Búið að opna kjörstaði í Frakklandi

Munkar greiða atkvæði í Godewaersvelde í norðurhluta Frakklands í morgun.
Munkar greiða atkvæði í Godewaersvelde í norðurhluta Frakklands í morgun. AP

Kjörstaðir í þjóðaratkvæðageiðslu í Frakklandi um nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins voru opnaðir klukkan 6 að íslenskum tíma. Nærri 42 milljónir manna eru á kjörskrá. Kjörstaðir verða opnir til klukkan 20 í París og Lyon og verða tölur ekki birtar fyrr en eftir þann tíma. Skoðanakannanir hafa bent til þess að meirihluti Frakka hafni stjórnarskránni en öll 25 aðildarríki Evrópusambandsins verða að staðfesta stjórnarskrána svo hún taki gildi.

Vegna tímamismunar greiddu um 1,4 milljónir kjósenda á frönskum svæðum í Karíbahafi og víðar atkvæði í gær og einnig franskir ríkisborgarar í Norður- og Suður-Ameríku.

Talið er að mikið óvissutímabil taki við innan Evrópusambandsins ef Frakkar hafna stjórnarskránni. Jacques Chirac, forseti Frakklands, varaði kjósendur við því að ef þeir höfnuðu stjórnarskránni myndi draga úr áhrifum Frakklands í Evrópu og litið yrði á þá sem „svarta sauðinn" á meginlandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert