„Alkóhólismi er sjúkdómur einmanaleikans“

Edrúland | 19. janúar 2024

„Alkóhólismi er sjúkdómur einmanaleikans“

Fyrsta minning Írisar Guðmundsdóttur er ekki falleg en svo skýr að hún man hvert smáatriði. Hún var fjögurra ára og hafði orðið fyrir gríðarlegu áfalli. Enn er hún að vinna úr því og öðrum erfiðum áföllum. Hún er hins vegar komin langt og þakkar Guði fyrir hvern dag og allt það sem lífinu fylgir.

„Alkóhólismi er sjúkdómur einmanaleikans“

Edrúland | 19. janúar 2024

Íris Guðmundsdóttir er þekkt gospelsöngkona.
Íris Guðmundsdóttir er þekkt gospelsöngkona.

Fyrsta minning Írisar Guðmundsdóttur er ekki falleg en svo skýr að hún man hvert smáatriði. Hún var fjögurra ára og hafði orðið fyrir gríðarlegu áfalli. Enn er hún að vinna úr því og öðrum erfiðum áföllum. Hún er hins vegar komin langt og þakkar Guði fyrir hvern dag og allt það sem lífinu fylgir.

Fyrsta minning Írisar Guðmundsdóttur er ekki falleg en svo skýr að hún man hvert smáatriði. Hún var fjögurra ára og hafði orðið fyrir gríðarlegu áfalli. Enn er hún að vinna úr því og öðrum erfiðum áföllum. Hún er hins vegar komin langt og þakkar Guði fyrir hvern dag og allt það sem lífinu fylgir.

En byrjum á byrjuninni. Íris er þekkt gospelsöngkona og margir sem hafa gaman af slíkri tónlist hér á landi eiga plöturnar hennar og eru heillaðir af röddinni, sem er þrungin miklum hita og ástríðu. Hvenær byrjaðir þú að syngja?

„Ég hef sungið frá því ég man eftir mér en söng fyrst á palli þegar ég var átta ára,“ segir hún. „Ég er alin upp í Hvítasunnukirkjunni, Betel, í Vestmannaeyjum. Fósturpabbi minn stýrði söfnuðinum og í kirkjunni okkar er svolítið rík krafa um að fólk finni köllun sína og ég fann að mín var söngurinn. Ég fór á hnén og bað Guð um að gefa mér röddina hennar Evie Tornquist, en það var gospelsöngkona sem ég hlustaði mikið á. Næsta sunnudag steig ég svo á svið og söng sannfærð um að ég væri komin með röddina hennar. Þannig byrjaði það.“

Íris söng fyrst á palli þegar hún var aðeins átta …
Íris söng fyrst á palli þegar hún var aðeins átta ára gömul.

Mikil innri togstreita

Upplifðir þú svo einhverjar efasemdir um að söngur væri þín rétta köllun?

„Já, með tímanum. Það eru alltaf þessi átök í manni, togstreita milli andstæðra póla. Ég held í dag, vegna þess að núna hef ég stigið út úr tónlistinni og er farin að gera aðra hluti, að ég hafi haft hæfileika til margra hluta og áhugasviðið var vítt. Í kirkjunni voru ákveðnar hömlur settar og sumt mátti ég ekki, svo að tónlistin varð köllunin. Ég held að það að vera alin upp í litlu samfélagi, eins og Vestmannaeyjum, og verandi Betelingur og með mína forsögu hafi gert það að verkum að það að fara á svið og slá í gegn hafi meira snúist um að fá viðurkenningu, verða sýnileg, því það var mér svo erfitt þegar ég var barn að flengjast stöðugt milli fólks og missa tengsl sem rofnuðu við flækinginn. Þá verður maður svolítið einmana og ósýnilegur, það er mjög algengt að slíkar tilfinningar þróist þegar verið er að flytja barn oft á milli á fyrstu fimm árum lífsins. Þess vegna varð það að syngja fyrir Drottin ekki lengur köllun mín heldur fór að snúast um að meika það.

En svo höndlaði ég það ekki. Ég var komin með annan fótinn inn í bransann, Björgvin Halldórsson búinn að bjóða mér að syngja inn á plötu með sér en ég sagði nú nei við því. Ég var að syngja í Braggablús á Hótel Íslandi, með Pálma Gunnarssyni, Ellen Kristjánsdóttur og Bjarna Arasyni. Þá komu þessar andstæður upp í mér. Ég fór að spyrja mig hvað ég væri að gera því mér fannst allt í kringum tónlistina óþægilegt, lífernið, vinnustaðirnir, samskiptin, keppnisharkan, umfjöllunin og athyglin sem henni fylgdi. Um þetta leyti ákvað ég að flytja til Vestmannaeyja með drengina mína og Gulli Briem sagði við mig: „You are kissing your career goodbye.“ Ég var orðin einstæð og vildi leyfa drengjunum mínum að alast upp þar.

Það reyndist rétt en mér finnst gaman að skapa og syngja og reyndi svo sem fyrir mér aftur. En það var alltaf þessi barningur. Ég er fín í stúdíói og þar líður mér ágætlega. En tónleikadagar, að þurfa að dressa mig upp og standa frammi fyrir fólki og koma fram, er mér ofviða. Tónleikadagar eru ónýtir dagar, ég fúnkera ekki þá daga. Kvíðinn er svo mikill og togstreitan hið innra. Núna er ég svolítið að kveðja þetta tónlistarlíf að því leyti að standa í fronti eða á sviði. Ég sem ennþá tónlist, skrifa texta og þýði. Auk þess syng ég enn bakraddir fyrir þá sem vilja fá mig og útset margt af því efni sjálf.“

Íris var komin með annan fótinn í bransann þegar hún …
Íris var komin með annan fótinn í bransann þegar hún áttaði sig á því að lífið í kringum tónlistina væri ekki fyrir hana.

Misnotuð fjögurra ára

Kvíði er erfið tilfinning að glíma við. Misstir þú einhvern tíma fótanna vegna þessa?

„Já, já,“ segir hún. „Ég er búin að fara þrisvar í meðferð og var að glíma við áfallastreituröskun sem á rætur að rekja til atvika í æsku. Undanfarin fjórtán ár er ég búin að vera að vinna úr þessu.“

 Og hún er komin langt. Yfir henni er einstök ró og friður og hún hefur sérlega góða nærveru. Fæstir muna lengra aftur en að fjögurra eða fimm ára aldri og þá eru minningarnar iðulega brotakenndar myndir fremur en heildstæðir atburðir. Íris man hins vegar skýrt og greinilega það áfall sem hefur mótað hana mest.

 „Ég ólst upp að hluta hjá ömmu minni og afa,“ segir Íris. „Mamma mín átti mig sextán ára, var meira að segja ekki alveg orðin sextán. Ég fæddist 17. mars en hún á afmæli 28. mars. Hún var mjög ung og foreldrar hennar vildu að hún héldi áfram með sitt líf, þannig að ég var mikið hjá þeim. Þau unnu mikið, svo að ég var einnig hjá stuðningsfjölskyldu. Þetta skapaði ákveðið rót í mínu lífi. Fjögurra ára varð ég fyrir misnotkun. Afi minn og amma voru að halda partí. Ég var sofandi inni í lokaðri svefnálmu hússins og fjölskylduvinur læddi sér inn í svefnálmuna og braut á mér.

Það hefur vakið mér furðu að ég hafi alltaf munað þetta og hve mikil áhrif þetta hefur haft á líf mitt. Maður heldur að svo ung börn muni ekki lengi hluti en ég man meira að segja að ég var fjögurra ára. Ég man að hann tók mig úr svefnherberginu inn á klósett og læsti að okkur. Ég man allt sem gerðist þar inni og í lokin gaf hann mér smápening. Negldi skömmina ævarandi í lófann á mér með því að gefa mér peninga fyrir. Amma man eftir að ég hafi komið hlaupandi fram þegar ég átti að vera sofandi og hent í hana smápeningi. Hún mundi þetta þegar ég sagði henni þetta fullorðin kona. Þegar hún náði að anda eftir frásögn mína gat hún staðfest hana.

 Þetta og þau tengslarof sem ég varð fyrir fóru með mér inn í lífið þrátt fyrir að ég ætti óskaplega gott bakland. Amma mín var sú manneskja sem stóð mér næst og ef ég hefði ekki náð að mynda þessi ofboðslega sterku tengsl við hana hefði farið miklu verr fyrir mér. Ég er viss um það. Ég átti þó þessi tilfinningatengsl við hana. Í dag er ég amma sjálf og ég legg mikla áherslu á að mynda góð og sterkt tengsl við barnabörnin mín því ég veit að sama hvað gerist í lífi þeirra getur það bjargað ýmsu að eiga góð tilfinningatengsl.“

Íris þegar hún var fjögurra ára og þegar hún var …
Íris þegar hún var fjögurra ára og þegar hún var 16 ára.

Ný veröld í Vestmannaeyjum

Ári síðar flutti Íris svo út til Vestmannaeyja til mömmu sinnar. Þar mætti henni ný veröld og barn sem brotið hefur verið svo gróflega á er ekki vel undirbúið að takast á við nýjar aðstæður.

„Þá tók mamma mig til sín. Ég átti erfitt með að samlagast. Mamma mín giftist fósturpabba mínum þegar ég var fimm ára og þá voru þau komin inn í samfélag kirkjunnar. Ég kom inn í þennan skrýtna heim. Við vorum stimpluð af börnunum sem stóðu fyrir utan og fengum ekki að vera með. Við vorum talin ofsatrúar, stórskrýtin og hættuleg. Ég fór því út í lífið með tengslarof, á erfitt með að mynda tengsl og viðhalda þeim og með mölbrotna sjálfsmynd. Ef ég á að nota eitt orð um líðan mína þá væri það ótti. Ég var bara skelfingu lostin og svo ein, að því er mér fannst, þótt ég ætti mömmu og pabba.

Ég var ekki í neinu sambandi við blóðföður minn þarna. Ég á systkini sem ég ólst upp með þótt þau séu yngri en ég. Fjölskylda mín var kærleiksrík og þau voru óþreytandi við að segja mér að þau elskuðu mig. Pabbi Snorri sérstaklega. Hann sagði aftur og aftur, þú ert mín. Hann hamraði á því vegna þess að hann fann að ég þurfti á því að halda. Hann sagði mér að ég væri jafnmikið dóttir hans og systkini mín væru börnin hans. Svo hafði ég alltaf þessi sterku tengsl við ömmu og afa. En einhvern veginn var allt inni í mér brotið.“

Fannst hún í fyrsta sinn tilheyra

En syndin er lævís og lipur segir einhvers staðar og Bakkus fann sérstæða leið til að lauma sér inn í líf Írisar.

„Vegna þess að ég var í kirkjunni fór ég ekki í neina unglingadrykkju eða neitt slíkt,“ segir hún. „Mér var ekki boðið í partíin en Bakkus náði mér á sinn hátt. Ein afleiðing misnotkunarinnar var að líkamleg heilsa mín var afspyrnu léleg. Ég glímdi við asma, bronkítis og endalausar nýrnabólgur og blöðrubólgu. Stoðkerfið var mjög illa farið. Ég var mjög stíf í öllum líkamanum og leikfimi var mér mjög erfið. Ég gat aldrei snert tærnar á mér til dæmis og var stirð í mjöðmum, eiginlega eins og spýtukarl. Ég var bara þrettán ára þegar ég festist fyrst alvarlega í bakinu. Jarðarför einnar ömmu minnar var fyrir dyrum og mamma hringdi í lækni og hann sagði henni að skella í mig vöðvaslakandi lyfjum. Mamma gerði það og þetta var mín fyrsta andlega reynsla.

Ég get rifjað þetta upp eins og það hafi gerst í gær. Ég lá í rúminu og þegar áhrifin af lyfinu komu náði ég andanum í fyrsta skipti. Ég hafði verið frosin af skelfingu frá því að ég man eftir mér en allt í einu gat ég andað djúpt og slakað á. Mamma labbaði inn í herbergið mitt og ég fylltist gleði. Þetta er mamma mín. Og ég tók utan um hana og sagði: „Ég elska þig.“ Allt í einu elskaði ég alla og ég tilheyrði. Ég losnaði undan einhverjum ofboðslegum ótta. Ég man ekkert hvort bakverkurinn fór en ég hlýt að hafa verið nógu góð til að fara í jarðarförina því ég var þar þótt ég muni ekki eftir henni. Þarna byrjaði leit mín að þessu ástandi. Ég fór inn í neysluheiminn, ekki gegnum unglingadrykkju eins og flestir heldur gegnum pilluát. Ég var þrettán ára þegar þetta var.

Þremur árum síðar var ég búin að klúðra skólagöngunni. Ég var ágætis námsmaður en ég rétt skreið samræmdu prófin og hafði engan áhuga á að halda þessu áfram. Þarna var sjálfræðisaldurinn sextán ár og ég pakkaði ofan í tösku eina nóttina, gekk niður á bryggju og um borð í Herjólf án þess að kveðja kóng eða prest. Amma var í Hjálpræðishernum og frændfólk mitt Óskar og Imma ráku Herkastalann og ég fór bara til þeirra og spurði: „Má ég leigja herbergi hérna?“ Næst gekk ég upp Laugaveginn, datt inn í búð sem hét Quatro og spurði: „Get ég fengið vinnu hér?“ Eigandinn var svo hrifinn af því að sextán ára krakki kæmi og bæði um vinnu á þennan hátt að hún réði mig. Ég gekk aðeins ofar á Laugaveginn og inn í sjoppu og fékk þar vinnu á kvöldin. Líf mitt næstu tvö árin urðu svo þannig að ég bjó í Herkastalanum, vann mikið og gekk á milli lækna til að fá lyf,“ segir Íris.

Giftist inn í Samhjálparfjölskylduna

„Ég var skotin í strák sem ég kynntist þegar ég var ellefu ára,“ heldur hún áfram. „Brynjólfur er yngsti sonur Óla Ágústssonar og Ástu Jónsdóttur sem lengi voru með Samhjálp. Ég fór að sækja Samhjálparsamkomur til að blikka hann. Og það tókst. Tveimur árum seinna vorum við gift og barn á leiðinni. Ég átján ára og hann nítján. Aron fæddist 1987 og drengirnir voru svo orðnir tveir 1989. Við fluttum svo upp í Hlaðgerðarkot árið 1990, en Brynjólfur var orðinn staðarhaldari þar. Íbúð fylgdi starfinu og við bjuggum þar með drengina okkar og ég tók fullan þátt í Samhjálparstarfinu. Var að syngja á pallinum á samkomum og var hluti af Dorkas-hópnum.

Við vorum búin að vera þarna í þrjú ár þegar það rann upp fyrir fyrrverandi manninum mínum að ég var veik. Hann var með lykla að lyfjaskápnum og ég auðvitað nýtti mér það. Gömul kona sem var þarna einu sinni í meðferð gekk eitt sinn til mín þegar ég var úti með strákana. Þeir voru að leika sér en ég sat uppi við vegginn í sólbaði. Hún settist hjá mér og spurði: „Er allt í lagi með þig, elskan mín?“ Ég spurði til baka: „Hvað meinarðu?“ og hún sagði: „Ertu á einhverjum lyfjum?“

Dag einn var maðurinn minn fyrrverandi svo með unga konu í viðtali og honum fannst bara eins og hann væri með mig fyrir framan sig. Hann fór beint upp í íbúð, og þetta er mér ógleymanlegt. Ég var að vaska upp. Hann opnaði dyrnar, stóð í dyrunum og ég varð alveg undrandi. „Hvað ert þú að gera heima?“ spurði ég því auðvitað átti hann að vera í vinnunni. Hann sagði með mikilli furðu í röddinni: „Íris, þú ert alkóhólisti.“ Ég varð svo brjáluð að ég skildi við hann. Ég pakkaði niður í töskur, tók drengina og fór. Þetta ætlaði ég ekki að láta yfir mig ganga. Svo lauk hjónabandi okkar og tveimur árum seinna var ég komin inn á stofnun og mamma tók drengina á meðan. Ég var búin að steikja á mér hausinn.“

Frá samhjálparárunum 1990-1993.
Frá samhjálparárunum 1990-1993.

Í ástarsambandi við þekktan ofbeldismann

Þetta gerðist árið 1995. Þremur árum síðar kynntist hún manni og giftist honum eftir árs kynni.

„Hann er þekktur ofbeldismaður. Ég var svo brotin að ég hugsaði bara, hann gerir mér ekkert. Ég varði hveitibrauðsdögunum inni á Vogi. En til að gera langa sögu stutta voru þessi fjögur ár helvíti þangað til ég flúði með drengina. Ég fór frá honum 16. apríl 2003 og eftir það missti ég gersamlega tökin á öllu og 21. nóvember 2004 var ég komin inn á Vog aftur. Það tók þennan tíma að missa allt frá mér en ég hafði verið edrú í gegnum þessar skelfingar. Hvernig ég fór að því er ofar mínum skilningi. Eins og þekkt er í ofbeldissamböndum versnar allt þegar maður loksins fer og þannig var það hjá mér. Hann tók síðan saman við filippseyska konu og fór þangað út en þá létti ógninni og þá hrundi ég í það. Ég var alveg búin á því. Ætlaði að svipta mig lífi og bara gat ekki meira.

Þessi maður situr nú af sér dóm. Í öll þessi ár hef ég lifað með óttanum við hann en svo fékk ég tækifæri vegna annars máls að vera eitt af aðalvitnunum og fékk þar tækifæri til að losa mig við allt. Það var einstök gjöf að fá að segja frá öllu, vissulega erfitt fyrir framan hann. Þetta var á Covid-tímanum svo að ég var með hann á skjá fyrir framan mig en ég losnaði við heila manneskju úr kerfinu mínu. Ég varð áttatíu kílóum léttari.“

Afsalaði sér forsjánni á Vík

Það var hins vegar árið 2004 að vendipunktur varð í lífi hennar.

„Þá fór ég í alveg heila meðferð,“ segir hún. „Ég var búin að missa allt frá mér. Pabbi strákanna kom og náði í þá og ég afsalaði mér forsjá þeirra þegar ég var uppi á Vík. Ég átti gamlan Audi, einhver föt í kassa og lítið annað. Drengirnir voru komnir í skjól hjá pabba sínum. Þeir voru orðnir unglingar og þurftu meira á honum að halda. Ég fékk inni á Dyngjunni, áfangaheimili fyrir konur, eftir að ég var búin með þriggja vikna afeitrun á Vogi og mánaðar meðferð á Vík. Ég var á Dyngjunni í tæpt ár. Þá byrjaði ég að sækja aftur Samhjálparsamkomur. Þær voru í Stangarhyl og Sigrún og Heiðar, sem voru forstöðumenn Samhjálpar, buðu mér að koma og syngja.

Það gaf mér mjög mikið en ég var svo gersamlega búin andlega að lífsviljinn var eiginlega farinn. Ég gat ekki fundið út úr því hvernig ég ætti að koma lífi mínu heim og saman. Mér hafði tekist að sveifla öllum konunum sem voru samtíða mér á Dyngjunni niður á við því það var svo mikið svartnætti í kringum mig. Edda, forstöðukonan þar, sagði: „Þetta gengur ekki. Þú verður bara að fara aftur inn á Vog.“ Ég var raunverulega í sjálfsvígshættu. En vegna þess að ég var farin að sækja aftur samkomur hjá Samhjálp sagði ég: „Má ég frekar biðja um að fara inn í Hlaðgerðarkot.“

Þarna var ég að berjast við eitthvað inni í mér. Mín innri rödd sagði: Þú ert ekki að fara inn í Hlaðgerðarkot, þar sem þú varst einu sinni staðarhaldari, en ég heyrði sjálfa mig biðja upphátt um að fá að fara þangað. Ég hugsaði með mér, hvaðan kom þetta? Ég hafði samband við Heiðar og Sigrúnu og það var sjálfsagt að ég fengi að koma í Hlaðgerðarkot. Þetta var eitt af erfiðustu skrefum sem ég hef tekið í lífinu en þvílík blessun sem fylgdi því. Að vera mætt á staðinn þar sem ég fékk fyrst að heyra: „Íris, þú ert alkóhólisti“, sem sjúklingur varð til þess að eitthvert kraftaverk gerðist. Ég náði loksins einhverri auðmýkt og að lenda. Ég vissi að ég gæti ekki fundið út úr þessu sjálf og að ég þyrfti hjálp. Þetta var það sem ég þurfti og þarna tók líf mitt stökk fram á við. Ég var svo lengi hluti af teymi sem söng á Samhjálparsamkomum. Samhjálp hefur spilað mjög stóra rullu í lífi mínu og mér þykir ofboðslega vænt um samtökin.“

Hugurinn frjáls en líkaminn að gefa sig

„Síðan 2016 hefur líkami minn verið að gefa sig,“ segir hún. „Ég er búin að vera að vinna í áföllunum í fjórtán ár, meðal annars með hjálp Valdísar Aspar Ívarsdóttur áfallasérfræðings. Hún rekur stofu sem heitir Shalom. Þegar líkaminn var loksins farinn að vinna úr þeim og ég farin að finna mig örugga og í góðu andlegu jafnvægi fór heilsan að gefa sig. Ég var komin í tengsl við fólkið mitt aftur og drengina mína. Hafði kynnst núverandi manninum mínum árið 2007 og hann er hrein himnasending. Ég skildi ekki af hverju líkaminn tók að hrynja þegar allt var orðið gott. Valdís Ösp útskýrði fyrir mér að hann væri búinn að halda öllum þessum áföllum inni og gæti ekki meira.

Ég hafði slitið sambandið milli hugar og líkama, lifði bara í höfðinu en var ekki í sambandi við líkamann. Þegar þau tengsl opnuðust aftur gerðist það sama og hafði gerst áður. Ég bara fraus. Ég gekk á milli lækna og ýmislegt fór að koma í ljós, m.a. gamlir áverkar á lífbeininu eftir árásina þegar ég var fjögurra ára. Þeir voru orðnir að samgróningum sem höfðu skekkt eitthvað í mjaðmagrindinni. Bæklunarlæknirinn gat aldursgreint áverkana, það var svo merkilegt. Ég var komin með sykursýki og röskun í miðtaugakerfi og er hjá taugasérfræðingi vegna þess og innkirtlasérfræðingi vegna sykursýkinnar. Ég er hjá sjúkraþjálfara og aftur var Guð að verki í lífi mínu og allt í einu mynduðu læknarnir teymi í kringum mig, þar á meðal Valdís, og öll töluðu saman og fundu út hvað væri best fyrir mig.“

Oft ein en aldrei einmana

Íris er öryrki í dag en það er ekki þar með sagt að hún sitji auðum höndum. Hún hefur tekið að sér að vera sponsor fyrir konur sem eru á sama stað og hún fyrir 19 árum og þær koma oft heim til hennar, sitja með henni í hlýlegri stofunni og vinna í sporunum tólf. Hún málar líka falleg málverk sem skreyta veggina, sinnir barnabörnunum af alúð, yrkir og skrifar.

„Svo skrifa ég pistlana í Sálarhornið, en það er vettvangur á Facebook þar sem ég skrifa vangaveltur um andleg málefni og lífið almennt. Ég geri það sem ég get,“ segir hún. „En suma daga er miðtaugakerfið slæmt og ég dofna upp vinstra megin og þá er ég svo slæm að ég verð bara að liggja og sofa. Þetta gerir það meðal annars að verkum að ég get ekki treyst röddinni fullkomlega. Þeir héldu fyrst að míkrótappar í heilastofni yllu þessu en myndirnar hafa ekki náð þessum töppum. Nú eru þeir að skoða hvort lúpus geti verið að herja á heilastofninn. Þetta gerir mig óörugga þegar ég er að syngja. Þegar vondir dagar eru hef ég ekki fullt vald á röddinni. Ég í fjarnámi líka til að reyna að halda heilasellunum við.

Mér finnst ég svo heppin að hafa fengið að upplifa minn gamla draum um að fá að standa á sviði og syngja þótt ég hafi aldrei orðið neitt sérstaklega þekkt. En ég veit að ég hefði aldrei höndlað það líf, alla athyglina og streituna sem því fylgir. Aftur koma upp þessar andstæður í mér. Ég er mjög virk á Facebook og pósta þar margoft myndum og frásögnum en fæ samt enn kaldan sting í magann þegar ég sé stelpurnar sem ég var að vinna með segja frá því á samfélagsmiðlum að þær séu að undirbúa sig fyrir tónleika og sýningar. Þá hellist kvíðinn yfir mig. Ætli ég hefði ekki dáið úr alkóhólisma hefði það gengið lengra? Óttinn var svo mikill við annað fólk, óttinn við að vera ósýnileg eða vera of sýnileg. Þannig að ég veit að það líf sem ég lifi í dag hentar mér best.

Alkóhólismi er náttúrlega sjúkdómur einmanaleikans og ég held að fyrst og fremst orsakist hann af tengslarofi. Mikill meirihluti fólks sem glímir við fíkn þjáist af tengslarofi einmitt út af áföllum í æsku og það sem ég legg mesta áherslu á við þá sem ég sponsa er að komast aftur í tengsl. Geti fólk ekki orðið hluti af fjölskyldu, að reyna þá að komast inn í hóp eins og hjá Samhjálp eða verða hluti af AA-deild þó að það sé ógnvekjandi. Ég myndaði tengsl á mjög óheilbrigðan hátt við marga og það er auðvitað meðvirkni. Ég var alltaf að leitast við að geðjast öðrum, verða hluti af einhverju, en í dag er ég oft ein en aldrei einmana. Núna bið ég bæn á hverjum degi þegar ég vakna, góði Guð, þakka þér fyrir daginn í dag og allt sem honum fylgir. Já, allt sem honum fylgir, þetta lækkar kortisólið þvílíkt því ég get treyst því að hvað sem gerist þá verði ég í lagi. Ég þurfti á því að halda að geta treyst,“ segir Íris að lokum.

Íris ásamt fjölskyldu sinni.
Íris ásamt fjölskyldu sinni.
mbl.is