Litlir óþekktir hópar sem gera árásir að eigin frumkvæði

Osama bin Laden fyrirskipar ekki árásir, hann hvetur menn sína …
Osama bin Laden fyrirskipar ekki árásir, hann hvetur menn sína og fræðir þá, segir franskur sérfræðingur í afbrotafræðum. AP

Samtökin sem segjast hafa staðið fyrir sprengjurárásinni í Lundúnum í gær, Leynilegu samtökin al-Qaeda í Evrópu, eru líklega hluti af stærri hreyfingu sem afar erfitt er fyrir utanaðkomandi aðila að komast inn í eða fá vitneskju um, að því er sérfræðingar telja.

Nánast ekkert er vitað um hópinn og það er ógerlegt að staðfesta yfirlýsinguna sem hann gaf út um að hann bæri ábyrgð á árásunum. Sérfræðingar segja þó að þrátt fyrir að hópurinn noti nafnið al-Qaeda sé það engin sönnun þess að hann tengist hópi Osama bin Laden sem stóð fyrir árásunum í Bandaríkjunum 11. september 2001.

Þeir segja samtök Bin Ladens vissulega vera til staðar í Evrópulöndum en leggja áherslu á að það hafi aldrei verið hefðbundið lóðrétt stjórnskipulag í samtökunum, sem geri baráttuna gegn þeim erfiðari.

„Aðalatriðið er að al-Qaeda eru ekki raunveruleg samtök heldur hugmyndafræði. Það þarf ekki Osama bin Laden eða neinn af nánustu mönnum hans til að taka þátt í að skipuleggja aðgerðir hópa,“ sagði Alex Standish, ritstjóri tímaritisns Jane's Intelligence Review.

„Það er fólk sem styður málstað al-Qaeda í næstum hverju einasta landi á jörðinni. Við verðum að gera ráð fyrir að þeir séu á meginlandi Evrópu, í Þýskalandi, Frakklandi, Tyrklandi, Marrokó,“ sagði hann. „Það væri barnalegt að álykta að þar væru engar óvirkar sellur.“

Fjölskyldan tilræðismannsins veit stundum ekkert

Hann segir ómögulegt fyrir leyniþjónustur að komast inn fyrir slíkar sellur því í þeim séu hámark tíu manns og oft fólk sem tengist fjölskylduböndum. „Stundum vita hinir í fjölskyldunni ekki einu sinni hvað þeir eru að gera,“ segir hann.

Hópurinn sem stóð fyrir sprengingunum í Madríd í fyrra þar sem 191 lét lífið er talinn hafa verið af þessari gerð, sem er einmitt sú sem lögregluyfirvöld telja mesta ógn stafa af.

„Hið hefðbundna mat var að tvær al-Qaeda sellur væru virkar í Bretlandi, ein þar sem meðlimir kæmu frá Norður-Afríku en hin frá Mið-Austurlöndum,“ segir hann. Hann segir það sé ógnvekjandi tilhugsun ef þeir sem gerðu árás í gær tilheyri þriðju sellunni sem enginn hafi vitað um. „Það er ekki hægt að finna þá sem stóðu að þessu ef ekki eru til neinar upplýsingar um þá.“

Ananr sérfræðingur Simon Sole, segir „mjög líklegt að árásarmennirnir hafi verið valdir, heilaþvegnir og þjálfaðir í Bretlandi.“

Abu Jandal, fyrrum lífvörður Osama bin Laden, segir að árásir séu gerðar þótt hann komi hvergi nærri. „Allir hópar innan al-Qaeda grípa til aðgerða að eigin frumkvæði. Sá sem sér tækifæri til að gera árás gerir hana bara. Þeir taka ákvörðunina. Engu máli skiptir hvort þeir hafa heitið Osama bin Laden hollustu eða ekki.“

Franskur afbrotafræðingur, Xavier Raufer, sem skrifaði bók um Bin Laden segir: „Bin Laden gefur aldrei skipanir ... hann ráðleggur, hann hvetur menn áfram og ýtir undir hugmyndir.“

bryndis@mbl.is

Múslimar við föstudagsbænir í mosku í London.
Múslimar við föstudagsbænir í mosku í London. AP
Frá Tavistock Square í London í gær.
Frá Tavistock Square í London í gær. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert