„Það skilur eftir sig ýmis sár að alast upp við alkóhólisma“

„Það skilur eftir sig ýmis sár að alast upp við alkóhólisma“

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi tók við starfi framkvæmdastjóra Samhjálpar í vor. Hún þekkir alkahólisma af eigin raun úr barnæskunni en sjálf hætti hún að drekka fyrir 13 árum. Edda hafði lengi fylgst með starfsemi Samhjálpar og þegar henni bauðst að taka við framkvæmdastjórastarfinu kom ekkert annað til greina en að segja já.                                           

„Það skilur eftir sig ýmis sár að alast upp við alkóhólisma“

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi | 17. október 2022

Edda Jónsdóttir framkvæmdarstjóri Samhjálpar.
Edda Jónsdóttir framkvæmdarstjóri Samhjálpar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi tók við starfi framkvæmdastjóra Samhjálpar í vor. Hún þekkir alkahólisma af eigin raun úr barnæskunni en sjálf hætti hún að drekka fyrir 13 árum. Edda hafði lengi fylgst með starfsemi Samhjálpar og þegar henni bauðst að taka við framkvæmdastjórastarfinu kom ekkert annað til greina en að segja já.                                           

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi tók við starfi framkvæmdastjóra Samhjálpar í vor. Hún þekkir alkahólisma af eigin raun úr barnæskunni en sjálf hætti hún að drekka fyrir 13 árum. Edda hafði lengi fylgst með starfsemi Samhjálpar og þegar henni bauðst að taka við framkvæmdastjórastarfinu kom ekkert annað til greina en að segja já.                                           

„Það kom þannig til að stjórnarformaður Samhjálpar, Guðfinna Helgadóttir, kom að máli við mig fyrir hönd stjórnar, eftir að forveri minn í starfi hafði sagt upp störfum. Ég hafði lýst yfir áhuga á starfinu fyrir nokkrum árum en var þá búsett í Ósló ásamt fjölskyldu minni og alls ekki á leið til Íslands. Svo leið tíminn og ég var á leið í doktorsnám í Bretlandi þegar heimsfaraldurinn skall á. Þau áform urðu að engu vegna kórónuveirunnar og í stað þess að pakka niður og senda dótið til Bretlands, sendum við það til Íslands. Fljótlega eftir komuna til landsins bauðst mér starf hjá Póstinum sem innanhússmarkþjálfi og var þar í eitt og hálft ár. En þegar mér bauðst að taka við starfinu hjá Samhjálp, gat ég ekki sagt nei. Svona tækifæri koma ekki oft í lífinu og hjartað sagði bara já,“ segir Edda. 

Afi Eddu, Einar J. Gíslason, var forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar í Reykjavík þegar Samhjálp var stofnuð 1973 af Hvítasunnukirkjunni.

„Afi hafði kynnst samtökum af sama toga í Svíþjóð og á fimmtugsafmæli sínu 31. janúar 1973, bað hann afmælisgesti að leggja góðu málefni lið með peningagjöfum. Þarna söfnuðust töluverðir peningar og í framhaldinu safnaðist nóg til að greiða útborgun að Hlaðgerðarkoti í Mosfellsdal, sem er nú elsta starfandi meðferðarheimili landsins. Þar voru einnig fyrstu starfsstöðvar Samhjálpar sem samtaka en fljótlega fluttist starfsemin að hluta til á Hverfisgötu, þar sem Kaffistofa Samhjálpar var til dæmis opnuð árið 1981.

Sjálf fæddist ég árið 1975 svo það má segja að ég hafi náð í skottið á upphafi þessara merku samtaka sem Samhjálp eru. Ég man eftir mér á viðburðum tengdum Samhjálp frá því að ég var barn. Afa voru samtökin og starfsemin afar kær og fjölskylda mín hefur tengst starfseminni með ýmsum hætti í gegnum tíðina,“ segir hún. 

Hvers vegna hefur þú áhuga á þessum málaflokki?

„Áhugi minn á málaflokknum tengist lífssögu minni með sterkum hætti. Ég lærði mannréttindafræði á sínum tíma og kom að mannréttindamálum með ýmsum hætti um árabil, bæði starfstengt og sem sjálfboðaliði.

En ástæðan fyrir áhuga mínum á málaflokknum á sér dýpri rætur og tengist því að blóðfaðir minn var alkóhólisti. Ég upplifði sterkt sem barn að þessi flókni sjúkdómur hefði rænt mig tækifærinu til að alast upp með annars frábærum manni sem var hæfileikaríkur að svo mörgu leyti. Móðir mín giftist svo manni sem varð uppeldisfaðir minn en hann glímdi einnig við fíkn um tíma. En ég átti góða að og auk afa voru móðursystkini mín og fjölskyldur þeirra mér mikill stuðningur í uppeldinu þegar það var erfitt heima.

Eftir að ég komst á fullorðinsár, þurfti ég að vinna úr þessari reynslu. Það skilur eftir sig ýmis sár að alast upp við alkóhólisma og það má ekki gleyma því að þetta er fjölskyldusjúkdómur. Ég hef leitað í 12 sporasamtök og unnið mikla sjálfsvinnu með aðstoð félaga um árabil. Það hefur verið mjög græðandi og í dag er ég þakklát fyrir að hafa alist upp við alkóhólisma, því ég hefði ekki viljað missa af því að vinna þessa góðu sjálfsvinnu. Það er svo dýrmætt að læra að taka ábyrgð á lífi sínu og leggja það í hendurnar á mætti okkur æðri, sem ég kalla Guð. Það felst líka mikill leyndardómur í því að lifa lífinu einn dag í einu og fá að upplifa að það getur verið magnaður styrkur í veikleikanum. Í gegnum sporavinnuna hef ég öðlast sérstakan kærleika fyrir þeim sem glíma við fíkn. Þetta er oft hörð barátta upp á líf og dauða en sigurinn er þeim mun dýrmætari, eins og margir þekkja af eigin raun,“ segir Edda. 

Samhjálp rekur kaffistofu sem er ætluð fyrir fólk í neyð.
Samhjálp rekur kaffistofu sem er ætluð fyrir fólk í neyð.

Nú er oft sagt að fólk leiti í það að hjálpa öðrum ef það hefur sjálft hætt að drekka. Sagan hennar Eddu rímar þó ekki við það. 

„Ég var nú ekki mjög efnileg drykkjumanneskja í þeim skilningi að ef ég bragðaði léttvín, varð ég hreinlega lasin daginn eftir. Ætli ég sé ekki bara svo heppin að vera með ofnæmi fyrir víni. Ég get reyndar ekki borðað sykur heldur svo það er mjög líklegt.

En það var þannig árið 2009 að ég hafði verið veislustjóri í afmæli vinkonu minnar og fengið mér léttvín að veislu lokinni. Morguninn eftir vaknaði ég og hugsaði með mér: Þetta geri ég aldrei aftur. Síðan hef ég ekki bragðað dropa og sakna þess ekki,“ segir hún. 

Lesendur Smartlands þekkja Eddu vel því um margra ára skeið skrifaði hún mannbætandi pistla um leiðtogamarkþjálfun á vefnum. Þegar hún er spurð að því hvernig markþjálfunin nýtist í núverandi starfi segir hún að markþjálfun sé lífsstíll. 

„Það er oft sagt í faginu að orð og athöfn þurfi að fara saman. Sem markþjálfi þarftu að vera í stöðugri þróun sem manneskja og mátt ekki vera síðasti hlekkurinn í keðjunni. Ég hef tekið þetta mjög hátíðlega. Ekki það að líf mitt sé fullkomið, frekar en annarra en ég hef þó verið tilbúin að læra og leita sífellt leiða til að vaxa og þroskast. Hluti af því er að taka ábyrgð á sjálfri mér og minni líðan, bæði andlega og líkamlega. Minn bakgrunnur og sporavinnan eru mikill grunnur í lífi mínu og það hefur til dæmis skilað sér í viðhorfi mínu til þess að taka ábyrgð og vilja vera til staðar fyrir aðra. Það eru forréttindi sem ég er afar þakklát fyrir. Markþjálfunarnámið og reynslan eru afar góður grunnur í lífi og starfi enda hefur það færst í vöxt að markþjálfar séu ráðnir til leiðtogastarfa.“

Hvað getum við sem samfélag gert til þess að styðja við þá sem ná ekki tökum á fíkninni?

„Það eru svo margar fjölskyldur sem þekkja til fíknar af eigin raun. Einhver þeim nákominn glímir við fíkn eða hefur glímt við fíkn. Ég trúi því að við getum tekið höndum saman sem samfélag með því að styðja hvert annað. Vera til staðar fyrir náungann og ljá öðrum eyra. Heyra í fólki, standa við að fara í kaffi og hittast í hádegismat eins og við erum svo gjörn á að lofa en stöndum svo ekki alltaf við. Stundum er það þannig, að við þurfum bara eina manneskju sem hefur trú á okkur, þó trú okkar á okkur sjálfum sé takmörkuð. Verum óhrædd við að rétta fólki hjálparhönd þegar við sjáum að fíknin er við það að leggja líf einstaklinga og fjölskyldna þeirra í rúst,“ segir Edda. 

Þegar hún er spurð að því hverjir leiti til Samhjálpar segir hún að það sé fjölbreyttur hópur fólks. 

„Í Hlaðgerðarkot leitar fólk í langtímameðferð við fíknisjúkdómum. Á áfangaheimilunum býr fólk sem hefur glímt við fíkn og er að byggja upp líf í bata. Til Kaffistofu Samhjálpar leitar hópur sem samanstendur af fólki sem á það sameiginlegt að glíma við fátækt og geta ekki séð sér fyrir mat upp á eigin spýtur. Sumir eru án heimilis, margir glíma við fíkn og langvarandi afleiðingar neyslu og enn aðrir glíma við andlegar áskoranir. Skjólstæðingar Samhjálpar eru dásamlegt fólk og starfsfólki Samhjálpar er lagið að sýna kærleika í verki.“

„Samhjálp rekur nytjamarkað í Ármúla 11 sem hefur verið þar …
„Samhjálp rekur nytjamarkað í Ármúla 11 sem hefur verið þar um nokkurra ára skeið og margir fastagestir sækja hann reglulega. Þar kennir ýmissa grasa og margt skemmtilegt á boðstólum. Mest selst af fatnaði og kiljum af ýmsu tagi. Nú er það svo að við erum að missa húsnæðið í Ármúla um áramótin og erum á höttunum eftir hentugu húsnæði. Það væri algjör himnasending að finna húsnæði með góðu aðgengi og nægum bílastæðum ef einhver lumar á slíku til leigu á sanngjörnu verði,“ segir Edda.

Hvað gerir Hlaðgerðarkot öðruvísi en aðrar meðferðarstofnanir?

„Það er oft talað um Hlaðgerðarkot sem meðferðarheimili enda ríkir það heimilisleg stemmning að mörgu leyti. Í Hlaðgerðarkoti er í boði fagleg meðferð sem byggir á svokölluðu Minnesota módeli. Sporin 12 eru hluti af meðferðinni ásamt ýmsum gagnreyndum aðferðum sem okkar frábæra teymi sérfræðinga þekkir inn og út. Ég er mjög stolt af teyminu okkar í Hlaðgerðarkoti og því frábæra starfi sem þar er unnið en þau leggja svo sannarlega mikla alúð í vinnuna sína. Fólk sem þekkir til meðferðarinnar í Hlaðgerðarkoti nefnir oft að þar ríki kærleikur og sá kærleikur skilar sér í meðferðarstarfinu og til fólksins sem dvelur það hverju sinni. Það er einstakt.“

Geta allir náð bata frá fíkn?

„Það er ekki hægt að tala um fíkn án þess að tengja það við fíknisjúkdóma. Þetta er barátta upp á líf og dauða og það er eins og með aðra sjúkdóma, sumir ná bata og aðrir ekki. En til þess að ná bata, þarf fólk að vera tilbúið til að gefast upp. Uppgjöf er reyndar merkilegt orð í íslensku, því ef þú slítur það í sundur færðu tvö orð: upp og gjöf. Að gefa hlutina upp og sleppa þannig tökunum á þeim, er raunveruleg gjöf. Við þurfum að viðurkenna vanmátt okkar gegn fíkninni og það er kjarninn í fyrsta sporinu í sporunum 12 sem eru leiðarvísir að bata.“ 

Hvað eykur líkur á því að fólk nái bata frá fíkn?

„Það er talað um að það þurfi andlega vakningu til að öðlast lausn frá fíkn. Það er þessi trú að máttur okkur æðri geti gert okkur heilbrigð að nýju ásamt ákvörðuninni um að láta vilja sinn og líf lúta leiðsögn æðri máttar. Svo er það þessi ástundun einn dag í einu á því sem gerir okkur gott. Fúsleikinn til að velja lausnina, þiggja hjálp þegar á bjátar og gefa svo hjálpina áfram til annarra,“ segir Edda. 

Þegar Edda er spurð að því hvernig Samhjálp sé fjármögnuð segir hún að úrræðin séu fjármögnuð með mismunandi hætti. 

„Þetta er góð blanda af gjöfum og styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum, ríkisstyrkjum og framlagi frá Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ,“ segir hún en á morgun fer Kótilettukvöld Samhjálpar fram í Valsheimilinu sem er stór liður í því að fjármagna Samhjálp. 

„Fyrsta Kótilettukvöld Samhjálpar fór fram árið 2006 og hefur verið haldið árlega allar götur síðan ef frá eru skilin síðustu tvö ár meðan samkomutakmarkanir réðu ríkjum. En nú er mikil eftirvænting hjá Samhjálparfólki og velunnurum að taka upp þráðinn. Það eru margir sem halda mikið upp á þetta kvöld enda fer þar saman góður matur og skemmtileg dagskrá. Yndislegir vinir okkar í Klúbbi matreiðslumeistara ætla að laga kótilettur í raspi ásamt hefðbundnu meðlæti. Forseti Íslands er heiðursgestur á Kótilettukvöldinu og ávarpar veislugesti af sinni alkunnu snilld. Það verða fjölbreytt tónlistaratriði ásamt því sem fólk sem hefur náð bata frá fíkn deilir reynslu sinni. Það verður þögult uppboð og ýmis tækifæri til að gera góð kaup. Það eru allir velkomnir á Kótilettukvöld Samhjálpar og enn nokkrir miðar lausir. Við hlökkum til að gera okkur glaðan dag með góðu fólki,“ segir Edda.

mbl.is