifavaldamarkaðssetningu í Danmörku.

Hefur þú alltaf haft áhuga á tísku?

„Ég hef alltaf haft gaman af tísku og samsetningu á flíkum. Mamma segir að ég hafi alltaf viljað velja fötin mín sjálf og heimtað að fara í litríkum kjólum og sokkabuxum í leikskólann.

Persónulegi stíllinn minn þróaðist hratt þegar ég bjó fyrst í Amsterdam og svo Köben. Þar eru tíska og hönnun stór hluti af menningunni og mismunandi hverfi skarta ólíkum týpum og fjölbreyttum fatastílum. Með tímanum komst ég inn í hringiðu tískuheimsins hér í Köben og hef ekki ratað út aftur enn hann hefur veitt mér mikinn innblástur.“

Tískuáhuginn byrjaði snemma hjá Herdísi sem var strax komin með …
Tískuáhuginn byrjaði snemma hjá Herdísi sem var strax komin með sterkar skoðanir á leikskólaaldri.

Hvað er tíska fyrir þér?

„Fyrir mér er tíska og fatasamsetning persónulegt tjáningarform og einnig ákveðið listform. Ómeðvitað pæli ég alla daga í samsetningu fata fólks í kringum mig, dáist að og velti fyrir mér ólíkum flíkum og týpum og hvaða sögu þau gætu sagt. Að mínu mati er enginn einn stíll flottastur, heldur þegar maður sér að manneskja klæðir sig nákvæmlega eftir sínu höfði og veit hvað hún fílar. Fyrir mér sýnir það sjálfsöryggi og karakter sem ég hrífst mjög af.

Það sem mér finnst skemmtilegast við tísku er að hún endurspeglar oft mann sjálfan, og maður getur ákveðið hvaða karakter maður er eftir tilefni eða skapi. Ef maður er ekki sáttur með stílinn sinn eða líður eins og hann sé ekki fullkomlega maður sjálfur, þá er aldrei of seint að þróa hann og prófa sig áfram í öðruvísi flíkum. Stundum þegar ég er á nytjamörkuðum gríp ég sérkennilegar flíkur bara til að máta og sjá hvernig mér líður í þeim. Get staðfest að þannig hef ég fundið sumar af mínum uppáhalds flíkum.

Þar sem við klæðumst fötum og segjum þannig okkar sögu alla daga er lífið er of stutt til að klæðast fötum sem endurspegla ekki hver við raunverulega erum. Ég vil þó taka fram að það eru mikil forréttindi að geta haft frelsi í fatavali, þar sem það hafa ekki allir efni á að klæða sig í mörgum mismunandi flíkum. Fólk á að hafa leyfi til að klæðast hverju sem það vill án þess að vera dæmt.“

Að mati Herdísar er tíska og fatasamsetning ákveðið tjáningar- og …
Að mati Herdísar er tíska og fatasamsetning ákveðið tjáningar- og listform.

Hvernig myndir þú lýsa fatastílnum þínum?

„Ég myndi segja að stíllinn minn sé nokkuð flæðandi og að hann fari algjörlega eftir karakter dagsins, tilefni og árstíð. Oftar en ekki vil ég klæða mig á skemmtilegan hátt með smá „funky“ eða „grungy“ karakter en stundum fer ég í gegnum tímabil þar sem ég vil bara klæðast kvenlegum flíkum eins og skyrtum, pilsum, og hælum.

Það sem er kannski einkennandi við minn stíl er að ég kýs alltaf að hafa einhvern hluta af fatasamsetningunni „chunky“ og í hlutföllum sem virka fyrir mig. Það gætu þá verið „chunky“ skór, aðsniðnar buxur og stór jakki saman. Eða þá efnismikið pils og efnisminni jakki til að hlutföllin meiki sense. Ef það er sól úti þá verða stóru sólgleraugun mín hluti af mér.“

Sólgleraugun fylgja Herdísi alltaf ef það er sól úti.
Sólgleraugun fylgja Herdísi alltaf ef það er sól úti.

„Ég hef mikla þörf fyrir að „experímenta“ og prófa nýjar samsetningar. Mér þykir fátt skemmtilegra en að finna leiðir til að fá ólíkar flíkur sem eiga kannski ekki heima saman í sama „flokki“ til að virka saman og mynda eina, mögulega umdeilanlega, heild.“

Herdís er óhrædd við að leika sér með mismunandi og …
Herdís er óhrædd við að leika sér með mismunandi og óhefðbudnar fatasamsetningar.

Hvernig klæðir þú þig dagsdaglega?

„Oftast þegar ég er að velja saman flíkur hugsa ég að ég þurfi að minnsta kosti einn hlut sem stendur upp úr. Það getur verið litrík taska eða trefill, mynstraðar sokkabuxur, loðjakki eða sérkennilegt pils.

Seinustu mánuði hef ég verið með æði fyrir skoska köflótta munstrinu og það er hægt að finna hjá mér í pilsum, tösku sem ég á, treflum, sokkabuxum og sokkum. Ég fer heldur ekki út úr húsi óklædd silfurskarti sem er oftar en ekki fyrirferðarmikið eða „chunky“.

Fatasamsetning er þjálfun og ég hef æft mig í gegnum tíðina og lært hvað virkar og virkar ekki fyrir mig og því verður auðveldara að setja saman þær ólíku flíkur sem ég á, á marga mismunandi vegu.“

Að undanförnu hefur Herdís verið með æði fyrir skosku köflóttu …
Að undanförnu hefur Herdís verið með æði fyrir skosku köflóttu mynstri.

„Ég legg einnig mikið upp úr sniðum og hlutföllum þegar kemur að samsetningu á fötum. Þegar ég er að velja mér föt fyrir daginn set ég stundum eitthvað saman sem passar alls ekki og bara með því að skipta út einni flík sem var fyrst kannski aðsniðið pils yfir í a-laga pils getur það breytt öllu lúkkinu.

Síðast en ekki síst: Layers on layers on layers. Það á aðallega við núna yfir vetrartímann þar sem mér finnst ekkert leiðinlegra en að vera kalt. Oftar en ekki er ég þó nokkrum lögum af fötum, bæði því mér finnst það skemmtilegt lúkk og ekki verra að það haldi á mér hita.“

Þegar Herdís setur saman dress pælir hún mikið í sniðum …
Þegar Herdís setur saman dress pælir hún mikið í sniðum og hlutföllum.

En þegar þú ferð eitthvað fínt?

„Þegar ég er að fara eitthvað fínt út, þá er mitt „go to“ að vera í pilsi, támjóum hælum, fallegri skyrtu eða bol, loðkápu og með áberandi handtösku. Ég set á mig rauðan varalit og þá getur ekkert stoppað mig.“

Rauður varalitur getur ekki klikkað!
Rauður varalitur getur ekki klikkað!

Bestu fatakaupin?

„Ég held það verði að vera rauðu skotasokkabuxurnar mínar sem ég keypti í Stellu á Laugavegi um jólin. Mér finnst svo gaman að vera í þeim og það er hægt að klæða þær á svo margvíslegan hátt. Oftar en ekki vil ég klæðast einhverju aðeins meira „funky“ og þá eru þær það fyrsta sem ég klæðist og svo kemur restin eftir skapi.“

Sokkabuxur með köflóttu skotamynstri eru í miklu uppáhaldi hjá Herdísi.
Sokkabuxur með köflóttu skotamynstri eru í miklu uppáhaldi hjá Herdísi.

„Nýlega keypti ég líka vintage Roberto Cavalli kápu sem er enn of efnislítil fyrir veturinn en ég hlakka svo til að klæðast henni óspart í vor. Hún er brún og svo falleg í sniðinu, kassalaga og löng með sérstökum smáatriðum í kraganum. “

Sokkabuxurnar eru partur af mörgum dressum sem Herdís hefur sett …
Sokkabuxurnar eru partur af mörgum dressum sem Herdís hefur sett saman á síðustu mánuðum.

Áttu þér uppáhaldsskó og -fylgihlut?

„Uppáhaldsfylgihluturinn minn mun vera flúff-ið mitt sem snillingurinn Thelma Rut Gunnarsdóttir hannaði og heklaði. Ég fæ mikið af spurningum og hrósum fyrir það hérna í Köben og ég er alltaf stolt af því að segja að það sé gert af íslenskum upprennandi hönnuði sem ég tel að sé að skjótast hratt upp stjörnuhimininn.“

Hér er Herdís með uppáhaldsfylgihlutinn eftir íslenska hönnuðinn Thelmu Rut …
Hér er Herdís með uppáhaldsfylgihlutinn eftir íslenska hönnuðinn Thelmu Rut Gunnarsdóttur.

„Uppáhaldsskórnir mínir eru án efa támjóu svörtu stígvélin mín sem ég keypti á nytjamarkaði hér í Köben og nota óspart. Þau passa við nánast öll „outfit“, hvort sem ég vel að fara í víðar eða þrengri buxur eða pils, og þau gera heildarmyndina og hlutföllin á einhvern hátt fallegri en til dæmis hringlaga skór myndu gera fyrir mig persónulega.“

Herdís segir uppáhaldsskóna passa við nánast hvað sem er.
Herdís segir uppáhaldsskóna passa við nánast hvað sem er.

Hvað er efst á óskalistanum um þessar mundir?

„Upp á síðkastið hef ég mikið verið að skoða skemmtileg, efnismikil Commes Des Garcons pils og há platform stígvél.“

Áttu þér uppáhaldsmerki og fatahönnuði?

„Fatamerki sem ég hrífst mjög af er danskt merki sem heitir Division. Það eru tvö systkini, Nanna og Simon Wick sem eiga það og þau hanna mjög skemmtileg „street style“ föt úr „deadstock“ og endurunnum efnum.

Uppáhaldsfatahönnuður minn er Vivienne Westwood. Hún var algjör táknmynd og með svo skemmtilegan pönkara, extravagant-stíl sem erfitt er að toppa.

Aðrir fatahönnuðir sem ég kann að meta eru Junya Watanabe sem hannaði fyrir Commes des Garcons og hefur einnig þetta skemmtilega pönk „element“. Síðast en ekki síst verð ég að nefna Miuccia Prada, hönnuð Prada og Miu Miu sem hefur í gegnum tíðina gert tímalausar fatalínur.“

Hér er Herdís í peysu frá uppáhaldsmerkinu sínu, Devision.
Hér er Herdís í peysu frá uppáhaldsmerkinu sínu, Devision.

Hvar verslar þú oftast?

„Ég myndi segja að 80% af fataskápnum mínum séu nú endurnýttar flíkur, þ.e.a.s. keyptar á nytjamörkuðum eða nytjaverslunum og ástæðan er einföld. Tískuiðnaðurinn er einn af stærstu orsakavöldum losun koltvísýrings á jörðu og tonn af fötum enda í urðunarstöðum. Að kaupa notuð föt lengir endingartíma vara og kemur í veg fyrir þörf fyrir nýja framleiðslu. Þetta dregur aftur úr neyslu á hráefni, orku og vatni sem þarf til framleiðslu. Ekki skemmur heldur fyrir að þau séu oft góð fyrir veskið.

Það er líka eitthvað sérstakt við að finna einstaka flík sem fæst ekki víðsvegar. Ég get því eytt tímum saman að skoða á símaforritunum Vinted og Vestiaire eða í nytjafata- og vintage-verslunum vitandi að þar gæti leynst einhver fjársjóður. Ég vil þó taka fram að þar sem ég sel einnig nokkuð af fötum á netinu er ég haldin þeirri ranghugmynd að ég sé einnig á leiðinni á Forbes 30 under 30.“

Herdís verslar langmest á nytjamörkuðum.
Herdís verslar langmest á nytjamörkuðum.

Hvert sækir þú innblástur þegar þú setur saman dress eða velur flíkur?

„Ég sæki líklega mesta innblásturinn frá vinum mínum, umhverfinu mínu, tónlist og menningu. Ég er heppin að eiga marga vini sem hafa einnig mikinn áhuga á tísku og umræðuefnið er oftar en ekki hvað við erum að spá í tísku hverju sinni

Einnig hef ég alltaf haft mikinn áhuga á ólíkum tímabilum tískunnar og að spá fyrir hvaða tímabil muni endurtaka sig, en á nýjan hátt. Ég man þegar ég var yngri og það þótti galin hugmynd að klæðast smekkbuxum en ég sagði fólki að gefa því nokkur ár og þær kæmu aftur, sem svo gerðist. Mín uppáhalds tímabil í tísku og tónlist myndi ég segja að væru áttundi og tíundi áratugurinn og það endurspeglar hvað mér þykir fallegt í dag.“

Herdís sækir innblástur víða í umhverfi sínu.
Herdís sækir innblástur víða í umhverfi sínu.

„Einnig er ég heppin að búa í borg þar sem fólk er óhrætt við að klæða sig á óhefðbundinn hátt. Það þarf ekki nema að fara í göngutúr í hverfinu til að fá nýjar hugmyndir um hvernig hægt er að setja fötin sín saman á mismunandi hátt. Ég hef gaman af því að sitja úti á kaffihúsi eða á Dronning Louises Bro og fylgjast með mismunandi fatasamsetningum fólks. Oftar en ekki hef ég tekið eftir einhverju flottu og fundið mér svipað á nytjamarkaði eða fengið hugmynd um hvernig ég get notað það sem ég á á nýjan hátt.

Ómeðvitað verður maður einnig óhjákvæmilega fyrir áhrifum frá samfélagsmiðlum og þeim ótalmörgu tískubylgjum sem deyja hraðar en þær fæðast, en þegar svo skeður, þá tek ég frá því það sem mér þykir sjarmerandi og áhugavert að máta við minn eigin stíl. Ég finn fyrir að margir hafa neikvætt viðhorf fyrir þeim bylgjum sem sjást á samfélagsmiðlum í dag og að þær ýta undir neysluhyggju, sem er alveg satt, en ef fólk tekur aðeins það sem á við sig sjálft, finnst mér það geta hjálpað mörgum sem eru á því ferðalagi að finna sinn persónulega stíl.“

Herdís kann vel við sig í Kaupmannahöfn enda segir hún …
Herdís kann vel við sig í Kaupmannahöfn enda segir hún fólk þar vera óhrætt við að klæða sig á óhefðbundinn hátt.

Ef peningar væru ekki vandamál hvað myndir þú kaupa þér?

„Líklega húsnæði miðað við hve erfiður fasteignamarkaðurinn er fyrir okkar kynslóð. Og svo myndi ég fylla það af klassískum vintage-hælum frá Miu Miu, Prada, Manolo Blahnik og fleiri.“

Hver finnst þér vera best klæddi einstaklingurinn í heiminum í dag?

„Þegar stórt er spurt! Ég verð að nefna tvær góðar sænskar vinkonur mínar, Olivia Halle og Tilda Mellinger sem ég kynntist í Köben og fæ mikinn innblástur frá. Þær hafa báðar virkilega skemmtilegt og fallegt auga fyrir tísku. Tilda er líklega ein glæsilegasta týpa sem ég þekki og gengur hversdagslega í fallegum vintage-flíkum og hælum. Olivia dansar á milli þess að vera ótrúlega „elegant“ og einstök í fatavali á mjög frumlegan og skemmtilegan hátt.“

Vinkonur Herdísar hafa gefið henni mikinn innblástur.
Vinkonur Herdísar hafa gefið henni mikinn innblástur.
mbl.is