Efast um nýjan skattstofn í frumvarpi Katrínar

Alþingi | 13. nóvember 2023

Efast um nýjan skattstofn í frumvarpi Katrínar

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, setur spurningamerki við svokallað forvarnagjald í nýju frumvarpi forsætisráðherra um verndun mikilvægra innviða á Reykjanesskaga. Hún reiknar þó með að frumvarpið verði samþykkt í dag.

Efast um nýjan skattstofn í frumvarpi Katrínar

Alþingi | 13. nóvember 2023

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Hákon

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, setur spurningamerki við svokallað forvarnagjald í nýju frumvarpi forsætisráðherra um verndun mikilvægra innviða á Reykjanesskaga. Hún reiknar þó með að frumvarpið verði samþykkt í dag.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, setur spurningamerki við svokallað forvarnagjald í nýju frumvarpi forsætisráðherra um verndun mikilvægra innviða á Reykjanesskaga. Hún reiknar þó með að frumvarpið verði samþykkt í dag.

Frum­varpið, sem er til umræðu á Alþingi í dag, kveður m.a. á um að leggja skuli ár­legt for­varna­gjald á all­ar hús­eign­ir tímabundið, sem nemi 0,008% af bruna­bóta­mati sam­kvæmt lög­um um bruna­trygg­ing­ar. Forvarnargjaldið á að skila um milljarði í ríkissjóð á ári. 

Setja á fót nýjan skattstofn í flýti

„Það sem mér finnst vera umhugsunarefni er að setja á fót nýjan skattstofn sem verður ekki byrjað að innheimta fyrr en um áramótin, en ætla að gera það á einum degi,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við mbl.is en hún ítrekar þó að þingflokkur Pírata setji enga athugasemd við það frumvarpið sjálft hljóti flýtimeðferð á þinginu.

Segir hún einnig að þó svo að ríkisstjórnarliðar segi að forvarnargjaldið sé tímabundið ber frumvarpið „þess öll merki að það stendur til þess að gera þetta varanlegt“.

„Það á bara að „rigga“ þessu upp í einum hvelli og svo eigum við að pæla í því einhvern tímann seinna hvort þetta sé rétta leiðin.“

Varasjóður geti fjármagnað varnargarða tímabundið

„Það er alveg nett svigrúm úr varasjóði sem er einmitt til þess gerður að taka á sig ófyrirséð útgjöld úr ríkissjóði á meðan fjárlagavinnan er í gangi,“ segir Þórhildur.

„Svo eru varnargarðarnir annað. Ég skil af hverju það liggur svona á að samþykkja þetta frumvarp er snýr að framkvæmdarhliðinni en ekki þessari skattheimtu til þess að borga fyrir þá eftir þá,“ segir hún en ítrekar að það mætti taka lengri tíma til þess að ákveða um fjármögnun varnargarðanna.

„Taka úr sambandi níu lagabálka“

„Svo er það hitt … hvort það sé nauðsynlegt að taka úr sambandi níu lagabálka á heilu bretti. Það ætti að halda einhverjum grunnvörnum inni, til dæmis úr stjórnsýslulögum.“

Í 4. málsgrein fumvarpsins er lagt til að vikið verði frá ákvæðum tilgreindra gildandi laga við samþykkt frumvarpsins, þ.e. að þau gildi ekki um undirbúning, töku og framkvæmd ákvörðunar um nauðsynlegar framkvæmdir samkvæmt 2. grein frumvarpsins.

Þar er átt við lög um náttúruvernd, menningarminjar, skipulagslög lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, opinber innkaup, skipan opinberra framkvæmda, stjórnsýslulög, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir og lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.

„Það er einhvern veginn eins og það hafi verið skrifaður listi af lögum sem gætu þvælst fyrir svona framkvæmdum. Það er tekið fram í greinargerðinni að það sé ekki víst að þetta sé fullkomin upptalning: það þarf bara finna úr því þegar að því kemur. Þetta er ekki hvernig við viljum nálgast lagasetningu, meira að segja á hættutímum,“ segir píratinn.

Reiknar með að frumvarpið verði samþykkt

Þórhildur segist þó ekki búast við öðru en að frumvarpið verði samþykkt.

„Svo er bara spurning hvernig við greiðum atkvæði nákvæmlega. Við eigum eftir að sjá það nákvæmlega,“ segir hún og bætir við að allir þingflokkar séu sammála um það að málið verði klárað í dag.

Frá Grindavík í dag.
Frá Grindavík í dag. mbl.is/Brynjólfur Löve
mbl.is