„Alltaf fundið ljósið aftur og aftur“

Framakonur | 21. október 2023

„Alltaf fundið ljósið aftur og aftur“

Þegar Ólöf Sverrisdóttir, leikkona og rithöfundur, byrjaði að læra leiklist fann hún hvernig æfingarnar efla sjálfstraust og hjálpa fólki til að fylgja innsæinu. Sjálf hefur Ólöf unnið lengi í sjálfri sér og veit að allt sem gerist í lífinu þroskar manneskjuna og á að gerast. Nú miðlar hún í gegnum námskeið og listina.

„Alltaf fundið ljósið aftur og aftur“

Framakonur | 21. október 2023

Ólöf Sverrisdóttir, leikkona og rithöfundur, fann leiklistann á námskeiðum hjá …
Ólöf Sverrisdóttir, leikkona og rithöfundur, fann leiklistann á námskeiðum hjá Helga Skúlasyni. Þau voru meðal annars innblástur að námskeiðum sem hún heldur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar Ólöf Sverrisdóttir, leikkona og rithöfundur, byrjaði að læra leiklist fann hún hvernig æfingarnar efla sjálfstraust og hjálpa fólki til að fylgja innsæinu. Sjálf hefur Ólöf unnið lengi í sjálfri sér og veit að allt sem gerist í lífinu þroskar manneskjuna og á að gerast. Nú miðlar hún í gegnum námskeið og listina.

Þegar Ólöf Sverrisdóttir, leikkona og rithöfundur, byrjaði að læra leiklist fann hún hvernig æfingarnar efla sjálfstraust og hjálpa fólki til að fylgja innsæinu. Sjálf hefur Ólöf unnið lengi í sjálfri sér og veit að allt sem gerist í lífinu þroskar manneskjuna og á að gerast. Nú miðlar hún í gegnum námskeið og listina.

Ólöf ólst upp í sveit, ein af sex systkinum. Í hennar huga var alltaf sól og gleði. „Ég var dugleg í skóla og íþróttum, átti góða vini og fjölskyldu. Auðvitað voru ýmis áföll og ekki var kannski allt eins og það átti að vera sem ég sé frekar svona eftir á. Ég var líka örugglega ofvirk og með athyglisbrest en ég átti erfitt með að sitja kyrr í skóla og talaði oft mikið til dæmis var ég mjög fljót að lesa og truflaði oft bekkinn þegar ég nennti ekki að sitja og lesa námsefnið í fimmta sinn. Ég fékk ekki alltaf jákvæð viðbrögð út af þessu,“ segir Ólöf um æskuna.

„Ég varð uppreisnarunglingur og sagði fullum hálsi hvað mér fannst vera að eða óréttlátt bæði í skólanum og heima. Í þá daga var ekki tekið vel á þannig unglingum. Í menntaskóla drakk ég töluvert og það var líka til að geta sleppt fram af mér beislinu því í rauninni var ég óörugg og feimin – þó ég reyndi að vera töffari á yfirborðinu.“

Lét ekkert stoppa sig

Ólöfu dreymdi um að verða leikkona þegar hún var lítil stelpa. Þegar hún mokaði flórinn í skítugum fjósafötunum og gúmmístígvélunum ímyndaði hún sér að hún væri í stödd í söngleik. Í menntaskóla missti hún þó trúna á draumnum.

„Ég hafði misst sjálftraustið dálítið og mér fannst ég ætti að vera í gáfumannaliðinu. Semsagt fara í háskóla og verða frekar alvörugefið ljóðskáld eða eitthvað slíkt. Mér fannst gæfan hafa yfirgefið mig á þessum tíma. Það sem hafði mest áhrif á mig var ósætti við pabba minn sem ég hafði rifist við og hann hafði hálfpartinn lokað á mig. Einkunnirnar urðu frekar lélegar enda drukkið og djammað en það þótti nú bara kúl á þessum tíma. En fór ekki sérlega vel í mig.“

Ólöf fór í bókmenntafræði í Háskóla Íslands en leiklistarnámskeið hjá Helga Skúlasyni kveikti gamlan neista og ekkert gat stöðvað hana. „Ég komst samt ekki inn í leiklistarskólann hér sem ég upplifði sem mikla höfnun. En ég gafst ekki upp. Ég hætti í háskólanum og fór að vinna og ætlaði að safna mér fyrir leiklistarskóla úti í Bretlandi. Þá var það vinkona mín hún Inga Hildur Haraldsdóttir sem benti mér á að ég gæti fengið námslán. Mér hafði ekki dottið það í hug. Örlögin höguðu því þannig að ég komst inn úti í London en Inga hér heima,“ segir Ólöf. 

Ólöf fór í bókmenntafræði áður en hún lét drauminn rætast …
Ólöf fór í bókmenntafræði áður en hún lét drauminn rætast og fór í leiklistarnám. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fann ekki sjálfstraustið í náminu

„Mér gekk vel í leiklistarskólanum og var mjög ánægð fyrsta árið. Þetta var „method“ skóli sem þýðir að við þurftum helst að verða að þeim sem við lékum. Gengum um bæinn sem pönkarar ef við lékum pönkara og svo framvegis en mér fannst það bæði krefjandi og skemmtilegt.

En svo var það í lok annars árs sem ég held ég hafi fengið taugaáfall. Ég hafði verið látin í b-hóp en hafði alltaf verið í a-hóp. Þeir sem voru í b-hóp voru ekki öruggir um að fá að halda áfram. Það voru semsagt 46 sem hófu nám í þessum bekk en aðeins 16 sem útskrifuðust. Ég var komin í áhættuhóp og fann fyrir kvíða. Mér fannst þetta líka vera mér að kenna eða að ég hefði klúðrað þessu þegar ég hrósaði kennara sem yfirkennarinn þoldi ekki. Ég hafði allavega ekki staðið mig verr í leiklistinni en áður.

Ég áttaði mig á að leiklistarskólinn myndi ekki stuðla að því að ég fengi sjálfsöryggið sem mér fannst mig skorta og ég brotnaði saman. Ég held að í ofanálag hafi allskonar áföll, kynferðislegt ofbeldi og áreiti sem ég hafði orðið fyrir frá barnsaldri líka brotist þarna út. Ég grét öllum stundum heima hjá mér en ég leigði með Töru vinkonu minni. Ég fór í gegnum skóladaginn með kökkinn í hálsinum en um leið og ég kom heim þá grét ég og grét. Einn daginn fékk Tara vinkona mín nóg. Hún skipaði mér að taka mig saman í andlitinu og eiginlega skammaði mig út úr þessu ástandi. Ég ákvað þá að bæla þessa sorg niður enda fannst mér sjálfri nóg komið.

Það var í lok þessarar annar að ég fór með Töru á interrail og þar sem ég lét mig fljóta á bakinu í söltum sjónum undir kletti Gíbraltar, varð ég fyrir mjög sterkri andlegri upplifun. Mér fannst einhver kalla nafn mitt og síðan rann ég inní klettana og náttúruna, sameinaðist einhverri alheimsorku og fann fyrir mikilli hamingju. Það er ekki hægt að lýsa þessari upplifun en þegar fólk segir frá svipaðri upplifun veit ég nákvæmlega hvernig þeim hefur liðið. Þarna var eins og einhver guðleg vitund léti vita af sér og kallaði mig til sín.“

Ólöf er hér eftir sýningu á Ávaxtarkörfunni á Akureyri.
Ólöf er hér eftir sýningu á Ávaxtarkörfunni á Akureyri. Morgunblaðið/Kristján Kristjánsson

Hvernig áttaðir þú þig á því að þú þyrftir að vinna úr áföllum og hvaða leiðir fórstu?

„Þegar ég kom heim fann ég auðvitað að ég var ekki með mikið sjálfstraust eða sjálfsöryggi. En ég var með mína grímu eins og aðrir svo sem en það sem hjálpaði mér mest var þessi vissa um að eitthvað annað var til en það sem ég sá eða heyrði. Ég fékk hlutverk í nokkrum söngleikjum og þegar ég fékk ekkert þá stofnuðum við Furðuleikhúsið. Og ég var meðfram leiklistinni mjög andlega leitandi.“

Yndislegt en erfitt að vera móðir

Ólöf á uppkomna dóttur sem heitir Tara rétt eins og vinkona hennar frá námsárunum á Englandi. Ólöf ól dóttur sína mikið upp ein og segir það hafa verið erfitt á tímum.

„Það var yndislegt að verða móðir og ég elskaði Töru mína skilyrðislaust. Tilfinning sem ég þekkti ekki áður og ég var mjög hamingjusöm og er enn, með að hafa átt þessa frábæru stelpu. En ég var ein með hana og það gat verið mjög erfitt, bæði fjárhagslega og tilfinningalega. Og það sem ýtti mér loks út í mikla sjálfsvinnu var það að ég vildi ekki missa stjórna á tilfinningunum eða verða reið og ala dóttur mína upp í sama aga og ég hafði verið alin upp í en ég kunni svo sem ekkert annað.

Ég fór fyrst á námskeið sem ég kalla reiðinámskeið en það var tilfinningavinna þar sem við öskruðum í púða. Og svo fór ég til Paul Welch sem margir kannast við og leikritið „Björk Of course“ er að einhverju leyti byggt á. Tilfinningalega voru námskeiðin þar algjör rússíbanareið en sumt var gott þegar upp var staðið. Stundum kom ég í sæluvímu heim af slíku námskeiði. Þarna fann ég sterkari tengingu við æðri mátt en ég hafði nokkurn tíman fundið fyrir áður. Ég fór á stök námskeið hjá Paul í nokkurn tíma en svo síðast fór ég á ársnámskeið sem var mjög erfitt og ég er ekki viss um að ég hafi haft gott af því. En um þetta tímabil væri hægt að skrifa bók og ég er reyndar byrjuð að skrifa niður ýmsar minningar þaðan.“

Leið þér alltaf eins og þú værir að standa þig vel?

„Eftir þessa reynslu ákvað ég að selja ofan af mér og fara í framhaldsnám til Englands þar sem ég tók MA í Theatre Practice. Mjög skemmti­legt nám en Töru minni leið ekki vel og hafði þróað með sér skólakvíða. Eftir að ég frumsýndi útskriftaverkefnið mitt úr mastersnáminu í Tjarnabíó var ég algerlega búin á því andlega. Ég ásakaði mig um að hafa hafa tekið vitlausar ákvarðanir alltaf hreint og ekki síst á því sem snéri að Töru og þarna hófust erfiðustu ár ævi minnar. Ég flæktist á milli íbúða enda á leigumarkaði og ekki hjálpaði það að Tara mátti þá bara fara í skóla í hverfinu þar sem við bjuggum. Ég var í stöðugu niðurrifi og sjálfsásökunum. Fannst ég hafa algerlega brugðist sem móðir og hafði miklar áhyggjur af Töru minni. Þetta er tímabil sem stóð í nokkur ár en einhvern veginn snérist þetta smám saman við og þegar ég byrjaði með Leiklistarskólann Opnar dyr 2008 er lífið á uppleið og er enn.“

Að verða móðir var best í heimi en það reyndi …
Að verða móðir var best í heimi en það reyndi líka á. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýtir hæfileika sína og menntun

Ólöfu hefur tekist að vinna við ástríðu sína í gegnum tíðina og skapa sér tekjur í leiðinni.

„Ég hafði verið í verktakavinnu í mörg ár við að kenna í Sönglist og víðar þegar ég fór að vinna hjá Borgarbókasafninu við að segja börnum sögur í sögubílnum Æringja. Þar sem Sóla sögukona varð til og fleiri sögukonur. Það var viss léttir að komast í fast starf þó það væri bara hálft starf til að byrja með. Á þeim tímapunkti var ég mjög fegin. Seinna gaf ég út barnabókina Sóla og sólin og ákvað þá í kjölfarið að fara í ritlist í HÍ meðfram vinnu. Nú er loksins að koma út önnur bókin um Sólu. Í fyrra gaf ég út mína fyrstu ljóðabók.

Oftast hef ég bara verið að leita leiða til að afla tekna með því að nýta hæfileika mína og menntun. Eins og þegar ég stofnaði leiklistarskólann 2008 og þá var það líka til að drýgja tekjurnar því ég var í hálfri vinnu hjá bókasafninu og þurfti aukapening. Ég byrjaði ein og var skjálfandi á beinunum en ég vissi alveg að ég hafði menntun og kunnáttu í þetta. Mér fannst reyndar líka að svona námskeið vantaði. Ég fékk svo mikið út úr námskeiðunum hjá Helga Skúlasyni í gamla daga. Seinna sameinuðum við Óli krafta okkar og það var og er mjög gott að vinna með honum. Ég held að það sé mikill misskilningur þegar fólk heldur að það þurfi að vita meira en allir hinir til að geta kennt það. Flestir hafa einhverju að miðla en það að hafa löngun og aðferð til að deila því með öðrum er aðalmálið.

Við stofnuðum Furðuleikhúsið 1994 þá var ég atvinnulaus og það var auglýst eftir skemmtiatriðum í Húsdýra og fjölskyldugarðinn og við Magga Pétursdóttir, Eggert Kaaber og Gunnar Gunnsteins komum saman og stofnuðum Furðuleikhúsið. Það var bæði af peningaþörf og mig allavega hafði alltaf langað að vera með í götuleikhúshópi,” segir Ólöf sem kennir líka ritlistarnámskeið og segir hún að í seinni tíð hafi henni fundist einstaklega skemmtilegt að kenna fullorðnum.

Ólöf Sverrisdóttir sem Sóla sögukona á bókabílnum Æringja.
Ólöf Sverrisdóttir sem Sóla sögukona á bókabílnum Æringja. Ljósmynd/Aðsend

Nýtur sín best á andlegum námskeiðum

Ólöf hefur smitandi bros og gefur frá sér góða orku. Hún virðist vera ein af þeim sem eru alltaf jákvæðir.

„Það er alls ekki alltaf þannig en ég get alltaf fundið gleðina núorðið eða langoftast. En jú ég þarf að minna mig á það og ég hugleiði allavega einu sinni á dag eða á morgnana. Þó að lífið sé langt í frá beinn og breiður vegur og oft ljón á veginum að þá hef ég alltaf fundið ljósið aftur og aftur. Ég trúi kannski ekki á sama hátt og ég gerði sem barn en ég veit að manneskjan er svo miklu meira en hugur og líkami. Það finn ég í hugleiðslunni þó ég sé ekki alltaf í tengingu við þá dásamlegu orku. Og ég er oftast jákvæð og bjartsýn af því ég veit að allt sem gerist er til að hjálpa mér að verða sú sem ég á að verða eða að allt sem gerist er til góðs. Því trúi ég núna.“

Hvað gerir þig hamingjusama í dag?

„Ég elska að hitta vini, fara í leikhús, í sund og ferðast. Já og að kenna og skrifa. Ég er reyndar algjör sóldýrkandi og sjór og sól er eitthvað sem ég dýrka og reyni að fara til heitari landa oft á ári. Er ekki með neitt flugviskubit þó ég ætti kannski að vera með það. Svo er yndislegt að hitta dótturina sem býr núna í Englandi. Svo á ég kisu sem gerir mig mjög hamingjusama. Reyndar finnst mér ég alltaf njóta mín mest af öllu á andlegum námskeiðum. Mér finnst alltaf að þá sé ég komin heim. Þar finnst mér ég samþykkt eins og ég er. Það er sennilega einu hóparnir sem mér finnst ég virkilega tilheyra,“ segir Ólöf. 

Gefandi að kenna leiklist

Ólöf kennir nú leiklist fyrir fullorðna með Ólafi Guðmundssyni leikara. En þau stofnuðu leiklistarskólann Opnar dyr. Næsta námskeið hefst í lok október og segir Ólöf að það sé alltaf gaman að leyfa fólki að sleppa af sér beislinu og ekki síst finna innri styrk. 

„Það sem er svo gefandi við að kenna leiklist er að maður horfir á fólk sleppa tökunum og fara í flæði. Sér hvernig fólk blómstrar og verður öruggt og lifandi eftir nokkra tíma. Nær í barnið í sjálfu sér og hlær og fíflast. Að sjá hvernig gleðin yfir að finna fyrir sköpunarkraftinum í spuna og leik yfirtekur allan ótta og kvíða. Ég áttaði mig á því að þegar ég var sjálf á sjálfstyrkingarnámskeiði að sumar æfingar sem ég hafði lært í leiklist voru einmitt góðar í að þjálfa fólk í öllu mögulegu. Til dæmis að sleppa og treysta. Að sleppa huganum og treysta innsæinu. Til að leyfa ímyndunaraflinu að flæða. Losna við innri gagnrýnandann og svo framvegis. Leiklistaræfingar eru geggjuð verkfæri til betra lífs. Ég var kannski ekki svona sannfærð til að byrja með en mig grunaði þetta samt. Núna er ég ekki í nokkrum vafa.“

Ólafur Guðmundsson kennir leiklist með Ólöfu en hann er hér …
Ólafur Guðmundsson kennir leiklist með Ólöfu en hann er hér í miðjunni með gleraugu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is