Eftirlitsmenn segja kosningarnar í Palestínu hafa farið vel fram

Jimmy Carter, fyrrum Bandaríkjaforseti, (fyrir miðju) sést hér ræða við …
Jimmy Carter, fyrrum Bandaríkjaforseti, (fyrir miðju) sést hér ræða við blaðamenn fyrir utan einn af þeim kjörstöðum sem hann hann heimsótti í tengslum við kosningarnar gær. Reuters

Jimmy Carter, fyrrum Bandaríkjaforseti, sem fer fyrir alþjóðlegri nefnd kosninga eftirlitsmanna, segir að kosningarnar í Palestínu hafi farið vel fram og friðsamlega. „Þessar kosningar voru öruggar, sanngjarnar og án ofbeldisverka,“ sagði Carter á blaðamannafundi. „Fyrir utan takmarkanirnar í Austur-Jerúsalem þá var kosningaferlið opið og samkeppnin var í fyrirrúmi.“

Lokaskýrsla verður gefin út stuttu eftir að lokaniðurstöður þingkosninganna í gær verða birtar, og eftir að búið er að eiga við þær kvartanir sem hafa borist að sögn Carters.

Carter sagðist vonast til þess að Hamas-samtökin muni á endanum samþykkja að útfæra tveggja ríka lausn deilunnar sem hefur staðið um langt skeið í Miðausturlöndum, og að Hamas-samþykki Ísrael sem fullvalda ríki.

„Í bænum mínum vonast ég til þess að leiðtogar Hamas muni leita eftir friðsamri lausn til framtíðar og að þeir muni gera þann draum um tveggja ríkja lausn að veruleika [...] Ég vona að Hamas muni taka ábyrgðarfulla afstöðu,“ sagði fyrrum Bandaríkjaforsetinn.

Það segir hinsvegar í opinberri yfirlýsingu frá Carter að þátttaka Hamas, sem hefur lýst yfir sigri, hafi ekki verið samkvæmt grundvallarreglum um lýðræðislegar kosningar. „Núverandi stjórnmálaþátttaka Hamas, sem boðar á sama tíma ofbeldi, er ekki í samræmi við grundvallarreglur lýðræðislegra kosninga,“ segir Carter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert