„Ég get lifað án varalitar en set alltaf á mig maskara“

Framakonur | 21. október 2023

„Ég get lifað án varalitar en set alltaf á mig maskara“

Gréta María Grétarsdóttir forstjóri Heimkaupa segir að konur þurfi oft og tíðum að hafa mun meira fyrir hlutunum en karlar. Hún er með skýra morgunrútínu sem byrjar oft í Mjölni þar sem hún æfir af krafti. Hina dagana skutlar hún börnunum og fer helst ekki út úr húsi nema með maskara.

„Ég get lifað án varalitar en set alltaf á mig maskara“

Framakonur | 21. október 2023

Gréta María Grétarsdóttir forstjóri Heimkaupa.
Gréta María Grétarsdóttir forstjóri Heimkaupa. Ljósmynd/Íris Dögg Iris Einarsdóttir

Gréta María Grétarsdóttir forstjóri Heimkaupa segir að konur þurfi oft og tíðum að hafa mun meira fyrir hlutunum en karlar. Hún er með skýra morgunrútínu sem byrjar oft í Mjölni þar sem hún æfir af krafti. Hina dagana skutlar hún börnunum og fer helst ekki út úr húsi nema með maskara.

Gréta María Grétarsdóttir forstjóri Heimkaupa segir að konur þurfi oft og tíðum að hafa mun meira fyrir hlutunum en karlar. Hún er með skýra morgunrútínu sem byrjar oft í Mjölni þar sem hún æfir af krafti. Hina dagana skutlar hún börnunum og fer helst ekki út úr húsi nema með maskara.

Hvernig er þín morgunrútína?

„Á virkum dögum vakna ég kl. 6:30 og læðist út frá sofandi börnum og manni og er mætt klukkan 7.00 með mínum bestu konum í þjálfun í Mjölni hjá Jóhanni. Mér finnst alltaf jafn gaman að segja að ég sé að æfa í Mjölni þar sem fólk verður nokkuð hissa en æfingarnar eru fjölbreyttar og félagsskapurinn frábær. Ef ég ákveð að sofa aðeins lengur þá tek ég morgunskutlið á móti manninum mínum sem tekur það vanalega. Börnin okkar eru 17, 12 og 4 ára og því á þremur skólastigum sem gerir stoppin oft þrjú. Það er því annaðhvort leikskólaskutl eða menntaskólaskutl ef ég mæti ekki í ræktina. Ég er svo mætt á skrifstofu Heimkaupa fyrir kl. 9 og hitti mitt góða teymi þar en við stillum alltaf saman strengi kl. 9 á morgnana og erum svo klár í verkefni dagsins sem eru fjölbreytt og skemmtileg,“ segir Gréta.

Hvernig hugsar þú um húðina – gerir þú alltaf það sama á hverjum morgni?

„Já, ég geri nokkurn veginn alltaf það sama sem er einfalt. Passa að húðin sé hrein, nota svo rakakrem en það fer eftir árstíma hversu mikinn raka húðin þarf og einnig passa ég að nota vörur með hærra SPF-gildi á sumrin. Nota yfirleitt líka augnkrem á morgnana. Ég hef svo aðeins verið að prófa mig áfram með því að bæta lit út í kremið til að fá smá brúnku sem tónar vel við húðlitinn og þar er ég hrifin af dropunum frá Marc Inbane. Ég legg áherslu á að reyna að finna farða sem tónar vel við húðlitinn og er dugleg að skipta um tóna eftir árstíma. Til að gefa einhver góð ráð til lesenda, og ég geri ráð fyrir að eins og ég þá vilji þeir stundum að það séu fleiri tímar í sólarhringnum, þá eru síður eins og matchmymakeup.com og findation.com frábærar. Ég er alltaf að reyna að nýta tímann minn sem best og kaupi því nánast allt á netinu og þá hef ég notað þessar síður þegar ég er að prófa nýjar snyrtivörur og veit ekki hvaða tón ég á að velja. Þarna get ég sett inn hvaða lit ég er að nota í einhverri vöru og fæ þá að vita hvaða tón ég eigi að velja í einhverri annarri vöru. Þannig passa ég að vera með réttan lit af farða,“ segir hún.

Hvernig eru kvöldin? Sefur þú með andlitsmaska eða krem?

„Eftir daginn þá þvæ ég alltaf andlitið. Núna er ég að nota CeraVe-hreinsifroðuna þar sem mér finnst hún ná vel olíunni eftir daginn og óhreinindunum af andlitinu. Í framhaldi nota ég Garnier micellar-hreinsivatnið en það hentar mér vel þar sem ég forðast að nota hreinsivatn með olíu en þetta hreinsivatn er líka gott til að fjarlægja af augum og vörum. Ég nota rakamaska annað slagið en yfirleitt set ég á mig næturkrem og augnkrem og þá er BL+-augnserumið frá Bláa lóninu uppáhaldið mitt. Verð svo að viðurkenna að eftir að ég byrjaði í Heimkaupum og sá hversu vel Grande Lash-augnháraserumið var að seljast þá bætti ég því við í kvöldrútínuna og ég skil núna af hverju það er svona vinsælt.“

Hvað er að finna í snyrtibuddunni þinni?

„Svartan Telescopic-maskara frá L’oréal, á alltaf til aukaeintak af honum, en hann er langbesti maskari sem ég hef notað. Þar sem augabrúnirnar verða ljósar nokkuð fljótt hjá mér og ég er ekki alltaf sú duglegasta að lita þær þá nota ég Anastasia Brow Definer til að skerpa á þeim. Síðan er alltaf léttur fljótandi farði sem eins og áður sagði fer svoldið eftir því hvernig húðin er, nota einnig frá Smashbox Under Eye Brightening Corrector til að minnka bauga undir augum. Hyljari er svo einnig mikilvægur þar sem oft eru einhver svæði sem þarf aðeins að setja meira á en léttan farða. Er síðan alltaf með púður og sólarpúður eða bronzer til að fá smá lit í kinnarnar og frísklegt útlit.

Annað sem ég er með en nota ekki endilega á hverjum degi er mjög þunnur blautur eyeliner-penni sem auðvelt er að nota til að skerpa á augunum, ljósa augnskuggapallettu og varalit ásamt glossi. Síðan er líka augnhárabrettari og plokkari staðalbúnaður,“ segir hún.

Áttu þér uppáhaldssnyrtivöru?

„Já, ég myndi segja að Telescopic-maskarinn sé mitt uppáhald þar sem burstinn hentar augnhárunum mínum mjög vel.“

Farðar þú þig dagsdaglega?

„Já, ég geri það og er alltaf með léttan farða. Ef eitthvað stendur til þá tek ég oft aðeins lengri tíma og bæti þá við eyeliner og skerpi á augunum og þá fer einnig meiri tími í hárið sem dagsdaglega er uppsett en ef eitthvað stendur til þá tek ég tímann í að blása hárið og slétta það.“

Ertu svona manneskja sem fer ekki út úr húsi nema með varalit?

„Ég get lifað án varalitar en set alltaf á mig maskara.“

Vantar eitthvað í snyrtibudduna þína?

„Ég er alltaf að sjá eitthvað skemmtilegt sem mig langar að prófa núna eftir að ég byrjaði hjá Heimkaupum og hef nýverið bætt við brúnkudropunum. Væri svo til í varalitablýant sem þarf ekki að ydda, þá myndi ég kannski oftar nota hann, eða ef til vill þarf ég bara að bæta við yddara í snyrtibudduna.“

Er einhver húðvara sem breytir lífinu?

„Kannski ekki sem breytir lífinu en svo sannarlega gerir það betra. Er með sóríasis og verð stundum mjög slæm í hársverðinum og þá er sjampóið úr meðferðalínunni hjá Bláa Lóninu frábært.“

Er hægt að vera grjótharður forstjóri og líka áhugamanneskja um húðvörur?

„Greinilega, fyrir utan það þá eru allar konur grjótharðar þar sem við þurfum oftar en ekki að hafa talsvert meira fyrir hlutunum.“

„Ég myndi segja að Telescopic-maskarinn sé mitt uppáhald þar sem …
„Ég myndi segja að Telescopic-maskarinn sé mitt uppáhald þar sem burstinn hentar augnhárunum mínum mjög vel.“
Gréta notar Smashbox Under Eye Brightening Corrector til að minnka …
Gréta notar Smashbox Under Eye Brightening Corrector til að minnka bauga undir augum.
mbl.is