Offramboð á leiðindum í nokkur ár

Hringferð | 30. apríl 2024

Offramboð á leiðindum í nokkur ár

Það var húsfyllir á borgarafundi Morgunblaðsins á Ísafirði með forsetaframbjóðandanum Jóni Gnarr í gærkvöldi.

Offramboð á leiðindum í nokkur ár

Hringferð | 30. apríl 2024

Það var húsfyllir á borgarafundi Morgunblaðsins á Ísafirði með forsetaframbjóðandanum Jóni Gnarr í gærkvöldi.

Það var húsfyllir á borgarafundi Morgunblaðsins á Ísafirði með forsetaframbjóðandanum Jóni Gnarr í gærkvöldi.

Jón sagði að eftir að hann lét af störfum sem borgarstjóri Reykjavíkur árið 2016 hefði fólk komið að máli við sig um að hann byði sig fram til forseta. Þá hefði verið gerð könnun sem leit vel út fyrir hann en Jón taldi þá ekki rétt að bjóða sig fram.

Hann kvaðst hafa rætt við konuna sína 2. eða 3. janúar síðastliðinn um mögulegt forsetaframboð. Í kjölfarið ákvað hann að velta þessu alvarlega fyrir sér út frá fjölskylduhag, fjárhag, vinnu og fleira.

„Valmöguleikinn „ég“ þurfti að vera til staðar,“ sagði Jón um það þegar hann ákvað að bjóða sig fram.

Umræðufundurinn var haldinn í Ed­in­borg­ar­hús­inu á Ísaf­irði og létu Ísfirðingar og nærsveitungar sig ekki vanta.

Blaðamenn­irn­ir Andrés Magnús­son og Stefán Ein­ar Stef­áns­son ræddu við Jón um fram­boð hans til embætt­is for­seta Íslands og þá fengu fundargestir tækifæri til að koma með spurningar úr sal, sem þeir nýttu sér vel.

Hringferðin hélt á Ísafjörð og hitti þar Jón Gnarr á …
Hringferðin hélt á Ísafjörð og hitti þar Jón Gnarr á forsetafundi. mbl.is/Brynjólfur Löve

Mikill tími til stefnu

Spurður hvort hann myndi eiga erindi sem erfiði, miðað við kannanir, taldi hann svo vera. Hann sagði sig mögulega vera aðeins á eftir hinum frambjóðendunum í að hefja kosningabaráttuna og nefndi sem dæmi opnun kosningamiðstöðvar.

„Það er enn þá mjög langur tími til kosninga,“ sagði Jón.

Jón Gnarr var glaður í bragði meðan verið var að …
Jón Gnarr var glaður í bragði meðan verið var að sminka hann fyrir fundinn. Heiða Kristín Helgadóttir fylgist með. mbl.is/Brynjólfur Löve

Uppskar lófaklapp

Spurður um skemmtilegheit í kosningabaráttunni og alvarleika framboðsins, sagði hann að það væri offramboð á leiðindum í landinu.

„Mér finnst dálítið á okkar ágæta landi, svolítið lengi – nokkur ár – búið að vera offramboð á leiðindum,“ sagði Jón og uppskar mikið lófaklapp frá fundargestum.

Hann svaraði fyrir gagnrýni um að hann hefði ekki verið jafn skemmtilegur í kosningabaráttunni hingað til og þegar hann bauð sig fram í borgarstjórn. Hann sagði suma gagnrýna hann fyrir að vera með sprell í sumum ávörpum sínum en að í öðrum ávörpum sínum væri hann svo gagnrýndur fyrir að vera ekki með sprell.

„Það finnst öllum gaman að hafa gaman – það er ekki bara ég,“ sagði Jón og uppskar hlátur fundargesta.

Hann sagðist þó geta verið alvarlegur í framkomu við erlenda leiðtoga þótt hann vildi auðvitað halda í léttleikann meðal landsmanna.

„Það er hluti af þessu starfi og það fylgja þessu starfi ákveðnar skyldur. Ég mun rækja þær af fyllsta metnaði og virðingu,“ sagði Jón Gnarr.

Húsfyllir var á fundinum.
Húsfyllir var á fundinum. mbl.is/Brynjólfur Löve

Langar að vera leiðandi afl

Þegar fundargestum var boðið að spyrja spurninga var það unga fólkið sem reið á vaðið og spurði fyrstu spurninganna.

„Mig langar að sjá þetta land blómstra og mig langar að sjá hag okkar allra sem bestan,“ sagði Jón spurður um stefnu sína af ungum fundargesti og bætti við:

„Mig langar svolítið til þess að vera afl til þess að leiða sátt meðal fólksins á Íslandi. Það er að segja leiða saman ólíka hópi af fólki, ólíkum jöðrum samfélagsins til að sundrast ekki heldur vinna saman og ná enn þá meiri og betri árangri,“ sagði Jón Gnarr.

Dagskrá hringferðarinnar
Dagskrá hringferðarinnar

Ber virðingu fyrir stjórnarskránni

Spurður um stjórnarskrána og hvort henni ætti að breyta, sérstaklega með tilliti til laga um forsetakjör, sagði hann að það væri ekki hans að dæma. Hann bæri mikla virðingu fyrir stjórnarskránni en ef Alþingi myndi vilja breyta henni, þá væri það Alþingis að ákveða.

Spurður um málskotsréttinn sagðist hann myndu ráðfæra sig við helstu sérfræðinga á því sviði sem um yrði að ræða. Hann áréttaði þó eftir ítrekun að hann myndi ekki aðeins tala við svokallaða „já-menn“.

Jón ræddi við kjósendur að fundi loknum.
Jón ræddi við kjósendur að fundi loknum. mbl.is/Brynjólfur Löve

Ekki bara Reykjanesskagi sem er á hreyfingu

Álitsgjafarnir Lilja Rafney Magnúsdóttir og Guðmundur M. Kristjánsson voru á staðnum til að ræða forsetakosningarnar og spá í spilin. Voru þau meðal annars fengin til að ræða nýjustu skoðanakönnun Prósents sem gerð var fyrir Morgunblaðið.

„Það er ekki bara Reykjanes sem er á hreyfingu – það er fylgið líka,“ sagði Lilja.

Hún sagði að skoðanakannanir sýndu það bersýnilega að fylgið væri á mikilli hreyfingu og því gæti það tekið miklum breytingum þegar fram líða stundir.

Guðmundur sagði áhugavert að fylgjast með könnunum og hversu miklum breytingum fylgistölur hefðu tekið. Spurður hvort einhver annar ætti möguleika á sigri í forsetakosningunum en þeir fjórir sem mælast með mesta fylgið sagði Guðmundur:

„Ég myndi halda að það væru hverfandi líkur á því.“ Lilja tók undir með honum en þau sem mælast með mest fylgi í nýjustu könnun Prósents eru Halla Hrund Logadóttir, Baldur Þórhallsson, Katrín Jakobsdóttir og Jón Gnarr.

Hringferðin hélt á Ísafjörð og hitti þar Jón Gnarr á …
Hringferðin hélt á Ísafjörð og hitti þar Jón Gnarr á forsetafundi mbl.is/Brynjólfur Löve

Allir umdeildir sem hafa eitthvað til málanna að leggja

Lilja sagði að neikvæð umræða um forsetaframbjóðendur hefði aukist og vísaði hún í gagnrýni á Katrínu. Frambjóðendur á borð við Jón Gnarr og Baldur hafa verið óhræddir við að gagnrýna framboð hennar.

„Allir eru umdeildir sem hafa eitthvað til málanna að leggja. Þú getur losnað við gagnrýnina með því að segja ekki neitt og vera ekki neitt og gera ekki neitt. Ég held að Katrín hafi alveg vitað það að það myndu vindar blása úr öllum áttum en ég held að hún leggi bara fram sín verk og treysti því að það verði gert á málefnalegum grundvelli,“ sagði Lilja.

Fleiri borgarafundir eru fram undan með efstu frambjóðendum samkvæmt skoðanakönnunum Prósents, en 6. maí næstkomandi verður borgarafundur með Höllu Hrund Logadóttur á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum. Þá verður borgarafundur með Baldri Þórhallssyni á Hótel Selfossi á Selfossi þann 14. maí og með Katrínu Jakobsdóttur á Græna hattinum á Akureyri þann 20. maí.

mbl.is