„Ég var skyndilega lögð af stað í allt annað ferðalag “

Framakonur | 21. október 2023

„Ég var skyndilega lögð af stað í allt annað ferðalag “

Laufey Jónsdóttir er 24 ára gömul og starfar sem samfélagsmiðlafulltrúi hjá lækningavörufyrirtækinu Kerecis. Hún er í sambúð með Breka Valssyni, en parið festi nýverið kaup á íbúð og á von á sínu fyrsta barni í vetur. 

„Ég var skyndilega lögð af stað í allt annað ferðalag “

Framakonur | 21. október 2023

Laufey Jónsdóttir lagði stund á sálfræði í Háskólanum í Reykjavík.
Laufey Jónsdóttir lagði stund á sálfræði í Háskólanum í Reykjavík. Ljósmynd/Laufey Jónsdóttir

Laufey Jónsdóttir er 24 ára gömul og starfar sem samfélagsmiðlafulltrúi hjá lækningavörufyrirtækinu Kerecis. Hún er í sambúð með Breka Valssyni, en parið festi nýverið kaup á íbúð og á von á sínu fyrsta barni í vetur. 

Laufey Jónsdóttir er 24 ára gömul og starfar sem samfélagsmiðlafulltrúi hjá lækningavörufyrirtækinu Kerecis. Hún er í sambúð með Breka Valssyni, en parið festi nýverið kaup á íbúð og á von á sínu fyrsta barni í vetur. 

Laufey lagði stund á sálfræði í Háskólanum í Reykjavík og hafði hugsað sér að fara í klíníska sálfræði en plönin breyttust þegar hún skráði sig á námskeið í stafrænni markaðssetningu hjá SAHARA og hlaut ráðningu hjá Kerecis samdægurs. „Ég var skyndilega lögð af stað í allt annað ferðalag en ég hafði sér fyrir mér árinu áður en ég gæti vart verið sáttari með þá vegferð sem ég er stödd á í dag,“ segir Laufey. 

Hvernig er að vera ung kona á vinnumarkaðnum? 

„Mér finnst það frábært, en það fylgdi alveg smá kvíði því að byrja á vinnumarkaðnum eftir hafa verið samfleytt í skóla svona fyrstu 23 ár ævinnar,“ segir Laufey. „Ég hef haft mjög gaman af þeim störfum sem ég hef sinnt hingað til, er að læra svo margt og kynnast alls kyns fólki. Sömuleiðis hef ég komist að því að maður kynnist sjálfum sér mjög vel og þroskast mikið á því að vinna með fólki á ólíkum aldri, með mismunandi bakgrunn og jafnvel frá ólíkum heimsálfum, eins og hópurinn hjá Kerecis,“ útskýrir hún. 

Laufey ásamt sambýlismanni sínum, Breka Valssyni.
Laufey ásamt sambýlismanni sínum, Breka Valssyni. Ljósmynd/Laufey Jónsdóttir

Út á hvað gengur starfið?

„Ég er í teymi innan markaðsdeildarinnar sem sinnir samskiptum og stafrænni markaðssetningu. Starfið er heldur fjölbreytt enda er Kerecis ört stækkandi fyrirtæki þar sem hlutirnir gerast hratt og þar af leiðandi er margt spennandi að gerast hverju sinni og alls konar tilfallandi verkefni sem maður fær að sinna ásamt þeim daglegu sem fylgja starfinu,“ segir Laufey. 

„Í markaðsteymum er alltaf líf og fjör enda alls lags viðburðir sem þarf að skipuleggja og þá þurfum við reglulega að leggja hendur á dekk og hjálpast að við að láta hlutina ganga smurt fyrir sig.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vinna gefur manni auðvitað fyrst og fremst tilgang. Starfið sem ég sinni hjá Kerecis veitir mér einnig virkilega dýrmæta reynslu sem ég mun ávallt búa að og tengsl sem ég gæti ekki öðlast annars staðar. Ég er því mjög þakklát fyrir tækifærið sem ég hef fengið innan fyrirtækisins, yfirmenn mína, sem ég er einstaklega heppin með, og bara hvað ég hef gaman af vinnunni, það er eitthvað sem ég tek ekki sem sjálfsögðum hlut,“ segir Laufey. 

Laufey er eldklár og metnaðarfull.
Laufey er eldklár og metnaðarfull. Ljósmynd/Laufey Jónsdóttir

Eru samfélagsmiðlar komnir til að vera?

„Já, ég myndi segja það. Samfélagsmiðlar eru orðnir svo stór partur af okkur í dag og hefur umbreytt samskiptamynstri okkar, hvernig við deilum upplýsingum og tengjumst fólki. Samfélagsmiðlar eru og hafa verið í svakalegri en þó stöðugri þróun frá því þeir komu fram á sjónarsviðið og hafa nú þegar haft varanleg áhrif á margar ef ekki flestar hliðar lífs okkar,“ útskýrir Laufey.

Tekur þú vinnuna með þér heim?

„Já, það er mjög erfitt að gera það ekki þegar maður starfar við samfélagsmiðla, starfið er í símanum og maður er með hann í höndunum daginn út og inn, þannig að maður kemst vart hjá því að fylgjast með svona allavega með öðru auganu,“ segir hún. 

„Það er líka í eðli samfélagsmiðla, sjálfir fara þeir aldrei að sofa. Maður reynir þó alltaf að gera sitt besta og hef ég verið að vinna í að bæta mig þegar kemur að því að aðgreina vinnu og frítíma. En ég starfa líka hjá fyrirtæki þar sem hlutirnir gerast hratt og þarf ég þar af leiðandi að vera tilbúin að sinna verkefnum utan dagvinnutíma þegar þess þarf,“ segir Laufey. 

Laufey ásamt fjölskyldu sinni.
Laufey ásamt fjölskyldu sinni. Ljósmynd/Laufey Jónsdóttir

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Almennt séð næ ég að sinna starfinu á skilgreindum vinnutíma en á álagspunktum teygist dagurinn stundum fram eftir kvöldi. Þegar það kemur að stafrænni markaðssetningu, samfélagsmiðlum og öðru því tengdu þá er mikilvægt að vera vakandi ef og þegar það koma upp hlutir sem maður þarf að bregðast skjótt við,“ útskýrir hún. 

Ertu með hugmynd um hvernig hægt er að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Baráttan hefur nú þegar skilað lögum um jafna stöðu, rétt og meðferð kynjanna á vinnumarkaði, en ef stjórnendur ætla ekki að starfa eftir þessum lögum þá fórna þeir einfaldlega sínum eigin trúverðugleika.

Mér finnst svo fráleit hugmynd að bjóða fram ólík kjör eftir kyni að mér finnst eiginlega óhugsandi að nútímastjórnandi myndi láta sér detta það í hug að bjóða upp á launamisrétti byggt að kynferði eða öðrum slíkum þáttum. En vissulega fyrirfinnst enn launamunur og er það sameiginlegt verkefni okkar allra að útrýma honum að fullu,“ segir Laufey.

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Mamma mín er mögnuð kona og hefur verið algjör stoð og stytta fyrir mig og systkini mín enda ófáir eiginleikar í fari hennar sem mér finnst til fyrirmyndar. Annars er ég umkringd flottum konum og reyni að tileinka mér það sem mér þykir til fyrirmyndar hjá hverri og einni,“ segir hún.

Laufey segir móður sína algjöra stoð og styttu.
Laufey segir móður sína algjöra stoð og styttu. Ljósmynd/Laufey Jónsdóttir

Hvert er besta ráð sem þú hefur fengið?

„Pabbi minn er ansi klár maður og vil ég meina að hann hafi kennt mér mjög margt. Hann heur alltaf lagt ríka áherslu á það að vera óhræddur við að fá nei. Það er fá neitun er óhjákvæmilegur partur af lífinu og í stað þess að þróa með sér ótta við að fá höfnun á maður að þjálfa sig í að fá hana til þess að geta lært af reynslunni og byggt upp þrautseigju. Áður en maður fær eitt já mun maður hljóta ótal mörg nei, þannig er lífið og því mikilvægt að reyna að breyta hugarfari sínu gagnvrt því að fá neitun. Þetta er eitthvað sem ég er ennþá að reyna að tileinka mér í dag,“ útskýrir Laufey.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Ég er mikil félagsvera en fíla einnig að vera bara ein með sjálfri mér og hlusta á hlaðvarp, dunda mér, fara í bað og hafa það kósí. Ég og kærastinn minn eigum bæði stórar fjölskyldur og ólumst upp í stórum systkinahópi þannig að maður kann oft vel að meta að vera einn. Annars nýt ég mín best með fjölskyldunni og vinum mínum í hversdagslegum aðstæðum þar sem við spjöllum um lífið og tilveru,“ segir hún.

Laufey passar að nýta tímann vel.
Laufey passar að nýta tímann vel. Ljósmynd/Laufey Jónsdóttir

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég er mjög skipulögð og notast því mikið við lista, geri lista fyrir nánast hvað sem er. Það eru tæplega 400 minnismiðar í símanum þessa stundina og ég er þokkalega dugleg að eyða út,“ segir hún og hlær.

Hver er uppáhaldsdagur vikunnar og hvers vegna?

„Uppáhalds dagurinn minn er klárlega föstudagur. Það er alltaf öðruvísi stemning á föstudögum, helgin framundan og allir léttir,“ útskýrir Laufey.

Borðar þú morgunmat, ef svo, hver er uppáhalds?

„Já, ég er klárlega sú týpa sem vaknar og þarf alltaf að fá sér eitthvað áður en hún út úr húsi. Það er misjafnt hvað verður fyrir valinu og fer eftir því hversu mikinn tíma ég hef á morgnana, en uppáhalds morgunmaturinn er, ristuð beygla með smjöri, rjómaosti, avókadó, eggi, klettasalati og parmesanosti. Beyglan er toppuð með nógu salti og beyglukryddu og snædd með góðum djús. Eftir þetta getur dagurinn er klikkað,“ segir hún.

Alvöru morgunverður.
Alvöru morgunverður. Ljósmynd/Laufey Jónsdóttir

Hvað er lúxus í þínum huga?

„Lúxus í mínum huga er að gera eitthvað aðeins meira fyrir sjálfan sig en maður er vanur í hversdagsleikanum. Eins einfalt og að skipta um umhverfi, fara upp í bústað, út á land eða jafnvel erlendis, verja auknum tíma með fjölskyldu eða vinum og borða góðan mat eru allt dæmi um lúxus fyrir mér,“ útskýrir Laufey.

5 hlutir sem þú hefðir viljað vita um tvítugt?

„Ég er ennþá svo ung og spennt að sjá hvar ég enda, en ungt fólk í dag þarf held ég smá áminningu um að þú þurfir ekki að vera búin að finna og ákveða þína leið í lífinu strax að loknum menntaskóla. Lífið tekur þig á þann stað sem þér er ætlað að enda á, þú þarft bara að treysta ferlinu. Ég hugsaði að margir séu týndir og viti ekki hvað þeir vilji gera, eðlilega, en finni fyrir pressu að þurfa alltaf að vita hvert næsta skrefið sé,“ segir hún.

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Veturinn leggst mjög vel í mig. Sumarið á Íslandi var einstaklega gott en svo eyddi ég fjórum vikum erlendis í sól og hita þannig að ég er orðin spennt fyrir vetrinum framundan í aðeins meira myrkri og inniveru með kertaljósum. Veturinn stefnir einnig í að verða einn sá allra besti hingað til, ef allt gengur eftir, en ég á von á barni um miðjan vetur og því óhjákvæmilega spennandi tímar framundan,“ segir Laufey.

Laufey er ófrísk að sínu fyrsta barni og er því …
Laufey er ófrísk að sínu fyrsta barni og er því extra spennt fyrir komandi vetri. Ljósmynd/Laufey Jónsdóttir

Hvað ætlar þú að gera til þess að hann verði sem bestur?

„Ég ætla að reyna að taka því rólega og njóta eins mikið og ég get. Tíminn líður hratt og áður en maður veit af verður komið nýtt ár sem fylgja nýjar áskoranir sem ég get ekki beðið eftir að takast á við,“ útskýrir hún.

mbl.is