Sendiherra Danmerkur aftur til Sýrlands

Reuters

Sendiherra Danmerkur í Sýrlandi mun koma aftur til Damaskus um helgina eftir að hafa þurft að fara burt úr landinu í skyndingu fyrr í mánuðinum eftir að kveikt var í sendiráðinu til að mótmæla birtingu skopmynda af Múhameð spámanni.

Sendiherrann, Ole Egberg Mikkelsen, mun koma til Damaskus á sunnudag og verður sendiráð Danmerkur í Sýrlandi opnað fljótlega eftir það á ný.

Sendiráðum Danmerkur hefur verið lokað tímabundið í Palestínu, Líbanon og Íran auk sendiráðsins í Sýrlandi, vegna óöldunar í kjölfar birtingu skopmyndanna. Jafnframt var sendiráði Danmerkur í Indónesíu lokað en sendiherrann kom aftur til Jakarta í gær.

Stjórnvöld í Danmörku hafa boðað til ráðstefnu um trúarbrögð í Kaupmannahöfn þann 10. mars næstkomandi þar sem kristnir og múslimar munu ræða samskipti milli ólíkra trúarhópa. Boðuð ráðstefna hefur hins vegar vakið upp úlfúð meðal gyðinga en þeir hafa ekki verið boðaðir til ráðstefnunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert