Eiginkona meints sprengjumanns í Lundúnum fordæmir sprengjuárásina

Mennirnir sem frömdu árásirnar hittust á lestarstöðinni í Luton áður …
Mennirnir sem frömdu árásirnar hittust á lestarstöðinni í Luton áður en þeir héldu til Lundúna. AP

Eiginkona eins mannanna fjögurra, sem taldir eru hafa framið sjálfsmorðsárásir í Lundúnum nýlega, sendi í gærkvöldi frá sér yfirlýsingu þar sem hún segist fordæma árásirnar harðlega. 55 létu lífið og um 700 særðust í árásunum.

„Ég fordæmi harðlega ódæðisverkið sem framið var í Lundúnum fimmtudaginn 7. júlí og mig hryllir við því," segir Samantha Lewthwaite, eiginkona Germaine Lindsay, í yfirlýsingu. „Ég er að reyna að átta mig á þessum atburðum. Veröld mín hefur hrunið saman og samúð mín er hjá fjölskyldum fórnarlamba þessar óskiljanlega verknaðar."

Lögregla í Bretlandi staðfesti í gær, að Lindsay, sem var 19 ára, sé talinn hafa sprengt sprengju í lest sem var milli King's Cross og Russell Square neðanjarðarlestarstöðvanna. Þar létu 27 manns lífið.

Lewthwaite sagði að Lindsay hefði verið góður og ástríkur eiginmaður og frábær faðir og hefði ekki gefið til kynna með neinum hætti að hann ætlaði að fremja þennan hræðilega glæp. Hvatti hún alla sem byggju yfir upplýsingum að gefa sig fram og hjálpa lögreglu til útrýma hryðjuverkamönnum.

Fjölskyldur þeirra Hasib Hussains og Mohammad Sidique Khans sendu einnig frá sér yfirlýsingar í síðustu viku.

Blaðið Sunday Times skýrði frá því um helgina að einn af sprengjumönnunum fjórum, Mohammad Sidique Khan, hafi verið á skrá hjá bresku leyniþjónustunni, MI5, en hann kom við sögu í hryðjuverkarannsókn á síðasta ári. Khan var hins vegar ekki talinn sérlega hættulegur og ekki var fylgst sérstaklega með honum.

Khan, sem var þrítugur skólaliði, er talinn hafa sprengt sprengju í neðanjarðarlestarstöð við Edgware Road þar sem sjö manns létu lífið.

Rannsókn MI5 beindist að samsæri um að sprengja öfluga sprengju í Lundúnum. Leyniþjónustan komst að því að árið 2004 hefði Khan heimsótt hús sem var í eigu manns sem hitti einn þeirra sem voru að undirbúa sprengjutilræðið. Lögreglan taldi hins vegar að Khan væri aðeins lauslega tengdur málinu og engin hætta stafaði af honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert