Öruggari með sjálfa sig þegar hún er sátt við útlit sitt

Framakonur | 26. nóvember 2023

Öruggari með sjálfa sig þegar hún er sátt við útlit sitt

Þuríði Sigurðardóttur þekkja flestir landsmenn en hún starfaði sem söngkona um árabil auk þess sem hún var flugfreyja í mörg ár. Þuríður segist ekki lengur hafa atvinnu af söng þar sem hún starfi núna sem myndlistarmaður en tekur fram að hún syngi þegar henni lítist vel á söngverkefnin og þegar hún sé búin að vera lengi alein á vinnustofunni haldi hún stundum tónleika. Hún útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2001 og er einmitt með sýningu á verkum sínum í Listasafni Sigurjóns á Laugarnestanga um þessar mundir. Þrátt fyrir að vera orðin 74 ára situr hún aldrei auðum höndum, hún kennir olíumálun og vinnur nánast alla daga að sinni myndlist.

Öruggari með sjálfa sig þegar hún er sátt við útlit sitt

Framakonur | 26. nóvember 2023

Ljósmynd/Sara Björk Þorsteinsdóttir

Þuríði Sigurðardóttur þekkja flestir landsmenn en hún starfaði sem söngkona um árabil auk þess sem hún var flugfreyja í mörg ár. Þuríður segist ekki lengur hafa atvinnu af söng þar sem hún starfi núna sem myndlistarmaður en tekur fram að hún syngi þegar henni lítist vel á söngverkefnin og þegar hún sé búin að vera lengi alein á vinnustofunni haldi hún stundum tónleika. Hún útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2001 og er einmitt með sýningu á verkum sínum í Listasafni Sigurjóns á Laugarnestanga um þessar mundir. Þrátt fyrir að vera orðin 74 ára situr hún aldrei auðum höndum, hún kennir olíumálun og vinnur nánast alla daga að sinni myndlist.

Þuríði Sigurðardóttur þekkja flestir landsmenn en hún starfaði sem söngkona um árabil auk þess sem hún var flugfreyja í mörg ár. Þuríður segist ekki lengur hafa atvinnu af söng þar sem hún starfi núna sem myndlistarmaður en tekur fram að hún syngi þegar henni lítist vel á söngverkefnin og þegar hún sé búin að vera lengi alein á vinnustofunni haldi hún stundum tónleika. Hún útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2001 og er einmitt með sýningu á verkum sínum í Listasafni Sigurjóns á Laugarnestanga um þessar mundir. Þrátt fyrir að vera orðin 74 ára situr hún aldrei auðum höndum, hún kennir olíumálun og vinnur nánast alla daga að sinni myndlist.

Þuríður er einstaklega glæsileg kona og segist alltaf hafa hugsað þokkalega vel um sig og hún hafi alla tíð haft áhuga á förðun.

„Ég þurfti alltaf að hugsa um útlitið vegna starfs míns, bæði sem söngkona og flugfreyja, ég eiginlega komst ekki hjá því að fylgjast með nýjustu straumunum. Þegar ég var að syngja saumaði ég oft fötin mín sjálf vegna þess að ég vildi ekki vera á sviði og konan sem dansaði fyrir framan mig væri klædd í sömu föt og ég. Ég heklaði og saumaði marga kjóla á þessum árum og auk þess komst ég í verslanir erlendis vegna flugfreyjustarfsins. Um það leyti sem ég var að byrja að syngja fór ég í mína fyrstu utanlandsferð til Glasgow. Á þessum tíma var svo mikil bylting í tísku, byrjuð að koma svona unglingaföt, stuttir kjólar frá Mary Quant og buxnadragtir og slíkt. Svart-hvíta línan frá Mary Quant var ofboðslega spennandi, maður tók þetta alla leið; málaði á sig augnhár, eins og Twiggy gerði. Á þessum árum var líka svo lítið hægt að fá hérna heima, þetta var áður en Karnabær var opnaður og þess vegna þurfti maður bara að bjarga sér sjálfur. Ég saumaði mér líka mussur og útvíðar buxur upp úr gömlum kjólum af mömmu.“ Augljóst er að Þuríði er margt til lista lagt en hún bætir við að hún hafi lagt saumaskapinn af.

Ljósmynd/Sara Björk Þorsteinsdóttir

Notar enn 20 ára gömul föt

Þegar hún er spurð hvort henni finnist tískan hafa breyst mikið frá því hún var ung segir hún, með semingi, að hún sé nú aftur komin í útvíðar buxur. „Vinnufötin mín voru mest kjólar sem hafa sennilega alltaf verið í tísku. Mér fannst kannski mestu straumhvörfin verða þegar herðapúðarnir komu á 9. áratugnum en annars finnst mér tískan allaf fara í hringi. Ég get alveg dregið fram 20 ára gömul föt og farið í þau og liðið eins og þau séu ný. Ég fer mjög vel með fötin mín og fer ekki út í búð bara til að kaupa föt.“ Þegar Þuríði er bent á að það séu nú ekki allir sem geti dregið fram 20 ára gamlar flíkur og passað enn í þær fer hún að hlæja og segir að margar þeirra hafi verið víðar en bætir við að hún hafi nú aldrei verið í yfirþyngd. „Ég elska góð snið og góð efni og á erfitt með að láta góð föt frá mér. Þótt ég hafi alltaf fylgst með tískunni leiðist mér að fara í búðir og kaupa mér föt, það er helst bara ef ég er á gangi og rekst á eitthvað sem heillar mig, þá kaupi ég það, gleymi þá jafnvel að spyrja hvað það kostar. Ég veit hvað mér líkar og hvað mér líkar ekki.“

Fegin að fylliefnin voru ekki komin til sögunnar þegar hún var ung

Ýmsar breytingar hafa vissulega átt sér stað hvað viðkemur útliti og útlitspressu. Hvað finnst Þuríði hafa breyst mest? „Mér finnst þessar fegrunaraðgerðir í dag alveg rosalegar, þegar ungar stúlkur eru farnar að setja fylliefni í varirnar á sér, þetta þekktist ekki þegar ég var ung. Ég meina það verða tískusveiflur í þessu eins og allt í einu voru allar augabrúnir kolsvartar í andlitinu á ljóshærðum stúlkum, mér fannst þetta hræðilegt en svo gekk það til baka sem betur fer. Ég velti því líka fyrir mér hvernig áhrif þessi efni hafa á húðina til dæmis hjá tvítugri stúlku þegar fram líða stundir, það er ekki komin nein reynsla á það. Kannski hefði maður fylgt þessum tískustraumum ef þetta hefði verið í boði, hver veit, en sem betur fer var þetta ekki komið þegar ég var ung.“

Ljósmynd/Sara Björk Þorsteinsdóttir

Hvers vegna ertu máluð í útvarpinu?

Þuríður segir að hún hafi alltaf haft áhuga á förðun og að hún máli sig alltaf. „Mamma mín varð 96 ára og hún fór aldrei út fyrir dyr nema vel snyrt og máluð. Mér finnst mikilvægt að hugsa vel um útlitið og maður er aldrei of gamall til þess. Ég held mér sé óhætt að segja að ég máli mig eiginlega alltaf. Einu sinni var ég að vinna í útvarpinu og sonur minn spurði mig af hverju ég þyrfti að vera máluð fyrir útvarp, það sæi mig enginn hvort sem er! Þá benti ég honum á að ég væri að gera þetta fyrir mig því mér liði betur og væri öruggari með sjálfa mig þegar ég væri sátt við útlit mitt.“

Notar jarðartóna meira með árunum

Tískustraumar í förðun breytast eðlilega en hvað skyldi hafa breyst í förðun með hækkandi aldri hjá Þuríði? „Ég nota meiri jarðliti en maður gerði hér áður fyrr eins og í kringum augun. En ég hef alltaf verið með sama varalitatón, svona kóralrauðan, og ég nota hann enn. Allir bleikir litir verða alveg rosalega bleikir á mér svo ég forðast þá. Þegar ég var yngri notaði ég bláan maskara og bláan augnblýant til að undirstrika bláa litinn í augunum sem er náttúrlega alger vitleysa en það var bara tíska. Ég hef verið óhrædd við að prófa margt líka þegar kemur að hárinu, alla liti og allar síddir þótt ég hafi nú samt aldrei verið með blátt eða bleikt hár,“ bætir hún við og hlær.

Ljósmynd/Sara Björk Þorsteinsdóttir

Ekki feimin við að mála sig mikið

Flestar konur eru hrifnar af góðum förðunar- eða tískuráðum frá kynsystrum sínum, ætli Þuríður lumi á einhverju slíku. „Ég nota alltaf vatnsheldan maskara frá Lancôme því ég veit aldrei hvenær mér dettur í hug að skella mér í sund. Mér finnst Beauty flash-kremið frá Clarins mjög gott, það einhvern vegin hjálpar húðinni. Ég hef líka verið að prófa Chito Care-merkið að undanförnu og mér finnst það mjög gott en það er íslensk framleiðsla. Annars er ég ekkert að nota eitthvert eitt merki. Ég nota til dæmis Nivea-vökva til að þrífa á mér augun, hann er ódýr og góður. Ég set á mig náttúrulega mjúka liti en er samt ekkert feimin við að mála mig mikið, ég er með breið augnlok og þar er hægt að setja fullt af litum,“ segir Þuríður og bætir við að hún sé ekki dugleg að farða sig eftir að hún hefur yfirgefið heimili sitt. „Ég tek kannski með varalitinn en man yfirleitt ekki eftir að setja hann á mig.“

Ljósmynd/Sara Björk Þorsteinsdóttir
Ljósmynd/Sara Björk Þorsteinsdóttir
mbl.is