Hætti eftir 34 ára starfsferil og lét drauminn rætast

Framakonur | 1. janúar 2024

Hætti eftir 34 ára starfsferil og lét drauminn rætast

Ólöf Svava Guðmundsdóttir segist hafa haft þörf fyrir að teikna og skapa frá blautu barnsbeini en hún sá þó aldrei fyrir sér að geta gert listina að sínu aðalstarfi og vann sem leikskólakennari í ein 34 ár. Það var svo fyrir nokkrum árum að hún hætti í sinni föstu vinnu og sneri sér alfarið að myndlist. Ólöf sér ekki eftir því og segir hækkandi aldur fela í sér ýmis skemmtileg tækifæri og bætir við að hún sé þakklát fyrir að eldast en hún er 63 ára að aldri.

Hætti eftir 34 ára starfsferil og lét drauminn rætast

Framakonur | 1. janúar 2024

Ólöf Svava nýtur þess að ögra sjálfri sér.
Ólöf Svava nýtur þess að ögra sjálfri sér. Ljósmynd/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Ólöf Svava Guðmundsdóttir segist hafa haft þörf fyrir að teikna og skapa frá blautu barnsbeini en hún sá þó aldrei fyrir sér að geta gert listina að sínu aðalstarfi og vann sem leikskólakennari í ein 34 ár. Það var svo fyrir nokkrum árum að hún hætti í sinni föstu vinnu og sneri sér alfarið að myndlist. Ólöf sér ekki eftir því og segir hækkandi aldur fela í sér ýmis skemmtileg tækifæri og bætir við að hún sé þakklát fyrir að eldast en hún er 63 ára að aldri.

Ólöf Svava Guðmundsdóttir segist hafa haft þörf fyrir að teikna og skapa frá blautu barnsbeini en hún sá þó aldrei fyrir sér að geta gert listina að sínu aðalstarfi og vann sem leikskólakennari í ein 34 ár. Það var svo fyrir nokkrum árum að hún hætti í sinni föstu vinnu og sneri sér alfarið að myndlist. Ólöf sér ekki eftir því og segir hækkandi aldur fela í sér ýmis skemmtileg tækifæri og bætir við að hún sé þakklát fyrir að eldast en hún er 63 ára að aldri.

Hvað varð til þess að Ólöf valdi leikskólakennarann sem starfsvettvang?

„Ég kláraði stúdentspróf 1980 og vissi ekki alveg hvað ég vildi læra eftir það svo ég ákvað að vinna eitt ár á meðan ég var að finna út úr því. Ég fór á námskeið í Myndlistaskóla Reykjavíkur en sá ekki fyrir mér að starfa eingöngu við listina, hafði sennilega ekki nægan kjark eða trú á mér. Ég hafði áhuga á mörgu á þessum tíma; hjúkrun, jarðfræði, ljósmyndun og myndlist, en svo datt ég niður á leikskólakennarann og fannst það starf sameina margt af þessu. Ég sá fyrir mér að hægt væri að snerta á öllum þessum þáttum í gegnum skapandi starf með leikskólabörnum. Þegar ég byrjaði vorum við hópur kennara sem langaði að vinna markvisst með listsköpun og skapandi starf. Við kynntum okkur hugmyndafræði Reggio Emilia sem er upprunnin á Norður-Ítalíu og þar er einmitt áhersla á að nýta sköpun sem leið og nota aðferð listamannsins í uppeldi barna.“

Gott að losna við áreitið og hávaðann

Ólöf segir að þetta hafi verið mikið frumkvöðlastarf á sínum tíma og víða sé kennt eftir þessari stefnu í dag. Hún bætir við að þarna hafi hún fundið sína leið til að fá útrás fyrir listina.

„Ég starfaði þarna í ein tólf ár og fór svo á aðra leikskóla til að innleiða þessa stefnu. Ég hef gegnt mörgum störfum innan leikskólans, verið verkefnastjóri, deildarstjóri, aðstoðarleikskólastjóri og leikskólastjóri en samhliða vinnunni var ég alltaf á myndlistarnámskeiðum og málaði í frítímanum. Ég seldi eina og eina mynd sem hjálpaði svolítið til að ná upp í efniskostnað,“ segir hún og hlær.

„Ég starfaði samtals í 34 ár á leikskólum en þá var ég komin á þann stað, bæði andlega og líkamlega, að ég gat ekki lengur unnið með svona stóra barnahópa í öllu því áreiti og hávaða sem fylgir þessum starfsvettvangi. Ég hætti þess vegna og prófaði að kenna fullorðnu fólki myndlist í Myndlistaskóla Kópavogs í svolítinn tíma en fór svo í veikindafrí í u.þ.b. tvö ár en málaði samt sem áður alltaf eitthvað með. Ég seldi eina og eina mynd og var með myndir á sýningum í galleríum.“

Vatnslitamyndir geta sagt meira en mörg orð eins og sést …
Vatnslitamyndir geta sagt meira en mörg orð eins og sést á þessu verki Ólafar Svövu.

Brýnt að rækta sjálfan sig

Hún hellti sér svo út í listina af krafti og fór að mála af meiri alvöru og gerði í raun myndlistina að sínu aðalstarfi.

„Ég hef í nokkur ár starfað alfarið við að mála þótt ég geti nú varla sagt að þetta sé 100% vinna. Myndlistin gefur mér mjög mikið og heldur mér án efa gangandi andlega og líkamlega, þetta er í raun mín lífsfylling. Ég hef oft hugsað hvað það sé mikilvægt að hver og einn passi sig og rækti sín áhugamál og hæfileika því það er eitthvað sem ekki er hægt að taka frá okkur. Þú getur misst vinnuna, heilsuna eða ástvin en eftir situr alltaf það sem þú hefur ræktað í sjálfum þér, það getur enginn tekið frá þér áhugamálin þín, færni eða hæfileika.“

Stolt af velgengninni

Ólöf segir listina gefa lífinu tilgang og halda henni í formi en hún hefur verið mjög dugleg að fara á námskeið, taka þátt í sýningum og hitta aðra listmálara. Þess má geta að hún kom að því, ásamt nokkrum öðrum, að stofna Vatnslitafélag Íslands og myndir hennar hafa verið valdar á alþjóðlegar myndlistarsýningar.

„Vatnslitafélagið er góður vettvangur til að koma sér á framfæri og þar eru líka haldnar sýningar sem ég hef tekið þátt í. Ég hef svo sótt um að komast inn á sýningar erlendis sem eru dómnefndavaldar og hef verið svo heppin að komast á nokkrar slíkar. Nú síðast voru myndir frá mér valdar til að vera á sýningu í Dronninglund Kunstcenter í Danmörku sem var mikil upphefð fyrir mig og þar fékk ég mjög góða umfjöllun. Auðvitað er gaman þegar vel gengur en eftir situr samt að þetta er mitt áhugamál og eitthvað sem ég get þroskað áfram sem hluta af sjálfri mér, það er gaman.“

Ólöf segir að sér finnist þetta í raun bara vera upphafið að sínum myndlistarferli og að hún hafi upplifað þessa breytingu á starfsvettvangi sínum sem ákveðna endurfæðingu. „Ég lít ekkert á mig sem eitthvað gamla, ég er nú bara 63 ára og á mikið eftir, ég meina, hver veit nema ég verði 100 ára?“ segir hún og hlær.

Listin heldur henni í formi

„Listin ýtir mér áfram og heldur mér í formi bæði líkamlega og andlega svo það má alveg segja að þetta sé miklu meira en vinna. Ég þarf að ögra sjálfri mér og sækja mér innblástur, það geri ég með því að fara út í gönguferðir og taka ljósmyndir, náttúran er uppspretta hugmynda minna. Ég dreg manninn minn líka með í fjallgöngur og ferðalög og svo hlusta ég mikið á tónlist sem ég tengi við myndirnar mínar. Ég skoða gjarnan liti í umhverfinu en þeir eru stór hluti af mér, ég hugsa allt í litum, líka tilfinningar.“

Hún bætir við að það sé gott fyrir alla sem eru hættir að vinna að hafa eitthvað fyrir stafni og bendir á að margir venji komur sína á viðburði, námskeið og sýningar í Vatnslitafélaginu. Fólk sæki í félagsskapinn þar svo þetta snúist ekki bara um að mála og vinna heldur líka um ákveðið samfélag og að fólk hafi tilgang. „Ég ráðlegg öllum sem eru hættir að vinna að reyna að finna sér áhugamál og félagsskap til að vera í.“ 

„Ef maður gerir alltaf sama hlutinn fær maður alltaf sömu niðurstöðu“

Ákveðin forréttindi eru fólgin í því að geta starfað við það sem maður hefur ástríðu fyrir, segir Ólöf.

„Þótt ég hafi verið mjög ánægð alla tíð í leikskólanum þá gekk ég svolítið á mig og það er alltaf hættan þegar maður er heillaður af verkefnunum í vinnunni. Ég hefði, eftir á að hyggja, alveg viljað hætta fyrr til að sinna listinni svo kannski var það lán í óláni að ég komst á endastöð og varð að hætta. Ég er mjög fegin að hafa stigið þetta skref og nú þori ég meiru, tek meiri sénsa og er til í að stíga út fyrir þægindarammann. Maður þarf að gefa nýjum hlutum tækifæri, ég meina, ef maður gerir alltaf sama hlutinn í lífinu þá fær maður alltaf sömu niðurstöðu, en um leið og maður breytir einhverju þá fara nýir og spennandi hlutir að gerast.“

Verk eftir Ólöfu Svövu.
Verk eftir Ólöfu Svövu.

Hugrakkari með aldrinum

Um þessar mundir málar Ólöf mest vatnslitamyndir af náttúrunni en segist einnig aðeins vera að prófa abstrakt. „Ég mála mjög flæðandi myndir af íslenskri náttúru. Ég læt litina gjarnan vera dökka á móti gegnsæjum og oft móðukenndum tónum og skapa þannig ákveðna dulúð, myndirnar verða leyndardómsfullar. En svo breyti ég eflaust stílnum eitthvað enda lít ég svo á að ég sé rétt að byrja listaferilinn minn.

Einn af meginkostunum við að eldast er að manni er svolítið sama um hvað öðrum finnst og ég er óhræddari við að fara mínar eigin leiðir. Núna hef ég líka miklu meiri tíma til að sinna listinni þó að ég sé kannski aðeins hægari með aldrinum.

Mér finnst ég að sumu leyti hafa byrjað nýtt líf eftir að ég hætti að vinna og fór að sinna listinni. Ég sé marga hluti í öðru ljósi, hef myndað alls konar ný tengsl og tekist á við nýjar áskoranir. Kannski verð ég farin að gera eitthvað allt annað eftir fimm ár, hver veit? Ég er líka orðin hugrakkari og hef meira frumkvæði en oft áður, stundum get ég ekki sofið fyrir hugmyndum,“ segir hún glaðbeitt. „Ég fer inn í alls konar tímabil og um þessar mundir er ég mjög upptekin af hversdagsleikanum og nærumhverfinu. Mér finnst úfna hraunið og auðnin á Reykjanesinu heillandi og einnig draga afskekkt þorp mig að sér.“

Það er margt í gangi á vinnustofunni og falleg verk …
Það er margt í gangi á vinnustofunni og falleg verk í vinnslu.

Nennir ekki að velta lengur fyrir sér hlutum sem skipta ekki máli

Þegar Ólöf er spurð að því hvernig tilfinning það sé að eldast segir hún:

„Mér finnst gott að eldast, ég er afslappaðri, hef meiri tíma fyrir mig sjálfa og fjölskylduna sem er alltaf að stækka og er ekki að velta fyrir mér hlutum sem skipta ekki máli. Ég er þakklát og sátt og hlakka til að gera eitthvað skemmtilegt.“

Þess má geta að hægt er að skoða myndir Ólafar á Instagram undir olofsvava.artist auk þess sem þær eru seldar í Skúmaskoti á Skólavörðustíg.

mbl.is