Krakkarnir á Akranesi kölluðu hana morðingjadóttur

Sterk saman | 18. september 2023

Krakkarnir á Akranesi kölluðu hana morðingjadóttur

Þorbjörg Sólbjartsdóttir er gift, 47 ára, þriggja barna móðir sem ólst upp við óviðunandi aðstæður. Hún er nýjasti gestur hlaðvarpsins Sterk saman. Hún segir frá hörmungaraðstæðum í uppvextinum sem litaðar voru af miklum alkahólisma. Eitt sinn seldi mamma hennar Löduna sína fyrir þrjá vodkaflöskur og þurfti að labba heim því þau áttu ekki bíl lengur. 

Krakkarnir á Akranesi kölluðu hana morðingjadóttur

Sterk saman | 18. september 2023

Þorbjörg Sólbjartsdóttir er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.
Þorbjörg Sólbjartsdóttir er gestur í hlaðvarpinu Sterk saman.

Þorbjörg Sólbjartsdóttir er gift, 47 ára, þriggja barna móðir sem ólst upp við óviðunandi aðstæður. Hún er nýjasti gestur hlaðvarpsins Sterk saman. Hún segir frá hörmungaraðstæðum í uppvextinum sem litaðar voru af miklum alkahólisma. Eitt sinn seldi mamma hennar Löduna sína fyrir þrjá vodkaflöskur og þurfti að labba heim því þau áttu ekki bíl lengur. 

Þorbjörg Sólbjartsdóttir er gift, 47 ára, þriggja barna móðir sem ólst upp við óviðunandi aðstæður. Hún er nýjasti gestur hlaðvarpsins Sterk saman. Hún segir frá hörmungaraðstæðum í uppvextinum sem litaðar voru af miklum alkahólisma. Eitt sinn seldi mamma hennar Löduna sína fyrir þrjá vodkaflöskur og þurfti að labba heim því þau áttu ekki bíl lengur. 

Þorbjörg, sem er hálffæreysk, ólst upp hjá báðum foreldrum sínum til sjö ára aldurs. Þá flutti hún á Akranes eftir að foreldrar hennar fóru sitt í hvora áttina. Faðir hennar flutti til Færeyja og móðir hennar var ein með Þorbjörgu og systkini hennar tvö. Lífsbaráttan var hörð og barðist móðir hennar í bökkum fjárhagslega. Þorbjörg er miðjubarn sem tók snemma mikla ábyrgð. 

„Pabbi beitti mömmu ofbeldi, eftir skilnaðinn hitti ég hann aldrei aftur og upplifði mikla höfnun. Hann hringdi við og við í gegnum árin en það stóðst aldrei neitt. Hann var auðvitað mjög veikur alkahólisti, eins og mamma,“ segir Þorbjörg. Hún sá föður sinn í síðasta skipti þegar hann var jarðaður. Hana langaði alls ekki að mæta í útför hans en móðir hennar sagði henni að gera það. 

Mikið partístand

Móðir Þorbjargar var dugleg til vinnu en drakk mikið og átti það til að koma heim með alls konar fólk af barnum og voru partíhöld daglegt brauð.

„Eina nóttina vaknaði ég við að það voru fimm menn komnir inn í herbergi þar sem ég og yngri bróðir minn sváfum. Ég hef alltaf verið þannig að ég hugsa um hvað gæti gerst. Ég er í raun heppin að ekkert gerðist þarna en mér finnst þetta útskýra vel hversu brengluð mamma var orðin af drykkju,“ segir hún. 

Þorbjörg segir að mamma hennar hafi verið tvær ólíkar manneskjur. Þessi hlýja og góða þegar hún var edrú en þegar hún var full birtist allt önnur útgáfa af mömmu hennar.

„Hún reyndi sitt besta, ég sé það í dag. Ég man bara svo sterkt þegar hún kom full á foreldrafund í skólanum og ég hugsaði með mér að nú yrði okkur örugglega bjargað en það sagði enginn neitt. Ég var ekki örugg í skólanum út af einelti og ekki örugg heima út af ástandinu,“ segir hún. 

Pabbi handtekinn í Danmörku 

Þorbjörg segir að eineltið sem hún varð fyrir í skóla hafi tekið mikið á hana. Hún var beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi og varð fyrir útskúfun. Hún segir að eineltið hafi átt sér stað vegna aðstæðna heima fyrir. Hún var kölluð morðingjadóttir. 

„Pabbi hafði þá verið handtekinn í Danmörku eftir að fyrsta konan sem hann giftist, eftir skilnaðinn við mömmu, fannst látin í rúminu þeirra einn morguninn. Hann var handtekinn og sat inni í einhvern tíma en svo sleppt. Einhver hafði fundið sig knúinn til að koma með blaðagrein á Akranes og þetta látið bitna á mér,“ segir Þorbjörg. 

Þorbjörg segir að þessi upplifun í skólanum hafi mótað hana mikið og verið sársaukafull fyrir litla stelpu. 

„Ég man svo vel þegar mamma seldi bílinn, hún átti Lödu, seldi hana fyrir þrjár vodkaflöskur. Hún keyrði með okkur niður á bryggju, bíllinn var hífður yfir í skipið hjá Rússunum og þar ráfaði ég um á meðan mamma datt í það með köllunum um borð. Hún labbaði svo með okkur heim á endanum með þrjár flöskur í poka.“

Sambýlismaður móðurinnar myrtur 

Þorbjörg segir að hún hafi verið erfiður unglingur sem bitnaði á móður hennar. Hún fann fyrir mikilli reiði í garð móður sinnar og skildi ekki hvers vegna hún gat ekki bara hætt að drekka. Þegar hún var 14 ára var henni boðið að fara á Al-Anon fund og segir hún að það hafi hjálpað henni mikið. 

„Ég byrjaði að fara á fundi 14 ára en þá sat ég fundi með fullorðnum konum. Lengi notaði ég í raun fundina til að gráta og segja frá en loksins gat ég líka bara fengið knús frá konunum. Loksins skildi mig einhver,“ segir hún. 

Það er margt sem Þorbjörg myndi gera öðruvísi ef hún fengi annað tækifæri. Móðir hennar fór í margar meðferðir í gegnum tíðina en í kringum fæðingu yngstu dóttur Þorbjargar náði hún góðum edrútíma og varð samband þeirra afar gott þá.

„Mamma varð dásamleg og við áttum góðan tíma, hún kom til mín, hjálpaði mér með stelpurnar, tengdist barnabörnunum sínum og varð yndislega konan sem hún var í grunninn.“

Móðir hennar greindist tvisvar með krabbamein og sambýlismaður hennar til 18 ára var myrtur.

„Ég hugsaði eftir morðið, sem var hreint út sagt hræðilegt, að ef hún ætti einhvern tímann skilið að detta í það þá væri það eftir það áfall. Hún hélt sér í töluvert langan tíma eftir það samt en þetta var bara svo stórt högg, sem ég skil svo vel í dag,“ segir hún grátandi og bætir við hverju hún hefði viljað breyta eða gera öðruvísi. 

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is