„Verðum að búa okkur undir langhlaup“

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 25. mars 2024

„Verðum að búa okkur undir langhlaup“

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir vísbendingar um að óróinn hafi minnkað í eldgosinu við Sundhnúkagíga síðustu tvo sólarhringa og að virknin sé aðeins minni í gígunum.

„Verðum að búa okkur undir langhlaup“

Eldvirkni á Reykjanesskaga | 25. mars 2024

Eldgosið hefur nú staðið yfir í níu daga.
Eldgosið hefur nú staðið yfir í níu daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir vísbendingar um að óróinn hafi minnkað í eldgosinu við Sundhnúkagíga síðustu tvo sólarhringa og að virknin sé aðeins minni í gígunum.

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir vísbendingar um að óróinn hafi minnkað í eldgosinu við Sundhnúkagíga síðustu tvo sólarhringa og að virknin sé aðeins minni í gígunum.

„Það er ekki hægt að draga miklar ályktanir af þessu eins og komið er,“ segir Magnús Tumi við mbl.is en eldgosið, það fjórða á Sundhnúkagígaröðinni síðan í desember, hefur nú staðið yfir í níu daga.

Engin merki um að aðstreymi kviku sé farið að minnka

Magnús segir að GPS-mælikerfið sem Veðurstofan, jarðvísindastofnun Háskólans og fleiri aðilar haldi úti sýni að ekki sé landsig en örlítið landris sem bendi til þess að þótt það sé að gjósa þá sé að flæða inn í kvikugeyminn undir Svartsengi.

„Við sjáum engin merki um að aðstreymi kviku sé farið að minnka. Hver framtíðin verður á eftir að koma í ljós. Enn sem komið er þá er ekki komin nema 15 prósent af því sem kom upp í gosinu í Fagradalsfjalli en það má reikna með að hraunmagnið í þessu gosi sé að nálgast það sem kom í hinum þremur gosunum til samans,“ segir Magnús.

Meira magn af kviku áður en sér fyrir endann

Magnús segir óvissu ríkja um framhaldið. Hann segir að gosi geti lokið fljótlega en þá fari landris væntanlega af stað af fullum krafti því engin merki séu um að kvikuflæðið sé að stöðvast.

„Gosið getur líka haldið áfram í þó nokkurn tíma. Ef við skoðum fyrri eldgos á þessu svæði þá kom upp í þeim atburðum mun meira hraun en nú er komið upp á þessu svæði. Það sannar ekki neitt en hvernig Reykjanesskaginn hegðar sér og þessi gos sem urðu á 13. öld – þá verður að reikna með að það komi töluvert meira af kviku upp áður en það sér fyrir endann á þessum atburðum. Við verðum að búa okkur undir langhlaup.“

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands.
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Eru einhverjar hrauntungur virkar núna?

„Hin þrjú gosin og byrjunin á þessu voru sambærileg. Það var mikill kraftur í þeim til að byrja með. Það dreifðist mjög hratt úr hrauninu og myndaði fláka á stuttum tíma. Þetta gos sem er í gangi núna fór í það að verða hægara og í sírennsli. Þá fer hraunið að renna allt öðruvísi. Það verður seigara vegna þess að kælingin verður miklu meiri hlutfallslegra og fer hægar yfir þar sem það er þykkra. Atburðarásin verður því hægari,“ segir Magnús Tumi.

Ef gosið haldið áfram í einhvern tíma þá verði ákveðin barátta í að halda hrauninu réttum megin við varnargarðana en síðustu daga hefur verið unnið að því að hækka þá.

mbl.is