Fékk draumastarfið hjá heimsfrægu hönnunarmerki

Framakonur | 25. október 2023

Fékk draumastarfið hjá heimsfrægu hönnunarmerki

Sara Sjöfn Sigurðardóttir lærði vöruhönnun á Ítalíu og í Svíþjóð. Þegar hún lauk meistaranámi í Lundi fékk hún draumastarfið hjá HAY. Hjá danska hönnunarmerkinu tekur hún þátt í að hanna smávörulínur merkisins en HAY er þekkt fyrir vörur sem lífga upp á tilveru fólks. 

Fékk draumastarfið hjá heimsfrægu hönnunarmerki

Framakonur | 25. október 2023

Sara Sjöfn Sig urðardóttir hefur búið erlendis stóran hluta ævi …
Sara Sjöfn Sig urðardóttir hefur búið erlendis stóran hluta ævi sinnar. Í dag býr hún í Svíþjóð en starfar hjá HAY sem er danskt hönnunarfyrirtæki. Ljósmynd/Aðsend

Sara Sjöfn Sigurðardóttir lærði vöruhönnun á Ítalíu og í Svíþjóð. Þegar hún lauk meistaranámi í Lundi fékk hún draumastarfið hjá HAY. Hjá danska hönnunarmerkinu tekur hún þátt í að hanna smávörulínur merkisins en HAY er þekkt fyrir vörur sem lífga upp á tilveru fólks. 

Sara Sjöfn Sigurðardóttir lærði vöruhönnun á Ítalíu og í Svíþjóð. Þegar hún lauk meistaranámi í Lundi fékk hún draumastarfið hjá HAY. Hjá danska hönnunarmerkinu tekur hún þátt í að hanna smávörulínur merkisins en HAY er þekkt fyrir vörur sem lífga upp á tilveru fólks. 

Sara, sem hefur búið stóran hluta ævi sinnar erlendis, áttaði sig snemma á styrkleikum sínum. „Ég hef alltaf haft áhuga á að teikna, lita og mála. Þegar ég var aðeins níu ára dreymdi mig um að verða listakona á Ítalíu og mála á ströndinni. Í menntaskóla tók ég listgrein sem aukafag, mér fannst það skemmtilegasta fagið og ég var sterkust í því. Kennaranum mínum fannst að ég ætti að læra hönnun eða grafíska hönnun á háskólastigi. Ég fór í undirbúningsnám fyrir háskóla í list, hönnun og arkitektúr. Þar áttaði mig á því að ég vildi verða vöru- og/eða húsgagnahönnuður,“ segir Sara sem tók grunnnám í IED-hönnunarskólanum í Mílanó og meistaranámi lauk hún frá háskólanum í Lundi.

Fékk draumavinnuna

„HAY var draumavinnustaðurinn á meðan ég var í námi og ég var svo heppin að fá tækifæri til að vinna í smávörudeildinni sem starfsnemi rétt eftir að ég kláraði mastersnámið mitt í vöruhönnun í Lundi. Í lok starfsnámsins var ég svo ráðin í fullt starf og er enn ótrúlega þakklát fyrir það,“ segir Sara um hvernig hún fékk starfið.

Sara vinnur náið í níu manna skapandi teymi. „Við hönnum og þróum smávörur fyrir HAY. Ég vinn mjög sjaldan að verkefni ein og mér finnst mér æðislegt að mæta á vinnustað þar sem teymisvinna er aðalmálið. Það er svo mikilvægt að eiga góða vinnufélaga, sérstaklega þegar vinnan er skapandi, þá er frábært að tala um hlutina og fá innblástur hvert frá öðru.

Ég vinn mikið með kollega mínum sem er búinn að vinna hjá HAY mjög lengi við að hanna og þróa til dæmis kerti, kertastjaka, vasa og aðra fallega hluti fyrir heimilið. Ég aðstoða líka við hönnunina á umbúðunum enda eru umbúðirnar á vörum HAY mjög mikilvægar fyrir okkur. Hugmyndin er að fólk geti keypt til dæmis vasa og gefið hann í gjöf í umbúðunum án þess að pakka honum inn af því að kassinn er svo flottur líka. Mér finnst ótrúlega gaman að fá að vinna að mismunandi verkefnum, allt frá grafískri hönnun að vöruhönnun, ég þrífst mjög vel í svona fjölbreyttu starfi.“

Sara er stolt af baðherbergis- og svefnherbergislínu HAY sem hún …
Sara er stolt af baðherbergis- og svefnherbergislínu HAY sem hún tók þátt í að hanna. Ljósmynd/HAY


Áttu uppáhaldshlut sem þú hefur hannað eða tekið þátt í að hanna?

„Ég er enn hrifin af postulínsbollunum sem ég hannaði og bjó til sjálf fyrir nokkrum árum. Þar lærði ég hvernig allt ferlið gengur fyrir sig, ég lærði að steypa í postulín og það er ótrúlega skemmtilegt en líka mjög tímafrekt. Maður þarf að vera mjög þolinmóður í þessu ferli því postulín er svo viðkvæmt. En það gerir það að verkum að ánægjan er enn meiri þegar manni tekst þetta! Planið er að fara að búa til fleiri bolla og bæta við nýrri hönnun af postulínsbollum í annarri stærð.

Svo er það alltaf jafnspennandi þegar vörur sem við erum búin að vinna að í marga mánuði eða jafnvel mörg ár mæta í HAY House, sem er flaggskipsverslun HAY í Kaupmannahöfn. Þá fæ ég loks að sjá hlutina alveg eins og þeir eiga að vera og í umbúðum. Ég var mjög stolt af að hafa tekið þátt í að þróa stóra svefn- og baðherbergisvörulínu sem við kynntum í ágúst í fyrra. Við höfðum unnið mjög mikið að þessari línu í heilt ár, enda voru þetta svo margar vörur. Útkoman var ótrúlega góð og það var alveg frábær tilfinning!“

Sara segir ekki óvenjulegt að hönnunarferlið spanni heilt ár eða meira. „Ferlið er frekar langt en á sama tíma líður tíminn ótrúlega hratt af því að við vinnum að svo mörgum verkefnum á sama tíma. Það tekur allavega eitt til tvö ár frá fyrstu hugmynd þangað til varan er komin í búðir. Oft er ferlið líka lengra eins og til dæmis þegar við vinnum með utanaðkomandi hönnuðum.“

Fallegir munir eftir Söru.
Fallegir munir eftir Söru. Ljósmynd/Aðsend
Postulín í móti.
Postulín í móti. Ljósmynd/Aðsend

Það virkar alltaf eins og það sé mikið líf í vörum frá HAY, er það eitthvað sem er lagt upp með?

„HAY er virkilega skemmtilegur vinnustaður þar sem maður finnur fyrir góðum anda hjá starfsfólkinu – fólki finnst gaman í vinnunni en við erum líka góð í að skemmta okkur og halda upp á stóra og minni áfanga. Ekkert annað hönnunarfyrirtæki „kann“ liti eins og HAY að mínu mati. Það er það sem lætur HAY skera sig úr og er öðruvísi en flest önnur hönnunarfyrirtæki frá Skandinavíu eða Danmörku. Þannig að já, litir og líf er það sem við stefnum að hjá HAY.“

Margnota hlutir spennandi

„Það er svo margt spennandi í hönnun í dag en mér finnst alltaf skemmtilegt að fylgjast með hvað ungir hönnuðir og nemar eru að gera. Hugmyndir þeirra eru alltaf svo áhugaverðar og oft geta nemar verið mjög frjálsir í sínum verkefnum og hugsað út fyrir öll box.

Það snýst auðvitað mikið um sjálfbærni og hvernig við getum nýtt hönnun til þess að bæta heiminn og búa til betri hluti, sem er mjög mikilvægt. Mér finnst mjög spennandi að skoða ný hráefni og hvernig er hægt að nota þau á nýjan hátt, eða hvernig maður getur gefið efni nýtt líf. Hönnunarmerkið FÓLK er að vinna að spennandi hlutum, eins og til dæmis loftpúðarnir þeirra sem eru búnir til úr gömlum loftpúðum úr bílum, en þar með er gömlum hráefnum gefið nýtt líf.

Svo finnst mér margnota hlutir alltaf spennandi, til dæmis kertastjaki sem maður getur notað fyrir venjuleg kerti en líka fyrir sprittkerti. Þetta litla aukahlutverk gefur þessum litla hlut annað gildi og skapar meiri samskipti við notandann. Ég trúi því að hlutir sem má nota á mismunandi hátt verði líka notaðir lengur, það gefi þeim lengri líftíma.“

Sara setti stefnuna snemma á skapandi nám.
Sara setti stefnuna snemma á skapandi nám. Ljósmynd/Aðsend

Vill vekja gleði hjá fólki

Ferðu eftir einhverri ákveðinni hugsjón í þinni vinnu?

„Í minni vinnu hönnum við hluti sem auka lífsgæði fólks með því að bjóða upp á vörur sem lífga upp á heimilið og auka vellíðan hjá fólki. Ég fæ oftast innblástur af fegurðinni í litlu hlutunum í daglegu lífi sem ég tek eftir alls staðar, og auðvitað úr náttúrunni. Ég hef mikinn áhuga á hvað hlutir og list hafa mikil tilfinningaleg áhrif á fólk og ég vil hanna hluti sem vekja gleði eða skapa góðar minningar.“

Hvað gerir þú þegar þú ert ekki að hanna og vinna?

„Þessa dagana er ég á fullu í flutningum en ég og kærastinn vorum að kaupa okkur íbúð í Malmö. Dagarnir fara í að velja málningu, taka ákvarðanir um innréttingar, húsgögn og svo að pakka auðvitað. Það er ótrúlega skemmtilegt ferli að hanna sitt eigið heimili en það tekur allt sinn tíma. Svo nýt ég þess að eyða tíma með fjölskyldu og vinum, ferðast og upplifa nýja hluti og fá innblástur, fara á söfn og listsýningar, og borða góðan mat – ég er heppin að eiga ítalskan kærasta sem elskar að elda,“ segir Sara að lokum.

Það er mikil ánægja þegar vel tekst í postulínsgerðinni enda …
Það er mikil ánægja þegar vel tekst í postulínsgerðinni enda mikið maus. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is