„Í eigin rekstri er maður allt í öllu“

Framakonur | 8. október 2023

„Í eigin rekstri er maður allt í öllu“

Dagný Berglind Gísladóttir er stofnandi og framkvæmdastýra Rvk Ritual sem er fyrirtæki sem einbeitir sér að heilsu og vellíðan. Það byrjaði sem gæluverkefni tveggja vinkvenna en er nú í dag öflugt fyrirtæki sem stendur býður meðal annars upp á vinsæl netnámskeið í hugleiðslu. Aðalmarkmið fyrirtækisins er að hjálpa fólki að minnka streitu.

„Í eigin rekstri er maður allt í öllu“

Framakonur | 8. október 2023

Dagný Berglind Gísladóttir, stofnandi og framkvæmdastýra Rvk Ritual.
Dagný Berglind Gísladóttir, stofnandi og framkvæmdastýra Rvk Ritual. Ljósmynd/Þórdís Reynis

Dagný Berglind Gísladóttir er stofnandi og framkvæmdastýra Rvk Ritual sem er fyrirtæki sem einbeitir sér að heilsu og vellíðan. Það byrjaði sem gæluverkefni tveggja vinkvenna en er nú í dag öflugt fyrirtæki sem stendur býður meðal annars upp á vinsæl netnámskeið í hugleiðslu. Aðalmarkmið fyrirtækisins er að hjálpa fólki að minnka streitu.

Dagný Berglind Gísladóttir er stofnandi og framkvæmdastýra Rvk Ritual sem er fyrirtæki sem einbeitir sér að heilsu og vellíðan. Það byrjaði sem gæluverkefni tveggja vinkvenna en er nú í dag öflugt fyrirtæki sem stendur býður meðal annars upp á vinsæl netnámskeið í hugleiðslu. Aðalmarkmið fyrirtækisins er að hjálpa fólki að minnka streitu.

Dagný segir að vilji maður ná markmiðum sínum þá sé nauðsynlegt að hlúa vel að sjálfum sér og muna að njóta ferðalagsins. Það þýði ekkert að æða bara áfram því þá kemst maður á áfangastað útkeyrður og mögulega búinn að missa heilsuna.

Hvernig komstu þangað sem þú ert í dag?

„Ég ákvað ung að ég vildi einungis starfa fyrir fyrirtæki sem ég hefði trú á og væru með góð gildi. Ég hef verið svo heppin að geta gert það og unnið í leiðinni með flottum og sterkum konum. Ég lærði Ritlist og Listfræði í BA og svo Ritstjórn í Master og vann lengi við ritstörf og ritstjórn til dæmis hjá tímaritinu Í boði náttúrunnar sem fjallaði um sjálfbærni og heilsu. Þá vann ég einnig við markaðsstörf og stjórnun á Gló svo eitthvað sé nefnt.“

„Þegar ég var í fæðingarorlofi með mitt fyrsta barn fannst mér tilvalið að vinna betur að gæluverkefni sem við Eva Dögg Rúnarsdóttir samstarfskona mín höfðum verið að dúllast í sem hét Rvk Ritual og var aðal markmiðið að hjálpa fólki að minnka streitu. Nú í dag er það orðið vinnan okkar beggja. Rvk Ritual er í raun vellíðunar fyrirtæki, við erum með vinsæl netnámskeið í hugleiðslu og sjálfsvinnu, námskeið fyrir hópa og fyrirtæki í stúdíóinu okkar á Seljavegi. Svo erum við með Rvk Ritual Beauty sem er heilnæm og hrein snyrtivörulína byggð á jógískum prinsippum, sem fæst í verslunum víða um land.“

Út á hvað gengur starfið?

„Það gengur í raun út á það að gefa fólki ýmis tól til að minnka streitu og líða betur. Í eigin rekstri er maður allt í öllu en ég er með góðan stuðning frá samstarfsfólki. Ég sé um daglegan rekstur, fjármál fyrirtækisins og er ásamt Evu Dögg í vöruþróun en einnig kenni ég hugleiðslu, öndun og er með fólk í einkatíma hjá mér sem eru að stofna eigin fyrirtæki eða eru að vinna sjálfstætt og vilja gera það á heilnæman hátt. Þar er ég dreifa boðskapnum um „meðvitaðan rekstur“ þar sem fókusinn er á að byggja upp rekstur og umhverfi sem stofnandinn/stjórnandi/starfsfólk þrífst í og blómstrar.“

Markmiðið er að hjálpa fólki að minnka streitu og bæta …
Markmiðið er að hjálpa fólki að minnka streitu og bæta heilsuna. Ljósmynd/Þórdís Reynis

Hverjar voru helstu áskoranirnar á leiðinni?

„Þegar við stofnuðum Rvk Ritual þá hafði ég ekki hugmynd um hvað ég myndi læra mikið á því. Mér fannst þetta svo lítið og krúttlegt, en að búa til eitthvað frá grunni er svo allt öðruvísi en að stjórna stærra fyrirtæki sem einhver annar byggir upp. Og felur í sér allt öðruvísi áskoranir.“

„Helsta áskorunin að mínu mati hefur verið að ná að útskýra nákvæmlega hvað við erum, því Rvk Ritual er svo margt. Einnig hefur það verið áskorun að ritstýra sjálfum sér og „kill your darlings“ sem að felur í sér að ekki öll verkefni ganga jafnvel og það er nauðsynlegt að vera heiðarleg við sjálfa sig með það.“

„En helsta markmið okkar Evu er að gera „jógíska lífsstílinn“ aðlaðandi fyrir alls konar fólk og setja þessa djúpu visku í nútímalegan og ferskan búning sem hvaða manneskja sem er getur nýtt sér.“

Hvað skiptir máli að hafa í huga ef fólk ætlar að ná langt á vinnumarkaði?

„Að hugsa vel um sig og muna í alvörunni að njóta ferðalagsins. Ég held að fólk ætti að hugsa fyrst og fremst vel um sjálft sig til að hafa úthaldið til þess að fara alla leið í átt að markmiðunum sínum.“

„Það getur falið í sér litlar og stórar daglegar athafnir og góða vana sem hjálpa manni að halda andlegri og líkamlegri heilsu í jafnvægi. Það þýðir ekki að æða bara áfram og keyra of hart af sér því þá getur þú ekki notið eins né neins þegar þú ert komin á áfangastað, heldur ertu bara útkeyrð/ur, ómögulegur og mögulega búin að missa heilsuna.“

Dagný mælir með að fólk vinni í grunninum og forgangsraði …
Dagný mælir með að fólk vinni í grunninum og forgangsraði góðum svefni, hugleiðslu, útiveru og næringu. Ljósmynd/Þórdís Reynis

Hvað gefur vinnan þér?

„Svo margt. Útrás fyrir óteljandi hugmyndirnar. Samveru og samvinnu í ótrúlega góðum hóp kvenna og við styðjum við hvor aðra á fallegan hátt og pössum að halda jafnvægi í vinnunni og næra okkur sjálfar vel. Svo er það besta við að kenna og þjálfa að heyra áhrifin sem kennslan/tólin hafa á líf nemenda og skjólstæðinga.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig, og ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Ég á auðvitað mín slæmu augnablik en hef verið svo heppinn að hafa verið „jógi“ frá því að ég var rúmlega tvítug og hef stundað hugleiðslu í 15 ár svo að ég hef aldrei farið nálægt neinu sem heitir kulnun því að ég næ að staldra við og sjá þegar ég er að gera of mikið. Ég er raunverulega ekki til í að taka þennan séns því að oft á fólk mjög erfitt að ná sama krafti eftir kulnun og ofkeyrslu, þannig að ég passa sérstaklega vel upp á mig að því leytinu til.“

„Ég hitti daglega fólk sem er á leið í kulnun eða er að byggja sig upp eftir slíkt. Þær breytingar sem virka langbest eru svo einfaldar að fólk trúir varla að það geti haft úrslitaáhrif. Ég tel að þú verðir að vinna í grunninum fyrst; forgangsraða góðum svefni, daglegri hugleiðslu, útiveru og góðri næringu, þetta gerir kraftaverk. Svo getur maður bætt við ýmsu öðru dekri.“

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Já, margar í mínu nánasta umhverfi eru mér endalaus innblástur eins og móðir mín Hjördís sem er ótrúlega kraftmikil kona og Eva Dögg samstarfskona mín sem er með svo marga fallega eiginleika. Halla Tómasar er náttúrulega algjört „legend“ og góð fyrirmynd fyrir konur og svo finnst mér Gwyneth Paltrow leikkona og eigandi GOOP alltaf svo flott því hún hefur verið áberandi í heilsu bransanum undanfarin ár og oft verið mjög umdeild og milli tannanna á fólki en lætur það ekki stoppa sig.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Ég er alltaf með lista í gangi sem ég forgangsraða daginn áður. En svo auðvitað eru alls konar aðkallandi verkefni sem maður hoppar í. Mér finnst samt ótrúlega áhrifaríkt að skipta dögunum niður svo að á mánudögum er ég að vinna í stúdíóinu og viðburðum vikunnar, þriðjudögum vinn ég í markaðsmálum og vöruþróun sem er meira skapandi vinna, miðvikudögum er ég að vinna í námskeiðsefni og kennslu, á fimmtudögum í fjármálum og öðrum praktískum atriðum. Svo finnst mér gott að nota föstudaga í fundi og gera eitthvað huggulegt eins og að fara í nudd til Höllu í Sukha Ritual sem er með aðstöðu hjá okkur í Rvk Ritual.

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Ég byrja daginn rólega á gæðastund með fjölskyldunni. Mér finnst svo dýrmætt að vakna fyrr og hafa nægan tíma og fer oft í bað á morgnanna (sérstaklega núna þegar ég er ólétt). Þá þurrbursta ég mig fyrir baðið og ber svo Rvk Ritual Balm á mig eftir baðið, set olíur í andlitið og gef mér létt andlits nudd. Ég hugleiði stundum í baðinu eða áður en ég fer á fætur, sest upp og tek hugleiðslu og smá öndun og þakklæti. Ég elska að borða hollan morgunmat með syni mínum og pína hann og eiginmann minn að taka vítamínin sín. Ég fæ mér svo matcha latte eða kaffibolla þegar ég er komin í vinnuna til að leyfa líkamanum aðeins að vakna sjálfum.“

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Oftast hætti ég snemma og næ í son minn á leikskóla ef ég er ekki að kenna seinnipartinn en við Eva viljum að Rvk Ritual sé fjölskylduvænn rekstur og reynum að byggja fyrirtækið upp þannig. En svo finnst mér svo gaman í vinnunni að ég stekk oft í tölvuna þegar sonur minn er sofnaður og hoppa í einhver verkefni og næ smá fókus, ein með sjálfri mér.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Fara á listasýningar, lesa góðar bækur um rekstur, heilsu og vellíðan, vera í náttúrunni og eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Svo er ég líka menntuð í leirlist og finnst gaman að gefa mér tíma í að gera keramik og vinna með höndunum.“

5 hlutir sem þú hefðir viljað vita um tvítugt?

„Ég var reyndar algjör vitleysingur um tvítugt áður en ég fór í sjálfsvinnu og margt sem ég hefði viljað vita betur á þeim tíma. En ég er samt glöð að ég skemmti mér vel. Kannski hefði ég viljað vita að nú er tíminn til að taka meiri áhættur og elta stóru draumana, þora að trúa á sig og láta vaða.“

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Virkilega vel. Ég á von á mínu öðru barni innan skamms og hlakka til að vera í búbblu með henni fyrst um sinn og eiga svo kósý jól upp í Rvk Ritual þar sem við erum með verslun með okkar eigin vörulínu í bland við aðrar vellíðunar vörur. Til dæmis er íslenska sundbolamerkið Swimslow með „showroom“ hjá okkur sem er ótrúlega flott. En við í Rvk Ritual ætlum að skapa góða stemningu fyrir jólin með opinni verslun og viðburðum sem ég hlakka til.“

Hvað ætlar þú að gera til þess að hann verði sem bestur?

„Til að þrífast vel á Íslandi þarf ég að passa mjög vel upp á heilsuna í skammdeginu, með næringu, sjálfsvinnu og útiveru. Og svo er ég spennt að breyta um takt, ætla að leyfa mér að taka fyrstu 40 daganna alveg heilaga með dóttur minni þar sem ég fer lítið sem ekkert og byggja mig vel upp eftir fæðingu. Svo mun ég líklega nýta fæðingarorlofið í ýmsa naflaskoðun, ferðalög og samveru með stórfjölskyldunni.“

Dagný ákvað ung að starfa einungis fyrir fyrirtæki sem hún …
Dagný ákvað ung að starfa einungis fyrir fyrirtæki sem hún hefði trú á og væru með góð gildi. Ljósmynd/Þórdís Reynis
mbl.is