„Ég þarf ekki lengur að leita að ástinni frá öðrum“

Á besta aldri | 19. nóvember 2023

„Ég þarf ekki lengur að leita að ástinni frá öðrum“

Guðrún Bergmann, rithöfundur og heilsu- og lífsstílsráðgjafi, giftist sjálfri sér í sumar. Dagurinn var eftirminnilegur en ekki til þess gerður að hafna ástinni. Guðrún er ekkja og hefur upplifað alvöru ást og missi en hún giftist Guðlaugi Bergmann þrisvar á sínum tíma. 

„Ég þarf ekki lengur að leita að ástinni frá öðrum“

Á besta aldri | 19. nóvember 2023

Guðrún Bergmann giftist sjálfri sér 8. ágúst.
Guðrún Bergmann giftist sjálfri sér 8. ágúst. mbl.is/Árni Sæberg

Guðrún Bergmann, rithöfundur og heilsu- og lífsstílsráðgjafi, giftist sjálfri sér í sumar. Dagurinn var eftirminnilegur en ekki til þess gerður að hafna ástinni. Guðrún er ekkja og hefur upplifað alvöru ást og missi en hún giftist Guðlaugi Bergmann þrisvar á sínum tíma. 

Guðrún Bergmann, rithöfundur og heilsu- og lífsstílsráðgjafi, giftist sjálfri sér í sumar. Dagurinn var eftirminnilegur en ekki til þess gerður að hafna ástinni. Guðrún er ekkja og hefur upplifað alvöru ást og missi en hún giftist Guðlaugi Bergmann þrisvar á sínum tíma. 

Giftingin var hluti af andlegri og innri umbreytingu og auknum kærleika í eigin garð, sem ég hef verið að fara í gegnum undanfarið. Ég fattaði allt í einu að ég hafði aldrei gefið sjálfri mér nein heit og gifting var gott svar við því. Þannig tengdi ég saman hið kvenlega og karllega í sjálfri mér og heilaði um leið mitt eigið hjarta,“ segir Guðrún um ástæðu þess að hún ákvað að giftast sjálfri sér.

Er tilgangurinn að hætta að leita að ástinni hjá öðrum eða er einhver annar tilgangur?

„Ástin deyr aldrei og kannski á ég eftir að verða ástfangin af einhverjum skemmtilegum manni, hver veit? Giftingin var ekki höfnun á neinu, bara undirstrikun á kærleika í eigin garð. Ég þarf ekki lengur að leita að ástinni frá öðrum, því ég hef hana alla innra með mér. Ástarsamband yrði því bara viðbót við það sem ég hef nú þegar, svo ef einhvern skemmtilegan karlmann rekur á fjörur mínar er aldrei að vita hvað gerist.“

Guðrún Bergmann fer hér með heitin sín við Elliðavatn.
Guðrún Bergmann fer hér með heitin sín við Elliðavatn. mbl.is/Árni Sæberg

Dagurinn tók óvænta stefnu

Hvernig valdir þú dagsetninguna?

„Faðir minn var fæddur 8. ágúst og hann var alltaf stoltur af þeim degi. Þar sem stutt var í þann dag þegar ég tók þessa ákvörðun, valdi ég hann. Þessi dagur, 8.8., er líka kallaður Orkuhlið ljónsins, svo mér fannst hann tilvalinn fyrir þessa athöfn. Faðir minn hafði aldrei leitt mig að altarinu, svo ég hafði hann í huganum mér við hlið þennan dag.“

Hvernig var dagurinn?

„Dagurinn var frábær þótt ekki færi allt eins og planað var. Ég pantaði mér brúðarvönd með sjö rauðum rósum, en þegar ég sótti hann voru rósirnar átta. Átta var því greinilega þema dagsins. Síðdegis keyrði ég svo ásamt vinkonu minni, sem ég hafði beðið um að vera vitni og hringaberi, austur að Þingvöllum, þar sem ég hafði valið stað fyrir athöfnina. Þegar við nálguðumst vatnið var ljóst af svörtum rigningarskýjum, þrumum og eldingum að þar yrði athöfnin ekki og við Grafningsafleggjara bættust við haglél sem buldu á bílnum. Þá var plönum breytt í skyndi og keyrt að Nesjavöllum, en haglél og síðan rigning eltu okkur þangað. Þá var bara eitt í stöðunni. Keyra til baka í sólina í Reykjavík og við náðum í síðustu sólargeislana við Elliðavatn. Þegar ég gekk að bílnum mínum eftir athöfnina var að byrja að rigna þar.“

Fannstu breytingu á þér eftir daginn?

„Já, mér fannst ég miklu heilli, því ég fann svo greinilega að allt sem ég þurfti var innra með mér. Ég ákvað í tilefni athafnarinnar að gefa sjálfri mér í morgungjöf nýtt tattú á upphandlegginn, yfir það gamla, til að undirstrika breytinguna. Þar kemur því til með að koma hjarta með vængjum, svo sálin geti flogið áfram til frekari þroska.“

Guðrún setti upp hring í tilefni dagsins.
Guðrún setti upp hring í tilefni dagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Giftist Gulla þrisvar

Var dagurinn ólíkur brúðkaupdeginum þínum á sínum tíma?

„Mjög ólíkur, því við Gulli heitinn fórum í gegnum þrjár giftingarathafnir. Fyrst hjá fógeta í Hafnarfirði árið 1986, svo endurnýjuðum við heit okkar átta árum síðar hjá indíánaömmu minni Twylah Nitsch í Bandaríkjunum og síðar sama ár gaf séra Rögnvaldur heitinn Finnbogason okkur saman við Maríulindina á Hellnum. Eftir þá athöfn sagði hann að við værum loks almennilega gift og Gulli heitinn var sammála honum þar. Þaðan er til að mynda brúðarmyndin okkar.“

Hvernig er að vera ein eftir fráfall maka?

„Það er erfitt, eins og allir upplifa sem missa maka. Við höfðum í raun gert allt sem við vorum að gera saman og þegar hann dó var eins og allt í lífinu fengi hálfgerða slagsíðu, því jafnvægið var ekki lengur fyrir hendi. Með tímanum aðlagar maður svo lífið einverunni, og hún venst eins og annað. Mér leiðist samt aldrei, því ég er alltaf með svo mikið í gangi.“

Ertu opin fyrir ástinni?

„Ég er alltaf opin fyrir ástinni, en tenging okkar Gulla heitins var mjög sérstök og synir mínir hafa bent mér á að ég geti ekki fundið slíkt aftur, þótt ég sé kannski ómeðvitað að leita eftir því. Mér sýnist almennt að karlmenn sem missa maka séu fljótari að finna sér nýjan en konur sem missa sína maka. Þetta er þó mjög einstaklingsbundið og þótt sumum þyki einveran góð, þá er félagsskapur alltaf mjög mikilvægur, sama á hvaða aldri maður er. Við erum nú einu sinni félagsverur.“

„Ástin deyr aldrei og kannski á ég eftir að verða …
„Ástin deyr aldrei og kannski á ég eftir að verða ástfangin af einhverjum skemmtilegum manni, hver veit?“ mbl.is/Árni Sæberg

Finnst hún alltaf vera 23 ára

Hvernig heldur þú þér hraustri og ungri?

„Ég held að lykilatriðið sé að hugsa sig ekki gamlan. Ég hef í mörg ár sagst vera 23 ára, þótt líkaminn sé búinn að vera á jörðinni í 73 ár. Mér finnst ég bara alltaf vera ung. Ég legg mig fram um að vanda mataræðið, taka bætiefni, gera æfingar á hverjum degi, hafa gaman af lífinu og njóta samvista með fjölskyldu og góðum vinum. Unglegt útlit skiptir minna máli en það að hafa styrk og liðleika í líkamanum til að geta gert allt sem mig langar til að gera.“

Er skrítið að tala alltaf um að „halda sér ungri“?

„Á vissan hátt er það sérkennilegt, því við erum ekki komin með æskubrunn ennþá sem við getum dýft okkur í. Tæknin hefur hins vegar gert það að verkum að hægt er að halda útliti sínu unglegu með alls kyns skurðaðgerðum og fylliefnum en þá finnst mér útlit fólks verða nokkuð einsleitt. Ég hef persónulega ekki áhuga á því og heldur ekki áhyggjur af því að fá nokkrar hrukkur. Það sýnir bara að ég hef brosað mikið og hlegið dátt.

Mér detta hins vegar oft í hug orð sem tileinkuð eru Mark Twain, en hann á að hafa sagt: „Æskunni er sóað á þá ungu.“ Við sem eldri erum búum yfir mikilli reynslu og þekkingu sem mér finnst falla í skuggann af æskudýrkun samfélagsins. Hjá mörgum frumbyggjum um alla heim njóta þeir sem eldri eru virðingar, en hér viljum við helst gleyma þeim.“

Áttu þér framtíðardrauma?

„Það er bara hægt að fara í gegnum eitt augnablik í einu, en ég er alltaf með framtíðardrauma og plön. Sem stendur er ég að skrifa skáldsögu á ensku, er með andlegan námskeiðshóp í gangi, plön um nýtt heilsutengt námskeið eftir áramót, held áfram að læra meira um stjörnuspeki og svo elska ég að ferðast. Mér leiðist því aldrei.“

mbl.is