Meirihluti Dana nú andvígur stjórnarskrá ESB

Nokkrar skoðanakannanir, sem birtar voru í Danmörku í dag, sýnir að afstaða Dana til nýrrar stjórnarskrár Evrópu hefur breyst mikið frá því Frakkar og Hollendingar höfnuðu stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslum. Skoðanakannanirnar sýna allar, að meirihluti Dana er nú andvígur stjórnarskránni.

Børsen, TV2, Berlingske Tidende og Politiken birta skoðanakannanir í dag, sem sýna allar að meirihluti Dana er andvígur stjórnarskránni. Til þessa hafa skoðanakannanir sýnt að meirihluti Dana myndi samþykkja stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fyrirhuguð er 27. september.

Á fréttavef Jyllands-Posten er haft eftir Per Stig Møller, utanríkisráðherra, að þetta komi ekki á óvart í ljósi atburða í Frakklandi og Hollandi. Hins vegar sveiflist fylgið í skoðanakönnunum og alltaf væri hlaupið eftir slíkum könnunum væru stjórnmál tilgangslítil.

Almennt er búist við því að Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, tilkynni á mánudag að ákveðið hafi verið að fresta fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu þar í landi um stjórnarskrána. Bresk stjórnvöld vilja samt ekki afskrifa stjórnarskrána þótt mikil óvissa ríki nú um framhaldið. Leiðtogar ESB-ríkjanna munu koma saman um miðjan mánuðinn og ræða þá stöðu sem nú er komin upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert