„Ég hef aldrei verið mjög djörf þegar kemur að litavali“

Heimili | 12. maí 2024

„Ég hef aldrei verið mjög djörf þegar kemur að litavali“

Árið 2020 ákváðu þau Ásta Katrín Viggósdóttir og Tyrfingur sigurðsson að líta í kringum sig eftir stærra húsnæði. Á þeim tíma bjuggu þau í 60 fermetrum sem var einfaldlega að verða oflítið fyrir stækkandi í fjölskyldu. Í dag búa þau ásamt börnunum sínum tveimur, Ými og Ylfi, hundinum Hátíð og kettinum Myrkva í 240 fm raðhúsi sem þau byggðu frá grunni.

„Ég hef aldrei verið mjög djörf þegar kemur að litavali“

Heimili | 12. maí 2024

Ásta Katrín Viggósdóttir og maðurinn hennar voru í leit að …
Ásta Katrín Viggósdóttir og maðurinn hennar voru í leit að stærra húsnæði þegar þau rákust á draumalóð í Urriðaholti. Samsett mynd

Árið 2020 ákváðu þau Ásta Katrín Viggósdóttir og Tyrfingur sigurðsson að líta í kringum sig eftir stærra húsnæði. Á þeim tíma bjuggu þau í 60 fermetrum sem var einfaldlega að verða oflítið fyrir stækkandi í fjölskyldu. Í dag búa þau ásamt börnunum sínum tveimur, Ými og Ylfi, hundinum Hátíð og kettinum Myrkva í 240 fm raðhúsi sem þau byggðu frá grunni.

Árið 2020 ákváðu þau Ásta Katrín Viggósdóttir og Tyrfingur sigurðsson að líta í kringum sig eftir stærra húsnæði. Á þeim tíma bjuggu þau í 60 fermetrum sem var einfaldlega að verða oflítið fyrir stækkandi í fjölskyldu. Í dag búa þau ásamt börnunum sínum tveimur, Ými og Ylfi, hundinum Hátíð og kettinum Myrkva í 240 fm raðhúsi sem þau byggðu frá grunni.

„Ferlið hófst í ársbyrjun 2020 á fasteignavefnum. Við ætluðum ekkert að fara neitt flókna leið – bara selja okkar hús og kaupa annað. Við fréttum hins vegar af lóð á draumastað í Urriðaholti og með dass af hvatvísi og „þetta reddast“-hugafari keyptum við þessa raðhúsalóð,“ segir Ásta.

Ásta Katrín ásamt börnunum sínum tveimur, Ylfi og Ými.
Ásta Katrín ásamt börnunum sínum tveimur, Ylfi og Ými. mbl.is/Irja Gröndal

„Nálægðin við náttúruna og þetta magnaða útsýni var klárlega það sem seldi okkur lóðina. Okkur fannst þetta vera algjörlega einstakt tækifæri og við smituðum mömmu af hugmyndinni. Eitt það besta við þetta ferli er að í dag búum við mæðgurnar hlið við hlið,“ segir hún. 

Fljótlega eftir að Ásta og Tyrfingur festu kaup á lóðinni byrjaði hugmyndavinnan. „Við komumst nokkurn veginn að því hvernig við vildum hafa húsið og í framhaldi af því var allt teiknað upp. Nokkrum mánuðum síðar hófst vinna á lóðinni sem mér fannst taka heila eilíf. Mér fannst erfitt að sjá fyrir endann á verkefninu því töluverð vinna er illsýnileg ef svo má segja,“ segir hún.

Nálægðin við náttúruna heillaði Ástu og Tyrfing, en frá lóðinni …
Nálægðin við náttúruna heillaði Ástu og Tyrfing, en frá lóðinni er óhindrað útsýni yfir Heiðmörk og til fjalla.

„Einhver hughreysti mig með þeim orðum að verkið væri hálfnað þegar botnplata væri komin. Þarna átti að byggja hús og það var ekkert að sjá nema einhvern smá grunn svo ég tók þessu með fyrirvara, en þetta reyndist þó nokkurn veginn vera rétt,“ segir Ásta.

„Svo þegar maður sá húsið fara að taka á sig mynd gerðust hlutirnir hratt og árangurinn varð einhvern veginn meira áþreifanlegur,“ bætir hún við.

Í fyrstu fannst Ástu vinnan á lóðinni taka heila eilífð, …
Í fyrstu fannst Ástu vinnan á lóðinni taka heila eilífð, en þegar grunurinn var kominn fóru hlutirnir þó að gerast hraðar.

„Létum okkur ýmislegt nægja“

Fjölskyldan flutti inn í húsið um það bil tveimur árum eftir að þau festu kaup á lóðinni eða í apríl 2022. „Þá áttum við samt heilmikið eftir til að gera húsið að heimili en við létum okkur ýmislegt nægja á meðan við héldum áfram að vinna í húsinu að innan,“ segir Ásta.

Í dag hafa þau komið sér vel fyrir í húsinu sem er að mestu tilbúið að innan og hefur verið innréttað á afar fallegan máta. „Í dag erum við að leggja áherslu á að gera garðinn huggulegan, þetta er margra ára verkefni sem við tökumst á við eftir því sem tími og fjármagn leyfir,“ segir hún.

Það sést greinilega að á þessu heimili búa miklir fagurkerar, …
Það sést greinilega að á þessu heimili búa miklir fagurkerar, enda hafa Ásta og Tyrfingur innréttað heimilið á sérlega fallegan máta. mbl.is/Irja Gröndal

Spurð hvað hafi komið henni á óvart í ferlinu nefnir Ásta allt rykið og hlær. „En svona í alvöru talað þá kom það mér verulega á óvart hvað maður missir skynið fyrir peningum. Ég ólst upp við það að horfa vel í hverja krónu og fara afar sparlega með peninga. Að fara allt í einu frá því að standa við rekkana í Bónus og rýna vel í kílóaverð matvæla yfr í að velja á milli byggingarefna þar sem verðmunurinn á því ódýrasta og því sem mig langar í hleypur á mörg hundruð þúsund krónum er mjög sérstakt,“ útskýrir hún.

Eldhúsið er rúmgott og bjart með góðu vinnu- og skápaplássi.
Eldhúsið er rúmgott og bjart með góðu vinnu- og skápaplássi. mbl.is/Irja Gröndal

„Það vafðist aldrei neitt sérstaklega fyrir mér að velja betri kostinn í byggingarferlinu – kannski af því að maður var að vinna með svo súrrealískar upphæðir. Annars vissi ég eiginlega voða lítið út í hvað ég var að fara og er þakklát fyrir allt sem ég er búin að læra af þessu,“ bætir hún við.

Falleg litapalletta einkennir rýmið, en hún er innblásin af náttúrufegurðinni …
Falleg litapalletta einkennir rýmið, en hún er innblásin af náttúrufegurðinni í kring. mbl.is/Irja Gröndal

Hvernig var draumahúsið í þínum huga áður en ferlið hófst?

„Sko, til að byrja með var draumahúsið bara hús sem passaði fyrir fjögurra manna fjölskyldu plús hund og kött. Ég var ekki með „bilaðslegar“ væntingar eða kröfur. Okkar fyrsta hugmynd að húsinu líktist í raun ótrúlega lokaútkomunni.“

Model 2065-ljósið frá Astep er afar stílhreint og formfagurt. Það …
Model 2065-ljósið frá Astep er afar stílhreint og formfagurt. Það var hannað af Gino Sarfatti árið 1950 og stenst sannarlega tímans tönn. mbl.is/Irja Gröndal

Hvaða rými í húsinu var erfiðast að hanna eða ákveða hvernig ætti að vera?

„Eldhúsið og baðherbergin flæktust mest fyrir mér. Þar getur fagurfræðin þurft að lúta í lægra haldi fyrir notagildinu.“

Ástu þótti mest krefjandi að ákveða hvernig eldhúsið og baðherbergin …
Ástu þótti mest krefjandi að ákveða hvernig eldhúsið og baðherbergin ættu að vera.

Sótti innblástur í náttúrufegurðina í kring

Á efri hæð hússins er að finna rúmgott, bjart og opið alrými sem samanstendur af eldhúsi, stofu og borðstofu. Gólfsíðir gluggar einkenna rýmið og veita stórkostlegt útsýni að náttúrufegurðinni í Heiðmörk, en Ásta segist hafa sótt mikinn innblástur þaðan.

„Einfaldleikinn gefur til kynna að hér búi annaðhvort manneskja með ákvaðanakvíða eða sem aðhyllist mínimalískan lífsstíl. Það er líklega flottara að segja að maður sé mínimalisti en að maður geti ekki ákveðið sig, er það ekki?“ segir Ásta og hlær.

Frá eldhúsinu er guðdómlegt útsýni yfir Heiðmörkina sem líkist helst …
Frá eldhúsinu er guðdómlegt útsýni yfir Heiðmörkina sem líkist helst listaverki. mbl.is/Irja Gröndal

„Ég hef aldrei verið mjög djörf þegar kemur að litavali og held mikið í jarðliti. Þegar kom að því að velja innréttingar er náttúrulega ofboðslega mikið í boði en möguleikarnir hjá IKEA höfðuðu til okkar ásamt því að bjóða upp á verð sem þú sérð ekki annars staðar,“ segir hún.

„Ég get verið mjög áhrifagjörn og á auðvelt með að falla fyrir tískubylgjum sem vara stutt. Ég er mjög auðvelt skotmark þegar kemur að ýmsum innanhússtrendum, en þegar kom að vali á innréttingum í húsinu reyndi ég að einblína á tímalausan efnivið í von um að fá ekki leiða á öllu strax,“ bætir hún við. 

Hin fögru Flowerpot-hengiljós prýða eldhúsið. Þar má einnig sjá frístandandi …
Hin fögru Flowerpot-hengiljós prýða eldhúsið. Þar má einnig sjá frístandandi hillu með fallegum munum, meðal annars keramiki eftir Þórdísi Sigfúsdóttur. mbl.is/Irja Gröndal

„Það sama á við um val á húsgöngum, en þegar við fórum úr 60 fm yfir í 240 fm gleypti húsið þau fáu húsgögn sem við áttum. Okkur buðust góð húsgögn frá nánum ættingjum – sem við þáðum kannski svolítið sem svona skyndilausn á þeim tíma – en þessi húsgögn eru að mínu mati þau sem gera húsið að heimilinu sem það er í dag,“ segir Ásta.

„Við reyndum að nota það sem til var en við fjárfestum í nýju eldhúsborði eftir að við fluttum inn. Þar reyndi ég líka að leggja áherslu á að velja eitthvað sem eldist vel. Viður er alltaf fallegur og gegnheilt viðarborð er eitthvað sem þú átt um ókomna tíð ef þú hugsar vel um það,“ bætir hún við.

Hundurinn Hátíð virðist vera afar sátt við valið á húsgögnum …
Hundurinn Hátíð virðist vera afar sátt við valið á húsgögnum í rýminu, en sófinn er í sérstöku uppáhaldi hjá henni. mbl.is/Irja Gröndal

„Ég vildi kannski forgangsraða aðeins öðruvísi“

Aðspurð segir Ásta að Tyrfingur eigi að mestu leyti heiðurinn af skipulagi eldhússins. „Hann lagði mikið upp úr því að eldhúsið væri notendavænt fyrir okkar lífsstíl. Ég hafði ekki miklar skoðanir fyrr en kom að því að velja fronta og borðplötu,“ segir hún.

„Ég átti mjög erfitt með að sjá mig fyrir mér í eldhúsi sem var ekki til en hann hafði sem betur fer ótrúlega góða innsýn í þessa hluti og sá algjörlega um að útkoman yrði geggjuð,“ bætir hún við.

Eldhúsið lukkaðist sérlega vel hjá Ástu og Tyrfingi, enda bæði …
Eldhúsið lukkaðist sérlega vel hjá Ástu og Tyrfingi, enda bæði skipulag og fagurfræðin upp á tíu. mbl.is/Irja Gröndal

Spurð hvað hafi verið erfiðast að velja í rýmið segir Ásta að sér hafi þótt erfiðast að gera það upp við sig hvað hún væri tilbúin að eyða miklu fjármagni í eldhúsið og hvernig ætti að skipta því. „Ég vildi kannski forgangsraða aðeins öðruvísi en karlinn sko. Hann var meira að kynna sér eldhústæki á meðan ég dásamaði borðplötur sem hefðu híft endanlegan kostnað á eldhúsinu allverulega,“ útskýrir Ásta og hlær.

Ásta hafði mestan áhuga á frontum og borðplötum í eldhúsið …
Ásta hafði mestan áhuga á frontum og borðplötum í eldhúsið á meðan Tyrfingur kynnti sér eldhústækin.

Hvernig stemningu langaði þig að skapa í rýminu?

„Þarna erum við í þvílíkri náttúruparadís og við vildum gjarnan leyfa mörkunum á milli hennar og heimilisins að vera svolítið óljós. Athyglinni er beint að umhverfinu með stórum gluggum og látlausum innanhússmunum. Litirnir í Heiðmörk flæða inn fyrir veggi heimilisins.“

Í stofunni eru gólfsíðir gluggar og mikil lofthæð, en útsýnið …
Í stofunni eru gólfsíðir gluggar og mikil lofthæð, en útsýnið setur sannarlega punktinn yfir i-ið.

Er eitthvað sem þið mynduð vilja breyta þegar litið er til baka?

„Nei, það held ég ekki. Ég er eiginlega bara í sjokki að maðurinn hafi í alvöru vitað hvernig allt átti að vera svo það væri fullkomið fyrir okkur.“

Uppáhaldshúsgagn í rýminu?

„Mig langar að segja Sóleyjarstólarnir við eldhúsborðið. Þeir eru formfagrir og tímalausir en svo hafa þeir líka tilfinningalegt gildi fyrir okkur.“

Sóleyjarstólarnir eru íslensk hönnun eftir Valdimar Harðarson frá árinu 1984 …
Sóleyjarstólarnir eru íslensk hönnun eftir Valdimar Harðarson frá árinu 1984 og koma frá ömmu Tyrfings. mbl.is/Irja Gröndal

En uppáhaldshlutur?

„Grófu pottarnir sem ég er með í eldhúsinu bæði undir blóm og plöntur eru í miklu uppáhaldi hjá mér í augnablikinu. Mér finnst gaman að blanda saman fínlegum við á móti grófum leir.“

Grófir pottar úr Bast eru í sérstöku uppáhaldi hjá Ástu …
Grófir pottar úr Bast eru í sérstöku uppáhaldi hjá Ástu og tóna fallega við innréttingarnar. mbl.is/Irja Gröndal

Hvað er efst á óskalistanum í rýmið?

„Ég er nýlega búin að eignast hlut sem hafði verið lengi á óskalistanum, en það er borðstofuljósið Model 2065 frá Astep. Ég hafði augastað á þessu ljósi í nokkur ár en leiðir okkar lágu nýlega saman á Facebook Marketplace.

Það er fyndið að hugsa til baka til þess að ég hafi geymt það í nokkur ár að kaupa draumaljósið en ekki hikað við að velja dýrt pallaefni.“

Model 2065-ljósið frá Astep hafði lengi verið á óskalista Ástu.
Model 2065-ljósið frá Astep hafði lengi verið á óskalista Ástu. mbl.is/Irja Gröndal
mbl.is