Algjör forréttindi að fá að eldast

Á besta aldri | 5. febrúar 2022

Algjör forréttindi að fá að eldast

Sesselja Sveinbjörnsdóttir, snyrti- og förðunarfræðingur, er einn mesti töffari landsins. Hún verður 69 ára á þessu ári og var að fá sér nýjan kærasta. Hún ætti erfitt með að fara í eldriborgaraferðir og ef við sjáum hana með rúllur í hárinu og í velúrgalla, þá er hún komin með elliglöp að eigin sögn. Hún er skemmtileg kona sem ber aldurinn sinn vel og er mikil fyrirmynd fyrir þær konur sem þora að láta draumana sína rætast á öllum sviðum lífsins.

Algjör forréttindi að fá að eldast

Á besta aldri | 5. febrúar 2022

Sesselja Sveinbjörnsdóttir.
Sesselja Sveinbjörnsdóttir.

Sesselja Sveinbjörnsdóttir, snyrti- og förðunarfræðingur, er einn mesti töffari landsins. Hún verður 69 ára á þessu ári og var að fá sér nýjan kærasta. Hún ætti erfitt með að fara í eldriborgaraferðir og ef við sjáum hana með rúllur í hárinu og í velúrgalla, þá er hún komin með elliglöp að eigin sögn. Hún er skemmtileg kona sem ber aldurinn sinn vel og er mikil fyrirmynd fyrir þær konur sem þora að láta draumana sína rætast á öllum sviðum lífsins.

Sesselja Sveinbjörnsdóttir, snyrti- og förðunarfræðingur, er einn mesti töffari landsins. Hún verður 69 ára á þessu ári og var að fá sér nýjan kærasta. Hún ætti erfitt með að fara í eldriborgaraferðir og ef við sjáum hana með rúllur í hárinu og í velúrgalla, þá er hún komin með elliglöp að eigin sögn. Hún er skemmtileg kona sem ber aldurinn sinn vel og er mikil fyrirmynd fyrir þær konur sem þora að láta draumana sína rætast á öllum sviðum lífsins.

Hún á langan og farsælan feril að baki sem sölu- og markaðsstjóri fyrir snyrtivörumerki á borð við Clarins, Chanel og Dior. Hún hefur aldrei prófað lýtaaðgerðir en þakkar hreinu fæði unglegt útlit sitt. Hún er nýkomin með æðislegan kærasta og farin að mála málverk eins og enginn sé morgundagurinn.

„Ég hef menntað mig í alls konar fögum, fyrir utan mitt fag hef ég menntun í sölu- og markaðsfræðum, ég er reikimeistari, heilari og svo hef ég alla mína ævi verið að hanna og sauma flíkur,“ segir Sesselja með pensil í hönd, sem er eins og áður sagði nýja ástríðan í lífinu hennar.

Málverkin sem hún gerir eru stílhrein og klassísk eins og hún með þennan kvenlega undirtón sem einkennir líf Sesselju. Svo inn á milli læðast litrík töffaraverk sem er einnig einkennandi fyrir hana.

Alin upp á hreinu fæði í Bolungarvík

Sesselja er fædd og uppalin í Bolungarvík, á mjög regluföstu heimili þar sem faðir hennar, Sveinbjörn Stefán Sveinbjörnsson, var útivinnandi og móðiri hennar, Stella Finnbogadóttir, var lengi vel heimavinnandi.

„Mamma stýrði heimilinu með staðfastri hendi. Hún bauð upp á fjölbreytt hreint mataræði og las dönsku blöðin til að finna nýjar og ferskar uppskriftir. Hún var heimavinnandi þegar við börnin vorum lítil og bauð upp á morgunmat, tíukaffi, heitan hádegisverð, þrjúkaffi, heitan kvöldmat og síðan kvöldkaffi. Mamma eldaði allt frá grunni og var aldrei með unnar kjötvörur, nema þegar pabbi pantaði bjúgu og hangikjöt einstaka sinnum í matinn.

Hún notaði aldrei pakkamat og því má segja að ég hafi aldrei þekkt neitt annað en að borða hreina fæðu. Ég elda sjálf allt frá grunni og er algjör ástríðukokkur.

Ég er kannski að mála hér heima, og fer svo að ísskápnum og sé eitthvað fallegt þar inni og prófa mig áfram með uppskriftir. Ég mála aldrei betur en þegar heimilið ilmar af mat. Ég elska að elda fyrir fólk og elda aldrei upp úr neinum uppskriftum, svo það er erfitt að panta sama matinn hjá mér tvisvar.“

Hvernig er að eldast?

„Mér finnst það æðislegt, í raun algjör forréttindi, ekki síst þar sem ég hef misst svo marga ástvini, á öllum aldri. Lífið er að mínu mati að verða betra og betra. Ég hlakka til hvers einasta dags og hef alltaf verið þannig. Ég vakna glöð og jákvæð og er bjartsýn að eðlisfari. Lífið er hálfgert ævintýri, þótt ég sé búin að ganga í gegnum meira en margir aðrir hafa upplifað og sumum finnist verkefni mín hafa verið helst til of mörg og flókin. En lífið hefur gert mig að því sem ég er í dag og allir dagar eru spennandi. Ég hef tekist á við hundleiðinlega og erfiða hluti en ég er þakklát fyrir það líka. Það skiptir svo miklu máli að vera meðvitaður um þakklætið í lífinu og að vera sáttur við sjálfan sig. Ég er sátt í eigin skinni og mér hefur alltaf verið sama um hvað öðrum finnst. Þegar maður er alinn upp í litlu sjávarplássi úti á landi, þá sér maður hvað hlutirnir geta oft verið flóknir, ekki síst þegar kemur að félagslega þættinum. Ég hef verið ágæt í því að raða og flokka og að sortera þegar kemur að fólki sem ég hef áhuga á að hafa nálægt mér. Einnig þeim sem ég vil ekki umgangast.“

Hvernig verkefni í lífinu hafa verið þér flóknust?

„Lífið er eitt stórt verkefni og ég hef verið góð að vinna og sjá um mig. Ég á tvær yndislegar dætur og tíu barnabörn. Mér hefur aldrei þótt erfitt að vera ein og hef verið góð í að bjarga okkur frá erfiðleikum. Ég hef aldrei þurft að sækja um vinnu og hef aldrei verið hrædd við neitt í lífinu. Ég hef gert ótal mistök en alltaf lært af þeim. Ég hef þorað að taka ábyrgð og ég reyni ekki að vera fullkomin í því sem ég geri. Ég á yngri vinkonur sem ég elska að vera með og svo heldur fjölskyldan mér ungri. Ætli flóknustu verkefnin hafi ekki verið málefni er varða ástina og svo að finna sinn eigin takt í lífinu, að vera samkvæmur sjálfum sér.

Ég færi sem dæmi aldrei í rútuferð í hópi með eldri borgurum. Þá fyrst yrði ég gömul. Ég er frekar týpan sem myndi leigja mér hraðbát á eyju og sigla um strendurnar en að vera í skipulagðri ferð með fólki sem hægir á mér. Ég er ekki hrædd við nýjustu tækni og barnabörnin halda mér á tánum í þeim málum.

Já, ætli ég færi ekki frekar í sveitaferð með barnabörnunum, þar sem ég myndi hlæja og láta eins og asni, heldur en að vera með fólki sem er orðið gamalt í anda. Það væri ekki að gera neitt fyrir mig.

Eins gæti ég aldrei verið í vist, að perla eða að stunda línudans,“ segir Sesselja og skellihlær einlægt svo mikið að blaðamaður þarf að bíða í nokkrar mínútur á meðan hún jafnar sig.

Engir prjónar með í skemmtiferðir

Þannig að þú ert ekki týpan sem ferð í eldriborgaraferðir?

„Nei, það er af og frá. Ég fór í eldriborgaraferð með mömmu þegar hún var á lífi, árið 2008. Við mættum í morgunleikfimi með þeim, en fórum svo bara út að borða og stungum af.

Þar leigði ég einmitt hraðbát og sigldi með mömmu um ströndina. Við duttum inn á salsabar og mamma minntist á að hún hafði aldrei farið í skemmtilegri ferð. Hún hafði einmitt ferðast með vinkonu sinni í ferð þarna stuttu áður og sat heima og prjónaði á kvöldin því vinkonan þorði ekki ein út. Ég tilkynnti mömmu að það væru engir prjónar að fara með okkur í þessa ferð.

Ég er heldur aldrei að fara í velúrgalla og vera með rúllur í hausnum. Ef þið mætið mér þannig þá er ég komin með elliglöp.“

Kann að vera rómantísk við sjálfa sig

Sesselja er góð í að stjórna án þess að stýra eins og hún segir sjálf frá.

„Það sem stjórnar í mínu lífi er gleði og húmor. Ég hef alltaf leyft mér að vera pínulítill asni. Ég bara kann ekki að vera miður mín og ég spái ekki í hvort fólki finnist ég klár eða ekki. Ég vel allan daginn að fara bara með barnabörnunum mínum að kaupa ís og klappa dýrum en að vera í kringum fólk á mínum aldri sem ekki er skemmtilegt.

Ég held að ungt fólk smiti okkur líka af gleði og hamingju.“

Hvað með ástina í lífinu? Áttu kærasta?

„Já ótrúlegt en satt þá kynntist ég manni í miðri kórónuveirunni í gegnum sameiginlega vinkonu. Ég er mjög róleg í þessum málum, en í fyrsta sinn í langan tíma hef ég kynnst góðum og skemmtilegum manni sem er klár og á mig skilið. Það er hressandi. Ég hef lært ýmislegt í lífinu en það sem skiptir svo miklu máli er að finna félaga sem sér virði í þér. Ég hef alveg misst af tækifærinu að standa með mér í samböndum og stundum hef ég orðið ástfangin af einhverjum sem var ekki ástfanginn af mér. Lífið er alls konar í þessum málum sem öðrum.

Ég var orðin mjög sátt við að vera ein, en var alveg tilbúin að hitta mann ef það að kynnast honum myndi gefa mér eitthvað extra. Ég er mjög frelsiselskandi manneskja og get verið eins trygglynd og hundur ef einhver vinnur hjartað mitt eða vináttu mína. En ef einhver gengur yfir mig, þá bara þurrka ég þann aðila út og sé ekki eftir því seinna.

Með aldrinum fer maður að skilja hversu mikilvægt er að kunna að elska í dag. Ekki að elska gærdaginn eða það sem getur gerst á morgun. Ég leyfi bara hlutunum að gerast og er ekki með þessi læti sem stundum einkenndu líf mitt hér áður. Ég nýt litlu hlutanna í lífinu og kann að elska sjálfa mig sem ég held að sé alltaf kjarninn í lífinu. Ég elda fyrir mig góðan mat, kveiki á kertum, hef fallegt í kringum mig og kann að lifa af ein. Allt annað er bara viðbót við lífið mitt.“

Að vanta það sem maður á og hefur

Hvað hefur lífið kennt þér?

„Lífið hefur kennt mér að vanta það sem ég á og ekki að vera hugsa um það sem maður á ekki. Svo af því ég hef svo mikinn áhuga á fallegri húð og útliti, þá hefur lífið kennt mér að hugsa vel um það sem maður á og vera ekki að breyta því, sér í lagi þegar kemur að útlitinu.

Sem dæmi þá hef ég aldrei farið í neinar lýtaaðgerðir og nú eru varirnar mínar þannig að ég þarf að fara að skoða hvað ég get gert í sambandi við það að halda áfram að setja á mig rauðan varalit. Konur á mínum aldri láta vanalega gera pínulítið fyrir útlitið, eitthvað sem nánast enginn sér. Það er elegant og fallegt. Yngri konur hins vegar eru að breyta útlitinu sínu allt of mikið. Þær sem eru að láta setja í varirnar á sér og rassinn. Ég velti því oft fyrir mér, hvernig þær muni líta út þegar þær verða á mínum aldri. Því þessar fyllingar eru ekki að fara að duga lengi. Eins held ég að það sé hræðilegt líf að þurfa að gera sig svona ólíkan þeirri persónu sem maður er skapaður til að vera.

Ég vil fá að eldast með virðingu og finnst mér allt í lagi að laga það sem laga þarf þó ég hafi ekki látið gera það. Ég myndi hins vegar aldrei láta breyta því hvernig ég lít út og alls ekki eltast við nýjustu tísku sem er ekki í tísku á hátískusvæðum á borð við París, þangað eigum við meira að horfa og vera að hugsa til langtíma.“

mbl.is