Frá götum Jerúsalem til Íslands og lét drauminn rætast

Framakonur | 29. október 2023

Frá götum Jerúsalem til Íslands og lét drauminn rætast

Hin ísraelska Yael Bar Cohen fluttist búferlum til Íslands fyrir tveimur árum ásamt eiginmanni sínum. Hún starfar sem ljósmyndari og er í dag meðlimur í Félagi íslenskra samtímaljósmyndara. Yael heillaðist af Íslandi fyrir mörgum árum síðan í gegnum tónlist Sigur Rósar og villta náttúru og menningu landsins. Hún vildi ólm upplifa það að búa á þessari dularfullu eyju í Atlantshafi sem hafði í langan tíma verið henni uppspretta góðra hugmynda í starfi sínu sem ljósmyndari og listakona. 

Frá götum Jerúsalem til Íslands og lét drauminn rætast

Framakonur | 29. október 2023

„Ísland er minn helsti innblástur, strigi og nú landið sem …
„Ísland er minn helsti innblástur, strigi og nú landið sem ég kalla heimili," segir ljósmyndarinn Yael Bar Cohen. Ljósmynd/Yael Bar Cohen

Hin ísraelska Yael Bar Cohen fluttist búferlum til Íslands fyrir tveimur árum ásamt eiginmanni sínum. Hún starfar sem ljósmyndari og er í dag meðlimur í Félagi íslenskra samtímaljósmyndara. Yael heillaðist af Íslandi fyrir mörgum árum síðan í gegnum tónlist Sigur Rósar og villta náttúru og menningu landsins. Hún vildi ólm upplifa það að búa á þessari dularfullu eyju í Atlantshafi sem hafði í langan tíma verið henni uppspretta góðra hugmynda í starfi sínu sem ljósmyndari og listakona. 

Hin ísraelska Yael Bar Cohen fluttist búferlum til Íslands fyrir tveimur árum ásamt eiginmanni sínum. Hún starfar sem ljósmyndari og er í dag meðlimur í Félagi íslenskra samtímaljósmyndara. Yael heillaðist af Íslandi fyrir mörgum árum síðan í gegnum tónlist Sigur Rósar og villta náttúru og menningu landsins. Hún vildi ólm upplifa það að búa á þessari dularfullu eyju í Atlantshafi sem hafði í langan tíma verið henni uppspretta góðra hugmynda í starfi sínu sem ljósmyndari og listakona. 

„Landið hefur ætíð átt sérstakan stað í hjarta mínu,“ segir Yael, en ævintýrið byrjaði fyrir 17 árum síðan þegar hún uppgötvaði tónlist Sigur Rósar. „Tónlist hljómsveitarinnar opnaði dyr að heimi sem átti eftir að heilla mig upp úr skónum. Áður en ég heimsótti Ísland dreymdi mig það og draumarnir snerust ekki aðeins um náttúruundrin og goðsagnirnar sem landið er þekkt fyrir. Ég var að flakka um götur Reykjavíkur í svefni löngu áður en ég steig fæti á íslenska grundu,“ segir Yael. 

Yael og Orri á brúðkaupsdaginn.
Yael og Orri á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Yael Bar Cohen

Með listina í blóðinu

Áhugi Yaelar á ljósmyndun og listum kviknaði í æsku eða um átta ára aldurinn. „Eftir skóla fór ég að skrapa saman pening til að kaupa einnota myndavélar. Ég notaði þær til að taka myndir af flækningsköttum sem ráfuðu um göturnar í hverfinu mínu í Jerúsalem. Ég heillaðist strax af því að frysta rétta augnablikið og skapa eigin hugarheim í gegnum myndavélaraugað,“ útskýrir hún. 

Á menntaskólaárunum lagði Yael stund á ljósmyndun og fékk að kynnast hinum ýmsu hliðum þessa skapandi listforms. Hún tók þá ákvörðun í kjölfarið að verða ljósmyndari og sótti um háskólavist í virtum háskóla í Jerúsalem og hlaut inngöngu. Yael stundaði nám í fjögur ár við Bezalel Academy of Arts and Design. 

„Upplifunin var vægast sagt stórkostleg en sömuleiðis margslungin. Námið víkkaði sjóndeildarhringinn og gaf okkur nemendunum ótrúlegt tækifæri á að kafa dýpra ofan í heimspekilegu og sögulega hliðar ljósmyndunar, sem á sér mikla og ríka sögu. 

Oft myndar Yael við flóknar aðstæður.
Oft myndar Yael við flóknar aðstæður. Ljósmynd/Yael Bar Cohen

Andrúmsloftið í skólanum var þó oft tilfinningaþrungið enda ríkti mikil samkeppni á milli okkar og voru tímarnir erfiðir þar sem við sátum undir eyðileggjandi gagnrýni á hverjum einasta degi sem hafði mikil áhrif á alla í hópnum,“ segir Yael. Hún tekur þó fram að þrátt fyrir mjög strangar kröfur stjórnenda og kennara og vissan skort á tækniþjálfun þá hafi námið reynst henni mjög dýrmætt en að hún hafi ekki upplifað það fyrr en að því loknu. 

Ljósmyndun, bara eins og hver annar útlimur

„Að halda út á vinnumarkaðinn eftir útskrift var spennandi tími. Ég hlaut almennt starf en fann mig ekki og komst fljótt að því að ljósmyndun var lykilpartur af mér, bara eins og hver annar útlimur. Ég leyfði mér að hlusta á hjartað mitt og réð mig til starfa hjá vinsælu áfengisvörumerki í Ísrael sem vantaði ljósmyndara,“ útskýrir Yael. 

„Hjá þeim fékk ég afnot af fyrirtækisbíl sem ég ferðaðist á víðs vegar um Ísrael og Ísland og myndaði fólk frá ólíkum kynslóðum, kynjum og bakgrunnum með vörur frá fyrirtækinu. Það var sannkallað ævintýri,“ segir hún. 

Yael myndaði þá Tómas Lemarquis og Guðmann Þór Bjargmundsson. Myndin …
Yael myndaði þá Tómas Lemarquis og Guðmann Þór Bjargmundsson. Myndin birtist meðal annars í Iconic Artist Magazine. Ljósmynd/Yael Bar Cohen

Litlu síðar fékk hún tækifæri til að gerast stúdíó ljósmyndari hjá virtum förðunarfræðingi og þar tókst Yael að fullkomna tæknikunnáttu sína. „Mér var bókstaflega hent inn í vel útbúið stúdíó með lágmarksþekkingu á hvernig ætti að stjórna því og varð bara að finna út úr öllu sjálf. Það var skelfilegt en sömuleiðis besta leiðin til að auka kunnáttu mína,“ segir hún. 

Starfið opnaði fjölmargar óvæntar dyr fyrir Yael. „Ég lærði heilmargt nýtt og gagnlegt. Ég kynntist tískuljósmyndun, lærði alhliða myndvinnslu og lagfærinug, hóf að skrifa efni fyrir samfélagsmiðla og kynti vel undir sköpunarkraftinum,“ útskýrir Yael. Starfið litaði líf hennar næstu þrjú árin en eftir það hætti hún sér í djúpu laugina og fór í lausamennsku og hefur starfað að margvíslegum verkefnum fyrir fjölbreytta viðskiptavini alla tíð síðan. 

Yael var snögg að komast inn í listaheiminn á Íslandi. „Það var mun auðveldara en ég hélt. Aðeins nokkrum mánuðum eftir að ég lenti á klakanum fékk ég tækifæri til þess að taka þátt í stórum ljósmyndaverkefnum og það leið ekki á löngu þar til ljósmyndir eftir mig voru farnar að prýða auglýsingaskilti í Reykjavík og listasýningar víðs vegar um borgina. Þetta hjálpaði mér að stækka viðskiptahópinn og vekja athygli á nafninu mínu,“ segir Yael. 

Yael stendur stolt við stórt auglýsingaskilti sem sýnir mynd af …
Yael stendur stolt við stórt auglýsingaskilti sem sýnir mynd af tónlistarmanninum Högna sem hún myndaði vegna tónleika hans með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ljósmynd/Yael Bar Cohen

Kötturinn Kú skráði sig í sögubækurnar

Hjónakornin Yael og Orri Dror kynntust fyrir 15 árum síðan og var það ást þeirra og sameiginlegur áhugi á íslenskri tónlist sem leiddi þau saman á sínum tíma. Hjónin hafa komið sér vel fyrir í fallegri íbúð í miðbæ Reykjavíkur ásamt heimiliskettinum Kú. Sá er enginn venjulegur köttur, en Kú skráði sig í sögubækurnar sem fyrsti ísraelski kötturinn til að stíga niður loppu á Íslandi og líkar honum lífið á Íslandi, alveg jafn vel og móður hans, sem hefur lengi dáðst af landi og þjóð. 

„Ísland hefur alltaf heillað mig. Hin óspillta náttúra landsins, afslappaði lífsstíll landans og einstakt hugarfar þjóðarinnar er eitthvað sem ég hef lengi dáðst af. Landið er lítið en menningarlega ríkt og fjölbreytt og er það þessi fjölbreytni sem gefur lífi mínu dýpt og blæbrigði á hverjum einasta degi. 

Í Ísrael gafst mér aldrei tækifæri á að kynnast fólki frá Íran eða öðrum löndum og er ég þar af leiðandi þakklát fyrir að geta hitt fólk frá öllum heimshornum í dag. Ég kann að meta rólega lífið á Íslandi eftir að hafa upplifað hraða og iðandi lífið sem drífur Ísrael áfram. Tíminn virðist líða hægar hér. Ég upplifi það og kann að meta það,“ segir Yael. 

Kötturinn Kú.
Kötturinn Kú. Ljósmynd/Yael Bar Cohen

„Að búa í miðbænum hefur einnig reynst yndisleg tilbreyting frá úthverfalífinu á heimaslóðum mínum í Ísrael. Hér bý ég nálægt vinum, veitingastöðum, listasöfnum og tónleikastöðum, það er yndislegt. Þetta er lífsstíll í þéttbýli en umvafin náttúru, það besta úr báðum heimum,“ útskýrir hún. 

Ljósmynd Yaelar af fjórum ferðamönnum á Íslandi rataði á síður …
Ljósmynd Yaelar af fjórum ferðamönnum á Íslandi rataði á síður Vogue. Ljósmynd/Yael Bar Cohen

Hvað líkar þér síst við Ísland?

„Hinar miklu og þungu vetraraðstæður eru erfiðar. Þó svo ég kunni að meta myrkrið sem ljósmyndari þá getur veturinn verið mjög krefjandi. Bara það að keyra út úr bænum fyrir myndatöku yfir vetrarmánuðina getur oft reynst stressandi verkefni,“ segir Yael.

Kraftur sjónrænnar frásagnar

Ljósmyndir Yael hafa vakið verðskuldaða athygli hérlendis og erlendis. Myndir hennar hafa birst í tímaritum á borð við Vogue Italy, Flanelle, Nordic Style Mag og French Fries og einnig á listasýningum víða um heim. Hún hefur óhrædd elt drauma sína og setti á stofn tímaritið Vouet til að varpa ljósi á þá fjölmörgu og hæfileikaríku ljósmyndara og listamenn starfandi í dag. 

Mynd eftir Yael birtist á síðum Vogue. Á myndinni eru …
Mynd eftir Yael birtist á síðum Vogue. Á myndinni eru þær Sunna B. Harðardóttir og Hsiao-Chu Hsiao. Ljósmynd/Yael Bar Cohen

„Ég hef alltaf laðast að hinum djúpstæða krafti sjónrænnar frásagnar og að mínu mati er ljósmyndun sá miðill sem gerir þér kleif að eiga samskipti og tengjast umheiminum á tilfinningalegan máta. Allt frá því að ég tók fyrst upp myndavél þá áttaði ég mig á þeim mikla möguleika hennar til að fanga ekki aðeins það sem maður sér heldur einnig það sem maður finnur og deila því með öðrum, það er kraftur hennar. Myndavélin varð mín leið til þess að tjá mín innra veröld, deila sjónarhornum, miðla tilfinningum og kynnast fólki sem ég hefði ekki annast fengið tækifæri til þess að kynnast,“ útskýrir Yael. 

„Í gegnum ljósmyndun hef ég fengið einstakt tækifæri til að kafa djúpt ofan í mannlega hegðun og sömuleiðis fengið að berjast fyrir málefnum sem eru mér hjartans mál, eins og réttindi dýra, fjölbreytileiki í heiminum og mannréttindi. Með verkum mínum hef ég tök á að skapa frásagnir, vekja fólk til umhugsunar, kynda undir ímyndunarafli og hvetja og tengja fólk þvert á tungumála- og menningarbakgrunna,“ segir hún. 

Mynd úr ljósmyndaverkefni sem Yael er að vinna að um …
Mynd úr ljósmyndaverkefni sem Yael er að vinna að um þessar mundir. Á myndinni eru þau Carlos og Ania. Ljósmynd/Yael Bar Cohen

Aðspurð segir Yael að fullkomnustu ljósmyndirnar veki ósviknar tilfinningar og segi sannfærandi sögur. „Fullkomin ljósmynd liggur ekki í tæknilegri fullkomnun. Það eru óvæntu og óskrifuðu augnablikin sem sýna fegurð ófullkomleikans, það eru fullkomnustu augnablikin að mínu mati,“ útskýrir hún. 

„Ég leitast við að setja táknræna merkingu í hvern ramma og hvet áhorfendur að velta fyrir sér sögunni og heimspekinni sem liggur að baki. Ég er alltaf að koma tilfinningu á framfæri og vil að áhorfendur tengist sögunni. Ljósmynd sem hefur varanleg áhrif er fullkomin ljósmynd,“ segir Yael í lokin. 

mbl.is